Sigmundur Sigtryggsson verslunarmaður, Einco

Sigmundur Sigtryggsson f. 24. júlí 1889. d. 9. desember 1975.

Er ég frétti lát Sigmundar Sigtryggssonar fannst mér sem gamalkunnugt kennileiti hefði sokkið í sæ. „Hvannadalabjarg er brunnið", stendur þar. Sigmund man ég frá því barnsvitundin tók að skynja umhverfið. Heimili hans og fjölskylda voru einn af föstu punktunum á korti bernsku minnar og æsku.  Sigmundur Sigtryggsson var fæddur á Ljótsstöðum á Höfðaströnd 24. Júlí 1889.

Foreldrar hans voru hjónin Jakobína Kristín Friðriksdóttir, bónda á Hofi og Miklabæ í Öslandshlíð, Níeslssonar, faktors á Siglufirði, Níelsens, og Sigtryggur Sigmundsson, lengst bóndi í Gröf á Höfðaströnd, bónda á Ljótsstöðum og verslunarstjóra í Hofsósi, Pálssonar, hreppstjóra í Viðvik, Jónssonar. —

Sigmundur ólst upp með foreldrum sínum, fyrst á Ljótsstöðum, síðan á Marbæli í Öslandshlíð og frá árinu 1898 í Gröf.

Sigmundur Sigtryggsson

Sigmundur Sigtryggsson

Árið 1915 kvæntist Sigmundur Margréti Erlendsdóttur, verslunarstjóra í Grafarósi og Hofsósi, Pálssonar, bónda á Hofi í Hjaltadal, Erlendssonar.
Kona Erlends og móðir Margrétar var Guðbjörg Stefánsdóttir, bónda á Fjöllum í Kelduhverfi, Ólafssonar. —

Margrét og Sigmundur hófu búskap í Gröf en fluttust að Hólakoti í sömu sveit árið 1921. Þar bjuggu þau til 1932 að þau fluttust til Siglufjarðar, með skammri viðdvöl í Hofsósi þó. — Á Siglufirði starfaði Sigmundur hjá Gránu, en lengst af hjá versluninni Einco. —

Margrét, kona hans, lést 1959. Þeim hjónum varð tveggja barna auðið.
Þau voru

  • Erlendur Sigmundsson, fyrrverandi sóknarprestur Seyðfirðinga og biskupsritari, nú farprestur þjóðkirkjunnar, og

  • Hulda Sigmundsdóttir sem gift var Stefán Friðbjarnarson, fyrrum bæjarstjóra í Siglufirði, Hulda er látin er fyrir nokkrum árum. 

    Sigmundur og Margrétar ólu og upp tvö fósturborn, tvær stúlkur;
  • Kristín Rögnvaldsdóttir, maki; Baldur Ólafsson, múrari á Siglufirði, og

  • Sigríður Sigurðardóttir, sem átti Kristján Kristjánsson, húsasmið í Reykjavík. 

Eiginmenn fósturdætranna eru báðir látnir. Hjá þeim átti og heimili Guðbjörg, móðir Margrétar, mörg síðustu æviár sín.

Mér er tjáð að Sigmundur hafi verið afar framkvæmdasamur bóndi, bætt jörð sína með túnasléttun og reist íbúðarhús úr timbri og öll útihús að nýju. I starfi sínu f Siglufirði var hann með afbrigðum  trúr og samviskusamur.

Tryggð hans við fyrirtækið, sem hann vann, og stjórnendur þess var með fádæmum. Og svo var alls staðar þar sem hann lagði hönd að verki.

Hann var lengi formaður Verslunarmannafélags Siglufjarðar og starfaði jafnan mikið í þágu þess. Félagar hans sýndu honum verðskuldað traust og mátu jafnframt fórnfýsi hans að verðleikum. Þeir kusu hann heiðursfélaga stéttarfélags síns. Sigmundur starfaði einnig í Sjálfstæðisfélagi Siglufjarðar og Skagfirðingafélaginu f Siglufirði. Sigmundur Sigtryggsson ólst upp í fögru héraði og björtu.

