Tengt Siglufirði
Sigurður Þorsteinsson fæddist 23. mars 1929. Hann andaðist 9. febrúar 2008.
Foreldrar hans voru hjónin Þorsteinn Mikael Ásgeirsson, sjómaður í Eyrardal í Álftafirði, á Súðavík og í Hattardal í Súðavíkurhreppi í N-Ísafjarðarsýslu, síðar í Hnífsdal, f. 6. febr. 1877, d. 1. maí 1950, og Rebekka Bjarnadóttir húsfreyja, f. 15. nóv. 1884, d. 11. maí 1981.
Systkini Sigurðar eru
1) Ásgeir Ragnar Þorsteinsson, f. 1908, d. 1998,
2) Pálína Salóme Þorsteinsdóttir, f. 1909, d. 1993,
3) Kristjana Jóna Þorsteinsdóttir, f. 1912,
4) Sigríður Guðrún Þorsteinsdóttir, f. 1913,
5) Lárus Sigurvin Þorsteinsson, f. 1916, d. 1978,
6) Bjarni Þorsteinsson bifreiðarstjóri, f. 1918, d. 2006,
7) Guðjón Kristinn Þorsteinsson, f. 1921,
8) Þórir Sveinn Þorsteinsson, f. 1923, og
9) Höskuldur Andrés Þorsteinsson, f. 1925, d. 1966.
10) Sigurður Þorsteinsson maki 1954 Edda Konráðsdóttir. Þau skildu 1992.
Börn þeirra eru:
1) Ólafur Sigurðsson, f. 1955.
2) Þorsteinn Kristinn Sigurðsson, f. 1956, maki Karen DeSpain, dætur hans
Kirsten Rebekka, f. 1982, og
Gabrielle, f. 1996.
3) Sigurður Ernir Þorsteinsson, f. 1958,maki Tanja Marie Ólafsdóttir, börn hans
a) Edda Hrund, f. 1982, sonur hennar er
Birkir Snær, f. 2005,
b) Leifur Erik, f. 1993,
c) Chloe Kristín, f. 1996, og
d) Hafdís Jana, f. 2001,
stjúpbörn Sigurðar Ernis Jamie Marc, f. 1989, og Svava Marie, f. 1991.
4) Jens Konráð Sigurðsson, f. 1959, maki Ashley Thorsteinsson, börn þeirra
Tristan, f. 1983,
Brittany, f. 1984, og
Finnur Jens, f. 1990.
5) Þorbjörg Sigurðsdóttir, f. 1961, maki Nicholas Griesbach, f. 1961, börn þeirra
Lóa Taylor, f. 1984,
Sóley Björk, f. 1986, og
Helga Sigrún, f. 1989.
------------------------
Sigurður Þorsteinsson skipstjóri á tankskipinu Haförninn árin 1966-1969 Fæddur 23. mars 1929 - Dáinn 9. febrúar 2008 (78 ára) það er erfitt að lýsa Sigurði skipstjóra.
Hann var mjög óvenjulegur persónuleiki, en ávalt brosmildur. Maður hafði á tilfinningunni að hann vissi alltaf nákvæmlega hvað hann vildi og ætlaði sér.
Hann var mjög vinsæll á meðal áhafnarmeðlima Hafarnarins og mikil virðing borin fyrir honum.
Vissulega var hann ekki gallalaus, en þeir örfáu um borð sem þá galla þekktu, leiddu þá hjá sér.
Ég hafði einu sinni nokkrum vikum fyrir mín fyrstu raunverulegu kynnin, átt við hann orðaskipti er ég var sendur um borð í Haförninn að beiðni Morgunblaðsins til að taka mynd af honum, (myndin af honum hér fyri ofan) vegna viðtals sem Stefán Friðbjarnason tók við hann í tilefni af komu skipsins í fyrsta sinn til heimahafnarinnar, Siglufjarðar þann var 18. Ágúst 1966.
Fyrstu raunverulegu kynni mín af Sigurði skipstjóra voru í október mánuði sama ár, er skipstjórinn á Haferninum Sigurður Þorsteinsson kom til mín upp á hábryggju S.R. (þróardekk) Þar sem ég var við vinnu mína sem fólst í því yfir sumarmánuðina á þessum tíma, að smyrja og viðhalda þróardrögurum og öðrum vélbúnaði sem tilheyrði löndun og flutningi á síld frá löndunarbryggjum til þróarsvæða hjá S.R. á Siglufirði. Meðal annars einnig vegna löndunar úr Haferninum sem þá var verið að landa úr.
Eitthvað nálægt þessu munu orðaskipti okkar hafa verið:
"Sæll Steingrímur og góðan daginn, ég hefi heyrt ýmislegt um þig. Okkur vantar timburmann um borð í Haförninn. Hefurðu áhuga á starfinu?"
