Tengt Siglufirði
Rögnvaldur Rögnvaldsson frá Siglufirði Fæddur 27. september 1921 - Dáinn 18. ágúst 1987
Í byrjun ágústmánaðar sl. átti ég nokkurra daga dvöl í Reykjavík. Það hafði lagst að mér skömmu áður, að láta nú af því verða að heilsa uppá gamlan vin og félaga frá þeim dögum er við vorum samtíða á Siglufirði,
Rögnvald Rögnvaldsson og eiginkonu hans Guðlaugu Magnúsdóttur, sem búsett voru í Reykjavík, en ég hafði hvorki heyrt né séð í allt of mörg ár.
Nú skyldi það ske. En gamla sagan kom upp, eins og oft vill verða hjá of mörgum.
"Láta það bíða, þar til ég verð á ferðinni næst." Mannlegur löstur, sem ekki verður bættur eftir á.
Þegar norður kom til Akureyrar á heimleið varð á vegi mínum Ari Rögnvaldsson, einn af bræðrum Rögnvaldar, sem þar var búsettur. Sagði hann mér þau tíðindi, sem ég síst átti von á, að Rögnvaldur bróðir hans lægi á sjúkrahúsi og biði þar dauða síns.
Mér brá að vonum. Upprifjun minninganna frá ævintýralegri samveru okkar á Siglufirði var runnin út í sandinn. Tíminn var liðinn. Nokkrum dögum síðar var helfregnin staðfest.
Rögnvaldur andaðist á Borgarspítalanum 18. ágúst 1987, 65 ára að aldri. Góður drengur, vinur og félagi var allur.
Rögnvaldur átti uppruna sinn að rekja til Skagafjarðar. Hann fæddist 27. september 1921 á Litlu Brekku á Höfðaströnd og var eitt af tólf börnum hjónanna Guðný Guðnadóttir og Rögnvaldur Sigurðsson er þar bjuggu.
Rögnvaldur, sonur þeirra hjóna, er fimmta systkinið, sem kveður þennan heim.
Það sem einkenndi þennan systkinahóp var traust og einlæg tryggð og samheldni, þótt leiðir þeirra lægju ekki alltaf saman.
Öll voru þau glaðvær og sérlega söngelsk. Hafði Rögnvaldur fengið einkar fagra söngrödd í vöggugjöf ásamt fleirum listrænum hæfileikum.
Þegar hann var á fermingaraldri andaðist faðir hans, fyrirvinna stórrar fjölskyldu. Það segir sig sjálft, að lífsbaráttan hefir krafið ekkjuna mikils dugnaðar, að fá haldið hópnum sínum saman einsog hún gerði. Hún brá búi og flutti fyrst til Hjalteyrar og síðar Siglufjarðar Rögnvaldur hafði barnungur farið að róa til fiskjar með föður sínum og tók nú að stunda sjóinn frá Hjalteyri og síðar frá Siglufirði og var eftirsóttur í skipsrúm, enda frábær verkmaður og fjölhæfur, sérstaklega á vélar.
Rögnvaldur var einkar léttur og góðlyndur félagi. Hann tók ríkan þátt í félagslífi á Siglufirði, söng lengi með Karlakórnum Vísi og var drjúgur liðsmaður leikfélagsins þar á staðnum. Hann var leikari af guðs náð.
Rögnvaldur kvæntist Álfhildur Friðriksdóttir og settu þau saman heimili á Siglufirði.
Stundaði Rögnvaldur þá sjóinn bæði á togurum og smærri bátum, auk þess, sem hann var
vélgæslumaður um árabil við frystihús þar á staðnum.
Eignuðust þau hjónin fjórar dætur, sem allar eru á lífi, en þær eru:
Þegar Rögnvaldur var um fertugt slitu þau hjónin samvistum og flutti hann þá frá Siglufirði. Þó þannig skipaðist málum, var hann en um skeið á togurum Bæjarútgerðar Siglufjarðar og réri einnig á trillu sinni til fiskjar þaðan á sumrin.
Þegar hið mikla sjóslys varð er b/v Elliði SI 1 frá Siglufirði fórst þann 10. febrúar 1962 út af Öndverðarnesi var 28 manna áhöfn á skipinu, flestir frá Siglufirði. Rögnvaldur var þar á meðal og vélstjóri. Skipstjórinn var Kristján Rögnvaldsson, bróðir hans, nú hafnarvörður á Siglufirði og þriðji bróðirinn, Jón Rögnvaldsson, sem var matsveinn. Þrír bræður á sama skipinu í dauðans greipum.
Fyrir frábæra skipstjórn Kristjáns, nákvæm viðbrögð og æðruleysi skipshafnarmanna auk aðstoðar áhafnar bv Júpíter, sem náði að komast á slysstað í tæka tíð, tókst að bjarga allri skipshöfninni úr sökkvandi skipinu utan tveggja manna, er hurfu út í náttmyrkrið, en fundust síðar látnir.
Þetta sjóslys hafði djúp og mikil áhrif á lífsviðhorf Rögnvaldar, þó hann léti lítið á því bera.
En dagar Rögnvaldar voru ekki allir. Kallið var ekki komið. Hann hafði af tilviljun einni saman kynnst konu, sem einnig stundaði sjómennsku. Hugir þeirra féllu í sama farveg og 27. júlí 1968 giftist Rögnvaldur eftirlifandi konusinni, Guðlaug Magnúsdóttir, sem átti heimili í Reykjavík.
Frú Guðlaug átti drjúgan þátt í því, að Rögnvaldur settist á skólabekk og aflaði sér fullra vélstjóraréttinda, sem hann hafði ekki haft aðstöðu til fyrr. Síðan eða samfleytt frá 1968 til 1981 var hann vélstjóri, síðast á bv Siglfirðingur SI 150.
Eftir að hann lét af sjómennsku starfaði hann hjá Seglagerðinni Ægi.
Heimili þeirra hjóna var alla tíð í Reykjavík, síðustu 14 árin á Urðarbakka 12. Hjá þeim bjó lengi á vetrum móðir Guðlaugar, sem Rögnvaldur reyndist mjög vel einsog hans var von og vísa, svo hjálpsamur og greiðvikinn, sem hann var.
Í aprílmánuði sl. kom í ljós að hann var haldinn meinsemd, sem dró hann til dauða. Lengst af eða framundir hið síðasta dvaldi hann heima og naut þar frábærrar umönnunar Guðlaugar konu sinnar.
Útför Rögnvaldar fór fram frá Áskirkju 24. ágúst sl. Séra Árni Bergur Sigurbjörnsson jarðsöng.
Ég sendi eiginkonu Rögnvaldar, börnum og aðstandendum hans mínar innilegustu samúðarkveðjur.
Guð blessi minninguna um góðan vin og félaga.
Björn Dúason