Jóhanna María Bjarnason - Maja í Bakka.

Maja Bjarnason, Maja í Bakka eins og hún var oftast kölluð, fæddist í Vogi á Suðurey í Færeyjum 3. september 1916. Hún lést á Heilbrigðisstofnuninni á Siglufirði 25. apríl 2004.

Foreldrar hennar voru Anna Thomina Gudmundsen, fædd Hansen, f. í Funningi 3. desember 1889, d. 21. febrúar 1981, og Guðmundur Árni Guðmundsson, f. á Siglufirði 15. september 1886, d. 21. september 1972.

Systkini Maju voru tvö,

  • Guðmundur og
  • Jóna, þau voru búsett í Færeyjum.

Maja giftist, hinn 20. desember 1938, í Færeyjum Guðmundur Bjarnason frá Bakka í Siglufirði, f. 25. október 1916, d. 5. apríl 1987. Þau fluttust til Siglufjarðar árið 1939.

Börn þeirra eru fimm:

1) Guðmunda Thomina Guðmundsdóttir, f. í Færeyjum 28. apríl 1939, búsett í Sandgerði, maki Björn Þórðarson, f. 25. mars 1939, börn þeirra:
  • Þórður Björnsson, f. 9. maí 1957,
  • Jóhanna María Björnsdóttir, f. 15. mars 1961, og
  • Guðný Sigríður Björnsdóttir, f. 4. ágúst 1967.


2) Jón Bjarni Guðmundsson, f. 26. desember 1942, búsettur á Fáskrúðsfirði, kona hans er Guðríður Karen Bergkvistsdóttir, f. 22. september 1940,
María Bjarnason

María Bjarnason

börn þeirra eru:
Helena Stefanía Stefánsdóttir, f. 14. febrúar 1963,
  • Nanna Þóra, f. 6. október 1967,
  • Sigurjóna, f. 9. mars 1969,
  • Guðmundur Bergkvist, f. 30. mars 1972,
  • Þórður Már, f. 12. janúar 1974 og
  • Aðalsteinn, f. 19. nóvember 1975.

3) Halldór Guðmundsson, f. 21. september 1944, búsettur í Reykjavík, maki Helga Hallgrímsdóttir, f. 29. desember 1944,
börn þeirra eru:
  • Hallgrímur Óli Halldórsson, f. 10. nóvember 1967,
  • Halldóra Halldórsdóttir, f. 26. mars 1974, og
  • Guðmundur Halldórsson, f. 8. maí 1979.

4) Ólöf Guðmundsdóttir, f. 26. september 1946, búsett á Akureyri, maki Friðrik Sigurjónsson, f. 5. nóvember 1946,
börn þeirra:
  • Kristján Viktor Kristjánsson, f. 23. september 1963,
  • Jóhanna María, f. 20. mars 1966, og
  • Heiðbjört Ida, f. 23. maí 1974.

5) Guðrún Guðmundsdóttir, f. 29. júlí 1949, búsett á Skálatúni í Mosfellsbæ.

Maja deildi heimili í Bakka í Siglufirði með föðurforeldrum Guðmundar, þeim Guðmundur Bjarnason bræðslustjóri og Halldóra Björnsdóttir, sem hún annaðist fram á dánardægur þeirra í hárri elli.

Maja var gestrisin húsmóðir og liðtæk verkakona. Hún vann m.a. í SR- frystihúsinu og síðar hjá Ísafold, þar til hún lét af störfum vegna heilsubrests árið 1982. Maja bjó í Bakka til ársins 1994 þegar hún fluttist að dvalarheimilinu Skálarhlíð á Siglufirði.
Útför Maríu fer fram frá Siglufjarðarkirkju.
-------------------------------------------------

Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að alast upp á Siglufirði til 16 ára aldurs, í næsta nágrenni við ömmu og afa. Allar mínar góðu bernskuminningar tengjast Sigló og ömmu og afa í Bakka. Amma og afi voru alltaf til staðar fyrir okkur krakkana og mikið átti maður nú gott að geta alltaf leitað til þeirra.

