Tengt Siglufirði
Lára Jóhannsdóttir fæddist 18. febrúar 1930 á Kolkuósi, Viðvíkurhreppi í Skagafirði. Hún andaðist á Hjúkrunarheimilinu Grund 17. febrúar 2010.
Kjörforeldar hennar voru Sigríður Lára Jóhannsdóttir, forstöðukona á Sjómannaheimili Siglufjarðar, f. 24. apríl 1893, í Árgerði, Svarfaðardalshreppi Eyjafirði, d. 26. des. 1989, í Reykjavík, og Jóhann Bjarnason, verslunarmaður á Siglufirði, f. 22. mars 1891 á Þúfum, Hofshreppi Skagafirði, d. í sept. 1953 á Siglufirði.
Lára ólst upp á Siglufirði og útskrifaðist úr Gagnfræðaskóla Siglufjarðar og síðar Húsmæðraskóla Reykjavíkur. Fyrsti vinnustaður hennar var hjá Þormóði Eyjólfssyni. Þar vann hún almenn skrifstofustörf. Síðar flutti hún til Reykjavíkur og vann hjá Eimskip við bókhald í fjörutíu ár eða þar til hún lét af störfum 1997. Síðast dvaldi hún á Hjúkrunarheimilinu Grund.
Útför Láru fór fram frá Breiðholtskirkju
Hún Lára okkar var trygglynd, nákvæm og fáguð kona á alla lund. Hún var alltaf samkvæm sjálfri sér. Allar skoðanir voru á hreinu, óþarfi að velta vöngum yfir augljósum hlutum. Hún hafði gaman af ferðalögum og ferðaðist með okkur og vinkonum sínum bæði innanlands og utan. Henni leið sérstaklega vel í sólinni og naut þess að vera í góðra vina hópi á sólfagurri strönd.
Það var afskaplega notalegt fyrir okkur allar að alast upp á milli fjallanna á Siglufirði og oft lá leiðin í heimsókn í litla húsið til Láru frænku föðursystur á Grundagötunni niður á Eyri, en við Tóta vorum uppi á brekku á Hávegi. Samgangur heimilanna var mikill og þess vegna kynntumst við vel. Okkur er minnisstætt þegar litla Lára og stóra Lára komu í heimsókn og við drukkum saman súkkulaði á aðfangadagskvöld. Lára var elst af okkur og við litum upp til hennar og hún var dugleg að segja okkur til um allt milli himins og jarðar.
Það var mikið góðtemplaralíf á Siglufirði í uppvexti Láru. Á stúkufundi barnastúkunnar „Eyrarós“ var ævinlega vel mætt. Þar spilaði Lára á orgel og allir sungu með ásamt því að taka þátt í leikstarfi þessa tíma.
Fundirnir í Stúkan Framsókn enduðu alltaf með klukkutíma balli og þarna tók Lára sín fyrstu dansspor og hafði síðan alla tíð gaman af því að dansa. Lárurnar reyndust Völlu vel fyrstu árin í Reykjavík og það var ómetanlegur stuðningur við að fóta sig í borginni. Að leiðarlokum viljum við þakka samfylgdina, vináttu og tryggð og biðjum minningu Láru Guðs blessunar.
Þínar frænkur,
Valgerður og Þóra.
------------------------------------------
Lára var æsku- og aldavinkona móður minnar, Diddu Odds. Hún var tíður gestur á heimili okkar og vantaði aldrei þegar eitthvað var um að vera í fjölskyldunni. Lífsstíll vinkvennanna var ólíkur, en líf þeirra samofið. Þær þekktu reynsluheim hvor annarrar, lífssýn og smekk. Lára var græn en mamma blá. Lára var blússu- og pilsakona, en mamma peysu- og buxnakona.
Báðar voru þær flinkar í kökubakstri, elskuðu mávastell, kristal og silfur og komu upp safni hvor hjá annarri af þessum varningi. Þegar þær áttu orðið allt tók við tímabil silkislæðna og skartgripa. Þær lásu Alt for Damerne og Damens Roman og fylgdust grannt með dönsku konungsfjölskyldunni.
Jóla- og afmælisgjafir höfðu þær gefið frá því að þær voru litlar stelpur á Siglufirði. Það var alltaf mikil athöfn að velja gjöf handa Láru. Það skipti miklu máli að hún yrði ánægð. Grænn pappír, gylltur borði og skraut setti svip sinn á pakkana. Fyrir mér sem krakka og reyndar alla tíð var Lára ótrúlega flott kona. Sem barn bestu vinkonu var ég á „undanþágu“ með flestallt. Lára sagði oft söguna af því þegar við ferðuðumst einu sinni saman í strætó og ég sagði hátt og skýrt: „Lára, sjáðu konuna – hún er næstum því í eins fallegum pels og þú.“ Lára sagði mér mörgum árum seinna að þetta hefði verið fín frú hér í borg og pels frúarinnar úr eðalskinni en hennar ekki í slíkum klassa.
Til fjölda ára bauð Lára mér á jólaböllin hjá Eimskip, en á þeim árum voru þau ásamt þeim hjá Loftleiðum toppurinn. Í pokunum frá jólasveinunum leyndist erlent sælgæti og snyrtivöruprufur. Lára sýndi öllum „stelpuna“ sína enda sjálf barnlaus. Mamma lagði alltaf mikla vinnu í að sauma á mig jólakjólana. Lára „mátti ekki skammast sín fyrir mig“. Við dressið klæddist ég ýmist gull- eða silfurskóm og naut þess að fá að vera prinsessa einu sinni á ári.
Lára var mikil heimskona og ferðaðist mikið. Alltaf kom hún færandi hendi með gjafir handa mér og ófá kortin á ég frá henni. Ég man vel eftir glæsilegum dúkkuvagni og fyrstu Barbie-dúkkunni. Við spjölluðum oft saman í síma og hringdi Lára alltaf í mig á afmælisdaginn minn. Við fjölskyldan minnumst Láru ekki síst fyrir trygglyndi hennar.
Ekki breyttist það eftir að Didda vinkona fluttist í Sóltún, en Lára kom oft og reglulega í heimsókn. Þó að mamma væri farin að tapa minni bjó Lára yfir þeim einstaka hæfileika að umgangast hana eins og ekkert hefði breyst. Óli hennar Diddu Odds og Lára spjölluðu mikið saman í síma eftir að aðstæður breyttust heima fyrir. Þá kom vel í ljós hvað áratuga vinskapur var sterkur. Þegar ég hugsa til baka er ótrúlegt hversu lengi Lára heimsótti mömmu þrátt fyrir eigin veikindi.
Kæra Lára, fyrir hönd fjölskyldunnar þakka ég þér fyrir samfylgdina öll þessi ár. Ég veit um móður sem bíður þín örugglega með útbreiddan faðminn og trúi því að þið mæðgur sameinist á ný í öðrum heimkynnum. Aðstandendum, fjölskyldum og vinum sendum við hlýjar samúðarkveðjur. Það hversu vel var hlúð að Láru í veikindum hennar ber að þakka.
Sigríður Ólafsdóttir.