Sjóndeildarhringurinn var víður og fagur: Búsældarlegar byggðir, blár fjörður og breiður, Tindastól, Drangey, Þórðarhöfði. Á sumrum brann sól á gluggum um lágnætti. Það var líka heiðríkja og birta yfir fólkinu í átthögum hans á fyrstu áratugum aldarinnar.

Söngur og gleði voru förunautar þess. Og alla ævi var Sigmundur sannur Skagfirðingur. Hann naut þess að syngja, var gæddur hreinfagurri bassarödd. Þeirrar raddar naut Siglufjarðarkirkja um langt árabil. Mágur hans og vinur, Páll Erlendsson, leiddi þar lengi sönginn af fágaðri smekkvísi. Í þeirri kirkju var hann kvaddur.

Það var gott að vera barn á Siglufirði á þeim árum er Íslandsbersar og fátækir námsmenn og tónlistarmenn áttu gengi sitt undir silfur fiskinum einum. Andblær tímanna var ferskur og lognmolla víðs fjarri. Margt var á verð og flugi, sumt á hverfanda hveli.

En vissir hlutir og ákveðnir menn stóðu óhagganlegir og rótfastir í straumröst mikilla breytinga. Einn þeirra manna var Sigmundur Sigtryggsson sem stundum var nefndur Sigmundur í Gröf eða Sigmundur í Einco. Á sumrin varð bærinn okkar við lygnan fjörðinn heimsborgaralegur á svipinn. Og Sigmundur stóð f versluninni við Tjarnargötuna á móti Hvíta húsinu og afgreiddi málningu (eða mál á norðlensku) með spaugsyrði á vör.

Á veturna var bærinn eins og afskekkt Alpaþorp, kyrrðin og friðurinn gat minnt á jólakort. Og Sigmundur stóð í Einco og lét mönnum í té gamanyrði ásamt nöglum og verkfærum. Og þó man ég hann ekki best í búðinni heldur heima. Þar naut hann sín jafnvel enn betur en í önn dagsins. Þar var jafnan margt um manninn. Ég kom þar dögum oftar meira en áratug og aldrei man ég þar fámennt borðhald eða dauflegt.

Auk barna og fósturbarna flykktust þangað frændur og vinir, skólafólk í sumarvinnu eða jólaleyfi, enda ætíð að góðu að hverfa: Margrét mildin og ástúðin persónugerð og Sigmundur glaðværðin og fjörið og fyndnin. Og bæði voru þau gædd óvenjulegum sálargáfum, yljuðum þeirri mannást sem byggir á einlægri og fölskvalausri trú. Þess vegna var heimili þeirra hlý vin f vetrarkulda og kyrrlátt skjól í sumarönnum. Sigmundur Sigtryggsson var manna skemmtilegastur.

Hress var hann jafnan og kátur. Hann var flestum hnyttnari. Tilsvör hans sum urðu landfleyg og hafa jafnvel komist á bækur. En skopvísi hans var aldrei blandin illkvittni eða kaldhæðni. Fyndni hans var , græskulaus. Lífsfjör hans brann hlýjum loga en gneistaði ekki köldum eldi. Þess vegna var gott að vera samvistum við hann — og gaman. Síðustu æviárin vissi Sigmundur fátt um hvað gerðist hér í heimi.

Ævin var orðin löng, sporin mörg, nánustu ástvinir hans sumir horfnir sjónum manna. Því varð hvíldin honum að líkindum kær. Það vitum við vinir hans og kveðjum hann í glaðri von og trú. En engu að síður býr söknuður í huga. Hinir gömlu, góðu dagar, sem hann átti svo ríkan þátt í að gæða lífi og lit, hafa færst enn fjærvið lát hans.

„Og andlitin sem þér ætíð fannst að ekkert þokaði úr skorðum — hin sömu jafn langt og lengst þú manst — ei ljóma nú við þér sem forðum." (Þ.Vald.)

Þakkir fylgja honum fyrir það sem hann „var og vann". Blessuð sé minning hins

Ólafur Haukur Árnason