Margrét Stefanía Hallgrímsdóttir

mbl.is - 30. desember 2005 | Minningargreinar

Margrét Hallgrímsdóttir fæddist á Siglufirði 31. desember 1945. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Siglufjarðar 21. desember síðastliðinn.

Foreldrar hennar voru Hallgrímur Jónsson frá Siglufirði, f. 21. okt. 1903, d. 7. sept. 1990, og Guðrún Jakobína Sigurjónsdóttir frá Siglufirði, f. 25. júlí 1910, d. 26. des. 1985.
Systkini Margrétar eru

  • María Hallgrímsdóttir, f. 22. ágúst 1929, og
  • Erla Hallgrómsdóttir, f. 14. des. 1931,
    uppeldissystir
  • Jakobína Ásgrímsdóttir, f. 13. apríl 1954, og
    uppeldisbróðir
  • Hallgrímur Hafliðason, f. 7. júní 1951, d. 24. des. 1980.
Margrét Hallgrímsdóttir

Margrét Hallgrímsdóttir

Margrét giftist 4. nóv. 1967 Skarphéðni Guðmundssyni, f. 10. apríl 1946. Foreldrar hans voru Guðmundur Antonsson, f. 23. júlí 1915, d. 2. des. 1997, og Árný Jóhannsdóttir, f. 31. des 1921, d. 13. mars 1996.

Börn Margrétar og Skarphéðins eru:

1) Guðmundur Þór Skarphéðnsson, f. 24. des. 1966, kvæntur Kristínu Jóhönnu (Júlla) Kristjánsdóttur, f. 18. júní 1968,
synir þeirra eru:
  • Skarphéðinn, f. 4. maí 1988,
  • Júlíus, f. 14. apríl 1995, og
  • Víglundur, f. 16 júlí 1999.
2) Árni Gunnar, f. 24. des. 1966, kvæntur Gíslínu Önnu Salmannsdóttur, f. 10. maí 1970, synir þeirra eru
  • Salmann Héðinn, f. 28. apríl 1987,
  • Gunnar Þór, f. 30. apríl 1991, d. sama dag,
  • Ástþór, f. 4. júlí 1992, og
  • Jakob Snær, f. 4. júlí 1997.
3) Hallgrímur Smári, f. 5. júní 1979, sambýliskona Sædís Harpa Albertsdóttir, f. 4. mars 1983,
sonur Hallgríms er
  • Bjartmar Máni, f. 18. mars 2000.

Margrét lauk gagnfræðaprófi 1964 og hóf störf á símstöðinni á Siglufirði 1964 til 1979 og í Sparisjóði Siglufjarðar 1981 sem gjaldkeri. Margrét var ein af stofnendum Lionessuklúbbs Siglufjarðar sem var fyrsti lionessuklúbbur á landinu. Auk þess starfaði Margrét í ýmsum félagsmálum með manni sínum, t.d. í framsóknarfélaginu, Rauða krossinum o.fl.

Útför Margrétar fer fram frá Siglufjarðarkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.

Mamma er dáin, í mínum huga besta mamma í heimi, mamma, sem var svo gott að leita til bæði í sorg og gleði hvenær sem var, alltaf var mamma til að veita góð ráð eða hugga. Þetta gerðist svo snöggt, þegar pabbi var að segja mér frá veikindum mömmu vildi ég ekki trúa því að þetta væri svona alvarlegt og hafði von um að hún gæti náð bata. En síðustu vikuna vissum við að það var ekkert hægt að gera ekkert sem gat læknað mömmu, þá kom sorgin, reiðin og spurningarnar:

Af hverju mamma? Mamma sem hafði alltaf lifað svo heilbrigðu lífi, aldrei notað tóbak eða vín. Mamma sem var svo góð kona, hvar er sanngirnin í lífinu, af hverju verður maður svona reiður, ekki mamma mín. Ég veit að ég fæ aldrei svör við þessum spurningum, en minningin um góða móður lifir. En ég veit að hún er komin á betri stað núna, þó svo að ég hefði viljað hafa hana lengur hjá mér. Það flokkast kannski undir eigingirni, en hennar köllun var víst kominn. Það er svo margs að minnast, allar þær stundir sem við áttum saman. Hún setti sig aldrei í fyrsta sæti, maðurinn hennar, synirnir og barnabörnin voru alltaf númer eitt hjá henni. Þakka þér fyrir allt mamma mín, þinn sonur.

