Pétur Ólafur Magnússon (sterki)

Pétur Magnússon var fæddur á Ísafirði 19. apríl 1920. Hann lést á Sjúkrahúsi Reykjavíkur 15. maí 1997.

Foreldrar hans voru hjónin Magnús Vagnsson skipstjóri, síðar síldarmatsstjóri ríkisins, f. á Leiru í Grunnavíkurhreppi 3. maí 1890, d. á Siglufirði 12. febr. 1951, og k. h. Valgerður Ólafsdóttir, f. í Rvík 19. des. 1899, d. 5. mars 1978.

Pétur Magnússon var næstelstur sjö systkina, en þau voru

Bragi Magnússon lögregluþjónn og síðar gjaldkeri á Siglufirði, f. 1917, sonur Magnúsar og Jóhanna Jónsdóttir;

Pétur Magnússon, sem hér er kvaddur f. 1920, lengst til heimilis á Siglufirði en síðast búsettur í Grindavík;

Hólmfríður Magnúsdóttir, f. 1922, lengst búsett á Siglufirði en síðustu árin á Akranesi, maki Benedikt Sigurðsson kennari.

Pétur Magnússon

Pétur Magnússon

Sigríður Magnúsdóttir, f. 1925, d. sama ár;

Vigdís Magnúsdóttir, f. 1927, búsett í Grindavík,

Magnús Magnússon, f. 1930, d. 1946, og

Guðrún Magnúsdóttir, f. 1937, d. 1990, bjó alla ævi á Siglufirði, maki Ernst Kobbelt

Tormóna Ebenesersdóttir, móðir Magnúsar og fóstra Braga sonar hans, dvaldist alltaf á heimilinu þar til hún andaðist 1946.

Pétur var ókvæntur og barnlaus.
------------------------------------------------

Pétur Ólafur Magnússon

Pétur Ólafur Magnússon Í hópi systkina, foreldra og ömmu ólst Pétur upp á Ísafirði, í Reykjavík, á Akureyri og á Siglufirði, en þangað fluttist fjölskyldan 1934.

Hann naut alla ævi sambýlis eða nábýlis við vandamenn sína; var heimilisfastur á Siglufirði hjá móður sinni fram á áttunda áratuginn, jafnvel þó hann væri mestan hluta ársins í vinnu annars staðar, oftast í Grindavík en þar var hann alltaf að meira eða minna leyti í heimili hjá Vigdísi systur sinni og manni hennar Ingólfi Karlssyni, og bjó alveg hjá þeim, eftir að þau byggðu einbýlishús um 1960.

Eftir fráfall Ingólfs 1982 bjó hann áfram hjá Vigdísi allt til æviloka, og er ekki ofsagt að hann hafi átt henni og Ingólfi mest að þakka næst foreldrum sínum. Hann kom þó til Siglufjarðar og dvaldist þar hjá vandafólki í fríum sínum á sumrin. Ekki ganga allir jafn vel búnir til lífsbaráttunnar. Þegar í bernsku kom í ljós að Pétur hafði ekki á öllum sviðum þroska til jafns við önnur börn á sama reki, svo sem málþroska og viðbragðshæfni. Þá sannaðist sem oftar hve miklu gott uppeldi og umhyggja geta komið til leiðar. Þrátt fyrir hömlunina tókst honum með hjálp fjölskyldunnar, einkum móður sinnar, að læra nauðsynlegustu undirstöðugreinar almennrar þekkingar, svo sem lestur og skrift.

Mestu máli hefur þó líklega skipt að hann fékk á heimilinu uppeldi sem hæfði vel meðfæddum mannkostum hans; hann reyndist alla ævi gegnvandaður maður til orðs og æðis, kurteis og sanngjarn, og hreinlátur og snyrtilegur í háttum. Hinsvegar undi hann illa samneyti við þá sem honum þótti ekki gæta réttra mannasiða, eða sýndu af sér frekju og jarðvöðulshátt í umgengni.

