Sigurður Jóhannesson bifreiðarstjóri

Sigurður Jóhannesson bifreiðarstjóri  Fæddur 5. apríl, 1905 - Dáinn 18. okt., 1972

Sigurður Jóhannesson fæddist í Vík í Skagafirði 5. apríl 1905. Frá barnsaldri til manndómsára dvaldist hann þó í Austur-Húnavatnssýslu, þar 'Voru æskustöðvar hans og æsku minningar og þangað mun hugur hans oft hafa leitað er aldurinn færðist yfir. 

Ungum mun Sigurði hafa orðið ljóst möguleikaleysi þeirrar tilveru, sem þá fylgdi oftast vinnumennsku í harðbýlli útkjálkasveit. árið 1927 réðist hann í þá nýung að verða sér úti um réttindi til aksturs vörubifreiða. Það sama ár hóf hann starf, sem vörubifreiðarstjóri og því starfi gegndi hann svo til einvörðungu til dauðadags, eða í 45 ár. 

Árið 1933 kvæntist Sigurður eftirlifandi konu sinni, Sigríður Þórðardóttir frá Siglunesi.

Hér í Siglufirði giftust þau hjónin 17. júní 1933, hér reistu þau sitt heimili og hér bjuggu þau allan sinn búskap í 39 ár.

Sigurður Jóhannesson - Ljósmynd Kristfinnur

Sigurður Jóhannesson - Ljósmynd Kristfinnur

Heimili þeirra bar frá fyrstu tíð öll aðalsmerki íslenzkrar sveitamenningar, eins og hún hefur bezt þróast í gegnum kynslóðirnar. Þar áttu þau hjón bæði hlut að máli, en mikill mun þar þó hlutur húsfreyjunnar frá Siglunesi.

Þau hjónin eignuðust fjóra syni,

Þórður Sigurðsson, 

Hafstein Sigurðsson, 

Jónas Sigurðsson og 

Valgeir Sigurðsson.

Þeir bræður bera allir mjög svipmót og yfirbragð föður síns, og hafa fengið í arf bæði einurð hans og hreysti Oft er það svo, að þegar samstarfsmenn falla frá, þá skilja þeir eftir í hugum okkar meiri eða minni áhrif frá samveru og samstarfi. 

Eðli manna og lífsviðhorf gefa ekki aðeins mynd af persónunni sjálfri, heldur hafa út frá sér nokkur áhrif, sem eftir standa hjá samferðamönnum.

Siggi á Nesi var einn þeirra manna, sem eftir var tekið; menn vissu bæði þegar hann kom og þegar hann fór. Hreysti hans og hispursleysi voru öllum kunn. Það var aldrei logn þar sem hann var, þar gustaði alltaf nokkuð. Sem unglingur man ég þennan vígalega mann á götum Siglufjarðar. Hann minnti mig a víkinga fornaldarinnar. 

Með hjálm á höfði og sverð í hendi hefði hann ekkert á vantað. Þessara áhrifa gætir enn, þrátt fyrir áralöng kynni, eða kannski einmitt vegna þeirra. Siggi á Nesi var ásamt ýmsum öðrum af sinni kynslóð á vissan hátt táknrænn fyrir Siglufjörð síldarævintýrisins. Þá þurfti harðfenga menn með ódrepandi dugnað til að þola endalausar vökur og strit, og í kjölfarið fylgdu, miklir fjármunir, hrjúft yfirborð, og áberandi andstæður. 

En grunnt undir yfirborðinu, hversu hrjúft, sem það var, var þó oft hér að finna meiri réttlætiskennd og meiri hlýju en víðast hvar annarstaðar. Þegar ég hóf störf hjá Bílstjóradeild Þróttar árið 1963, kynntist ég Sigga á Nesi fljótlega allnáið. Hann var þá formaður Bílstjóradeildarinnar, svo að samvinna okkar varð strax mikil. 

Tvennt er það, sem ég minnist sérstaklega frá þeim árum, sem síðan eru liðin. Einstök stéttvísi Sigga sem mér fannst að mótaði afstöðu hans til manna og málefna, umfram alla aðra hluti, ásamt alveg ótrúlegum vilja til að ná fram einhverjum breytingum til' bóta, viðvíkjandi vinnuaðstöðu og kjörum vörubifreiðastjóra. Hitt er, að í brjósti þessa horfna félaga, bjó undir niðri mikil mannleg hlýja, hjálpfýsi og góðvilji til allra þeirra, sem órétti eru beittir, til allra, bæði manna og málleysingja, sem líða og eiga bágt. Við fráfall kunningja er okkur tamt að hugsa til þess, sem við tekur eftir dauðann og hin ýmsu trúarbrögð bregða upp fyrir okkur mismunandi myndum af því. 

Enginn mun sá til, sem uppúr getur kveðið með það hvað réttast sé um tilveru eftir dauð- ann. Ég óska þessum horfna félaga mínum því þeirrar tilveru, sem ég held, að honum sjálfum mundi kærust. Að hann megi þeysa á miklum hestum á víðum völlum Valhallar. Að hann megi teyga mjöð daglangt úr miklum hornum. Að hann megi taka þátt í orustum, og berjast fyrir málstað þeirra sem minna mega sin og órétti eru beittir. Eiginkonu Sigurðar, vinkonu minni Sigríði Þórðardóttur, og sonum þeirra hjóna, flyt ég mínar innilegustu samúðarkveðjur. 

Kolbeinn Friðbjarnarson