Kári Sumarliðason

Kári Sumarliðason, Siglufirði ­- Fæddur 16. júní 1916 Dáinn 20. mars 1990 

Allir eldri Siglfirðingar kunna skil á heiðurshjónunum Sigurlínu G Níelsdóttur frá Hallanda á Svalbarðsströnd og  Sumarliði Guðmundsson, skósmiður, ættuðum úr Hörgárdal.

Þau festu rætur í Siglufirði á morgni aldarinnar og bjuggu þar meðan bæði lifðu. Í höndum þeirrar kynslóðar, sem þau heyrðu til, óx Siglufjörður úr fámennu þorpi í miðstöð síldveiða og síldarvinnslu. Í raun voru síldveiðar og síldariðnaður á fyrri helmingi þessarar aldar fyrsta stóriðja Íslendinga. Sú stóriðja fjármagnaði að allnokkrum hluta vegferð þjóðarinnar frá fátækt til velferðar.
Sigurlínu og Sumarliða varð þriggja sona auðið:

Kári Sumarliðason, sem lengst af var starfsmaður Síldarverksmiðja ríkisins,

Arthúr Sumarliðason, verkstjóra,

Hreinn Sumarliðason, kaupmanns í Reykjavík. 

Kári Sumarliðason - Ljósmynd: Kristfinnur

Kári Sumarliðason - Ljósmynd: Kristfinnur

Elsti sonurinn, Kári, f. 16. júní 1916, lést á heimili sínu við Hólaveg í Siglufirði 20. mars 2090 -

Með honum er góður drengur genginn sem í engu mátti vamm sitt vita og lagði hvarvetna gott til mála.

Kári naut þeirrar menntunar, sem til boða stóð í heimabæ hans, en átti ekki kost á langskólanámi. Hann bjó hins vegar að góðum gáfum, var víðlesinn, sjálfmenntaður vel og hafsjór fróðleiks. Allt hans fas bar vott um yfirvegun og prúðmennsku. Það sem einkenndi hann öðru fremur var hógværð hans, háttvísi og samviskusemi, enda var hann hvers manns hugljúfi.

Ungur lagði Kári stund á fimleika og náði þar góðum árangri. Hann var um tíma í fimleikaflokki, sem kenndur var við 

Björn Jónsson, íþróttakennari frá Seyðisfirði, og lagði einkum rækt við áhaldaleikfimi. Hann var bókelskur, las mikið og hafði yndi af hljómlist. Önnur áhugamál hans tengdust einkum fjölskyldu hans, sem hann lagði mikla rækt við. Hann var alla tíð eindreginn stuðningsmaður Sjálfstæðisflokksins.

Kári kvæntist árið 1942 Margrét Bogadóttir, ættaðri úr Fljótum, hinni mætustu konu. Var sambúð þeirra öll til fyrirmyndar. Þau eignuðust þrjú börn:

1) Sigurlína Káradóttir búsett í Siglufirði,

2) Höskuldur Kárason, til heimilis í Vestmannaeyjum, 

3) Hjördís Káradóttir, býr á Reyðarfirði.

Öll hafa þau stofnað eigin heimili.

Kári vann flesta vinnu, sem til féll í heimabæ hans. Framan af vann hann við verslunarstörf en lengst af var hann starfsmaður Síldarverksmiðja ríkisins. Síðustu starfsár hans vann hann hjá Þormóði ramma hf. Hann var alla tíð launamaður en bjargálna vel, enda hagsýnn og aðgætinn í hvívetna. Öll störf sín vann hann af stakri samviskusemi og trúmennsku.

Móðir Kára og faðir minn voru systkini. Góð frændrækni var milli fjölskyldna þeirra. Þótt vík hafi verið milli vina, fjölskyldu Kára og fjölskyldu minnar, hin síðari ári, bárust jafnan fréttir af frændgarði með góðum gestum. Ég vissi að Kári gekk ekki heill til skógar í seinni tíð. Engu að síður kom andlát hans á óvart. Hann hefur nú leyst festar og lagt upp í þá ferð sem okkur öllum er búin.

Ef menn uppskera handan móðunnar miklu svo sem þeir hafa til sáð í jarðlífi sínu þá á Kári Sumarliðason góða heimkomu í landi lifenda.

Ég og fjölskylda mín sendum Margréti og öðrum ástvinum Kára innilegar samúðarkveðjur.

Stefán Friðbjarnarson
--------------------------------------------------

Kári Sumarliðason Hann var fæddur norður við Dumbshaf á Siglufirði, þar sem verið hefir lífhöfn sjófarenda um aldir.

Þá var öldin okkar ennþá ung og þá var ævintýrið um silfur hafsins að mótast. Stórfelld umbylting at vinnuhátta landsmanna var framundan þar sem krafist var allra vinnufúsra handa um leið og vettlingi gátu valdið.

Kári var elsti sonur hjónanna Sumarliða Guðmundssonar, skósmiðs, sem ættaður var úr Hörgárdal, og konu hans Sigurlínu G Níelsdóttur frá Hallanda á Svalbarðsströnd. Hann lauk skólagöngu sinni í Siglufirði en svo sem títt var á þessum tíma, áttu ekki allir kost á framhaldsnámi. Kári sem var gæddur góðum eðlisgáfum nýtti sér hins vegar af meðfæddri samviskusemi og ástundun, einkar vel þá kennslu sem bauðst og lærði síðan í lífsins skóla, svo vel að ekki duldist samferðamönnum.

Snemma kallaði þó lífsbaráttan til leiks og fyrst voru unnin verslunarstörf hjá Kaupfélagi Siglfirðinga. Síðar vinna við síldarsöltun, þá margháttuð störf hjá Síldarverksmiðjum ríkisins og loks um árabil hjá Þormóði ramma hf. Alls staðar vel látinn vegna einlægni og heiðarleika.

Hann var gæfumaður í einkalífi sínu.

Árið 1942 kvæntist hann eftirlifandi konu sinni Margrét Bogadóttir, af traustri bændaætt úr Fljótum, mikilli sómakonu og var til þess tekið hve samband þeirra var hlýtt og fágað. Þau reistu sér íbúðarhús í hlíðinni ofan Þormóðs eyrar þar sem vel sást yfir kaupstaðinn sem og allar skipaferðir út og inn fjörðinn.

Í þessum unaðsreit ólust upp börnin

Sigurlína Káradóttir

Höskuldur Kárason og 

Hjördís Káradóttir, öll hið ágætasta fólk, sem ásamt lífsförunautum sínum hafa fætt af sér börn og barnabörn, hinn myndarlegasta ættboga, þar sem nú ríkir söknuður og tregi.

Eitt sinn skal hver deyja, því verður eigi breytt. Á kveðjustund sækja að minningarnar. Ljúfur drengur er genginn á vit eilífðarinnar, en hann skildi eftir þá ímynd sem sérhverjum er sómi að og öðrum góð til eftirbreytni.

Um leið og hér eru færðar framaf heilum hug þakkir fyrir samfylgdina, votta ég ástvinum hans dýpstu samúð mína og fjölskyldu minnar. Megi blessun hins hæsta höfuðsmiðs fylgja honum, um grænar grundir eilífðarinnar.

Hreinn Sumarliðason