Ragnheiður Bachmann

Minning. Ragnheiður Bachmann, frá Siglufirði. Fædd 13. mars 1906 - Dáin 4. desember 1993

Sól var yfir Hólshyrnu. Sjór svartur af síld, sem breytt var í störf, verðmæti og gjaldeyri. Unnin nótt með degi; á flotanum, á söltunarstöðvunum, í bræðslunum. Allir í önnum í síldarbænum; í kapphlaupi við tímann. Ekki var minnstur krafturinn eða þrótturinn í Ragnheiði Bachmann, Rögnu eins og hún var kölluð, sem um langt árabil starfaði á efnarannsóknastofu Síldarverksmiðja ríkisins í Siglufirði. Atorka hennar var dæmigerð fyrir kaupstaðinn á uppgangsárum hans.

Siglufjörður í önnum síldaráranna. Þannig er staðurinn sannastur í minningu þeirra sem lifðu síldarævintýrið. Ragna Bachmann í annríki þessara ára. Þannig er mynd hennar sönnust í minningu fólksins sem deildi með henni löngu liðnum Siglufjarðarárum.

Ragnheiður Bachmann fæddist í Borgarnesi 13. marz árið 1906 og var því 87 ára að aldri þegar kallið kom.

Ragna Bachmann -- ókunnur ljósmyndari

Ragna Bachmann -- ókunnur ljósmyndari

Foreldrar hennar vóru hjónin Guðrún Guðmundsdóttir og Guðjón Bachmann, vegaverkstjóri, síðar lengi búsett í Borgarnesi. Í Borgarnesi átti Ragna heitin sín ungdómsár. Og þar verður hún kvödd og lögð til hinztu hvíldar í dag.

Það mun hafa verið árið 1928 sem Ragna flyzt til Siglufjarðar. Frá Borgarnesi fór hún til Akureyrar, gerði þar stuttan stanz, en sezt síðan að á Sigló. Þar bjó hún síðan og starfaði lungann úr lífi sínu.

Sjúkrahús var reist í Siglufirði árið 1928 og vígt á fullveldisdaginn 1. desember það ár. Þar hóf Ragna störf sín í Siglufirði. Atorka hennar og útsjónarsemi féll vel að þeim framfarahug, sem einkenndi Siglufjörð þessara ára. Þá þegar hnýttu hún og heimamenn þá hnúta gagnkvæms trausts og vináttu, sem héldu í áratugi eða meðan ævi hennar entist.

Sama ár og sjúkrahúsið var byggt var stofnuð lyfjabúð í Siglufirði. Fyrsti lyfsalinn var heiðursmaðurinn Aage Schiöth, sem víða kom við sögu í málum Siglfirðinga, sat m.a. í bæjarstjórn um árabil. Apótekið varð næsti vinnustaður Rögnu. Þar vann hún af sama dugnaði og sömu trúmennsku sem hvarvetna annars staðar þar sem hennar naut við.

Síðan lá starfsleiðin til Síldarverksmiðja ríkisins en þar vann hún um langt árabil á efnarannsóknastofu fyrirtækisins. Efnafræðingur, sem þar starfaði, hafði á orði, að Ragna væri "besti sjálfmenntaði efnafræðingurinn" sem hann hefði kynnst um dagana.

Reyndar var starf hennar tvíþætt á seinni hluta starfsferils hennar í Siglufirði. Á sumrum starfaði hún hjá efnarannsóknastofu Síldarverksmiðja ríkisins en á vetrum hjá Barnaskóla Siglufjarðar; sá þar einkum um ljósböð fyrir ungviðið í svartasta skammdeginu.

Það er tvennt sem einkenndi Rögnu öðrum fremur. Það fyrra speglaðist í öllum störfum, sem hún vann, og var samofið úr atorku, samvizkusemi og trúmennsku. Það síðara var umhyggja hennar fyrir börnunum sínur tveimur, dóttur og syni.

  • Helga Bachmann er kennari; maki hennar er Haraldur Hjartarson bifreiðastjóri og dæturnar eru þrjár.
  • Gunnar Bachmann er rafvirki og kennari við Iðnskólann í Reykjavík; maki hans er Bára Ragnarsdóttir. Þau eiga og þrjár dætur. Barnabarnabörnin eru þrjú.

Undirritaður kynntist Rögnu í sameiginlegu starfi innan Sjálfstæðisflokksins í Siglufirði. Dugnaður hennar, glöggskyggni og góðhugur naut sín þar sem annars staðar. Það var svo sannarlega hvetjandi og orkugefandi að hafa fólk af hennar gerð að samherjum á þeim vettvangi.

Ég kveð Rögnu með þakklæti og virðingu.

Ég veit að ég mæli fyrir munn Siglfirðinga, heima og heiman, þegar ég sendi Helgu og Gunnari innilegustu samúðarkveðjur.

Stefán Friðbjarnarson.
----------------------------------

Ragna Bachmann, frá Siglufirði Fædd 13. mars 1906 - Dáin 4. desember 1993

Sól var yfir Hólshyrnu. Sjór svartur af síld, sem breytt var í störf, verðmæti og gjaldeyri. Unnin nótt með degi; á flotanum, á söltunarstöðvunum, í bræðslunum. Allir í önnum í síldarbænum; í kapphlaupi við tímann. 

Ekki var minnstur krafturinn eða þrótturinn í Ragnheiði Bachmann, Rögnu eins og hún var kölluð, sem um langt árabil starfaði á efnarannsóknarstofu Síldarverksmiðja ríkisins í Siglufirði. Atorka hennar var dæmigerð fyrir kaupstaðinn á uppgangsárum hans.

Siglufjörður í önnum síldaráranna. Þannig er staðurinn sannastur í minningu þeirra sem lifðu síldarævintýrið. Ragna Bachmann í annríki þessara ára. Þannig er mynd hennar sönnust í minningu fólksins sem deildi með henni löngu liðnum Siglufjarðarárum.

Ragnheiður Bachmann fæddist í Borgarnesi 13. marz árið 1906 og var því 87 ára að aldri þegar kallið kom.