Amma Maja eða „amme“ eins og við kölluðum hana í gríni var frábær kona, trúuð á sinn hátt en ég held að hún hafi ekki sótt kirkjur mikið samt sem áður. Amma sem fæddist og ólst upp í Vågi á Suðurey sagði mér margt um Færeyjar þegar hún var stelpa og ég held ég hafi verið mjög þreytandi þegar ég var alltaf að spyrja um Færeyjar.

En amma þreyttist aldrei á mér. Amma átti bækur sem ég skoðaði endalaust og alltaf vorum við ákveðnar í að fara saman einhvern daginn til Færeyja, en því miður létum við aldrei verða af því. Ég er hins vegar sjálf búin að fara og á eftir að fara aftur og kíkja á hennar æskuslóðir. Ég var alltaf stolt af því sem krakki að eiga ömmu sem var frá Færeyjum og langaði alltaf að læra tungumálið og ég held ég hafi ekki verið gömul þegar ég lærði þjóðsönginn.

Amma var örugglega þakklát fyrir að síðustu æviárin sín í Skálahlíð, í föndrinu, í skemmtiferðunum, hún aldrei veik og alltaf var hún létt í lund. Það skemmdi nú heldur ekki fyrir henni að eiga góða að. Signý og Doddi bróðir hugsuðu vel um ömmu og fylgdust með því að hún hefði það sem allra best. Amma talaði alltaf um hvað allir væru fallegir og góðir og alltaf spurði hún eftir Gulla sínum eða Óla sínum og auðvitað eftir Lind sinni.

Ég og Lind eyddum nokkrum dögum á Siglufirði síðasta sumar þar sem við fórum á hverjum degi til ömmu eftir sundsprett í lauginni og það var eins og það kæmi værð yfir dóttur mína við það að koma til langömmu. Hún byrjaði á því að kúra hjá ömmu sinni og sofnaði síðan í rúminu hennar. Amma hafði þessi róandi áhrif á mann, hún talaði svo blíðlega til allra og var bara svo góð kona.

Margar minningar sækja á hugann núna þegar amma er farin og ekki laust við að ég kvíði því að koma aftur til Sigló þegar minn fasti hlekkur í lífinu hún amma mín er farin. Amma, takk fyrir að hafa alltaf verið til staðar fyrir mig.

Minning þín lifir alla tíð. Sigríður Björnsdóttir.
-------------------------------------------------------------

Ég hélt alltaf að amma í Bakka yrði hundrað ára að minnsta kosti, en nú er hún dáin, öllum að óvörum. Lífsgleðin og jákvæðnin var með þeim hætti að Maja í Bakka vakti að- dáun allra sem umgengust hana.

Ég hef oft sagt að ég hafi það á stefnuskránni að eldast með sama hætti og hún. Hvort það tekst er önnur saga, markmiðið er göfugt og vel þess virði að reyna að nálgast það. Ég kynntist henni, þegar ég fór að koma í heimsóknir í Bakka með Dodda, sem unglingur fyrir þrjátíu árum. Hún var óþreytandi að segja mér hvað hann væri góður og fallegur drengur. Þannig fannst henni reyndar flestir samferðamenn hennar vera.

Að vísu sagði hún mér nokkrum sinnum að ég væri geðvond, en þegar það gerðist þá átti það örugglega við rök að styðjast. Það var líka alveg í hennar anda þegar hún sat um síðustu jól í stofunni okkar og sagði Derek, amerískum vini Guðrúnar minnar, að hann ætti að vera góður við hana, hún væri svo falleg og góð stúlka. Hann svaraði á ensku að landið væri alveg stórkostlegt og þau brostu hvort framan 

í annað, bæði hæstánægð með samræðurnar. Ég veit að hugur Gunnu dvelur á Íslandi þessa dagana þó hún sé stödd í annarri heimsálfu og hún hefði viljað vera með okkur og fylgja langömmu sinni síðasta spölinn. Börnin mín áttu mörg sporin í Bakkabúið til langa og ömmu lang, eins og þau voru aðgreind frá öllum hinum ömmunum og öfunum í fjölskyldunni. Það hafði engin áhrif þótt við flyttum suður á fjörð í Draumalandið og vegalengdin yrði meiri á milli, stuttir fætur töldu sporin ekki eftir sér í Bakka.