Hallgrímur Smári Skarphéðinsson.
----------------------------------------------------

Elsku mamma mín. Nú kveð ég þig í hinsta sinn. Ég á þér svo mikið að þakka en eitt er mér sérstaklega kært, það er þegar þú sagðir mér að fjölskyldan skipti svo miklu máli að ekkert væri verðmætara. Elsku mamma ég er svo þakklátur fyrir að fá að eyða síðustu sólahringum lífs þíns með þér. Þó að þeir hafi jafnframt verið þeir erfiðustu, en þá fékk ég að upplifa að það er eitthvað meira sem bíður þín. Þú verður alltaf í hjarta mínu, elsku mamma mín. Guð geymi þig.

  • Þau ljós sem skærast lýsa,
  • þau ljós sem skína glaðast
  • þau bera mesta birtu
  • en brenna líka hraðast
  • og fyrr en okkur uggir
  • fer um þau harður bylur
  • er dauðans dómur fellur
  • og dóm þann enginn skilur.
  • En skinið loga skæra
  • sem skamma stund oss gladdi
  • það kveikti ást og yndi
  • með öllum sem það kvaddi.
  • Þótt burt úr heimi hörðum
  • nú hverfi ljósið bjarta
  • þá situr eftir ylur
  • í okkar mædda hjarta.

(Friðrik Guðni Þórleifsson.)

Elsku pabbi, Guð gefi þér styrk til að standast allt sem á þig hefur verið lagt og hjálpi þér í þinni miklu sorg. Guð veri með okkur öllum.

Ykkar sonur Guðmundur Þór.
--------------------------------------------------

Elsku mamma, takk fyrir allar stundirnar okkar saman, við vorum svo náin að það er sárt að kveðja. Þú varst alltaf svo nálæg, skilningsrík og góð þegar á þurfti að halda.. Þetta gerðist svo snöggt, óvægið og með svo miklum sársauka að maður getur ekki annað en spurt af hverju? Þú sem varst alltaf svo heilsugóð.

Og ég trúði því að hægt væri að lækna þig, ég sem sá þig nánast á hverjum degi gat ekki séð hvert stefndi fyrr en ótrúlega stutt var eftir, þú varst aldrei fyrir að kvarta fyrir þig þó að við vitum að þú hefur mátt þola mikið og taka mikið út. Nú ert þú laus við sársaukann og þjáningarnar og komin á góðan stað þaðan sem þú getur örugglega haldið áfram að fylgjast með bæði börnum og barnabörnum þínum sem þér var svo annt um.

Árni Gunnar Skarphéðinsson.
----------------------------------------------------

Elsku Magga.

Af hverju? er eflaust spurning sem margir spyrja sig, þessi hressa og heilsuhrausta kona. Þú kvartaðir aldrei en síðan fengum við þessar hörmulegu fréttir að skammt væri eftir og reyndist það rétt, því aðeins viku seinna eða 21. des. kvaddir þú okkur eftir erfiða og þjáningamikla viku. En okkar huggun er að þú ert frjáls og horfin á nýjar slóðir og líður þar vel. Minning þín lifir í hjörtum okkar og það er nokkuð sem engin tekur frá okkur.

Megi góður Guð veita Skarphéðni, systrum, sonum, sonarsonum og vinum styrk í þessum mikla missi og hjálpa okkur að sjá ljósið í komandi framtíð.

Með þökk fyrir allt, elsku Magga mín. Hvíl þú í friði.

