Aage Boyum Johansen

Aage Boyum Johansen - Fæðingardagur:07-04-1914 Dánardagur: 09-06-1994 - þá 80 ára

Ath. sk- Enga minningagrein fann ég um þennan sómamann, en set hétr inn ýmislegt sem segir frá starfi og ferli hann hér fyrir neðan, efni út ýmsum áttum.

Mjölnir 12 maí 1964

Aage Johansen fimmtugur

Hinn 7. apríl 1964 átti fimmtugsafmæli einn af mætustu mönnum bæjarins, Aage Johansen. .

Aage Johansen er útlærður mjólkurfræðingur, kom hingað til landsins árið 1932 og starfaði hjá Mjólkurbúi Flóamanna í eitt ár, í fagi sínu.

Síðan fluttist hann hingað til Siglufjarðar og hefur dvalið hér síðan. Árið 1938 giftist hann siglfirzkri stúlku:

Aage Johansen - Ljósmynd, Kristfinnur

Aage Johansen - Ljósmynd, Kristfinnur

  • Einarsína Guðmundsdóttir 
    og hafa þau búið sér hið myndarlegasta heimili, eiga þau hjón einn son,
  • Valur Johansen, f. 4. júní 1941
    og sonur Einarssínu: 
  • Örn Magnússon f. 1. desember 1932 - d. 3. febrúar 2020 

Ekki urðu það örlög Aage að vinna við mjólk og mjólkurafurðir, heldur hefur hann nær eingöngu unnið við hafnargerðir, verið kafari og þá gert hluti, sem fáir leika eftir, unnið við dýpkun hafna og byggingar hafnarmannvirkja.

Aage er afburða duglegur maður og útsjónarsamur við verk, góðviljaður og glaðlyndur maður, sérstaklega ábyggilegur og hreinskilinn, þykja þeim sem hann þekkja bezt, orð hans betri en undirskriftir annarra. Þessi maður, sem ætíð hefur unnið hörðum höndum, skildi vel gildi verkalýðshreyfingarinnar og skipaði hann sér ótrauður í hinar róttæku raðir, heilsteyptur á því sviði eins og öðrum.

Það var mannmargt á hinu vistlega heimili þeirra hjóna á afmælisdaginn, veitt af mikilli rausn og mikil glaðværð, að sjálfsögðu var húsbóndinn hrókur alls fagnaðar. Mjölnir óskar þessum sóma manni til hamingju með hin merku tímamót og óskar Siglfirðingum þess að þeir fái sem lengst að njóta starfa hans og mannkosta.
(Grein þessi átti að birtast í síðasta blaði, en kom ekki vegna mistaka)
-------------------------------------------

Neisti 15 júní 1949

Bæjarstjórn samþykkti á fundi sínum s. 1. þriðjudag uppkast að verksamningi við Gunnar Jósepsson og Aage Johansen, um flutning á skipasleða og tilheyrandi tækjum, sem allt hefur verið keypt af dráttarbraut Akureyrar h. f., og uppsetningu þess á Siglufirði. Hljóðar samningsupphæðin upp á kr. 90.000,00.

Þeir Gunnar og Aage eru þegar byrjaðir á verkinu. — Ennfremur var samþykkt að kaupa vélar og verkfæri ásamt nokkru efni af Skipasmiðastöð Siglufjarðar. Miklar líkur eru til þess að slippurinn komizt upp í sumar og á hann að geta tekið upp skip allt að 150 tonnum.  

Á þessum sama bæjarstjórnar fundi var samþykkt að bærinn greiddi kaupgjald eftir kröfu Þróttar, ef til verkfalla kemur, en gengur svo inn í þá samninga er um semst.  Að sjálfsögðu nær þetta aðeins til þeirra verkamanna, sem eru í vinnu hjá bænum.
---------------------------------------------

Tíminn 1957

Kafarar hafa fjarlægt um 40 staksteina úr Húsavíkurhöfn að undanförnu. Skipum á nú engin hætta vera búin af slíkum steinum í höfninni.