Stutt og laggott, en Sigurður var ekki vanur að hafa langan fyrirvara á erindum sínum, því kynntist ég síðar.
Þessi orð hans gerðu mig hálf forviða og gersamlega á óvart. Ekki hafði hvarflað að mér að fara á sjó eftir túrinn minn forðum um borð í Elliða SI 1 þar sem ég var alltaf sjóveikur, og var alls ekki undir það búinn að verða í annað sinn beðinn um að gerast sjómaður.
Ég taldi ýmislegt aftra áhuga mínum til slíkra verka, aðallega sjóveikinni sem ég jafnan varð fyrir á trillu minni sem ég átti á þessum tíma.
Sigurður var að eðlisfari vel máli farinn og hvetjandi. Hann sagði mig ekki þurfa að kvíða neinu þó ég yrði slappur af sjóveiki, hann skildi sjá til þess að ég gæti slappað vel af ef slíkt kæmi upp á.
Margt fleira sagði hann mér til hvatningar, meðal annars að Guðmundur Arason 1. stýrimaður gamall kunningi minn, frá tíð hans á togaranum Hafliða SI 2 þá sem bátsmaður, hann hefði gefið mér mjög góð meðmæli, svo og fleiri sem hann hefði spurt aðra um mig,
Ég mundi örugglega afla meiri tekna um borð heldur en í landi, ofl. ofl.
Það endaði með því að ég hringdi í konu mína og spurði hvernig henni litist á, hún var treg til í fyrstu, en eftir smá viðræður samþykkti hún ráðagerðina, og ég var munstraður um borð í Haförninn og kynntist Sigurði mjög náið í framhaldi af því.
En minningar mínar í félagi við þennan mann eru mér ógleymanlegar, sem og persónuleiki hans. Því má lýsa á einfaldan hátt. Hann tók öllum skipverjum
sem jafningjum, og sóttist eftir vinskap þeirra og reyndi að kynnast sem best hverjum einstaklingi.
Þó án þess að það yrði misskilið að hann var skipstjórinn og orð hans
væru lög um borð.
Hann tók ávalt þátt í öllum gleðskap, þröngum hópi sem og með skipshöfninni allri, jafnvel þó svo að stundum við anker eða í höfn væri áfengi haft um hönd.
En hann var sjálfur algjör bindindismaður á tóbak og áfengi. þau voru þó skýr fyrirmæli frá honum:
það er í lagi að fá sér í glas utan vinnutíma, en ég líð ekki neinum að drekka sig ofurölvi, það getur valdið brottrekstri.
Aldrei (?) kom þó til slíks, þar sem reglur hans voru virtar í hvívetna, og áhugi áhafnarinnar auk þess ekki á slíkri ofneyslu.
Sigurður sigldi ætíð skipi sínu um höfin, eins og hann taldi vera auðveldustu leiðina, framhjá stórviðrum og til hlés við land, við eða á milli eyja þegar þess var kostur.
Hann fylgdist alltaf nákvæmlega með veðurfregnum, bar saman veðurfregnir frá Íslandi, Englandi, þýskalandi og Frakklandi, setti vel á sig stefnur lægða og hæða. Oftar en ekki valdi hann að vinna úr veðurspám frá Englandi.
Eitt dæmi um snilld hans varðandi siglingar um úthöfin er mér minnisstætt:
Við mættum togaranum Hafliða SI 2 skammt út af Humberfljóti í Englandi, þaðan sem togarinn var að koma eftir að hafa landað þar fiski í Hull.
Skipin voru um stund samsíða, og bæði á leið til Siglufjarðar. Hafliði var með tómar lestir, en Haförninn með fullfermi af svartolíu frá Rússlandi, sem að megni til var svo losað á Siglufirði.
Fljótlega hvarf togarinn út í sortann, en komið var nokkuð dimmviðri. Ganghraði Hafliða var amk. tveim sjómílum meiri en hjá Haferninum, sagði þriðji stýrimaður á Haferninum, Friðrik Björnsson sem hafði verið á Hafliða áður.
Þegar leið á daginn versnar veðrið til muna, mikill vindur og stórsjór. Hafliði var fyrir löngu horfinn af radarskjánum, þegar skipstjórinn gefur fyrirmæli um að stefna á Færeyjar og bíða þar af okkur veðriðið sagði hann.
Farið var inn á Vagafjörð. (?) Þar valinn staður, þar sem legið við ankeri í skjóli fyrir norðan stórviðri. þar vorum við í tæpa 12 tíma, eða þar til veðinu slotaði.
Þegar Færeyjar voru yfirgefnar, tók skipstjórinn stefnuna í um það bil norðaustur (ekki venjuleg stefna til Íslands, og áður en langt var um liðið hafði vindátt breyst, og komið var hálfgert lens og góður ganghraði.
