Ólína Bergsveinsdóttir

Ólína Bergsveinsdóttir, Siglufirði Fædd 30. júlí 1907 - Dáin 24. október 1987  -

Ólína Bergsveinsdóttir var kvödd hinstu kveðju í Siglufjarðarkirkju laugardaginn 24. október sl. Þótti öllum viðstöddum við þá athöfn veðurblíðan og hin norðlenska stilla hæfa henni vel síðasta spölinn. 

Lína, eins og ég jafnan kallaði hana, var fædd 30. júlí 1907 á Litlu Eyri við Bíldudal.

Ólína Bergsveinsdóttir var elst þriggja barna hjónanna Ingveldur Benónýsdóttir og Bergsveinn Árnason, járnsmiður frá Sauðeyjum á Breiðafirði. 

Næstur henni var bróðirinn

Viggó Bergsveinsson, sem bú settur er í Reykjavík, yngst var systir hennar

Björg Bergsveinsdóttir, sem andaðist 1958. Einnig ólst hún upp að hluta til með þeim 

Ólína Bergsveinsdóttir - Ljósmynd: Kristfinnur

Ólína Bergsveinsdóttir - Ljósmynd: Kristfinnur

Gunnar Klængsson, kennari í Reykjavík, nú látinn. Var hann henni afar kær, enda kallaði hún hann ávallt Gunnar bróður.

Ég undirrituð minnist þess þegar hún rifjaði upp fyrir okkur uppvaxtarárin á Ísafirði, en þar ólst hún uppá miklu myndarheimili, sem Ingveldur og Bergsveinn reistu sér í Fjarðar strætinu. Var á henni að skilja að hún hafi verið mjög hænd að föður sínum og þótti oft gaman að snúast í kringum hann í smiðjunni, en hann rak vélsmiðju í Fjarðarstrætinu til margra ára, rómaður athafnamaður sinnar samtíðar á Ísafirði.

Í Bergsveinshúsi, en það var hús þeirra jafnan nefnt, dvaldi hún svo unglingsárin og hlaut almenna menntun og auk þess fór hún í Húsmæðraskólann Ósk.

Árið 1933 kynntist hún svo ungum manni frá Siglufirði, sem þá sótti sjóinn frá Ísafirði. Með þeim tókst strax mikill kærleikur.
Þessi ungi maður var Sigurður Sveinsson og þau giftu sig 1935. 

Strax kom fram dugnaður þeirra og myndarskapur. 

Þau reistu sér myndarlegt hús ásamt Rögnvaldur Sveinsson, bróður Sigurðar, á Suðurgötu 51 á Siglufirði. Þetta þótti reisulegt hús í þá daga. Í þessu húsi bjó Lína öll árin sem hún bjó á Siglufirði.

Lína hafði vanist því í uppvextinum að hafa mikinn fjölda í kringum sig og þetta endurtók sig á Siglufirði því fljótlega varð jafn gestkvæmt á Suðurgötu 51 og verið hafði í Bergsveinshúsi forðum. Nú tók við mikill athafnatími í lífi hennar. Einsog þá var þótti sjálfsagt að allir væru í síldarvinnu.

Sigurður Sveinsson gerðist fljótt athafnasamur í þeirri grein, lengst af var hann verkstjóri við síldarsöltun á sumrin og í frystihúsum á veturna. Síðustu árin rak hann síldarsöltunarstöð Óli Ragnarsson í samvinnu við Daníel Þórhallsson. 

Lína sagði mér oft hve gaman hefði verið á þeim árum, sem mest hefði verið að snúast í síldinni. Þá þótti ekkert tiltökumál að flytja búferlum með alla fjölskylduna úr húsinu á Suðurgötunni í braggapláss sem var á söltunarstöðinni. Þá gat Sigurður verið úti á plani mestallan sólarhringinn og Lína sá um matseldina og að jafnaði voru 6-8 aðkomumenn af söltunarstöðinni í fæði og þjónustu hjá henni.

Þá fannst henni gott að vera í nánum tengslum við söltunarstúlkurnar sem dvöldu einnig í bragganum því oft voru það gamlar vinkonur frá Ísafirði sem komu til Siglufjarðar til að afla tekna eins og þá var algengt.

Árið 1940 lést faðir hennar á Ísafirði og þá var það sem móðir hennar og móðursystir, Valgerður Jóna, sem alltaf dvaldist á heimili Ingveldar, fluttust til Siglufjarðar, ásamt elsta syni Bjargar, Halldór. Þau þrjú fengu öll inni hjá Línu á Suðurgötunni í lítilli íbúð sem er í kjallara hússins.