Frá fréttaritara Tímans í Húsavík 9 apríl 1957
Undanfarna. daga hefir verið unnið að því að staksteina úr botni Húsavíkurhafnar. Hafa unnið að þessu tveir kafarar, Aage Johansen á Siglufirði og Jóhann Gauti á Akureyri. Vélskipið Bergfoss frá Siglufirði var og fengið til þessara aðgerða.

Alls voru fjarlægðir um 40 staksteinar minni og stærri úr botni hafnarinnar, teknir víðsvegar í höfninni, en aðallega þó á nokkuð breiðu svæði suðaustur af hafnargarðsendanum. Steinar þessir voru flestir frá 100 kg til 2 smálestir að þyngd, en einn þeirra var þó um 8 lestir. Lá hann þvert inn af hafnarbakkanum og ekki í alfaraleið stærri skipa, sem í höfnina koma.

Aðfaranótt 15. febrúar s.l. þegar Goðafoss laskaðist hér í höfninni mun hann einmitt hafa farið yfir það svæði, sem flestir staksteinarnir fundust á. Vona menn, að verk þetta hafi tekizt vel, og að sögn kafaranna á ekki lengur að vera nein hætta búin af staksteinum í höfninni.
ÞF
-----------------------------------------------

Dýpknarskipið Bergfoss strandaði í stórviðri við Grímsey: Björguðu lífinu í gúmmíbát, skriðu langan veg í stórurð og klifu bjarg

Feðgar í Grímsey, kunnir bjargmenn fóru vaðlausir niður hátt berg í náttmyrkri til hjálpar skipbrotsmönnum

Grímsey í gær.

Nær miðnætti í nótt strandaði dýpkunarskipið Bergfoss SI 92, við Grímsey austanverða hlaðið grjóti til hafnarinnar í Sandvík og með fjóra menn innanborðs. Mannbjörg varð, en skipið er talið ónýtt, þar sem það liggur nærri landi í stórgrýttri fjöru undir háum hömrum. Seint í dag var reynt að ná úr því ýmsu lauslegu dóti.

Skipið strandaði með mjög snögg um hætti. Hafði það verið einar þrjár klukkustundir á siglingu frá Siglufirði til Grímseyjar í hvassri vestanátt. Þegar komið var til Grímseyjar, var of mikið brim í Sandvík til að hægt væri að leggjast þar. Bergfossi var því siglt í var austur undir eyna. Sáu menn úr eynni síðast til skipsins um klukkan fimm í gær hjá eyjarendanum, og var það þá komið í skjól.

Í brimgarðinn í sjö mínútur.

Skipið lá í vari í logni og hægum sjó til klukkan 11,20 um kvöldið. Þá hvessti snögglega á norðaustan, og telja skipverjar, að veðurhæðin hafi numið átta vindstigum og kominn haugasjór á samri stundu. Skipti það engum togum, að skipið tók niðri og strandaði. Lenti það í mikilli grjóturð og hjuggust fljótt göt á það og fylltist það um leið af sjó. Skipverjar telja, að ekki hafi liðið nema sjö mínútur frá því veðrið rauk upp og þar til skipið var strandað.

Neyðarkallið heyrðist.

Um klukkan 11,40 heyrðist neyðarkall frá skipinu bæði í Grímsey og í Siglufirði. Var þá samstundis gerður út leiðangur í Grímsey til að leita skipsins. Veður var nú hið versta, myrkur og stórsjór og austurströndin lítt árennileg; há björg að fara og stórgrýtt urð, sæbarin fyrir neðan.