Hann var alla ævi hófsmaður, þótti að vísu gott að bragða vín, en sóttist ekki eftir því og neytti ekki tóbaks. Skemmtanir sótti hann aldrei að ráði, nema hvað honum þótti mjög gaman að horfa á kvikmyndir, fór oft í kvikmyndahús, einkum á yngri árum, og horfði á sjónvarp. Í líkamlegu tilliti náði hann fullum þroska, varð stór og sterkur og þótti betra en ekki að njóta sannmælis fyrir atgervi sitt í aflraunum, til dæmis að lyfta þungum hlutum eða hringbeygja fjögra eða fimm tomma nagla með fingrunum. Pétur tók bílpróf milli tvítugs og þrítugs og næstu ár ók hann oft bíl sem Síldarmatið átti og faðir hans hafði til afnota. Var það ein besta skemmtun hans. Bíllinn fylgdi embættinu eftir fráfall Magnúsar.

Þar sem Pétur var aldrei tekjuhár og hafði ekki fjárráð nema til brýnna nauðsynja hafði hann ekki efni á að kaupa sér bifreið. Það var honum því nánast eins og himnasending þegar hann vann góðan fólksbíl í happdrætti á sjötta áratugnum Eftir það átti hann alltaf bíl. Hann hirti bíla sína vel og hafði af þeim mikla ánægju. Ekki töldu allir hann mikinn ökugarp enda ók hann yfirleitt hægt og rasaði hann ekki að neinu í umferðinni.

Samt vegnaði honum betur á vegum landsins en mörgum snillingnum, því í þau 40 ár eða svo sem hann ók bíl varð honum ekki á eitt einasta alvarlegt umferðaróhapp. Það kom að vísu fyrir að bílar hans urðu fyrir minni háttar skemmdum, en þá áttu aðrir hlut að máli í flest eða öll skiptin. Þrátt fyrir það að Pétur gekk ekki jafnheill til lífsglímunnar og flestir aðrir hafði hann til að bera verðleika sem ollu því að vandamönnum hans þótti betra en ekki að geta verið honum að liði, og hann eignaðist enga óvildarmenn en marga vini og góðkunningja.

Móður sinni reyndist hann afburða vel eftir að hún varð ekkja; var í reynd fyrirvinna heimilis hennar um árabil og stóð undir kostnaði af húsi sem foreldrar hans byggðu og fluttu í tveim árum áður en Magnús lést. Hann var fjölskyldu- og frændrækinn, barngóður og vinsæll af börnum og barnabörnum systkina sinna, og kunni ýmislegt til að skemmta þeim. Hann tróð aldrei neinum um tær, var háttvís og tillitssamur í umgengni, laus við tilætlunarsemi og mat að verðleikum það sem honum var gert til þægðar.

Pétur vann venjulega verkamannavinnu alla starfsævi sína, fram að sjötugu, var m. a. í vegavinnu við lagningu vegarins yfir Siglufjarðarskarð, á söltunarstöðvum og í síldarverksmiðjum á Siglufirði og í byggingavinnu. Þegar atvinna dróst saman á Siglufirði um miðja öldina fór hann eins og áður er nefnt að sækja vinnu til Suðvesturlands, fyrst aðallega á veturna en síðan allt árið.

Hann vann m.a. á Keflavíkurflugvelli, en einna lengst mun hann hafa unnið í fiskimjölsverksmiðjunni í Grindavík. Þó ævistarf Péturs væri lágt launuð erfiðisvinna og hann kæmist ekki til mannvirðinga var hann á margan hátt farsæll í lífinu og naut velvildar þeirra sem kynntust honum. Hann er því kvaddur með þeirri virðingu sem hverjum góðum manni ber að leiðarlokum og þökk vina sinna og kunningja fyrir samfylgdina.

Benedikt Sigurðsson.