Oft hef ég heyrt um það rætt hve gott samband var á milli allra í húsinu.

Með mjög skjótum hætti varð breyting á högum Línu, þegar óveðursdag í desember árið 1949

Sigurður Sveinsson lést af slysförum. Ástkær eiginmaður tekinn frá henni svo snöggt og hún stóð ein uppi með fjögur börn, en þau eru: 

Lillý Jóna Sigurðardóttir, maki Helmunt Horner, þau búa í Bandaríkjunum og eiga einn son;

Gunnhildur Sigurðardóttir, maki Kristinn Jónsson, búsett í Hafnarfirði, þau eiga tvær dætur;

Nanna Björg Sigurðardóttir, maki Garðar Jóhannsson, búsett á Ásmundarstöðum í Rangárvallasýslu og eiga þrjú börn; og einnig fóstursonurinn:

Bergsveinn Sigurðsson, giftur undirritaðri (Rut Jónsdóttir), búsett í Hafnarfirði, þau eigum fimm börn.

Nú reyndi á Línu og mér hefur verið tjáð og einnig minnist ég þess sem unglingur á Siglufirði hvernig hún vann myrkranna á milli. Á daginn vann hún lengst af á netaverkstæði en á kvöldin og um helgar vann hún við veislu undirbúning og kökubakstur fyrir einstaklinga og félagasamtök og einnig vann hún mikið á hótelinu, þess minnist ég sem unglingur er ég vann með henni á Hótel Hvanneyri og naut tilsagnar hennar.

Af frábærum dugnaði barðist hún við tilveruna og reyndi þá á samheldnina í fjölskyldunni. Móðir hennar og móðursystir reyndust henni mikil stoð við allt heimilishald og uppeldi barnanna, sem ávallt minnast systranna með hlýhug.

Undirrituð kom fyrst inn á þetta heimili 18 ára gömul og kynntist ég af eigin raun samheldni allra. Lína var alla tíð vinamörg, öllum þótti vænt um hana, hún var ein af þeim sem ekki gat sagt nei. Þegar börnin fóru að tínast í burtu og heldur fór að hægjast um hjá henni réð hún sig sem hótelstýru á Kirkjubæjarklaustri og kunnugir segja mér að þar hafi hún stjórnað öllu af miklum myndarskap. Þar starfaði hún allmörg sumur og enn bættist í vinahópinn.

Árið 1962 flutti Lína ásamt móður sinni og móðursystur hingað til Hafnarfjarðar og áttu þær systur athvarf hjá henni þar til þær létust. Lína keypti sér vinalega íbúð á Hverfisgötu 17, þar sem hún bjó til dauðadags. Um þetta leyti var Lína beðin að taka að sér mötuneyti ríkisstarfsmanna í Borgartúni 7 í Reykjavík og þar starfaði hún í 13 ár.

Á þessum árum var mikið að gera hjá henni, nú gat hún heimsótt og haldið vinskap við alla gömlu kunningjana sem voru fluttir hingað suður, bæði frá Ísafirði og Siglufirði, og einnig var hún alltaf í góðu sambandi við öll börn sín, barnabörn og barnabarnabörn. Mér eru minnisstæð öll jólaboðin á jóladag þar sem öll fjölskyldan hittist og við munum öll eiga eftir að sakna þeirra. Ég held að ég þekki ekki frændræknari manneskju en Línu, hún varð að vera í reglubundnu sambandi helst við öll skyldmenni og var dugleg að bjóða heim vinum, kunningjum, frændfólki og ættingjum.

Lína starfaði af áhuga að félagsmálum og má þar nefna slysavarna félög og kvenfélög, bæði á Siglufirði og í Hafnarfirði. Lína hafði mjög gaman af öllum ferðalögum og gaman var að heyra hana segja frá ferðum sínum vestur til Bandaríkjanna til að heimsækja elstu dóttur sína. Þar búa einnig tveir systursynir hennar, þeir Halldór og Sigurður, sem sakna Línu frænku, því hún var þeim og fjölskyldum þeirra alltaf svo kær.

Að lokum vil ég kveðja ástkæra tengdamóður mína og þakka henni allt sem hún hefur fyrir mig gert.

Blessuð sé minning hennar.

Ruth Jónsdóttir