Meðan að langi var á lífi þá voru farnir ótal göngutúrar og síðan komið inn í Bakkabúið til að fá að drekka eða skoða heiminn með gamla kíkinum, stundum var horft á spólu eða verið að spila. Allir voru velkomnir í Bakka. Við misstum öll mikið þegar afi dó, amma þó mest, en guð gaf henni styrk eins og hún sagði.

Á langri ævi þurfti hún oft á gjöfum hans að halda, því margt reyndi á. Um áraraðir komum við Doddi með börnin okkar til hennar á gamlárskvöld og borðuðum ömmulæri. Eftir að hún var flutt á Skálarhlíð kom hún til okkar, en aldrei hefur okkur tekist að elda lærið að hennar hætti. Ef til vill var það bara gestrisnin og hlýleikinn hennar ömmu sem gerði matinn svona góðan. Eftir því sem árin liðu þá varð samband mitt við ömmu nánara, ég varð líka betri í geðinu, enda farin að reyna að líkjast henni.

Í litla herberginu hennar í Skálarhlíð höfðum margt spjallað og margur kaffisopinn verið drukkinn og svo allt súkkulaðið og konfektið, sem virtist eiga uppsprettu í skápunum hennar. Allir þurftu að fá eitthvað gott í munninn. Hún kvaddi mig oftast þegar ég hafði komið í heimsókn til hennar með því að spyrja hvað hún gæti gert fyrir mig. Ekkert nema láta þér líða vel, var venjulega svarið hjá mér og hún endurtók að hún vildi endilega gera eitthvað fyrir mig. Niðurstaðan af þessum samtölum var ævinlega sú að hún ætlaði að biðja fyrir mér.

Fyrir þessar fyrirbænir verð ég ævarandi þakklát, sem og öll mín kynni af Maju í Bakka. Fólk eins og hún gerir veröldina betri og vonandi tekst okkur sem eftir stöndum að halda merki hennar á lofti og lifa í hennar anda.

Elsku amma, takk fyrir allt.
Signý Jóhannesdóttir.
----------------------------------------------

Enn er höggvið skarð í raðir þeirra mörgu er störfuðu á ýmsan hátt við að byggja upp bæinn við ysta haf, Siglufjörð.

Hin aldna og vinsæla heiðurskona Maja Bjarnason, sem nú er kvödd vann sín verk sem oft eru vanmetin, heimilisstörfin, í byrjun við heldur frumstæðar aðstæður. Þessi færeyskættaða kona sem bast tryggðaböndum við Siglufjörð og fólkið sem þar býr, setti svip á bæinn með sínu síglaða viðmóti og alkunna dugnaði og trúmennsku. Hún fór ekki varhluta af mótlæti í lífinu og gerði sér snemma grein fyrir því að lífið væri ekki eingöngu dans á rósum.

Hún vissi að vinnan væri undirstaða þess lífs sem við flest óskum okkur. Þau störf sem Maja innti af hendi báru þess vitni að baki þeirra var vandvirkni og trúmennska í fyrirrúmi. Maja vann um árabil í hrað- frystihúsinu Ísafold hf. Hún var ein af þeim sem komu fyrst á vinnustað- inn og fór með þeim síðustu heim. Kringum hana ríkti ávallt gleði og kátína og ég veit að margt af hennar samstarfsfólki sér á bak góðum og traustum vinnufélaga.

Það var gott andrúmsloft í þeim vinnuhóp og þaðan eru margar góðar minningar. Margt af þessu ágæta starfsfólki hefur þegar kvatt og er mikil eftirsjón af því og þeim sem enn eru hérna megin grafar eiga miklar þakkir skyldar fyrir frábæra vinnu og gleðistundir. Heimili Maju og Guðmundar, manns hennar, bar þeim vott um hirðusemi og frábæra umhyggju á öllum sviðum. Það var gaman að koma heim til þeirra í litla húsið á sjávarbakkanum þar sem sjávarnið- urinn hefur oft svæft þau eftir langan og strangan vinnudag.

Þarna var öllu vel til haga haldið og stytt upp á yfirvegaðan máta. Litla húsið á bakkanum meðan við innkeyrsluna í bæ- inn setti örlítinn færeyskan svip á umhverfið og fór vel á því þar sem Færeyingar voru kærkomnir gestir í bæinn og settu sterkan svip á síldarbæinn þegar skúturnar þeirra lágu í tugatali á firðinum. Ég horfi alltaf niður á bakkann þegar ég á leið hjá og stöðugt sakna ég hússins og íbúa þess. Nú hefur þessi vinsæla kona kvatt þennan heim og lagt af stað í hina löngu ferð sem við vinir hennar sem eftir stöndum eigum fyrir höndum. Maja má vera ánægð með sitt lífsstarf.