Þín tengdadóttir, Gíslína Anna.
--------------------------------------------------

Nú er söngurinn hljóður og svanurinn nár á tjörn. Það er margt í þessum heimi sem erfitt er að skilja og á það við um ótímabært fráfall tengdamóður minnar Margrétar Hallgrímsdóttur. Ég bið góðan Guð að varveita þig, elsku Magga, og kveð þig með söknuði og tár á hvarmi með þessum orðum Karls Sigurbjörnssonar.

"Allt sem lifir hlýtur að visna og deyja. Biblían segir að Guð hafi skapað okkur úr leiri jarðar og því munum við aftur verða mold. En Kristur hefur sigrað dauðann. Því er dauðinn þeim sem trúir dyr til eilífa lífsins. Dauðinn skilur jafnan eftir sorg, því dauðinn aðskilur þá sem unnast. En hann getur ekki aðskilið okkur frá Guði. Þegar við deyjum, þá vill engill Drottins fá að taka sál okkar og bera hana inn í himininn, til Guðs.

Á efst degi reisir Guð okkur svo upp til eilífs lífs og endurfunda. Allt er þetta myndmál, tilraunir til að lýsa því ólýsanlega. Í eilífðinni, í himni Guðs, er enginn tími, allt ein andrá, þrungin gleði og friði. Hér í heimi fáum við að skynja gleði og frið eilífs lífs í trú og von og kærleika. Í þeirri trú, von og kærleika lifum við í samfélagi við Guð, leitumst við að hlynna að því sem lífið bætir og blessar og horfum æðrulaus mót framtíðinni".

Elsku Skarphéðinn, missir þinn er mikill. Góði Guð varðveiti þig og fjölskylduna alla.

Þín tengdadóttir Kristín.
--------------------------------------------

Fyrir rúmum þremur árum kynntist ég litla stráknum þínum og fljótlega kom ég svo norður með honum til að hitta ykkur, tengdaforeldra mína, okkur kom vel saman frá upphafi. Ég þekkti þig ekki mjög vel en við urðum strax góðar vinkonur og áttum margar góðar stundir saman. Ég hefði viljað kynnast þér betur. Það var ekki hægt að óska sér betri tengdaforeldra. Þú vildir allt gera fyrir alla. Þú vissir hvað þú vildir en reyndir alltaf að láta lítið fyrir þér fara, og baðst sjaldan um eitthvað. Þú settir okkur hin alltaf í fyrsta sætið.

Halli minnir mig reglulega á að þjóðsagan segi að þegar ungir menn séu að leita sér að konu leiti þeir ómeðvitað að konu sem líkist móður þeirra, hann segist ekki komast nær því, svo ég reyni að standast þær væntingar eftir bestu getu.

Mig langar að þakka fyrir að hafa kynnst þér áður en þú þurftir að fara.

Litla tengdadóttir þín, Sædís Harpa.
---------------------------------------------

Elsku Magga amma, það er svo sárt að kveðja en við trúum því að þeir látnu séu ekki horfnir að fullu, heldur eru þeir aðeins farnir á undan okkur. Við kveðjum þig í dag, elsku amma, með uppáhalds sálminum okkar.

  • Drottinn er minn hirðir, mig mun
  • ekkert bresta.
  • Á grænum grundum lætur hann mig
  • hvílast,
  • leiðir mig að vötnum,
  • þar sem ég má næðis njóta.
  • Hann hressir sál mína,
  • leiðir mig um rétta vegu
  • fyrir sakir nafns síns.
  • Jafnvel þótt ég fari um dimman dal,
  • óttast ég ekkert illt,
  • því að þú ert hjá mér,
  • sproti þinn og stafur hugga mig.
  • Þú býr mér borð
  • frammi fyrir fjendum mínum,
  • þú smyr höfuð mitt með olíu,
  • bikar minn er barmafullur.
  • Já, gæfa og náð fylgja mér
  • alla ævidaga mína,
  • og í húsi Drottins bý ég
  • langa ævi.

(23. Davíðssálmur.)

