Óskar Berg Elefsen vélsmiður / verkstjóri

Óskar Berg Elefsen fæddist á Siglufirði 10. desember 1956. Hann lést á gjörgæsludeild Landspítalans við Hringbraut 23. febrúar 2010.

Óskar Berg var sonur hjónanna Sigurður Guðberg Elefsen verkstæðisformanns og Ingibjörg Thorarensen húsmóður. 

Systkini Óskars Bergs eru 

Sverrir Óttarr Elefsen, f. 1950,

Emelía Laufey Elefsen, f. 1953 og

Elvar Örn Elefsen, f. 1958.

Eftirlifandi eiginkona hans er Helga Óladóttir, f. 15. maí 1955. Dætur þeirra eru,

Óskar Berg Elefsen

Óskar Berg Elefsen

Anita Elefsen f. 26. desember 1987, maki Jón Karl Ágústsson og

Sigríður Elefsen, f. 18. október 1989. 

Dætur Helgu af fyrra hjónabandi og fósturdætur Óskars eru

Dagný Finnsdóttir, f. 6. september 1978, dóttir hennar er

Sylvía Ósk Halldórsdóttir og

Sandra Finnsdóttir, f. 9. janúar 1983, maki Hjalti Gunnarsson, dóttir þeirra er

Tinna. 

Börn Óskars af fyrra hjónabandi eru 

Hjörtur Elefsen, f. 30. maí 1977, maki Dagný Huld Gunnarsdóttir, dætur þeirra eru;

Bjarney Lind og

Emelía Björk,

Brynjar, f. 18. október 1979, maki Birta Sif Melsteð og

Íris Ósk, f. 16. júní 1985, sonur hennar er

Sigurður Snær Ingason.

Óskar Berg lauk gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskólanum á Siglufirði 1973, stundaði nám við Iðnskólann á Siglufirði, lauk vélstjóranámi, fór í kjölfarið á samning hjá SR Vélaverkstæði og öðlaðist meistararéttindi í vélvirkjun eftir nám í þeirri grein.

Frá unga aldri starfaði Óskar Berg við Vélaverkstæði SR og tók við verkstæðisformennsku af föður sínum árið 1991 skömmu eftir lát hans. Óskar Berg var einn af stofnendum SR-Vélaverkstæðis þegar það var gert að hlutafélagi árið 2003. Þess má geta að á síðari árum færði SR-Vélaverkstæði út kvíarnar með verslunarrekstri og annarri starfsemi og átti Óskar alla tíð stóran hlut í stjórn fyrirtækisins.

Óskar Berg var mjög söngelskur og lét tónlistarmál á Siglufirði til sín taka. Hann var einn af stofnendum Karlakórs Siglufjarðar árið 1999 og var alla tíð í stjórn kórsins. Þá var hann einn af söngvurum ÓB-kvartettsins. Óskar Berg stundaði um langt skeið skotveiði í frístundum sínum. Á síðustu árum fór áhugi hans á útivist mjög vaxandi og kleif hann öll helstu fjöll Siglufjarðar auk þess að fara marga þekkta fjallvegi á utanverðum Tröllaskaga.

Fátt vissi Óskar betra en að standa við eldavélina og reiða fram góðan mat, hann var mikill matmaður og hikaði ekki við að láta hugmyndaflugið ráða í eldamennskunni. Honum leið best í faðmi fjölskyldunnar og sló gjarnan upp veislu fyrir sína nánustu að tilefnislausu.

Útför Óskars fór fram frá Siglufjarðarkirkju, laugardaginn 6. mars, kl. 14.
-------------------------------------------

Elsku elsku pabbi minn. það er svo sárt að segja bless. Engin orð fá því lýst hvernig mér líður í hjartanu mínu, þú varst svo miklu meira en bara pabbi minn. Þú varst besti vinur minn, kletturinn minn. Í hreinskilni sagt þá veit ég ekki hvernig ég á að takast við lífið án þín hér. Þú ert höndin sem leiðir mig í gegnum myrkrið, hver hjartsláttur er minning um það hver ég er og hvaðan ég kom.

Ég er svo stolt af því að geta kallað mig dóttur þína. Þú kenndir mér svo margt hvort svo sem það var hvernig ég átti að reima skóna mína eða hvernig ég átti að gera við frystikistuna heima í Norðurtúninu. Þú hefur alltaf haft svo mikla trú á mér, jafnvel þegar mér leið eins og engum öðrum. „Pabbi elskar þig.“ „Pabbi veit að þú getur þetta.“ Orð sem þessi eiga eftir að vera drifkraftur minn í gegnum þessa erfiðu tíma. Þú ert svo mikil hetja, pabbi. Ég er svo þakklát fyrir það að eiga þig.

Tilvist þinni á þessari jörð er lokið, en ég efast ekki brot úr sekúndu um að þú ert enn hér hjá mér, þú munt alltaf standa við hliðina á mér og gefa mér styrk. Þú myndir aldrei taka neitt annað í mál en að fá að fylgjast með mér og leiða mig í rétta átt, því þú hefur aldrei vikið frá mér.

Þegar ég slasaði mig í sumar og þurfti að vera á sjúkrahúsi varst þú líka veikur en þú sast við rúmið hjá mér, hélst í höndina á mér og grést heila nótt. Þú hefðir gefið allt til að taka burtu sársaukann sem ég fann. Þú gerðir alltaf allt sem þú gast fyrir litlu pabbastelpuna þína.

Við áttum svo sérstakt samband ég og þú. Þú kenndir mér að smíða og tálga þegar ég var lítil, þú keyptir frekar handa mér hamar heldur en dúkku. Þú kenndir mér að finna og gera við naglagöt í dekkjum og fórst svo alltaf með mig og keyptir handa mér prins póló í verðlaun. Þú leyfðir mér alltaf að vera ég og fyrir það er ég svo þakklát.

En núna ert þú farinn á vit nýrra ævintýra á einhverjum fallegum stað með fólki sem þú elskar og hefur saknað og ég trúi því, pabbi minn, að þér líði vel í hjartanu þínu þar sem þú ert núna. Ég á eftir að sakna þín svo sárt, elsku pabbi, svo, svo sárt en við verðum alltaf saman ég og þú. – Mitt hjarta, þitt hjarta, eitt hjarta. – Love You.

Sigríður.