Ólafur Þ. Þorsteinsson, fyrrverandi yfirlæknir

Ólafur Þ. Þorsteinsson Fæddur 19. ágúst 1906 - Dáinn 21. maí 1989

Fótmál dauðans fljótt er stigið. (B.H.) Þannig varð mér hugsað, þegar ég frétti lát vinar míns, Ólafs Þ. Þorsteinssonar, fyrrv. yfirlæknis við sjúkrahúsið í Siglufirði, en hann lést 21. maí sl. þar sem hann var staddur, ásamt konu sinni, að Höllustöðum í A-Húnavatnssýslu, hjá vandamönnum sínum þar, en þangað hafði hann og þau hjónin oft farið undanfarin ár sér til hvíldar og hressingar.

Hafði Ólafur kennt lasleika nokkrum dögum áður, en gert sem minnst úr því.

þetta er gömul og ný saga, að dauðinn gerir ekki alltaf mikil boð á undan sér, en er þó jafnan alvöru efni þar sem hann knýr dyra og er gestur hverju sinni, því sjaldnast erum við viðbúin að mæta honum, þegar hann kemur, ekki síst er hann kallar frá okkur ættingja og vini, sem við höfum verið bundin sterkum böndum, og hafa verið, ef svo mætti segja, hluti af okkar eigin lífi.

Með Ólafi lækni er horfinn á braut traustur og vinsæll læknir, sem á sér langan og farsælan starfsdag að baki. Hann fæddist í Vík í Mýrdal 19. ágúst 1906 og voru foreldrar hans þau hjónin Þorsteinn Þorsteinsson, starfsmaður við Brydesverslun í Vík, síðar kaupmaður í Vík og Reykjavík, ættaður úr Mýrdal, og Helga Ólafsdóttir frá Sumarliðabæ í Holtum, var föðurætt Ólafs úr V-Skaftafellssýslau en móðurættin úr Rangárvallasýslu, af Víkingslækjarætt, sem mjög er útbreidd um Suðurland og reyndar víðar um land.

Ólafur ólst upp í Vík, en í byrjun þessarar aldar var smám saman að myndast þorp undir Víkurbökkum sem varð er tímar liðu samgöngu og verslunarmiðstöð V-Skaftafellssýslau. Það var gott að alast upp á þessum stað í skjóli fjallanna, með Reynisfjall til vesturs og Reynisdranga sem risa á verði við hina brimasömu úthafsströnd, en Arnarstakksheiði og Hjörleifshöfða til austurs og úthafið til suðurs, svo langt sem augað eygði.

Ekki verður því neitað að oft var brimasamt við ströndina, og brimaldan hafði það til að læðast upp að húsum þorpsbúa á dimmum vetrarnóttum og bakaði þeim erfiðleika, en hinu má ekki gleyma, að úthafið átti líka sína fegurð og töfra, þegar sjórinn var sléttur og sólargeislarnir dönsuðu á léttum bárum, og fuglarnir syntu glaðir við ströndina, áður en þeir settust að í hömrunum.

Ólafur Þ Þorsteinsson læknir og kona hans Kristine Glatved-Prahl (Kritine Þorsteinsson) 
á skíðum í Skarðdal í Siglufirði

Ólafur Þ Þorsteinsson læknir og kona hans Kristine Glatved-Prahl (Kritine Þorsteinsson)
á skíðum í Skarðdal í Siglufirði

Við sem eigum okkar æskuminningar á þessum stað minnumst ótrúlega margra gleðistunda frá þessu fagra og rómantíska umhverfi, sem í fljótu bragði virtist fábreytt og einangrað. Skaftafellssýslain hefur stundum þótt nokkuð ströng í aga sínum við börn sín, en þetta uppeldi hefur þó átt sinn þátt í því að móta líf þeirra, sem þarna ólust upp og síðar áttu eftir að bera hita og þunga dagsins í margvíslegum störfum hins fulltíða fólks.

Ólafur hlaut undirbúningsmenntun sína í Vík og gekk síðan í Menntaskóla Reykjavíkur og lauk þaðan stúdentsprófi 1926 og kandidatsprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands 1932. Síðan stundaði hann framhaldsnám í handlækningum bæði í Noregi og Danmörku, en þaðan lá leiðin til Vínarborgar, sem þá þótti einna ákjósanlegasti staður fyrir þá, sem hugðu á framhaldsnám í handlækningum. Stundaði hann þar nám í Chirurgische Universitets Klinik, var þetta á árunum 1932-1936.

Eftir heimkomuna gerðist Ólafur aðstoðarlæknir við handlækningadeild Landspítalans frá 1936-41, en stundaði jafnframt lækningar í Reykjavík. 

Síðan 1942 gegndi hann yfirlæknisstörfum við Sjúkrahús Siglufjarðar, þar til hann lét af því starfi fyrir aldurs sakir 1976. Eftir það hafði hann lengst af opna lækningastofu í Siglufirði. 

Áður en hann fór til framhaldsnáms var hann um eins árs skeið staðgengill héraðslæknisins í Ólafsfirði og um tíma annaðist hann læknisþjónustu fyrir héraðslækninn í Borgarnesi. Á læknisferli sínum fór hann nokkrum sinnum til útlanda, til þess að kynna sér nýjungar í fræðigrein sinni og taka þátt í læknaþingum.