"Við fylgjum lægðinni" sagði skipstjórinn. þegar við vorum komnir upp undir 66° var stefnan komin nálægt norðvestur, en skipið hafði fylgt eftir stefnu lægðarinnar og mestan tímann á lensi, á góðri siglingu. Snjókoma fylgdi þessu veðri og sást sjaldan mikið fram fyrir skipið.
Veður lægði þó nokkuð síðar með minnkandi snjókomu, þegar stefna var loks tekin á Siglufjörð nánast úr norðaustri, við sáum grilla í Grímsey á stjórnborða, nokkru síðar sagði stýrimaður okkur frá skipi langt fyrir aftan okkur og nær landi á bakborða.
Um það bil er siglt var framhjá Hellunni inn á Siglufjörð, þekktist skipið sem áður hafði sést á radarnum, þetta var togarinn Hafliði.
Síðar kom í ljós að togarinn hafði lent í aftakaveðri vestur af Færeyjum og suður af Íslandi, alla leið framhjá Langanesi, oft þurft að halda sjó og alltaf með veðrið á móti sér.
Togarinn var greinlega á fullri ferð þegar skipverjar hans áttuðu sig á að Haförninn var fram undan, og er komið var inn á miðjan fjörð hafði Hafliði náð okkur. Enda hafði Haförninn hægt á ferðinni til að leggjast upp við Öldubrjótinn, þar sem megnið af farminum var losaður.
Vissulega tafði veðrið ferð beggja skipana, en það hefur örugglega verið meira stress á áhöfn Hafliða en Hafarnarins á leiðinni.
Tvisvar, mörgum árum síðar átti Sigurður leið um Siglufjörð. Hann hafði tekið að sér að sigla skipum frá erlendum höfnum, sem "ferjuskipstjóri." Þá var hann fyrir löngu hættur sögulegum siglingum um allan heim, eins og getið er um í æviminningum hans, bókinni "Alltaf til í slaginn"
Í bæði skiptin hafði Sigurður samband við mig og bað mig að hitta sig um borð þegar viðkomandi
skip höfðu viðkomu á Siglufirði.
Í fyrra skiptið, stoppaði skipið sem hann var að "ferja," í tvo þrjá tíma, svo ég tók hann með heim til að rabba og hitta
konu mína, sem hann þekkti vel.
Ég hafði einu sinni gagnrýnt hann vegna atviks sem snerti okkur alla, skipverja hans, leiðinda atvik sem ég ætla ekki að fara nánar út í hér.
Hann nefndi það atvik, nú af fyrrabragði. Hann sagði að hann sæi eftir að hafa gert það, sem hafði valdið svo mikilli óánægju um borð. En sagðist virða það einlæglega að ég skuli einn allra skipsfélaga, hans hafa haft kjark til að skamma hann þegar upp komst (það var gert undir fjögur augu).
Enginn annar hefði gagnrýnt hann fyrir
atvikið í alvöru, svo hann hefði heyrt. Og þarna eftir mörg ár og það atvik fyrir löngu fyrirgefið, þá skammaði ég hann aftur.
En nú vegna bókarinnar
áðurnefndu. Þar sem hann gleymdi að telja upp hinn stóra þátt Guðmundar Arasona um borð í Haferninum og fleiri skipum sem þeir höfðu verið saman á.
En að hæla svo mér í hástert í bókinni, fyrir verk og hugmyndir sem oft hefðu komið frá Guðmundi Arasyni, það er varðandi "tómstundasalinn" um borð í Haferninum sem Guðmundur hannaði, en ég smíðaði og innréttaði, allt samkvæmt hugmyndum Guðmundar.
Þar hefði Guðmundur vissulega átti allan heiðurinn auk margs annars, sem gleymdist að minnast á í bókinni hans.
Hann viðurkenndi það og sagðist ekki hafa áttað sig á því fyrr en hann las bókina eftir að hún kom út, hverju hann hefði gleymt að nefna en það hefði verið margt, eftir á að hyggja.
En eftir þessa "messu" áttum við góðar samræður og upprifjun, bæði um hans persónulegu hagi á þeim tíma, svo og hann forvitnaðist um mína eins og gengur.
Einnig röbbuðum við lengi saman í seinna skiptið er hann kom, en þá um borð í klefa hans.
Steingrímur
Kristinsson.
------------------------------------------------------
Sigurður skrifaði endurminningar sínar í bók sem ber nafnið ALLTAF TIL Í SLAGINN, sem gefin var út af Vöku Helgafell árið1992 - Söguritari var Sigurður Erlingsson
Meira um Sigurð>>>> Sigurður Þorsteinsson