Guð blessi þig. Skarphéðinn, Júlíus Rúnar og Víglundur.
---------------------------------------------

Margs er að minnast, margs er að sakna. Þessar línur koma upp í hugann þegar við setjumst niður og hugsum til Möggu frænku sem nú hefur kvatt þetta líf allt of snemma, en vegir guðs eru órannsakanlegir og í lífinu koma upp aðstæður sem enginn ræður við hve mikið sem hann þráir það. Við sitjum eftir með spurningar sem ekki verður svarað en einnig með dýrmætar minningar sem við geymum með okkur.

Magga og Héðinn bjuggu í næsta húsi við foreldra mína með strákana sína. Alltaf var mikill samgangur okkar á milli. Við krakkarnir lékum okkur saman frá blautu barnsbeini, vetur, sumar, vor og haust. Fyrst við tvíburarnir en svo bættist Halli Smári í hópinn og þá var spennandi að fá að passa hann, keyra hann úti í vagninum eða taka undir vagninn með Möggu þegar hún var að fara með hann upp tröppurnar. Magga var alltaf til staðar fyrir okkur krakkana á þessum árum og tók á móti okkur með stakri þolinmæði, í hvaða ástandi sem við komum heim, en það gat verið ansi skrautlegt á stundum.

Þær eru einnig ljóslifandi minningarnar þegar farið var á símstöðina til að heilsa upp á Möggu, en þar starfaði hún í mörg ár. Þá voru símadömunar, eins og þær voru kallaðar, á vöktum til miðnættis og ég man að mér fannst ansi langt að vinna svo lengi frameftir. Oft velti ég því líka fyrir mér hvort ekki væri flókið, að finna út hvert snúrurnar ættu að fara, og spurði Möggu að því en hún sagði svo ekki vera og svaraði svo næsta símtali. Ég man að ég dáðist að því hvað hún kunni þetta vel, en fyrir mér voru þetta bara leiðslur sem lágu þvers og kruss frá borðinu fyrir framan hana og í vegginn.

Leiðir okkar lágu svo saman í starfi í Sparisjóðnum á Siglufirði þar sem ég átti þess kost að starfa í fríum frá skóla. Þar tók hún vel á móti mér og kenndi mér með stakri þolinmæði það sem ég þurfti að læra. Það var alltaf hægt að leita til hennar ef eitthvað bjátaði á og hún kippti því í liðinn án mikilla vandkvæða.

Magga hafði gaman af því að versla og því báru jóla- og afmælisgjafir til mín og annarra fagurt vitni. Hún notaði gjarnan tækifærið og fór utan til að versla enda barnabörnin orðin sjö, allt drengir. Dætur mínar hafa einnig notið þess með fallegum jólagjöfum.
--------------------------------------------------

Elsku Magga.

Fyrir rúmu ári fékk mamma mín áfall og þá stóðu Magga og Héðinn þétt við bakið á henni og aðstoðuðu á alla lund þar sem við áttum ekki heimangengt. Þá var mikið og óeigingjarnt starf unnið sem ég verð ætíð þakklát fyrir. Við minnumst þess hve notalegt var að kíkja yfir til Möggu og Héðins þegar við vorum á Sigló, nú síðast í byrjun nóvember, en þá var Magga búin að vera slæm í baki og tiltölulega nýhætt að vinna. Það er okkur einnig mikilvægt að hafa fengið að kveðja hana nú í desember.
Elsku Héðinn, Gummi, Árni og Halli. Við Óskar og stelpurnar vottum ykkur samúð.
Elín Gísladóttir.

Mér hlotnaðist sá heiður að kynnast ykkur þegar ég og Gummi byrjuðum að vera saman. Ég var nú hálffeimin þegar ég kom fyrst heim til ykkar með tengdó en ég fann um leið hversu hlý og yndisleg hjón þið voruð. Ég vil þakka fyrir þær stundir sem við áttum saman og þakka þér fyrir hversu góð þú varst alltaf við Kristinn Dag.

