Pétur Þorsteinsson, hafnarstjóri í Siglufirði

Pétur Þorsteinsson,  f. 24. febr. 1915 Hann lézt að heimili sínu, Laugarvegi 12 þar í bæ, hinn 13. september 1983, 68 ára að aldri. 

Þegar ég kalla fram í huga mér mynd hans á kveðjustund, er hún skýr og eindregin, eins og hann var sjálfur. í bakgrunni myndarinnar er heimabyggð hans og frændgarður, en persónuleiki Péturs heitins stóð djúpum rótum í þeim bakgrunni.

Á fyrstu tugum 20. aldarinnar, þegar Siglufjörður var höfuðstaður síldariðnaðar í landinu, var bærinn í nánum tengslum við umheiminn, bæði um sjómenn af erlendum síldveiðiflotum og síldarkaupmenn. Þangað lagði og leið sína margmenni hvaðanæva af landinu, fyrst og fremst í atvinnuleit.

Þetta gaf bæjarbragnum sérstætt og frjálslegt yfirbragð. Það léku fjölþættir straumar um síldarbæinn og ekki skemmdi heildarmyndina, að þar voru mörg gamalgróin menningarheimili.

Pétur Þorsteinsson

Pétur Þorsteinsson

Eitt þeirra var heimilið að Aðalgötu 9. Þar bjuggu um langan aldur frú Halldóra Sigurðardóttir, sem var af gömlum siglfirzkum ættum, og Þorsteinn Pétursson, kaupmaður og útgerðarmaður, Péturssonar bónda á Neðra-Dálkstöðum á Svalbarðsströnd. 

Þau hjón settu svip á Siglufjörð um áratugi og minning þeirra er öllum eldri Siglfirðingum hugljúf. Þorsteinn lézt árið 1952 en frú Halldóra 1967. 

Börn þeirra hjóna sem upp komust voru (talin í aldursröð): 

1) Vilhelm Friðrik Þorsteinsson, forstjóri;

2) Anna Þorsteinsdóttir, dáin 1916; 

3) Pétur Þorsteinsson, hafnarstjóri í Siglufirði, sem hér er kvaddur; 

4) Ásmundur Þorsteinsson vélstjóri;

5) Þorvaldur Þorsteinsson, forstjóri Sölufélags garðyrkjumanna;

6) Bjarni Þorsteinsson, trésmíðameistari og Guðný, húsmóðir í Reykjavík.

Auk þess ólu þau hjón upp fósturdóttur, 

7) Anna Hallgrímsdóttur, náfrænku húsfreyjunnar.

Pétur Þorsteinsson var fæddur 24. febrúar 1915 og ólst upp í stórum systkinahópi, eins og af framansögðu má sjá.

Hann óx með Siglufirði, ef svo má að orði komast, því bærinn þróaðist úr smá- þorpi í stóran kaupstað, á íslenzkan mælikvarða, á uppvaxtarárum hhanss. Hann vann og siglfirzkum fyrirtækjum og kaupstaðnum drjúgan hluta ævi sinnar og gekk að hverju starfi með kappi og forsjá.

Æskuheimili Péturs setti svip sinn á margt í fari hans. Hann bjó að menningarlegri arfleifð til hinztu stundar og kappkostaði að tileinka sér hvaðeina sem horfði til betri vegar og framþróunar á hans starfsvettvangi. Hann var lestrarhestur, vel heima á flestum sviðum, hafði ríka kímnigáfu, góða frásagnarhæfileika og var hrókur fagnaðar þegar svo bar undir og það átti við.

Fyrst og síðast tengdist þó hugur hans sjónum og sjávarútvegi, en hann hóf ungur störf á skipum föður síns og síðar á skipum föðurbræðra sinna, Ásgeirs og Guðmundar Péturssona, útgerðarmanna og síldarsaltenda á Akureyri.

Ef til vill bar þó Ágústa Jósefsdóttir, frænka hans í föðurætt, sem bjó á æskuheimili hans og Pétur talaði oft um með hlýju, hæst í æskuminningum hans.