Gúmmíbáturinn bjargaði

Skipverjar tóku það ráð að bjarga sér í land á gúmmíbát, þótt lendingin í fjörunni væri ekki árennileg. Gúmmíbáturinn tók ekki nema þrjá menn og varð að freista þess að sækja einn síðar

Bundin var taug í skipið, sem sjóinn braut stöðugt yfir, og hún fest í gúmmíbátinn. Sjórinn hreif  í gúmmíbátinn og varpaði honum fullum af sjó með mönnunum þrem langt upp í urð. Mennirnir hleyptu sjónum úr bátnum með því að skera gat á botninn. Síðan fór einn í bátnum eftir þeim sem  beið. Gekk það allt giftusamlega fyrir sig og voru allir mennirnir komnir í fjöruna klukkan fimmtán mínútur yfir tólf.

Skriðu eftir urðinni og upp á bjargbrún.

Leitarmannaflokkur Grímseyinga var nú kominn í námunda við strandstaðinn. Vissu þeir ekki gjörla hvar skipið hafði strandað en myrkt af nótt og engin leið að sjá neitt að gagni. Höfðu leitarmenn ekki annað ljós meðferðis en vasalukt. Grímseyingarnir fóru á tveimur stöðum niður í urðina undir bjarginu, sem þarna er víða hundrað metra hátt, en í þriðju atrennu fundu þeir skipbrotsmennina, og komast með mennina upp frá þeim stað, sem þeir fundust á, og hófst nú langt og erfitt ferðalag eftir urðinni og í stöðugum sjógangi, þar til komið var að færum stað í berginu.

Urðu mennirnir að skríða langan veg, en öll vegalengdin, sem þurfti að fara undir berginu, hefir verið nær kílómetri. Einum skipbrotsmanna skolaði fram meðan á þessu ferðalagi stóð, en hann komst aftur upp í grjótið og varð ekki meint af. Þess má geta að þeir feðgar fóru vaðlaust niður bergið til skipbrotsmannanna.

Hefðum orðið að vera nóttina í urðinni, ef . . .

Mennirnir komust síðan heilu og höldnu til bæja og virðist þeim ekki hafa orðið meint af volkinu og engin meiðst hlotið nema hvað þeir eru rispaðir á höndum og fótum eftir viðureignina við stórgrýtið. Blaðið hafði tal af einum skipbrotsmanna í gær, Vilhjálmi Aðalsteinssyni, verkstjóra.

Hann sagði:

„Ef hjálparkallið hefði ekki heyrzt í Grímsey, hefðum við orðið að dvelja til morguns" í urðinni og var það að sjálfsögðu lítið tilhlökkunarefni. Við urðum því harla fegnir þegar þeir feðgar komu til okkar vaðlaust niður bergið og hjálpuðu okkur upp." —

Það hefir hvesst mjög snögglega: — „Hann rauk upp eins og örskot og við gátum ekki ráðið við neitt. Það eru grunnbrot þarna sem skipið strandaði og braut linnulaust yfir skipið strax og það tók niðri". — Það hefir verið erfitt að komast upp. — „Við vorum fimm klukkustundir að klöngrast þetta í fjörunni, áður en við náðum brún. Víða gekk brim á okkur meðan stóð á ferðinni.

55 smálesta skip.

Dýpkunarskipið Bergfoss er fimmtíu og fimm smálesta stálskip og var búið til flutninga á grjóti og möl til hafnargerða. Eigendur skipsins eru Snorri Stefánsson, verksmiðjustjóri í Siglufirði og Aage Johansen. Þetta var þriðja ferð skipsins með grjótfarm til hafnarinnar í Sandvík í Grímsey. Skipstjóri var Gíslí Sigurðsson, en aðrir skipverjar, auk Vilhjálms voru Björn Þórðarson, Siglufirði og Aage Johansen. — 

G.J.
-----------------------------------------
mbl.is  28 september 1957

Bátur standar við Grímsey SIGLUFIRÐI, 27. sept.: —

Gamalt járnskip , Bergfoss, héðan frá Siglufirði, strandað i við Grímsey í nótt, er það var á leið þangað með grjót í lest og annan varning til hafnargerðarinnar þar. Skipið er ónýtt talið. Áhöfnin fjórir menn björguðust í land á gúmmíbát skipsins og gengu til mannabyggða.

