Tengt Siglufirði
Páll Gíslason, útgerðarmaður og saltfiskverkandi á Siglufirði, fæddist á Siglufirði 3. september 1929. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Siglufjarðar 18. mars 2014.
Páll var ættleiddur. Kynforeldrar: Stefán Erlendsson og k.h. María Þórðardóttir.
Kjörforeldrar: Gísli Jónsson, verkstjóri á Siglufirði, f. 8. desember 1899 á Karlsá í Svarfaðardal, d. 15. október 1974, og k.h., Ólöf Kristinsdóttir, f. 24. september 1902 á Siglufirði. d. 24.5. 1996 --
Útför Páls fór fram í kyrrþey að ósk hins látna 28. mars 2014.
Páli Gíslason giftist Katrín Guðmundsdóttir 28.6. 1952, Börn Katrínar og Páls eru:
1) Ólöf Pálsdóttir, bankastarfsmaður, f. 6.1. 1952, unnusti Ari Már Þorkelsson, f. 16.1. 1948.Börn Ólafar frá fyrra hjónabandi eru:
a) Erla Björk, f. 1970, hún á tvö börn,
b) Gísli Páll, f. 1973, giftur Hrefna Valdimarsdóttir, þau eiga þrjú börn,
3) Rúnar Þór Pálsson, f. 1984, unnusta hans er Harpa. Ari Már á tvö börn frá fyrra hjónabandi.
2) Guðmundur Pálsson, framkvæmdastjóri, f. 21.5. 1957.
3) Jóhanna Pálsdóttir, skurðhjúkrunarfræðingur, f. 21.5. 1957, maki Þorsteinn Haraldsson, byggingafræðingur og kennari, f. 19.4. 1952. Börn þeirra eru:
a) Katrín Ósk Þorsteinsdóttir, f. 18.5. 1991, og
b) Kristín Björg Þorsteinsdóttir, f. 31.12. 1995.
4) Ágústa Pálsdóttir, sjúkraliði, f. 4.2. 1962, maki Böðvar Eggertsson vélfræðingur, f. 20.9. 1960. Ágústa á einn son,
Pál, f. 16.7. 1984, og Böðvar á þrjá syni.
Toyota á Siglufjarðarnúmerum rennir í hlað á æskuheimili okkar, út stígur vörpulegur, snaggaralegur maður. Palli Gísla, aldavinur foreldra okkar, er kominn í heimsókn og heimili okkar breytist frá hvunndagsgráma til veisluljóma, eins og fingrum væri smellt. Palli var oft einn á ferð í viðskiptaerindum í höfuðborginni en þó kom Kata stundum með og af og til krakkarnir.
Hvort sem hann var einsamall eður ei var undantekningarlaust kátt í höllinni þegar hann kom. Það er hverju barni hollt að upplifa óbrigðula, fölskvalausa vináttu fullorðna fólksins og upplifa þau gæði sem slík vinátta getur af sér. Palli Gísla var einstakur, glaðvær maður, sem kom fram við okkur krakkana sem við værum fullorðið fólk. Þegar við stálpuðumst og búin að krækja okkur í ökuskírteini fengum við ekki bara að taka í drossíurnar hans Palla, heldur vorum við ráðin sem einkabílstjórar meðan hann var í bænum. Það þarf vart að taka það fram hversu vinsælt það var.
Þegar við ferðuðumst á Siglufjörð, stundum fimm í Voffanum hans pabba, var fyrsti áningarstaður iðulega hjá Palla og Kötu. Palli átti það til að koma til dyranna sveittur og svuntuklæddur á kafi í sandkökubakstri í tilefni komu gestanna. Hann var sami höfðingi heim að sækja á Siglufjörð og er hann var gestur í borginni, örlátur, glaðlyndur og hlýr maður í alla staði.
Það er erfitt að sjá á
eftir slíkri perlu eftir að hafa þekkt hann alla ævi. Þótt samskiptin hafi minnkað á seinni árum og þá sérstaklega eftir fráfall foreldra okkar vaknaði alltaf gamli góði
gagnkvæmi hlýhugurinn þá sjaldan við hittumst. Það var honum erfitt að sjá á eftir vinum sínum yfir móðuna miklu, hvað þá Kötu sinni, sem hann elskaði svo
heitt. Það er því með þakklæti í huga sem við kveðjum þetta einstaka tryggðatröll sem nú er á leiðinni til að hitta það fólk sem hann unni svo heitt.............................
Helga, Björg, Barði og Guðrún Margrét, Valdimarsbörn og fjölskyldur.