Tengt Siglufirði
Hinn 3. ágúst 1992 lést amma okkar, Sigríður Þórðardóttir, á Sjúkrahúsi Siglufjarðar.
Amma er fædd á Siglunesi 5. október 1913 og uppalin
þar.
Hún var dóttir hjónanna Þórður Þórðarson vitavörður og konu hans, Margrét Jónsdóttir.
Eftir nám við Húsmæðraskólann á Blönduósi flutti amma til Siglufjarðar og hóf búskap með afa okkar, Sigurður Jóhannesson bifreiðarstjóri heitnum.
Eftir lát afa flutti amma til Reykjavíkur og vann m.a. sem þerna á Mánafossi. Á þeim tíma vann Hafsteinn sonur hennar einnig á sama skipi.
Á sumrin fengum við krakkarnir að fara nokkrar ferðir með skipinu.
Skemmtum við okkur alltaf konunglega og var það ekki síst ömmu að þakka. Þar sem hún var þerna var alltaf auðvelt að ná í hana og finna. Hún var dugleg að leika við okkur og kenna okkur nýja leiki, hún kunni öll tiltæk ráð við sjóveiki og okkur til mikillar ánægju var hún ávallt að gauka að okkur ávöxtum og sælgæti.
Amma var til sjós þar til hún varð 70 ára. Amma var mjög hlý og traust. Það sem okkur þótti sérstaklega vænt um var að hún talaði alltaf við okkur sem jafningja sína og sýndi því sem hvert okkar var að gera mikinn áhuga.
Árið 1983 flutti ég, Brynja, í Hamrahlíðina til ömmu. Kom þetta sér mjög vel fyrir mig þar sem ég var í Menntaskólanum við Hamrahlíð og þurfti einungis að ganga yfir götuna til að komast í skólann. Sambúðin gekk ágætlega þrátt fyrir að við værum, eins og gengur og gerist, ekki alltaf sammála.
Eftir að amma flutti aftur norður kom Guðlaugur Þór og bjó einnig í íbúð hennar. Örlæti lýsti ömmu vel, hún var ekki sparsöm þótt hún hefði kannski ekki mikið milli handanna. Allan þann tíma er við Guðlaugur bjuggum hjá henni lét hún hvorugt okkar borga húsaleigu, en fyrir okkur var þetta ómetanleg aðstoð því við vorum bæði í námi á þeim tíma.
Amma var af þeirri kynslóð sem byrjaði ung að vinna og vann eftir það mestan hluta ævinnar myrkranna á milli. Vegna þessa þoldi hún illa leti og ódugnað. Það sem einkenndi ömmu mest var hversu geðgóð, hreinskilin og heil hún var, hún kom alltaf til dyranna eins og hún var klædd. Amma gat verið ströng við okkur en hún var alltaf sanngjörn.
Heima hjá ömmu vorum við ávallt velkomin og leið okkur alltaf vel þar.
Við kveðjum ömmu með söknuði og biðjum Guð að blessa minningu hennar.
Brynja I. Hafsteinsdóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson, Hafsteinn Hafsteinsson, Signý Hafsteinsdóttir, Sigurður
Tómas Valgeirsson.
+ http://www.mbl.is/greinasafn/grein/91125/