Oddur Oddsson eldri, Siglunesi -

Íslendingaþættir Tímans 16. Desember 1981

Oddur Oddsson Siglunesi - Fæddur 22. júlí 1894. - Dáinn 3. mars 1981. 

Fyrir miðju Norðurlands liggur Siglufjörður ásamt nágrannabyggðum, sem honum tilheyra. Sitt hvoru megin innsiglingarinnar I þessa lífhöfn Norðurstrandarinnar gnæfa við himin háreist hamrafjöll. 

Siglunesnúpur risbrattur og bringubreiður yfir lágt Siglunesið sem er austan fjarðarins og skagar til norðvesturs og myndar öldubrjót fyrir fjarðarmynnið. Að vestanverðu fjarðarins er Strákafjall, sæbratt og sundurskorið af giljum og gjám. Norðan undir Strákum er Engidalur, falleg bújörð en frekar lítið landi hennar er Sauðanes (Dalaá) með miklum vita og öðrum mannvirkjum. Inn af landi Engidals og vestar er annar dalur miklu stærri.

Sameiginlega bera þessir tveir dalir nafnið Úlfsdalir. Þeir hafa lengst af verið einangraðir af samgönguleysi, þar til að Siglufjarðarvegur hinn nýi var lagður um þá, og tengdust þeir þá aðalbyggðinni með miklum jarðgöngum í gegnum Strákafjall. 

Oddur Oddsson eldri

Oddur Oddsson eldri

Á Dalabæ í hinum vestari Úlfsdal bjó á síðustu öld Þorvaldur Sigfússon og kona hans Guðrún Þorsteinsdóttir skálds, frá Staðarhóli I Siglufirði.

Bóndi þessi var oftast nefndur „Þorvaldur ríki I Dölum".

Er hann lést um áttrætt var dánarbúið skrifað upp. Kom þá í ljós að hann átti 16 jarðir, auk annarra auðæfa. Að vísu átti hann aðeins hluta í sumum þessara jarða, en flestar að öllu leyti.

Þar á meðal voru Engidalur og Dalabær. Máná.  Í Úlfsdölum átti hann að hálfu. Þessir dalir voru hans ríki, sem hann hlaut kenningarnafn af, enda átti hann þá nær alla. 

Þessi Dalabæjarhjón voru langafi og langamma Odds Oddssonar frá Siglunesi. Afkomendur þeirra eru fjölmennir á Siglufirði og viðar. Þetta er allt hraust, sjálfstætt manndóms- og mannkostafólk, sannkallaðar hetjur hversdagslífsins. 

Oddur var fæddur á Engidal 22. júlí 1894. Þar bjuggu foreldrar hans á tímabilinu 1892-1902, en fluttu þá yfir á Siglunes, sem þau keyptu að hluta.

Foreldrar Odds voru Oddur Jóhannsson bóndi og hákarlaskipstjóri. Hann var talinn mikill dugnaðarmaður, vinsæll og vel efnum búinn, og kona hans Guðrún Ingibjörg Sigurðardóttir frá Nesi í Flókadal. Þau bjuggu rausnarbúi á Siglunesi.

Á þessu forna stórbýli var útgerð og landsbúskapur rekinn jöfnum höndum.  Eru þar góðir landkostir og hlunnindi. Stutt er á fengsæl fiskimið og lendingarskilyrði sæmileg. En það þarf mikla vinnu, árvekni og dugnað til þess að búa á slíkum stað og efnast vel. Oddur Jóhannsson var siðast skipstjóri á hákarlaskipinu „Samson" frá Siglufirði. í mannskaðaveðrinu mikla 14. maí 1922, sem kallað var krossmessugarðurinn, fórst þetta skip ásamt fjórum öðrum hákarlaskipum og með 55 menn. 

Kona Odds hafði dáið 7 árum áður eða 17. apríl 1915. Þau höfðu eignast 8 börn, en aðeins 4 þeirra komist til fullorðinsára. 

Auk þess höfðu þau alið upp önnur börn og unglinga og komið þeim einnig til manns. Um þetta leyti voru 3 systkinin ennþá í föðurgarði. Kom það nú í hlut þeirra að taka við jörð og búi.

