Sigurjón Sigtryggsson fræðimaðurfræðimaður

 Sigurjón Sigtryggsson fræðimaður -­  Fæddur 2. júlí 1916 - Dáinn 10. maí 1993

Sigurjón Sigtryggsson fræðimaður á Siglufirði lést á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri 10. maí síðastliðinn.

Útför hans verður gerð frá Siglufjarðarkirkju í dag. Sigurjón gekkst undir mikla aðgerð í síðastliðnum mánuði sem þótti takast mjög vel og batahorfur voru góðar. En annað sjúkdómsáfall kom í kjölfarið sem ekki varð við ráðið.

Fræðimaðurinn hafði á orði við mig nokkrum dögum fyrir áfallið, að nú ætti hann aðeins eftir eins mánaðar vinnu við að raða saman handriti sínu að Æviskrám Siglfirðinga til setningar og útgáfuundirbúnings. Hugur hans var mjög bundinn þessu verki, sem til stóð að gefa út á næstu misserum.

Í mörg ár hafði hann setið iðnum stundum í sínu litla vinnuherbergi á Suðurgötu 39 á Siglufirði og rakið ættir og feril Siglfirðinga fyrr og síðar. Vandvirkni og skipulögð vinnubrögð gera það auðvelt að taka aftur upp þráðinn frá Sigurjóni og reka smiðshöggið á hans metnaðarfulla verk.

Sigurjón Sigtryggsson

Sigurjón Sigtryggsson

Sigurjón fæddist á Hæringsstöðum í Svarfaðardal 2. júlí 1916. 

Foreldrar hans voru Sigtryggur Davíðsson, húsmaður víða í Svarfaðardal og sjómaður, síðast á Dalvík, f. 22. júlí 1887 í Hjaltadal í Fnjóskadal, d. 25. mars 1922, og kona hans Sigríður Jóhannesdóttir, f. 2. okt. 1886 á Göngustöðum í Svarfaðardal, d. 31. ágúst 1972.

Sigtryggur var lengst af sjómaður og hneigðist nokkuð til fræðimennsku og ritstarfa, en öll handrit hans glötuðust er hann fórst með m/k Talisman. Sigurjón hefur líkast til erft fróðleiksfýsnina úr föðurættinni. Foreldrar Sigtryggs voru Davíð Davíðsson, bóndi í Hjaltadal, og kona hans, Guðrún Kristín Sigurðardóttir. 

Sigríður giftist aftur eftir lát Sigtryggs, Helgi Jónsson, verkamaður í Ólafsfirði. Foreldrar Sigríðar voru 

Jón Jóhannes Sigurðsson, bóndi í Göngustaðakoti og Hæringsstöðum, og konu hans Jónína Jónsdóttir. 

Alsystkin Sigurjóns voru:

  • 1. Sigrún Sigtryggsdóttir, f. 2. ágúst 1913 á Skeiði í Svarfaðardal, húsfreyja í Ólafsfirði og síðar á Akureyri. Maður hennar var Bergþór Kristinn Guðleifur Guðmundsson, vélstjóri. Þau eignuðust sex börn.

  • 2. Helga Sigtryggsdóttir, f. 29. sept. 1919 á Hrísum í Svarfaðardal, d. 25. júní 1924. Hálfsystur Sigurjóns voru:

  • 3. Ingibjörg Friðrika, f. 27. nóv. 1930 í Ólafsfirði, húsfreyja á Jarðbrú í Svarfaðardal. Maður hennar var Halldór Jónsson, bóndi og oddviti á Jarðbrú.
    Þau eignuðust sex börn.

  • 4. Rósa Steinunn f. 27. nóv. 1930 í Ólafsfirði, húsfreyja í Keflavík. Maður hennar er Hörður Guðmundsson, rakarameistari.
    Þau eiga fjórar dætur.

Sigurjón ólst upp á ýmsum bæjum í Svarfaðardal. Fyrstu fimmtán ár ævinnar hafði hann átt heimili á þrettán stöðum í þeirri sveit, síðustu þrjú árin í Sauðaneskoti á Upsaströnd. 

Móðir hans giftist 1. janúar 1931, seinni manni sínum, Helgi Jónsson, sem sest hafði að í Ólafsfirði. Þangað flutti Sigurjón vorið 1932 og þar stundaði hann sjómennsku allt til ársins 1945 að hann flutti til Siglufjarðar. Þar starfaði hann að neta- og veiðarfæragerð næstu tvo áratugi, síðar var hann verkamaður í fiskvinnslu á Siglufirði.