Kæri Skarphéðinn og fjölskylda. Við sendum okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Guðný Kristinsdóttir og Kristinn Dagur Guðmundsson.
--------------------------------------------------------------

  • Elsku Magga.
  • Söknuðurinn er mikill
  • og sorgin hjartað sker,
  • sporin eru erfið
  • því þú ert ekki hér.

Einhvern veginn svona hafa jólin liðið, allt gerðist svo hratt og allt svo óraunverulegt.

Þú hefur verið í fjölskyldunni frá því ég man eftir mér, þá var aldursmunurinn kannski mikill, ég barn en þú ung kona, kærasta bróður míns. Minningarnar líða hjá, ég 3 ára þegar þið eignuðust tvíburana ykkar, Árna og Guðmund, ég man alltaf eftir því sem barn hvað þú áttir fín ilmvötn enda varstu alltaf vel til höfð, þú og mamma áttuð sama afmælisdag sem var gamlársdagur, mér þótti það alltaf merkilegt sem barn og svo vorum við líka nöfnur.

Síðan liðu árin.

Magga og Héddi, þið voru oftast nefnd í saman orðinu því þið voruð einhvern veginn eitt. Það var alltaf gott að koma til ykkar, þú varst mikil húsmóðir og hugsaðir vel um þína. Magga, þú varst frekar lokuð kona og ekki eins félagslynd og bróðir minn, samt stóðstu við hlið hans í öllu því sem hann tók sér fyrir hendur hvort sem það var í pólitík, eða öðrum félagsmálum.

Ég veit að þín er sárt saknað á Laugarvegi 18 og erfitt verður að ganga inn í nýtt ár án þín en minningarnar tekur enginn frá okkur, þær eigum við og þær eru margar í gegnum tíðina, ferðalögin okkar saman, Héddi búinn að hanna húsbíl sem þið ætluðu njóta saman að ferðast í en allt breytist svo fljótt, kallið kemur öllum að óvörum. Áramótin verða erfið því á morgun, gamlársdag, hefðir þú orðið sextug.

Kæru bræður, Árni, Guðmundur, Halli og fjölskyldur, missir ykkar er mikill en minning lifir áfram með ykkur.

Elsku bróðir, allt er breytt, þú átt kærar minningar um góða konu, ég segi eins og Guðmundur Árni sonur minn sagði: Mamma, Magga verður fallegur engill.

Það er komið að kveðjustund, ég þakka þér, Magga, fyrir allt sem þú varst mér og mínum, þú munt alltaf eiga stað í hjarta okkar.

Blessuð sé minning þín.
Þín mágkona, Margrét.
----------------------------------------------

Elsku Magga mín.

Nokkur fá kveðjuorð til þín, en þú kvaddir svo alltof fljótt.
Nú þegar ég sit hér og reyni skrifa, hrannast minningarnar upp í hugann, gamlar og nýjar.
Ég gæti skrifað svo mikið en ætla að geyma minningarnar í hjarta mér, Magga mín.
Þetta hefur verið það svartasta skammdegi sem ég man eftir og dimmt yfir bænum okkar.
Það er með sorg í hjarta og söknuði sem ég kveð þig kæra vinkona, þakka þér fyrir allt og allt. Guð geymi þig.

Elsku Héðinn minn, Árni Guðmundur, Halli og fjölskyldur. Erla, Binna og Maja og fjölskyldur.

Innilegar samúðarkveðjur frá okkur Ómari.

Þín vinkona, Margrét Eyjólfs.
---------------------------------------------------

Eftir að ljóst varð hversu alvarleg veikindi Möggu voru, brá skugga á aðventuna fyrir þessi jólin. Allir voru með hugann hjá henni og hennar nánustu, bæði starfsfélagar og viðskiptavinir. Magga Halla eins og hún var ávallt kölluð, hafði starfað í sparisjóðnum í full 24 ár, þannig að í huga fólks var hún í raun ómissandi hluti af afgreiðslu sjóðsins.