Oddur Oddsson var elstur þeirra og varð því forsvarsmaður heimilisins. Þann 7. apríl 1925 kvæntist hann Sigurlaug Kristjánsdóttir, f. 18. febrúar 1899.
Hún er af þingeyskum ættum, en alin upp á Skagaströnd, og þaðan fluttist hún á Siglunes. Hún var mikil húsmóðir, þrifin, vandvirk og hagsýn og annaðist börn og bú af alúð og dugnaði. Oddur var glaður og hress í framkomu, hrókur alls fagnaðar í góðum félagsskap og mikið snyrtimenni. 

Árið 1926 fluttust þau hjónin til Siglufjarðarkaupstaðar. Þar byggði Oddur timburhús handa fjölskyldu sinni við Grundargötu 6. Hann stundaði smíðar sem aðalatvinnu.

Á sumrin voru smiðir og lagtækir menn eftirsóttir til vinnu sem beykjar á síldarstöðvarnar. Oddur var mikill frískleikamaður og dugnaður hans var viðurkenndur að hvaða vinnu sem hann gekk.

Árið 1937 fluttu þau hjónin aftur út á Siglunes og hófu búskap að nýju. Reisti Oddur þar ágætt steinsteypuhús. Bjuggu þau næstu 9 árin á Nesi við landbúnað og sjóróðra þar til þau fluttu aftur kaupstaðinn.

Vann hann áfram við smíðar, við nýbyggingar Síldarverksmiðju ríkisins og annars staðar. Byggði hann þá á ný annað íbúðarhús handa fjölskyldu sinni við Hvanneyrarbraut 51, af miklum myndarskap.

Árið 1952 gerðist Oddur vitavörður á Sauðanesi og var þar i 4 ár, oft einn síns liðs. Sauðanesvitinn var byggður á Engidal á árunum 1933-1934, en þá jörð átti Oddur, eins og hans langfeður áður. Þessa jörð keypti svo Vitamálasjóður litlu eftir að Oddur hætti vitavörslu og flutti þaðan árið 1956. Oddur undi því ekki að hafa litið að gera.

Þegar fór að hallast á ógæfuhlið fyrir Siglfirðingum, en síldin hvarf og atvinna brást við hana, fluttu fjöldamargir til Reykjavíkur og nágrennis, þar sem nægileg atvinna var fyrir hendi, við hina miklu uppbyggingu og útþenslu byggðanna þar.

Fjölskylda Odds var með í þessum þunga útflytjendastraumi þegar þriðjungur Siglfirðinga hvarf úr heimabyggðum sinum. Enda þótt Oddur væri þá kominn yfir sextugt, var kjarkurinn og dugnaðurinn ennþá hinn sami og fyrr. Byggði hann nú í félagi við Odd son sinn, stórt og vandað íbúðarhús við Norðurbrún 6 í Reykjavík. Smíðar voru áfram hans atvinna, bæði hjá sjálfum sér og öðrum. Þau Sigurlaug og Oddur eignuðust 4 börn:

1) Oddur Jóhannsson Oddsson, f. 24. maí 1925 maki  Ragnhildur Stefánsdóttir frá Siglufirði: 

2) Guðrún Ingibjörg Oddsdóttir, f. 8. ágúst 1928, maki Ólafur Jónsson frá Fossi i Hrútafirði:

3) Hrafnhildur Loreley Oddsdóttir, f. 22. júlí 1936, maki Ragnar Ágústsson frá Svalbarði á Vatnsnesi og 

4) Sæunn Hafdís Oddsdóttir, f. 16. desember 1940, maki Kjartan Sigurjónsson frá Rútsstöðum í Svínadal. 

Auk þess ólu þau upp dótturdóttur sína,

(5) Sigurlaug Oddný Björnsdóttir. 

Allt er þetta mikið myndar- og dugnaðarfólk eins og það á kyn til.

Þau hjón Oddur og Sigurlaug slitu samvistum fljótlega eftir að þau fluttu til Reykjavíkur. Eftir að aldurinn færðist yfir og kraftarnir fóru að þverra, hélt Oddur kyrru fyrir á heimili sinu. Lifði hann þá í skjóli og umsjá barna sinna og barnabarna sem öll eru búsett syðra, aðallega í Reykjavík. Hann var lengst af heilsugóður, en þó var heilsan farin að bila undir það síðasta.

