Knútur Jónsson, Siglufirði

Knútur Jónsson, Siglufirði Fæddur 5. ágúst 1929 Dáinn 24. júlí 1992 

Það var fyrir réttum tíu árum að hópur Sigfirðinga lagði land undir fót og heimsótti vinabæ Siglufjarðar í Finnlandi, Kangasala, þar kom fram kirkjukór Siglufjarðar og flutti tónlist eftir séra Bjarna Þorsteinsson, fyrsta heiðursborgara Siglufjarðar.

Knútur Jónsson var fenginn til að kynna Siglufjörð og tónsmíðar séra Bjarna. Þar stóð hann mitt í hinni fögru kirkju í Kangasala, Konungssölum, og flutti orð sem munu seint líða úr minni.

Á fágaðri sænsku talaði hann eins og innfæddur. Sagði frá Siglufirði og tónlist séra Bjarna. Það kom eflaust engum, sem þekktu til Knúts, á óvart hve vel hann talaði erlend tungumál. Hafði hann á sínum tíma stundað nám í rómsönskum málum við háskólana í Osló, Kaupmannahöfn, Madrid og Róm.

Mér var hugsað til þess á þessari stundu, hve dýrmætt það væri fyrir kaupstað við hið nyrzta haf að eiga að slíkan hæfileikamann sem Knútur var. Hann var ávallt reiðubúinn að gefa holl og góð ráð þegar til hans var leitað. Fólk í heimabyggð fann að hann bjó yfir mikilli þekkingu og kunnáttu, sem kom mörgum að notum í starfi, lífi og leik.

Knútur Jónsson

Knútur Jónsson

Vegna hæfileika hans á hinum ólíkustu sviðum, var hann snemma valinn til forystustarfa. Hann gegndi mörgum trúnaðarstörfum. Hann var m.a. bæjarfulltrúi og bæjarráðsmaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Siglufirði á árunum 1966­1978. Hann var um langt árabil í forystu fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Norðurlandskjördæmi vestra.

Hann tók þátt í margháttuðum félagsmálastörfum. Hann var mikill Lionsmaður. Í því starfi kenndi hann svo sannarlega félögum, hve mikilvægt væri að vera stundvís, og skipuleggja starfið út í yztu æsar.

Það er oft þáttur í eðli þeirra, sem eru virkir í félagsmálastörfum, að vera opnir og ræðnir. Knútur var dulur, hæglátur og rólyndur, það var aldrei flan að neinu. Hann virtist ávallt vera búinn að þaulhugsa það sem hann lagði til málanna, bæði í starfi sem og á hinum félagslega vettvangi. Eflaust þess vegna var mikið til hans leitað. Allir sem þekktu hann, allir þeir sem voru svo heppnir að fá að kynnast honum og leituðu til hans fengu góð ráð sem dugðu. Af því naut hann mikillar virðingar.

Knútur fæddist í Reykjavík 5. ágúst árið 1929. 

Hann var sonur hjónanna Gíslínu Magnúsdóttur frá Hnjóti í Örlygshöfn við Patreksfjörð og Jóns Halldórssonar sem ættaður var frá Hrauni í Ölfusi. Knútur var yngstur þriggja barna þeirra hjóna, systurnar eru tvær, Gyða og Erna.

Gíslína móðir Knúts átti frá fyrra hjónabandi einn son, Ólaf Hólm Einarsson.

Knútur var strax í æsku mjög bókhneigður, átti gott með allt nám. Eftir að hann lauk stúdentsprófi frá Verzlunarskólanum fékk hann eftirsóttan styrk til að stunda háskólanám erlendis. Eins og áður sagði stundaði hann nám sitt í rómönskum málum við marga háskóla.

Í Verzlunarskólanum kynntist hann eftirlifandi eiginkonu sinni, Önnu Snorradóttur, Stefánssonar framkvæmdastjóra Síldarverksmiðjunnar Rauðku í Siglufirði og Sigríðar Jónsdóttur.

Snorri, faðir Önnu, mótaði um margt líf í Siglufirði, rétt eins og Knútur á meðan hans naut við. Ég rifjaði það upp við upphaf þessara minningarorða, hve vel Knútur hefði sagt frá Siglufirði og menningarlífi staðarins í Kangsala í Finnlandi. Þegar ég rifjaði upp þennan atburð kom hún einnig upp í huga minn, Hún Anna  Snorradóttir.

Þar í Kangsala, sem og í nærri fimmtíu ár, hefur hún sungið í Kirkjukór Siglufjarðar og yljað mörgum um hjartarætur, sem unna fögrum kirkjusöng. Þau hjónin hafa verið samhent í því að vinna Siglufirði allt í félags- menningar- og kirkjumálum um langt árabil. Fyrir það veit ég að margir eru þakklátir.

Anna Snorradóttir kveður eiginmann sinn ásamt börnum þeirra hjóna, Fjólu og Óskari, sem sjá á eftir góðum föður sem leiddi þau útí lífið gerði þau hæf til að feta lífsins braut. Knútur verður lagður til hinztu hvíldar í Siglufirði. Leiðin liggur enn á ný heim í Þormóðs ramma fagra fjörð. Heim í sveitina góðu í skjóli fjallshlíða, þar sem hafið breiðir faðminn fríða og fram á djúpið bendir vaskri drótt.

Sérstakt um margt er að hann, sem svo lengi starfaði sem fulltrúi hjá Síldarútvegsnefnd í Siglufirði og var framkvæmdastjóri Tunnuverksmiðju ríkisins á Siglufirði og lagði sitt af mörkum í sjálfu síldarævintýrinu, skuli einmitt vera kvaddur þegar þess ævintýris er minnst á Siglufirði.

Hann er kominn heim. Við trúum að sá sem gefur allt líf, sá sem sigraði sjálfan dauðann á krossi hafi gefið honum hlutdeild í hinni eilífu gleði, sem kristallast í hinu eilífa ríki hans.

Megi ljósið hans bjarta, sem lýsir upp allt myrkur, lýsa okkur öllum.

Vigfús þró Árnason.