Frá upphafi var Magga einstaklega góður starfsfélagi og má segja að vinnufélagarnir hafi verið hennar önnur fjölskylda, enda samstarfið langt og farsælt. Viðskiptavinum þjónaði Magga ávallt af hlýju og alúð. Ljóst er að hennar verður sárt saknað af starfsfélögum og viðskiptavinum sparisjóðsins. Um leið og starfsfólk sparisjóðsins þakkar Möggu samstarf liðinna ára er fjölskyldu hennar hér vottuð hin dýpsta samúð.

Blessuð sé minning Margrétar Hallgrímsdóttur

Ólafur Jónsson sparisjóðsstjóri.
------------------------------------------------------

Kær vinkona og vinnufélagi er látin, langt um aldur fram. Veikindi Margrétar Hallgrímsdóttur, eða Möggu Halla eins og hún var alltaf kölluð, hefur borið skugga á aðventuna, og þessir síðustu dagar fyrir jól hafa verið mjög erfiðir fyrir alla sem hana þekktu. Það hefur verið sérstaklega erfitt hjá okkur, starfsfólki Sparisjóðs Siglufjarðar, að horfa á tóman gjaldkerastólinn í afgreiðslunni þar sem Magga sat ávallt og tók á móti viðskiptavinunum með bros á vör og var ávallt tilbúin að gera allt fyrir alla.

Í lok hvers vinnudags fórum við þrjár starfsstúlkur saman í kaffi, og ávallt kom Magga í hornið til mín með orðunum "komdu upp í kaffi". Þetta var eini tíminn sem við settumst saman í kaffi og nutum þess virkilega að vera í rólegheitum og spjalla saman áður en við fórum heim. En núna er ekki bara stóllinn í afgreiðslunni tómur heldur einnig stóllinn hennar á kaffistofunni. Þar mun ég sakna minna nánu samskipta við hana.

Er ég fermdi yngsta barn mitt síðastliðinn maí bað ég Möggu um aðstoð við að baka kransaköku og eins og vanalega svaraði hún um hæl: ,,alveg sjálfsagt!" En aðstoðin fólst ekki aðeins í að baka kökuna heldur tók Magga ekki annað í mál en að skila kökunni tilbúinni á veisluborðið. En þarna var vinkona mín á heimavelli, þar sem hún gerði einstaklega góðar og fallegar kransakökur. Þetta litla dæmi gefur góða mynd af Möggu, en hún var bæði góður vinur og góð húsmóðir. Viðmót hennar einkenndist af hlýju og hjálpsemi, en umfram allt var hún góð vinkona og er mikill missir af gæðakonu sem henni.

Magga mín, ég kveð þig að sinni. Hafðu þökk fyrir allt.

Guð gefi Skarphéðni, Árna og fjölskyldu, Gumma og fjölskyldu, Halla og fjölskyldu og öðrum aðstandendum styrk á erfiðri stund.

Guðrún Pálsdóttir.
---------------------------------------------------

Sómakonan hún Magga er dáin, langt fyrir aldur fram. Minningarnar streyma fram um hlýja og góða konu sem ég hef átt samleið með frá því að ég man fyrst eftir mér. Í bernskunni á Laugaveginum sem æskuvinur Halla Smára, sem vissulega var augasteinn móður sinnar. Síðar í samstarfinu í Sparisjóðnum, sem var ákaflega skemmtilegur vinnustaður, þar sem ég var um tíma gjaldkeri við hlið Möggu. Síðast en ekki síst tengdumst við stjórnmálavafstrinu þar sem Magga stóð þétt við bakið á eiginmanni sínum, Skarphéðni, sem hefur verið forystumaður okkar framsóknarmanna í bæjarstjórn Siglufjarðar til margra ára.

Magga og Skarphéðinn voru samhent hjón. Gestrisni þeirra hjóna var einstök og hef ég fengið ríflegan skerf af þeirri gestrisni. Matarboðin og kvöldstundirnar á heimili þeirra hjóna voru ófáar. Það eru góðar og dýrmætar stundir í minningunni. Þar fékk ég að valsa inn og út, sem mitt heimili væri. Stundum gleymdi ég einni og einni skyrtu á heimili þeirra hjóna en fékk þær jafnharðan í næstu heimsókn hreinar og straujaðar. Þannig var Magga.