Börnin hennar bera þess vitni að um þau hafi verið hugsað af stakri móðurumhyggju og reglusemi. Þeir sem kynntust Maju mega vera þakklátir fyrir að hafa átt samleið með henni því að eftir standa einungis góðar minningar. Ég kveð hana með virðingu og þökk og óska þess að hún eigi góðan endurfund við Guðmund sinn sem ekki hafði tíma til að kveðja þegar hann fór. Börnunum hennar og fjölskyldu sendi ég samúðarkveðjur og bið Guð að styrkja þau og fjölskyldur þeirra.

Guð blessi minningu Maríu Bjarnason.

Skúli Jónasson.
-------------------------------------------

  • Ég sendi þér kæra kveðju,
  • nú komin er lífsins nótt.
  • Þig umvefji blessun og bænir,
  • ég bið að þú sofir rótt.
  • Þótt svíði sorg mitt hjarta
  • þá sælt er að vita af því
  • þú laus ert úr veikinda viðjum,
  • þín veröld er björt á ný.
  • Ég þakka þau ár sem ég átti
  • þá auðnu að hafa þig hér.
  • Og það er svo margs að minnast, s
  • vo margt sem um huga minn fer.
  • Þó þú sért horfinn úr heimi,
  • ég hitti þig ekki um hríð,
  • þín minning er ljós sem lifir
  • og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sig.)

Mig langar að minnast elskulegrar ömmu minnar sem lést 25. apríl sl. eftir stutt en erfið veikindi. Amma bar það ekki með sér að vera að nálgast nírætt. Hún var svo lífsglöð og bjartsýn, lífsglaðari heldur en margir þeir sem yngri eru. Mínar fyrstu minningar frá Siglufirði eru frá heimsóknum til ömmu og afa um helgar.

Það var alltaf notalegt að koma heim í Bakka. Fyrsta flugferðin mín var til Siglufjarðar eitt sumarið þegar ég fékk að dveljast hjá þeim í eina viku. Amma missti mikið þegar afi lést 1987 en með dugnaði tókst henni að halda áfram. Þannig var hún amma, alltaf dugleg. Hún var mjög trúuð kona og bað öllum ævinlega Guðs blessunar. Við héldum alltaf sambandi, ekki síst síðustu árin.

Amma var afskaplega minnug á afmælisdaga og aldrei brást það að hún hringdi í mig. Ég vildi óska að ferðirnar mínar til þín hefðu verið fleiri. Síðustu árin dvaldi amma í Skálahlíð, Dvalarheimili aldraðra á Siglufirði. Þar átti hún mikið af góðum vinum. Amma var dugleg að taka þátt í hvers kyns starfi í Skálahlíð, t.d. hafði hún mikla ánægju af handavinnu. Það eru ófáir munirnir sem hún hefur gaukað að mér síðustu árin, dúkar, svuntur og blómavasar. Það var reisn yfir henni ömmu, hún naut þess að klæðast fínum fötum, fara í hárgreiðslu og halda sér til.

Við vorum líka sammála um að hún væri langsætust þarna á dvalarheimilinu. Þú varst alltaf svo sterk og dugleg, amma mín, sannkölluð hetja. Aldrei kvartaðir þú, ekki einu sinni á dánarbeðinum. Ég er þakklát fyrir að hafa getað verið hjá þér undir það síðasta, haldið í höndina þína og látið þig finna hvað mér þótti vænt um þig. Mig langar að þakka Signýju Jóhannesdóttur og hennar fjölskyldu á Siglufirði fyrir allt sem hún hefur gert fyrir afa og ömmu í gegnum tíð- ina. Einnig vil ég þakka starfsfólkinu á Heilbrigðisstofnuninni á Siglufirði fyrir þá hlýju og virðingu sem ömmu var auðsýnd. 

Blessuð sé minning Maju Bjarnason. 

Heiðbjört Ída
-----------------------------------------