Hann andaðist á heimili sinu þann 3. mars 1981. Mikill starfsmaður þurfti hvíldarinnar með eftir langa ævi. Siglufjarðarbyggðir voru allar taldar afskekkt útnes, allt fram á síðustu aldamót, er þessir staðir urðu miðpunktur síldveiðanna og mikilla athafna. Þó urðu breytingarnar í samgöngumálum á síðustu árum, með tilkomu nýs vegar, jarðganga og flugvallar til þess að einangrun þessara byggða varað fullu rofin. 

Lífsskilyrði eru nú allt önnur og betri en áður var, og ólík því sem var á dögum Úlfsdala-og Siglunesbænda, á öldinni sem leið og á fyrri hluta þessarar aldar. Þessi mikilúðlegu og fögru héruð hafa alið marga hrausta syni og dætur. Mun ekki ofmælt að Úlfsdalaættin hafi verið meðal styrkustu stofnanna í Siglufjarðarbyggðum, og sem breyttu og bættu búsetuskilyrðin, og með dugnaði og þrautseigju gerðu garðinn frægan. Einn af þessum ættstofni er nú kvaddur hinstu kveðju, með þakklæti fyrir drengilega samfylgd og ágætar minningar. Aðstandendum eru sendar einlægar samúðarkveðjur frá ættingjum og vinum.

 Þ. Ragnar Jónasson.
----------------------------------------------------------------

Viðtal Þ.M. í dagblaðinu Vísir við Odd 18. Október 1967 – „VIÐTAL DAGSINS“

Hann heitir Oddur Oddsson. 

Faðir hans var Oddur Jóhannsson skipstjóri — og afi hans Þorvaldur ríki í Úlfsdölum. Sá bjó á Dalabæ, var barnmargur og er ætt hans útbreidd víða.

Hann Oddur Oddsson er því ættaður og uppalinn í afskekktustu byggðum norðanlands. Þó finnst honum að æskuár sín hafi verið skemmtilegri en líf táninganna í dag.

— Viltu segja mér frá fyrstu minningum þínum í Engidal? 

— Það er nú kannski lítið að muna. Barnæskan telst nú sjaldan viðburðarík a.m.k. ekki þegar hún er liðin og rekja á þráðinn öðrum til fróðleiks eða skemmtimar. Ég man eftir því, að einu sinni var landfastur hafís. Þetta var um páskaleytið og faðir minn kominn til skips. Þá var hjá okkur vinnumaður sem Bergur hét. Hann hafði farið út á Sauðanesið og þar niður í fjöru til að athuga hvort ekki væri þar þari, svo hann gæti beitt þar ánum. Þá sér hann hvar bjarndýr situr á jaka framan við fjöruna. Hann verður mjög skelkaður, hleypur heim til bæjar. Þetta er okkur börnunum minnisstætt, því frásögn Bergs vakti hjá okkur mikinn ótta. 

— Hvað varð svo um bjarndýrið? 

— Það fréttist aldrei neitt um það. Svo kom maður sunnan af bæjum. 

— Hvað kallar þú sunnan af bæjum? 

— Þetta heita Úlfsdalir, þar voru þá tveir bæir, annar hét Dalabær en hinn Mánholt.

Þeir eru nú báðir í eyði. þegar þessi maður, sem ég áður nefndi kom voru honum sögð tíðindin.

Hann fór svo til baka suður eftir aftur. Svo var farið þaðan og suður í Siglufjörð og föður mínum þá sögð tíðindin, en hann var þar að útbúa skip sitt.

Hann lagði af stað heim daginn eftir og gekk utan við Stráka eftir ísnum, en varð einskis var.

Einhvern byssuræfil hafði hann fengið að láni, en til hennar þurfti ekki að taka. Annars var víst ekki mjög óalgengt að dýr væru að þvælast þarna í ísaárum. 

— Var ekki útræði frá Engidal? 

— Jú, það var alltaf stundaður sjór þegar fært þótti, en lending er þarna frekar erfið. 

— Eftir að þú komst á Siglunes, þá hefur sjósókn orðið aðalatvinnan? 