Það segir margt um Möggu, en mig rekur ekki minni til að okkur hafi orðið sundurorða að heitið geti. Hún gat verið stíf á sinni meiningu og hafði skoðanir á mönnum og málefnum. Henni var mjög umhugað um syni sína og þeirra fjölskyldur og síðast en ekki síst umhugað um sinn lífsförunaut. Það sýndi sig meðal annars í þeim veikindum sem Skarphéðinn gekk í gegnum árið 2003. Þar var Magga kletturinn í hafinu.

Það er með miklum trega sem ég bið almáttugan Guð um að blessa minningu Margrétar Hallgrímsdóttur. Minningin mun lifa. Skarphéðinn, Árni, Guðmundur, Halli Smári og fjölskyldur, megi góður Guð styrkja ykkur í sorginni.

Samúðarkveðjur, Birkir J. Jónsson.
-------------------------------------------------------

Við áttum yndislega helgi árgangur '45 frá Sigló í maí sl., þetta unga fólk varð 60 ára á árinu og var því fagnað á heimaslóðum. Margrét Hallgrímsdóttir eða Magga Halla var ein úr hópnum, hún hefði orðið sextug á gamlársdag. Fréttin af því hvað alvarlega veik hún var kom nú í desember, rúmri viku seinna var hún dáin. Leiðir okkar hafa víða legið saman, við höfum búið hér og starfað þessi 60 ár, vorum saman í skóla störfuðum saman í sparisjóðnum og síðast en ekki síst var þeim Skarphéðni og okkur vel til vina.

Fyrir rúmum tveimur árum átti Skarphéðinn við veikindi að stríða, þannig að hann þurfti að fara í hjartaskurð, þarna fylgdist ég með að sjálfsögðu og varð mér þá vel ljóst hvað mikil væntumþykja var þar á milli, það sá ég best af því hvað miklar áhyggjur hún hafði af Skarphéðni, hún var svo hrædd um að missa hann "Hédda sinn".

Sem betur fer hefur Skarphéðinn náð sér vel og er það ekki síst því að þakka að heima hjá Möggu lifði hann eins og á heilsuhóteli, þvílíkt stjanað hún við hann, allt tekið út sem ekki á við með hjartasjúkling. Það var alltaf augljóst hvað gott hjónabandið var, það vakti allavega oft athygli mína hvað þolinmóð hún var við hann, sama hvað hann þurfti að tala við marga og fara síðastur út af skemmtunum, alltaf beið Magga róleg eftir "Hédda sínum".

Ég vil fyrir hönd árgangs '45 frá Sigló þakka Margréti Hallgrímsdóttur samfylgdina. Við Ásdís sendum Skarphéðni, sonunum og þeirra fjölskyldum innilegar samúðarkveðjur.

Björn Jónasson.
--------------------------------------------

Fyrsta minningin sem kemur í hugann er ég hugsa um hana Möggu er að ég sé hana skælbrosandi á sínum stað í afgreiðslunni, hverju einasta sinni sem ég gekk inn í Sparisjóðinn. Og er fleiri minningar hellast yfir mig þá sé ég alltaf þetta bros. En þótt minningarnar kunni að vera margar þá er það á þessum tímum sem orðin skortir og innanbrjósts finnur maður til tómleika og vanmáttar eins og lýst er svo vel í ljóði Gilhagaskáldsins, Ljósið á kertinu lifir.

