Sigurður Gunnlaugsson bæjarritari

Sigurður Gunnlaugsson frá Siglufirði Fæddur 5. október 1906 Dáinn 25. október 1991 

Góður vinur er genginn, Sigurður Gunnlaugsson frá Siglufirði, þúsundþjalasmiður, sem var svo margt til lista lagt, bæði til hugar og handar.

Sigurður var starfsmaður Siglufjarðarkaupstaðar í 42 ár, frá 1934 til 1977, fyrst sem hafnargjaldkeri, síðar sem bæjarritari.

Hann var jafnframt fundarritari bæjarstjórnar frá 1938 til 1977 og sat meir en 800 bæjarstjórnarfundi á langleiðina á 40 ára ritaraferli. Hann átti og sæti í ýmsum nefndum bæjarstjórnar og gegndi trúnaðarstörfum fyrir siglfirska jafnaðarmenn. 

Samhliða störfum fyrir Siglufjarðarkaupstað vann Sigurður fjölþætt félagsmálastarf í Siglufirði.

Sigurður Gunnlaugsson

Sigurður Gunnlaugsson

Hann var stofnfélagi Karlakórsins Vísis og söng með kórnum í meir en fimm áratugi. Það var því meir en maklegt er hann var sæmdur heiðursmerki kórsins. Hann var formaður Norræna félagsins í Siglufirði í rúma þrjá áratugi og hlaut einnig þar heiðursmerki fyrir farsæla forystu. Sigurður hefur og starfað í Lionsklúbbi Siglufjarðar um langt árabil og tvisvar hlotið sérstaka viðurkenningu fyrir störf innan Lionshreyfingarinnar.

Hann var á yngri árum virkur þátttakandi í ungmennafélagi, sem starfaði í Siglufirði, var lengi í Leikfélagi Siglufjarðar, vann með góðtemplurum, söng með ýmsum sönghópum og skipaði sveit sigfirskra frímúrara.

Framangreint er engan veginn tæmandi um félagsmálastarf Sigurðar Gunnlaugssonar. Nóg er þó talið til að sýna, hve lifandi og virkur hann var í sigfirsku samfélagi. En það voru fleiri strengir í hörpu hans en þeir, sem tengdust ábyrgðarstörfum í þágu bæjarfélagsins og félagsmálastarfi. Áhugasvið hans voru ótalmörg. Hann var einstakur hagleiksmaður, bæði til hugar og handar. Samdi ljóð og lög, skar út í tré, skrautritaði og festi umhverfi sitt og hugsýnir í myndir, bæði í teikningum og málverkum. Hann hafði og yndi af ferðalögum og gerði víðreist, bæði innanlands og utan.

Sigurður Gunnlaugsson var fæddur í Siglufirði 5. október árið 1906 og var því rétt rúmlega 85 ára að aldri þegar kallið kom, 25. október 1991. 

Foreldrar hans voru Margrét Ólöf Meyvantsdóttir (f. 28. febr. 1882, d. 27. apríl 1947) og Gunnlaugur Sigurðsson skipasmiður og bæjarfulltrúi (f. 9. apríl 1881, d. 10. ágúst 1951). Þau voru bæði fæddir Siglfirðingar.

Sigurður vann sem ungur maður við almenn störf er til féllu í síldarbænum, en lagði síðan leið sína í Samvinnuskólann. Hann lauk prófum frá þeim skóla árið 1927 og fór skömmu síðar til Danmerkur og síðan Þýskalands til frekara verslunarnáms, m.a. við auglýsingagerð og útstillingar í verslunarglugga. Hann starfaði við kaupfélög í Danmörku, á Húsavík, Ísafirði og í Siglufirði áður en hann hóf starfsferill sinn hjá Siglufjarðarkaupstað sem fyrr getur.

Sigurður kvæntist Ingibjörg Eggertsdóttir hjúkrunarkona (f. 14. maí 1912, d. 11. mars 1969) Foreldrar hennar voru Eggert Einarsson kaupmaður á Akureyri kona hans Guðlaugar Sigfúsdóttur 30. nóvember 1934.

Ingibjörg var hvers manns hugljúfi og manni sínum stoð og styrkur. Þeim varð tveggja sona auðið,

1) Gunnlaugur Sigurðsson, skólastjóri í Garðabæ, maki Gunnlaug Jakobsdóttir, og 

2) Jóns Sigurðsson, byggingameistari í Garðabæ, maki Kölla Malmquist.

Sigurði Gunnlaugssyni var margt til lista lagt. Hann lifði langa ævi og farsæla. Hann gekk ekki alltaf heill til skógar, en létt lund hans, ljúft viðmót og jákvætt lífsviðhorf gerðu hann að gæfumanni - og gleðigjafa til samferðamanna. Hafi hann heila þökk okkar sem áttum hann að vini.

Hinn hæsti höfuðsmiður greiði götu hans á nýjum vettvangi. Sigurður verður lagður til hinstu hvílu norður í Siglufirði á morgun, mánudag, 4. nóvember, í skjóli fjallanna, sem staðið hafa vörð um heimabæ hans frá ómunatíð. Siglfirðingar heima og heiman senda ástvinum hans hlýjar samúðarkveðjur. 

Stefán Friðbjarnarson