— Já, mest var það nú, en þó landbúnaður með. Hlunnindi voru engin, hvorki varp eða selur, svo hér var svo að segja eingöngu um þorskafla að ræða. 

— Þegar Ólafsfirðingar sóttu í ver út á Siglunes, þá hefur það  sennilega verið einnig til hákarlaveiða? 

— Já, svo mun hafa verið, en það var fyrir mitt minni, en ég man þó að á smærri bátum var farið í hákarlalegur yfir veturinn, þegar annar afli gafst ekki, það var alltaf eitthvað verið að fást við sjóverk. Og segja má að aflabrögðin væru ólík þá og nú. Þá komu göngur á vorin svo ætíð var hlaðafli, nú þekkist það varla. 

— Voru nú veiðarfærin handfæri eða lóð? 

— Ég var oftast með handfæri og fyrir kom að maður fyllti bátinn í vorgöngum. 

— Það er bezt að ég segi þér draum sem mig dreymdi einu sinni þegar við vorum við þessar árabátaveiðar. Faðir minn reri þá með okkur strákana. Mér þykir ég vera á sjó og ég sé líkkistu fram í bátnum, kolsvarta. Ég segi pabba frá þessu um morguninn. 

— Hann segir: „Já, ljótur er nú draumurinn, en við róum nú samt". 

— En þessi draumur réðist þannig, að ég setti í þriggja álna lúðu og hún var látin fram í barka, á sama stað sem ég þóttist sjá líkkistuna í draumnum, og af tilviljun sneri svarta hlið lúðunnar upp. Hvernig lízt þér svo á lífið í dag? 

— Mér lízt nú ekkert á það. Ég held þetta sé allt að komast í öngþveiti. Dýrtíðin er svo óskapleg? 

— Hver heldur þú að sé helzta orsök dýrtíðarinnar? 

— Það er nú kannski erfitt fyrir mig að svara því, en ég held að fyrir henni séu margar orsakir. Til dæmis tel ég að verzlunin eigi sinn þátt. Nú eru engar verðlagshömlur og hver getur þar farið eftir eigin geðþótta. Svo þessi félög sem verið er að stofna, þau eiga líka sinn þátt f aukinni dýrtíð. 

— Hvernig viltu skýra það? 

— Það gerir kaupið. 

— Þetta er ekki líkt neinu kaupi. Þetta eru bara ágizkanir, sumir hafa fleiri hundruð krónur á tímann. Þetta er allt yfirborgað. Þegar þú vinnur hjá öðrum, nýtur þú þá ekki líka hins háa kaups? 

— Nei, aldrei, ég kæri mig ekkert um það. 

— Neitar þú að taka við yfirborgun standi hún þér til boða? 

— Ég lít svo á að skráð kaup gjald eigi að gilda og við það eigi að miða verðlag þess sem menn þurfa að kaupa. — Heldur þú að 8 stunda vinnudagur með skráðu kaupi dugi til framfæris meðal fjölskyldu? 

— Nei, það tel ég hæpið, sérstaklega vegna dýrtíðar á húsnæði og mér er nær óskiljanlegt hvernig þeir fara að lifa, sem láta því nær allar tekjur sínar fyrir leiguhúsnæði, og mér finnst að það sé eins og þetta sé ofvaxið allra skilningi. Skýringin liggur sjálfsagt í yfir vinnu, sem hjá mörgum er meiri en dagvinnan.

— Hvers virði er manni lífið, sem fer út kl. 6 að morgni og lýkur vinnudegi kl. 12 að kveldi? 

—Það er bara vinna, eða öllu heldur þrældómur. » Finna menn fullnægju í slíkum lífsháttum?

— Já, sjálfsagt eru til menn, sem gera það. Svo má segja að flest vinna sé erfiðisminni en áður og ég tel það hér umbil víst, að ungir menn nú mundu tæpast treysta sér í jafn erfiða, vinnu og menn lögðu á sig áður, en margir vinna nú engu skemmri vinnudag.

— Hvers vegna er þessu þannig varið?

— Já, raunverulega liggur það fyrst og fremst f því að áður lifði aðeins hraustasta fólkið og óx upp til fullorðins ára. — Nú lifa allir og þá hlýtur að koma fram veilan í stofninum og þeir lélegu treysta sér ekki til átaka. Hins vegar veit ég að það eru nú til menn, sem engu síður en áður mundu duga til átakaverka, ef þeir vendust þeim.