Sigurjón kvæntist 1. júní 1948 hinni ágætustu konu, Kristbjörg Ásgeirsdóttir, f. 23. des. 1915 á Brimbergi við Seyðisfjörð.
Hún er dóttir Ásgeir Kristján Guðmundsson, útvegsbóndi á Landamóti við Seyðisfjörð, og konu hans, Jóna Björnsdóttir.

Hjónaband Sigurjóns og Kristbjörgu hefur verið ástsælt. Heimili þeirra var í einu minnsta og elsta húsi Siglufjarðar. Þó svo að ekki væru húsakynnin stór var auðfundið er komið var þar í heimsókn að húsráðendur höfðu stórt hjarta. Samferðafólk mitt þangað var þar á einu máli.

 (Innskot sk: Ársæll Ásgeirsson (Sæli, Seyðisfirði)  var bróðir Kristbjargar) 

Börn Sigurjóns og Kristbjargar eru þrjú: 

  • 1. Sigríður Sigurjónsdóttir, f. 8. júní 1949 á Siglufirði, húsfreyja á Siglufirði. Maður hennar er Reynir Gunnarsson, vörubifreiðarstjóri, og eiga þau þrjú börn og áður átti Sigríður einn son.

  • 2. Sigtryggur Sigurjónsson, f. 4. júlí 1950 á Siglufirði, verkamaður á Siglufirði.

  • 3. Jóhanna Sigurjónsdóttir, f. 29. okt. 1951 á Siglufirði, húsfreyja á Seyðisfirði. Maður hennar er Jón Grétar Vigfússon, sjómaður. Þau eiga eina dóttur.

Fræðistörf urðu fyrirferðarmikil hjá Sigurjóni á hans efri árum. Þjóðlegur fróðleikur var hans áhugasvið. Þau héruð sem höfðu fóstrað hann, Svarfaðardalur, Ólafsfjörður og Siglufjörður fengu mesta athygli hans, svo og Skagafjörður, sem hann rakti ættir sínar til. Fyrstu ritverk hans sem birtust á prenti voru greinar í Skagfirskum æviskrám, sem hann var síðan lengi viðloðandi.

Greinar skrifaði hann einnig í Súlur og Sögu og var í ritstjórn Siglfirðingabókar og birti þar greinar. Fyrsta sjálfstæða ritið sem Sigurjón sendi frá sér var þó tengt sjómannsárum hans í Ólafsfirði, Sjóferðaminningar Sigurpáls Steinþórssonar, útgefið 1981.

Á árinu 1986 gaf Sögusteinn út stórvirki hans, Frá Hvanndölum til Úlfsdala, þættir úr sögu Hvanneyrarhrepps, þriggja binda verk. Þar var sögð saga einhverrar afskekktustu og harðbýlustu sveitar landsins. Þetta verk er einstakt sinnar tegundar, ekki fyrir það eitt að höfundurinn er "ómenntaður" alþýðufræðimaður, heldur kom hér fram ritverk, þar sem samhliða ættrakningum er gerð grein fyrir lífshlaupi allra íbúa eins héraðs, á löngum tíma, jafnt alþýðufólks sem embættismanna. 

Þessi tilraun þótti heppnast vel, enda voru ritdómar samhljóða í lofi sínu um verkið. Ekki hefur síðan verið gerð tilraun til að vinna sambærilegt verk um annað hérað.

Svarfaðardalur var Sigurjóni hugleikinn, enda var hann fóstraður þar. Kynni sín af Svarfdælingum og öðru frændfólki sínu endurnýjaði Sigurjón er hann tók saman niðjatal Sigurðar Jónssonar bóndi í Hreiðarsstaðakoti í Svarfaðardal og konu hans Steinunnar Jónsdóttur; kom ritið út hjá Sögusteini í tveimur bindum árið 1988.

Eftir því sem fleiri sigrar voru unnir í fræðimennskunni gerðust verkefni Sigurjóns metnaðarfyllri og umfangsmeiri. Hann setti sér að rita æviskrár allra Ólafsfirðinga og Siglfirðinga. Hann kom sér niður á vinnuaðferð við skráninguna, sem engin fyrirmynd var að. Þessum verkefnum helgaði hann sig síðustu fimm árin en hafði áður lagt að þeim grunn.