Í rúm 45 ár hafði Ólafur gegnt læknisstörfum í Siglufirði við góðan orðstír, oft við mikið starfsálag, ekki síst á þeim árum, er síldveiðarnar voru í mestum blóma. Það var mikið happ fyrir Siglfirðinga, að hafa fengið að njóta læknisþjónustu hans svolengi, enda máttu þeir ekki til þess hugsa, að hann flytti úr bænum, þótt hann væri hættur föstum læknisstörfum.

Þegar Ólafur kom til Siglufjarðar var þar fyrir lítið sjúkrahús, sem var þegar orðið of lítið, fyrir þá þjónustu, sem því var ætlað í vaxandi bæ og var því ráðist í byggingu nýs sjúkrahúss, sem var bæði stærra og búið þeim tækjum, sem nýtísku sjúkrahús þurfti að hafa. Stóð Ólafur fyrir þeirri byggingu í samvinnu við sjúkrahúsnefnd staðarins.

Komst hið nýja sjúkrahús uppá furðu skömmum tíma og fullnægði kröfum tímans, svo að þar var hægt að gera flestar þær að gerðir, sem gerðar voru á sjúkrahúsum hérlendis, og þurfti því sjaldan að senda sjúklinga burtu til læknisaðgerða, til mikils hagræðis fyrir byggðarlagið. Auk þess var á sjúkrahúsinu ellideild fyrir gamalt fólk og lasburða, sem þurfti stöðugt að vera undir læknishendi og ekki gat verið lengur á heimilum sínum.

Var því vel séð fyrir læknisþjónustu í Siglufirði, og hafði Ólafur oft unga lækna sér til aðstoðar, þótt vandasömustu læknisstörfin hvíldu eðlilega á herðum yfirlæknisins. Hann naut líka verðskuldaðs trausts í störfum sínum, enda sýndu Siglfirðingar honum þakklæti sitt með því að gera hann að heiðursborgara sínum um leið og hann hætti störfum á sjúkrahúsinu og bæjarbúar héldu áfram að leita til hans á lækningastofu hans.

Þótt Ólafur helgaði sig læknisstarfinu fyrst og fremst og rækti það af árvekni og trúmennsku, þá naut hann einnig mikilla vinsælda sem félagsmaður og almennur samborgari, hvar sem hann kom viðsögu. Hann var lengi formaður Rauðakrossdeildar Siglufjarðar, starfaði lengi í Norræna félaginu og Rotaryklúbbnum. Hann hafði yndi af útilífi, var góður skíðamaður og stundaði laxveiðar á sumrum og var hinn skemmtilegasti í vinahópi. Hann var fremur dulur að eðlisfari og sjaldan mjög margmáll en hlýr og viðtalsgóður við sjúklinga sína. Hann var ekki mikið fyrir ræðuhöld, en gat verið fyndinn og skemmtilegur ræðumaður í samkvæmum, þegar hann vildi svo viðhafa. Hann gat verið glettinn í tilsvörum og stundum smástríðinn, eins og sumir frændur hans, og lífhans allt mótaðist af festu og tryggð.

Ólafur kvæntist 26. júlí 1935 Kristine Glatved-Prahl (Kritine Þorsteonsson) frá Alver sund við Bergen og lifir hún mannsinn. Börn þeirra voru tvö:

1) Helga Ólafsdóttir, var húsfreyja á Höllustöðum í A-Hún. (lést árið 1988), maki Páll Pétursson, alþingismaður,

2) Hákon Ólafsson, verkfræðingur, maki Sigríður Ragna Sigurðardóttir, Ólafssonar fv. alþingismanns á Selfossi.

Frú Kristín hefur samið sig mjög að háttum Íslendinga, lært íslensku og stutt mann sinn vel í starfi hans. Með sinni glöðu, alúðlegu og hlýju framkomu hefur hún verið hvers manns hugljúfi og fyrir löngu unnið hug allra Siglfirðinga, og allra sem hún hefur kynnst og átt mjög mikinn þátt í þeim vinsældum, sem Ólafur hefur notið öll þessi ár.
Þá hefur frú Kristín unnið mikið fyrir sjúkrahúsið og kirkjuna, svo að þess mun lengi minnst verða. Þessi merku hjón hafa síðustu áratugina sett mjög svip sinn á Siglufjörð, og þegar Ólafur hefur nú kvatt, beinist til þeirra einlægur þakklætis hugur fyrir hið merkilega ævistarf þeirra.

Þegar ég nú með þessum fátæklegu orðum minnist þessa æskuvinar míns, minnist ég bjartra æskudaga austur í Vík í Mýrdal. Við fylgdumst að í skóla og leiðir okkar lágu aftur saman í nokkur ár norður í Siglufirði og vináttuböndin hafa jafnan verið traust milli fjölskyldna okkar. Lögmálum lífs og dauða ráðum við ekki, en það er gott að geta kvatt lífið sáttur við Guð og menn, umvafinn þakklæti og vinarhug samferðafólksins á lífsleiðinni. Þá reynslu má fela í þessu erindi Hávamála:

Deyr fé, deyja frændur,
deyr sjálfur ið sama;
en orðstír
deyr aldregi,
hveim er sér góðan getur.

Við hjónin sendum þér, frú Kristín, og ástvinum þínum innilegustu samúðarkveðjur frá okkur og fjölskyldum okkar. Felum Drottins föðurhönd harma vora og hjartaþunga, hann á sjálfur gamla og unga frjáls að leysa líkamsbönd. 

(J.H.) Óskar J. Þorláksson