— Vilt þú þá segja að við séum verr settir en fyrir 40 árum? 

—Það finnst mér endilega. Við höfum minni manndóm, sem mér virðist koma fram í lakari vinnubrögðum þegar á heildina er litið og mun misjafnara en þá var.

— Hvernig heldur þú þá að viðbrögð fólksins yrðu í dag ef það væri látið hoppa aftur f fortíðina, við skulum segja 50 —60 ár?

— Sjálfsagt mundi það eitthvað reyna, það gera allir, hitt veit ég ekki hversu vel við- brögð þess mundu duga. Ég skal t.d. nefna þá tíma sem ég var á Siglunesi. Þá var alltaf unnið ýmist á sjó eða landi. Það var svo á þessum útkjálkum að það var aldrei frí.

— Frídagar gefast frekar þar sem fólk sinnir annað hvort landi eða sjó. Er ekki veiðiskapur í Héðinsfirði?

— Jú, það er silungsveiði bæði f sjónum og vatninu, en sú veiði tilheyrir ekki Siglunesi, aftur var þar hrognkelsaveiði á vorin.

— Hverju spáir þú um nyrztu byggðir fyrir norðan?

— Sumt er nú þegar komið í eyði, en ég held að með þeirri aðstoð, sem nútíminn býður upp á séu engin vandræði að búa þar víðast hvar. Annars finnst mér allir þessir styrkir sem greiddir eru með framleiðslunni f dag vera allt of miklir. Ég veit vel að á sjávarjörðum er hægt að lifa án þess að fá þessa styrki. Og allar jarðir f fjörðunum þarna fyrir norðan hafa möguleika á sjávargagni.

—Hefur þér þótt gaman að lifa?

—Já, víst er gaman að lifa, ef lífið gengur stóráfallalaust.

— Hvað mundir þú segja ung um manni, sem kæmi til þín og spyrði þig ráða um það hvort hann ætti að ráðast í búskap?

—Það kostar aldrei undir milljón að setja saman bú, ég mundi samt segja honum að með því fyrirkomulagi sem nú er gæti það vel lánazt. Ég held að ungt og duglegt fólk geti alltaf bjargað sér.

— Var einhver ræktun á Siglunesi?

— Já, það voru tún og upp á síðkastið lítið heyjað annað en það, sem þau gáfu af sér. En árið 1918 var ekki slegið strá heima á Siglunesi, túnin voru dauðkalin. Þá fengum við að heyja dálítið á Máná.

— Var lífið ekki fábreytt og lítið um gleðskap á þínum uppvaxtarárum?

— Nei, nei, við spiluðum og gerðum okkur ýmislegt til gamans. Svo fundum við lífshamingju í starfinu, okkur þótti gaman að vinnunni.

— Heldur þú að það sé eins með ungt fólk nú?

— Nei, ég held það sé allt annað. Ég held að allur fjöldinn vinni vegna þess að það er nauðsyn til að geta aflað sér framfæris. Og satt sagt vildi ég ekki skipta á æsku minni eins og hún var við ungt fólk í dag. Mér þótti gaman að vera ungur þá, og mér finnst ekkert ánægjulegra að lifa við nægtir nútímans, og ég er ekki viss um að ungt fólk sé ánægðara nú en þá. Ég fann aldrei til lífsleiða, en maður verður stund um var við þá eigind í fari fólks í dag, og ekki síður þeirra sem ungir eru. — Hvernig hugsar þú í dag til átthaganna heima á Siglunesi?

— Ég vildi nú helzt hafa tæki færi til að ganga um þær slóðir einu sinni ennþá. Og ég hygg nú að Siglunes fari ekki í eyði á næstu árum.

Þ. M.   
-----------------------------------------------

Viðbót, (sk) 

Ég þekkt Odd vel, enda vann ég með honum og fleirum árin 1959 -1965 (66)

Auk kynni mín á honum og vinskap þegar hann var Vitavörður við Sauðarnes, vestan Siglufjarðar. - Hann var hörkuduglegur og traustur maður.