Pétur Þorsteinsson lauk hinu minna fiskimannaprófi á Akureyri 1935. Hið meira fiskimannapróf tekur hann síðan í Reykjavík 1939.

Þá hefst starf hans sem stýrimaður, fyrst á mb. Grótta, þá á mb. Richard og síðan á togurunum Tryggvi gamli og Þórólfi, og nýsköpunartogaranum Neptúnus. Þetta voru útivistarár, því öll þessi úthöld voru utan æskubyggðar.

Árið 1950 ræðst Pétur sem stýrimaður á botnvörpunginn Hafliði SI 2 og síðan botnvörpunginn Elliði SI 1 sem voru í eigu Siglfirðinga, og gegnir þeim störfum allt til ársins 1958, er hann hefur störf í landi.

Eftir að Pétur hætti sjómennsku hóf hann sjálfstæðan atvinnurekstur í Siglufirði. Hann rak Þvottahús Siglufjarðar og síðar að auki Knattborðsstofu og stóð að stofnun útgerðarfélags með öðrum, er gerðu út mb. Strákur um nokkurra ára skeið.

Árið 1965 er Pétur ráðinn hafnarstjóri í Siglufirði og hætti þá þegar einkarekstri, enda var hið nýja starf oft erilsamt og tímafrekt. Starfi hafnarstjóra gegndi Pétur til dauðadags af dugnaði og trúmennsku. Hann var tillögugóður um málefni hafnarinnar og vildi hag hennar sem mestan.

Pétur Þorsteinsson starfaði mikið að félagsmálum í Siglufirði. Fyrst skal nefna störf hans í þágu sjómanna, en þar var hann einatt í forystu.

Þá vann hann mjög að slysavörnum og var virkur þátttakandi í slysavarnadeild staðarins. Hann tók og bæði þátt í starfi Leikfélags Siglufjarðar og karlakórsins Vísis. Hann var og með- limur í Lionsklúbbi Siglufjarðar og frímúrarareglunni. Síðast en ekki sízt skal telja störf hans í þágu Sjálfstæðisflokksins, en Pétur heitinn var eindreginn og einlægur sjálfstæðismaður. Pétur Þorsteinsson var mikill gæfumaður í einkalífi.

Hann kvæntist árið 1943 Sigríður Þórdís Þorláksdóttir, Foreldra hennar Jónssonar, ishússtjóra frá Karlsá í Ísafirði, og konu hans Herdísar Jónsdóttur frá Fossum í Skutulsfirði (Arnardalsætt). 

Reyndist hún manni sínum slík að naumast verður á betra kosið, enda mat Pétur heitinn konu sína að verðleikum og gerði sér grein fyrir hve stóran þátt hún átti í velferð hans og barnanna. Þau hjón eignuðust sex börn. Tvíbura sem dóu í frumbernsku. Var missir þeirra hinum ungu hjónum mikið áfall.

Börnin sem upp komust eru:

Þorlákur Ásgeir Pétursson, skipstjóri, kvæntur Guðrún Ágústa Ólafsdóttir, sjónvarpsþula og flugfreyju. Þau eiga 2 börn.

Ágústa Inga Pétursdóttir, sjúkraliði, gift Gísli Sigurðsson, tölvufræðingur, búsett í Gautaborg. Þau eiga 4 börn.

Þórdís Kristín Pétursdóttir, ritari og nemi í HÍ, gift Hákon Jens Waage, leikari. Þau eiga 2 börn.

Þorsteinn Vilhelm Pétursson, vélstjóri, kvæntur Þuríður Bogadóttir, fóstra. Þau eiga 2 börn.

Sá sem þessar línur ritar átti þess kost að eiga mikið og gott samstarf við Pétur Þorsteinsson, bæði að málefnum Siglufjarðar og í margvíslegu félagsstarfi. Ég er þakklátur fyrir þau kynni og þá vináttu sem tengdi okkur saman. Ég og fjölskylda mín vottum Sigríði og börnunum innilega samúð. Pétri, vini mínum, árna ég fararheilla til hins eilífa austurs.

Stefin Friðbjarnarson