Margrét Hjördís Pálsdóttir

Margrét Pálsdóttir - Í dag, 5. mars, 1989 verður Margrét Hjördís Pálsdóttir sjötug.

Hún er fædd að Ölduhrygg í Svarfaðardal í Eyjafirði. 

Foreldrar hennar voru sæmdarhjónin Filippía Þorsteinsdóttir f. 16. Maí 1880, d. 14. janúar 1968) Dóttir Þorsteinn Hallgrímsson sjómaður og bóndi að Kleif í Árskógsstrandarhreppi  og Páll Hjartarson (f. 12. ágúst 1877, d. 11. janúar 1951)  bóndi að Uppsölum í Svarfaðardal Guðmundssonar.

Margrét var aðeins fjórtán ára gömul þegar hún hélt úr heimahúsum og þá til Hríseyjar til að takast á við hefðbundið brauðstrit, sem flestra ungmenna beið á þeirri tíð. Þar gekk hún til verka af þeim dugnaði sem einkennt hefur starfsferil hennar allar götur síðan. 

Og þar kynntist hún fyrst verðandi eiginmanni sínum, Birgir Runólfsson, frá Kornsá í Vatnsdal í A-Húna vatnssýslu.

Heimili og starfsvettvangur Margrétar og Birgis stóð lengst af í Siglufirði, eða í áratugi. Þar stóðu þau um langt árabil fyrir umfangsmikilli bílaútgerð, sem annaðist vöruflutninga til og frá Siglufirði á þeim árum þegar hlutur bæjarins í þjóðarbúskapnum var meiri en hann nú er.

Margrét Pálsdóttir - Ljósmynd Kristfinnur

Margrét Pálsdóttir - Ljósmynd Kristfinnur

Þau lögðu nótt við dag við að byggja upp fyrirtæki sitt, enda skilaði dugnaður þeirra og útsjónarsemi góðum árangri, ekki síst í þágu Siglufjarðar og Siglfirðinga. Það var hinsvegar ekki á hvers manns færi halda uppi vöruflutningum og landsamgöngum við "snjókistuna" Siglufjörð, meðan leiðin lá um Siglufjarðarskarð, sem teppts gat að sumri sem vetri, og vegir voru aðrir og verri en nú er.

En Birgir Runólfsson var heldur enginn veifiskati. Það var mikil eftirsjá að honum þegar hann lést langt um aldur fram, 5. maí 1970, aðeins 53 ára að aldri.

Margrét og Birgir áttu saman 8 börn, sem öll lifa, utan eitt, 

Páll Birgisson, er lést af slysförum 1969, 21 árs að aldri. Hin eru 

Alma Birgisdóttir, búsett í Reykjavík, 

Runólfur Birgisson, 

Filippus Birgisson 

Þormóður Birgisson, búsettir í Siglufirði, 

Ellý Birgisdóttir á Akureyri, 

Björn Birgisson á Ísafirði og 

Þorsteinn Birgisson á Sauðárkróki.

(Páll Birgisson og Runólfur Páll Birgisson (tvíburar))

Barnabörnin eru 27 og barnabarnabörnin 8.

Þau hjón, Margrét og Birgir, studdu Sjálfstæðisflokkinn vel og dyggilega á Siglufjarðarárum sínum. Þau léðu m.a. oftlega húsnæði undir kosningaskrifstofu - og margur kökudiskurinn og margur kaffibollinn fór um hendur Möggu Birgis, eins og hún var gjarnan kölluð, þá daga sem Siglfirðingar gengu að kjörborðinu.

Margrét Hjördís Pálsdóttir fluttist til Reykjavíkur árið 1974 en er nú búsett í Hafnarfirði. Ekki kann ég að segja sögu hennar frekar en hér er gert. Hitt þykist ég vita að Magga Birgis hafi reynst sama dugnaðar konan sunnan heiða sem norðan. Henni er í blóð borið að sinna verkum sínum af trúmennsku og alúð.

Magga Birgis dvaldi með börnum sínum að Hótel Sögu um helgi í tilefni afmælis hennar. Margur Siglfirðingurinn hugsar eflaust hlýtt til hennar á þessum tímamótum. Siglfirskir sjálfstæðismenn, heima og heiman, senda henni velfarnaðaróskir inn á áttunda áratuginn, um leið og þeir færa fram þakkir fyrir gengna tíð. 

Bestu hamingjuóskir! – Stefán Friðbjarnarson