Rögnvaldur Elfar Finnbogason skrifstofustjóri

Rögnvaldur Finnbogason fæddist á Eskifirði 13. maí 1925 Hann lést á Landakotsspítala 1. febrúar 2010.

Hann var sonur Finnbogi Þorleifsson, útgerðarmaður og skipstj. á Eskifirði, f. 19. nóv. 1889, d. 13. ágúst 1961, og Dóróthea Kristjánsdóttir, f. 14. des. 1893, d. 6. mars 1965.

Systkini Rögnvaldar voru 

 • Helga Finnbogadóttir, f. 26. jan. 1916, d. 5. sept. 1991, 
 • Esther Finnbogadóttir, f. 24. jan 1917, d. 23. júní 1986, 
 • Dóróthea Finnbogadóttir, f. 3. des. 1918, d. 23. febr. 2004, 
 • Alfreð Finnbogason, f. 25. mars 1921, d. 10. des. 1969, og 
 • Björg Finnbogadóttir, f. 25. maí 1928. 

Rögnvaldur kvæntist árið 1947  Hulda Ingvarsdóttir, f. 14. júní 1926, hún er dóttir  Guðný Jóhannsdóttir, f. 17. júlí 1885, d. 7. júní 1981, og Ingvar J Guðjónsson útgerðarmaður, f. 17. júlí 1889, d. 8. des. 1943. (Ingvar Guðjónsson)

Rögnvaldur Finnbogason -Ljósmyndari ókunnur

Rögnvaldur Finnbogason -Ljósmyndari ókunnur

Börn Rögnvaldar og Huldu eru: 

 • 1) Ingvar Jónadab vararíkisskattstjóri, f. 10. júní 1950, maki Auður Hauksdóttir, f. 12. apr. 1950. Börn þeirra eru: 
 • a) Kristín Ingvarsdóttir, Japansfræðingur, f. 4. sept. 1973, sambýlismaður Sigurður Magni Benediktsson. Barn þeirra er
 • Ingvar, f. 19. júní 2009. 
 • b) Haukur, bókmenntafr., f. 12. feb. 1979, sambýliskona Steinunn Rut Guðmundsdóttir. 
 • 2) Guðný Dóra Rögnvaldsóttir, verslunareigandi í Ósló, f. 4. okt. 1951, maki Kjell Gurstad, f. 3. jan. 1948, d. 2. maí 1998. Synir þeirra eru:
 • a) Espen, húsasmíðam., f. 23. júní 1975, makir Juliu Gurstad. Börn þeirra eru 
 • Michell, f. 29. júní 2005, og 
 • Soffie, f. 21. okt. 2006. 
 • Gøran, nemi f. 3. febr. 2006
 • 3) Finnbogi Jón Rögnvaldsson, húsasmíðam., f. 30. sept. 1952, d. 14. okt. 1995, eftirlifandi eiginkona hans er Kolbrún Sigfúsdóttir, f. 19. apr. 1953. Seinni maður hennar er Guðmundur Árnason. Dætur Finnboga Jóns og Kolbrúnar eru:
 • a) Hulda Guðný, hjúkrunarfr., f. 14. okt. 1970, maki Helga Hólmari Ófeigssyni. Börn þeirra eru 
 • Kolfinna Ósk, f. 11. apríl 1998, og 
 • Steinar Helgi, f. 7. júlí 2001. 
 • b) Linda Bára, verkefnisstj., f. 3. okt. 1973, sambýlismaður Jón Kristinn Guðjónsson, sonur þeirra er 
 • Guðjón Elfar, f. 21. ágúst 2005.
 • Fyrir átti Linda Bára soninn 
 • Finnboga Sæ, f. 5. sept. 1999. 
 • c) Elfa Dögg, náms- og starfsráðgjafi, f. 10. apr. 1981, maki Stefán Þór Björnsson, og eiga þau 
 • Kolbrún Júlía, f. 13. okt. 2006.

Rögnvaldur Finnbogason ólst upp á Eskifirði. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri lýðveldisvorið 1944 og stundaði nám við Háskóla Íslands veturinn 1945-46. Hann vann við skrifstofustörf á Siglufirði árin 1947-1948 eða uns þau hjónin fluttust til Sauðárkróks, þar sem hann var gjaldkeri bæjarsjóðs á árunum 1948-1958. Hann gegndi starfi bæjarstjóra á Sauðárkróki árin 1958-1966.