  • Á kertinu mínu ég kveiki í dag
  • við krossmarkið helgi og friðar
  • því tíminn mér virðist nú standa í stað
  • en stöðugt þó fram honum miðar.
  • Ég finn það og veit að við erum ei ein
  • að almættið vakir oss yfir,
  • því ljósið á kertinu lifir.
  • Við flöktandi logana falla nú tár,
  • það flýr enginn sorgina lengi.
  • Hún braut allar vonir, hún braut allar þrár,
  • hún brýtur þá viðkvæmu strengi,
  • er blunda í hjarta og í brjósti hvers manns.
  • Nú birtir, og friður er yfir,
  • því ljósið á kertinu lifir.
  • Sá einn þekkir gleðinnar gáska og fjör
  • sem gist hefur þjáning og pínu.
  • Sá einn getur sigrast á ótta og kvöl
  • sem eygir í hugskoti sínu,
  • að sorgina við getum virkjað til góðs,
  • í vanmætti sem er oss yfir,
  • ef ljósið á kertinu lifir.

(Kristján Stefánsson frá Gilhaga.)

Elsku Magga, starfsmenn Sparisjóðs Siglufjarðar senda þér hina hinstu kveðju, þess fullviss að þú sért í góðum höndum á nýjum stað. Aðstandendum öllum vottum við okkar dýpstu samúð á þessum erfiðu tímum.

Fyrir hönd starfsmannafélags Sparisjóðs Siglufjarðar

Daníel Pétur Daníelsson formaður.
----------------------------------------------------

Hinsta kveðja

Elsku amma, mér þykir svo vænt um þig. Þú varst svo skemmtileg amma, en þér var svo illt og þetta var svo erfitt fyrir þig og mér þykir það svo leitt.

Nú ertu engill hjá Guði.

Bless, bless, amma mín.Jakob Snær Árnason.
---------------------------------------------------------

Kæra Magga, Það var leiðinlegt að þú fórst á þessum tíma.

Það var gott að koma til ykkar. Þú vissir alltaf hvað ég mátti fá. Við vorum búin að ferðast mikið saman. Og svo var Héddi búinn að gera húsbíl, en þú fórst bara eina ferð í honum með okkur í sumar.

  • Þú varst alltaf svo góð við alla.
  • Ég mun alltaf muna eftir þér, þinn
  • Magnús Andrésson.
  • Elsku Magga, við þökkum fyrir allt.
  • Hver minning dýrmæt perla að liðnum
  • lífsins degi, hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka
  • hér. Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem
  • gleymist eigi, og gæfa var það öllum, er fengu að
  • kynnast þér.

(Ingibjörg Sigurðardóttir.) 

Við biðjum góðan Guð að styrkja fjölskylduna á þessum erfiðu stundum.

Árný, Guðmundur, Olga og fjölskyldur.
--------------------------------------------------

mbl.is - 11. janúar 2006

Margrét Stefanía Hallgrímsdóttir fæddist á Siglufirði 31. desember 1945. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Siglufjarðar 21. desember síðastliðinn og fór útför hennar fram frá Siglufjarðarkirkju 30. desember.

  • Þú átt að vernda og verja
  • þótt virðist það ekki fært
  • allt sem er hug þínum heilagt
  • og hjarta þínu kært.
  • Vonlaust getur það verið
  • þótt vörn þín sé djörf og traust.
  • En afrek í ósigrum lífsins
  • er aldrei tilgangslaust.

(Guðmundur Ingi Kristjánsson.)

Kæra vinkona, takk fyrir samfylgdina og góðan vinskap, kveðja,

Jósefína Sigurgeirsdóttir.
---------------------------------------

Kæra vinkona, ég vona að þér líði betur núna, síðustu vikur hafa verið þér erfiðar.

Elsku Magga, ég þakka þér fyrir okkar ánægjulegu samverustundir gegnum árin, bæði heima og í árlegum ferðum okkar til útlanda.

  • Ég kveð þig, hugann heillar minning blíð
  • hjartans þakkir fyrir liðna tíð
  • lifðu sæl á ljóssins friðar strönd,
  • leiðir sjálfur Drottinn þig við hönd.

(Guðrún Jóhannsdóttir.)

Kæra vinkona, hvíldu í friði. Ég votta aðstandendum mína dýpstu samúð.

Fanney Hafliða.