Í byrjun þessa árs bað Sigurjón undirritaðan að koma norður til að meta stöðu verksins með sér. Með mér í för var Ólafur Haukur Símonarson sem ætlaði að skoða með honum efni í sögulegt frásagnarverkefni. Áttum við notalegan tíma með þeim hjónum, og mikil bjartsýni ríkti um framvindu mála. Farið var að hilla undir lokaundirbúning útgáfunnar þegar kallið kom svo öllum að óvörum .

Sigurjón vildi sínum sveitum og sveitungum vel. Áður en langt um líður fá þeir að njóta þess verks sem hann ætlaði þeim.

Míns góða vinar minnist ég með þökk og aðdáun. Þótt hann sé nú horfinn yfir móðuna miklu, mun hans um langan tíma verða minnst af verkum sínum. 

Kristbjörgu og börnum hans þremur sendi ég mínar dýpstu samúðarkveðjur. 

Blessuð sé minning hans. 

Þorsteinn Jónsson.
--------------------------------------------------------

 mbl.is 3. júní 1993 | Minningargreinar | 372 orð

Sigurjón Sigtryggsson ­ Minning
Um páskana í vor frétti ég að Sigurjón

Sigurjón Sigtryggsson ­ Minning Um páskana í vor frétti ég að Sigurjón Sigtryggsson fræðimaður og rithöfundur á Siglufirði væri kominn á sjúkrahúsið á Akureyri. Mánuði seinna barst mér til útlanda fregnin um andlát hans. Liðið er hátt í hálfa öld síðan við Sigurjón hittumst fyrst, á matsölu á Siglufirði. Fljótlega þróaðist með okkur kunningsskapur og síðan vinátta sem varð því traustari sem lengra leið. Síðustu árin stóð ég svo í þakkarskuld við þennan gáfaða og stórfróða mann fyrir ráð og leiðbeiningar sem hann gaf mér þegar ég byrjaði sjálfur að fást við grúsk.

Síðastliðna hálfa öld hafa orðið aldahvörf hér á landi í mörgum efnum, ekki síst menntunarmöguleikum ungs fólks. Það er freistandi að velta fyrir sér hver hefði orðið ævibraut Sigurjóns Sigtryggssonar ef hann hefði í æsku átt kost á að feta þá beinu og breiðu braut til æðstu mennta sem nú má heita opin hverjum unglingi, í stað þess að flytjast milli þrettán heimila fyrstu fimmtán æviárin og hefja síðan hina eiginlegu lífsbaráttu í þrengingunum og atvinnuleysi heimskreppunnar miklu.

Lærdómur er raunar ekki einhlítur til að vinna merkileg afrek, til dæmis að rita merkar bækur. Til þess þarf fyrst og fremst merkilega menn, sem hafa metnað, greind og eljusemi til að skila góðu verki. Þetta hefur þó ýmsum greindum og gegnum mönnum tekist í hjáverkum frá erfiðisvinnu og þrátt fyrir kröpp æskukjör. Einn þeirra var Sigurjón Sigtryggsson.

Prentaðar bækur Sigurjóns eru í sex bindum, Sjóferðaminningar Sigurpáls Steinþórssonar, Frá Hvannadölum til Úlfsdala í þrem bindum og Hreiðarsstaðakotsætt í tveim. Greinar hans í Súlum, Sögu og Siglfirðingabók, Skagfirskum æviskrám og víðar nema eflaust vænu bindi. Ótalið er þá stærsta og merkasta verk hans, sem ekki var að fullu lokið þegar hann lést, en það eru æviskrár Siglfirðinga og Ólafsfirðinga allt aftur til 1835. Það verk var þó svo langt komið, að horfur eru á að það verði gefið út innan skamms og mun þá væntanlega fylla nokkur bindi.

Hér verður ekki rakið lífshlaup Sigurjóns í einstökum atriðum. Það var gert í ágætri minningargrein Þorsteins Jónssonar ættfræðings, sem birtist á útfarardaginn, og ástæðulaust er að endurtaka. Tilgangurinn með þessum orðum er einungis að votta minningu góðs vinar og ágæts fræðimanns skylduga virðingu og ástvinum hans samúð.

Benedikt Sigurðsson.