Rögnvaldur var skrifstofustjóri Síldarútvegsnefndar fyrir Austurland á árunum 1966-1970 og bjó fjölskyldan þá á Seyðisfirði. Árið 1971 lá leiðin til Reykjavíkur og hóf Rögnvaldur þá störf á skattstofunni. Þar starfaði hann til 1976. Hann gegndi starfi bæjarritara í Garðabæ frá 1976-1983 og var forstjóri Sjúkrasamlags Garðabæjar á árunum 1983-1990. Rögnvaldur starfaði lengi fyrir Brunabótafélagið, síðar VÍS, og gegndi fjölda opinberra trúnaðarstarfa bæði á Sauðárkróki og víðar.

Útför Rögnvaldar fór fram frá Vídalínskirkju, mánudaginn 8. febrúar,

Fæstir leggja trúnað á frásögn Eyrbyggju af berserkjunum sem ryðja götu milli bæja á Snæfellsnesi – nema kannski þeir sem þekktu Rögnvald Finnbogason. Þegar afi var kominn fast að áttræðu réð hann til sín tvo menn til að helluleggja fyrir sig gangstíg. Mennirnir komu með tæki sín og svo liðu dagarnir án þess að mikið gerðist að mati afa.

Það sem tafði framkvæmdirnar var u.þ.b. 10 m langur, 2 m. breiður og 50 cm. djúpur skurður sem þurfti að grafa meðfram húsinu með handafli því afi tók ekki í mál að keyrt yrði yfir grasflötina á gröfu.

Einn daginn þegar mennirnir komu úr matarhléi var búið að grafa skurðinn, þeir ráku upp stór augu og leituðu húsráðanda uppi.

Hann gerði þeim ljóst í fáum orðum að nú ættu þeir að geta haldið áfram án hans hjálpar. Þessi viðbrögð voru lýsandi fyrir afa því hann var vægast sagt röskur. En þá er aðeins hálf sagan sögð því hann hafði orðið vitni að því hvernig atvinnuleysi leikur menn og fannst að hver og einn ætti að hrósa happi yfir því að finna kröftum sínum viðnám; sjálfum sér eða öðrum til velfarnaðar.

Sjálfur byrjaði afi snemma að vinna og um fermingu var hann sendur að Skriðuklaustri til að aðstoða við byggingu glæsihýsis Gunnars Gunnarssonar. Hann hrærði steypu og flutti efni en sá út undan sér syni skáldsins spranga um túnin í pokabuxum samkvæmt nýjustu tísku.

Verklegum framkvæmdum gat hann lýst í smáatriðum en honum var líka gefið næmi fyrir tíðaranda og málfari samferðamanna sinna. Þetta næmi gerði honum kleift að draga upp ljóslifandi myndir, t.d. af þeirri ljúfsáru en hátíðlegu stund þegar hann, ásamt samstúdentum sínum frá MA, hossaðist aftan á vörubílspalli í grenjandi rigningu til Þingvalla 17. júní 1944.

Þegar afi sagði frá hreif hann fólk með sér þó að stundum þætti mér frásagnatafirnar langar þegar hann ættfærði hvern mann sem kom við sögu en öðruvísi gengu sögur ekki upp fyrir honum – ekki frekar en kapall með gisnum spilastokk.

Afi dró ekki dul á það að ýmislegt hefði brotist innra með honum og e.t.v. var hann í sífelldri leit eftir reglu.

Þegar maður var sendur í pössun var dagurinn röð verkefna sem afi kenndi manni að leysa, hálfgerður herramannaleikur; greiða sér, bursta skó, kveðja fallega þegar hann fór til vinnu og ef allt gekk að óskum fékk maður að fara í fótabað og síðan leggja sig í sófanum meðan fréttatíminn var í hádeginu. Sömu reglu kom hann á nánasta umhverfi sitt sem hann kappkostaði að fegra jafnt innandyra sem utan.

Þegar fréttatímanum lauk hafði yfirleitt eitthvað borið á góma sem hann gat tengt eigin lífi eða sögu fjölskyldunnar; þarna hafði hann verið á síld, þarna hafði pabbi minn verið í hafnarvinnu, þangað höfðu þau amma flutt. Maður fékk á tilfinninguna að allt landið og miðin hefðu verið könnuð til hlítar áður en maður fæddist.

Afi var af þeirri kynslóð sem hafði metnað fyrir hönd þess samfélags sem hér var byggt upp á 20. öld. Hann fylgdist með fréttum af virkjunarframkvæmdum og fiskveiðum eins og íþróttakappleik og hann var framfaratrúaður enda þekkti hann af eigin raun hvaða oki vélvæðingin létti af herðum manna.

Þeir tímar sem við lifum nú samræmdust ekki þeim vonum sem hann og fleiri báru í brjósti, ætli þessi orð hafi ekki verið honum að skapi: „Trúðu á sjálfs þín hönd, en undur eigi.“

Haukur Ingvarsson.