Stormur var við Grímsey í nótt, en báturinn lá fyrir austan eyna, en vindur gekk síðan til norðausturs og rak hann á land, þar sem heitir Flatasker. Munu skipsmenn ekki hafa orðið varir við að vindur hafði snúizt og skipið þá tekið að reka. Það kom strax gat á síðu skipsins og sjór komst inn í vélarúmið.

Í dag hefur brotið látlaust yfir gamla Bergfoss, sem er 55 lestir og hefur verið notaður til efnisflutnings til hafnargerða hér á Norðurlandi. Er vonlaust að skipinu verð i bjargað. Bergfoss áttu þeir Aage Johanssen og Snorri Stefánsson hér á Siglufirði og var Bergfoss vátryggður fyrir 500,000 krónur
-----------------------------------

Lesa má í timarit.is > Mjölnir - 19. nóvember 1958  um pólitískar deilur þar sem Johansen og „Björninn“  blandast í.  Sandmagn sem bærinn keypti og fleira.

----------------------------------

Siglfirðingur 5. nóv. 1962

Unnið við Innri-höfn í vetur Bæjarstjórn Siglufjarðar hefur nýverið samið við eigendur uppmokstursskipsins Bjarnarins um uppmokstur (dýpkun) við þil innri hafnarinnar og dælingu uppimokstursins sem fyllingu inn fyrir þilið. —

Er ráðgert að þarna verið grafið upp og dælt inn fyrir þilið um 10 þús. rúmmetrum uppfyllingar í vetur. Er verkið unnið í ákvæðisvinnu, kr. 30,00 pr. rúmm., kominn inn fyrir þil.

Eigendur Bjarnarins, Aage Johansen og Björn Þórðarson, fengu fyrir skemmistu nýjan (þungan) „grabba" og hafa nú fest kaup á dæluútbúnaði, til að dæla uppfyllingu úr skipi á land. Er hinn mesti fengur að þessum atvinnurekstri þeirra og vonandi verður hann virkur liður í þeim hafnarframkvæmdum, sem fyrir dyrum standa hér í Siglufirði.
Fyrirhugað er og að setja niður festingar við járnþilið.
-------------------------------------------

mbl. 25 júlí 1963

Um 30 ára bil hefur maður nokkur danskrar ættar, Aage Johansen, verið búsettur á Siglufirði. Maður þessi er víða þekktur á Norðurlandi sem kafari og fyrir vinnu sína við hafnarframkvæmdir, en það hefur verið æfistarf hans.

Fyrir þremur árum keypti hann, ásamt félaga sínum, Birni Þórðarsyni á Siglufirði, uppmoksturspramma, sem nefndur er Björninn. Þeir félagar hafa fyrir nokkru lokið við að breyta honum og endurbæta verulega, meðal annars hafa þeir sett á hann 7 tonna krana og öflugar sanddælur.

Nú í vor hafa þeir unnið að dýpkun hafnarinnar á Siglufirði fyrir sumarið, og hafa grafið úr henni 10—15 þúsund teningsmetra, auk þess sem þeir hafa rekið niður bryggjustaura í tugatali og annazt köfun
---------------------------------------
Smá viðbót: 

mbl. 16. febrúar 1933  -- EKKI er víst að þetta sé okkar Johansen

Bruggun fann lögreglan nýlega í kjallara hússins Þingholtsstræti 33.
Er hún sneri sjer til húsráðanda vissi hann ekki' hver leigt hafði kjallarapláss það. sem brugg að hafði verið í, en leigjandinn ljet ekki sjá sig.

Lögreglan hafði síðar upp á manninum. Hann heitir Aage Johansen.
Hann var dæmdur í 5 daga einfalt fangelsi og 600 kr. sekt. 

Aage Johansen og Björn Þórðarson

Jóhann Jónaaon - Aage Johansen og Jóhann Ísaksson - Þarna er Aage við það að fara í kafarabúning

Björninn við dýpkun framan við SR bryggjur