Margrét G. Guðmundsdóttir frá Siglufirði

Margrét Guðmundsdóttir frá Siglufirði  Fædd 11. desember 1917 Dáin 2. september 1992 

Hún Magga amma er dáin. Amma og afi bjuggu lengst af á Siglufirði, en í árslok 1984 fluttu þau til Reykjavíkur. Sökum ungs aldurs kynntumst við ekki ömmu og afa að ráði fyrr en eftir að þau voru flutt að Eyjabakka 6 í Reykjavík.

Amma hafði verið á sjúkrahúsi síðan í febrúar sl. vetur. Fyrir síðustu hvítasunnu fékk amma að koma heim til afa af sjúkrahúsinu. Við vonuðum svo heitt og innilega að amma héldi áfram að hressast líkt og í júlíbyrjun þegar við heimsóttum þau og vorum hjá henni meðan afi var á sjúkrahúsi. Amma var meira að segja farin að fara með okkur í heimsóknir, hún sem kunni alltaf best við sig heima. En heilsu ömmu hrakaði aftur en alltaf bar hún sig jafn vel. Hún var flutt á Vífilsstaði þar sem hún kvaddi þennan heim 2. september sl. eftir þriggja vikna legu.

Þrátt fyrir veikindi ömmu var fregnin af andláti hennar okkur mikið áfall. Það er erfitt fyrir barnshjartað að horfast í augu við slíka fregn. Nú er enginn amma hjá afa í Eyjabakkanum til að faðma okkur, engin amma til að hlæja með okkur, engin amma sem skildi svo vel hvað litlar fálmandi barnshendur eiga til að gera. Það var ekki hávaðanum fyrir að fara hjá ömmu. Hún hafði einstakt lag á að laða hið besta fram í hverju barni.

Margrét Guðmundsdóttir (Magga Jósa)

Margrét Guðmundsdóttir (Magga Jósa)

Hógværð, trúmennska, hjartahlýja, einlægni og hlédrægni voru aðalsmerki hennar. Nú er hún amma farin þangað sem hún finnur ekki lengur til, þangað sem hún finnur Tínó, hundinn sinn sem henni þótti svo vænt um, þaðan sem hún getur áfram fylgst með okkur.

Við viljum þakka henni ömmu fyrir alla hjartahlýjuna, sem hún veitti okkur í veganesti fyrir lífið. Við munum alltaf minnast hennar með söknuði í hjarta. Megi góður Guð styrkja Jósa afa, nú þegar amma er ekki lengur hjá honum.

Helga Elísa, Margrét Silja og Ingvi Aron. 
__________________________________________________

Maki Margrétar var Jósafat Sigurðsson fiskslai með fleiru.