Snorri Stefánsson í Hlíðarhúsi - Rauðku

Snorri Stefánsson í Hlíðarhúsi Fæddur 6. ágúst 1895 Dáinn 23. janúar 1987

Föstudaginn 23. janúar 1987 féll í valinn mikill öðlingur, Snorri í Hlíðarhúsi, eins og hann var nefndur í daglegu tali af Siglfirðingum, eftir stutta legu í Sjúkrahúsi Siglufjarðar á 92. aldursári.

Snorri var fæddur á Akureyri 6. ágúst 1895.

Foreldrar hans voru Stefán Ólafsson sjómaður þar, síðan á Siglufirði, og kona hans, Anna Sigurbjörg Jóhannesdóttir.

Hann fluttist með foreldrum sínum til Siglufjarðar 1907 og settist að í Hlíðarhúsi og bjó þar til dauðadags.

Snorri hóf að nema járnsmíði hjá vélaverkfræðingnum Gústav Blomquist 1913, norskum manni, sem kom hingað á vegum Sören Goos til að byggja síldarverksmiðju, svonefnda Goos-verksmiðju eða öðru nafni Rauðka. 

Snorri Stefánsson - Ljósmynd: Kristfinnur

Snorri Stefánsson - Ljósmynd: Kristfinnur

Hann stundaði það nám í 4 ár, en eftir það vann hann hjá fyrirtækinu sem járnsmiður og vélgæslumaður til haustsins 1920, að undanskildum vetrinum 1916, en þá stundaði hann járnsmíðanám í Stavanger í Noregi.

Haustið 1920 innritaðist Snorri í Vélstjóraskóla Íslands og lauk þaðan prófi 1922. Hann stundaði vélgæslu á skipum til 1924 en þá réðst hann sem verksmiðjustjóri við síldarverksmiðjur Sören Goos á Siglufirði til ársloka 1933, en þá seldi Goos Siglufjarðarkaupstað verksmiðjurnar Rauðka og Grána.

Hann tók á leigu 1934, ásamt Sigurði Kristjánssyni sparisjóðsstjóra, síldarverksmiðjuna Gránu til 10 ára og jafnframt síldarverksmiðjuna Rauðku í félagi við Steindór Hjaltalín útgerðarmann til 3 ára. Og annaðist Snorri daglegan rekstur þeirra.

Sumarið 1937 hóf Siglufjarðarkaupstaður rekstur verksmiðjunnar Rauðku og var hann þá ráðinn framkvæmdastjóri hennar og gegndi því starfi til 1963. Hann fékkst auk þess við útgerð fiskiskipa í félagi við aðra um árabil. Ríkisskoðunarmaður skipa á Siglufirði var hann frá 1948-1963, hann var skipaður í byggingarnefnd Síldarverksmiðju ríkisins 1945-47, kosinn í sóknarnefnd 1948-63. 

Formaður Iðnaðarmannafélags Siglufjarðar var hann um skeið, kosinn í Iðnráð Siglufjarðar, félagi í Búnaðarfélagi Siglufjarðar og Rotaryklúbb Siglufjarðar frá 1938. Heiðursfélagi í Iðnaðarmannafélagi Siglufjarðar 1961.

Eiginkona Snorra var Sigríður Jónsdóttir frá Stóru-Brekku í Fljótum, síðar á Siglunesi, mikil mannkostakona. Þau gengu í hjónaband 6. desember 1924.

Einkadóttir þeirra er.

Anna Snorradóttir, maki Knútur Jónsson skrifstofustjóri, og eiga þau tvö fósturbörn,

1) Fjóla Knútsdóttir og unnusta hennar, Jóhann Ragnarsson.

2) Óskar Knútsson, og eitt barnabarn,

Anna Þóra Jóhannsdóttir, dóttur Fjólu og Jóhanns 

Ýmislegt má finna tengt Snorra Stefánssyni, frá tenglunum "Mjöl og Lýsissaga"  og HÉRNA

Snorri var einn af þessum sérstæðu aldamótamönnum, sem gott var að kynnast og margt mátti læra af. Hann var fjölfróður um allt er snerti síldveiðar og síldarverksmiðjur svo og vélar og búnað er tilheyrði sjávarútveginum. Enda var starfssvið hans meginhluta ævinnar á þeim vettvangi og þar fór maður er menn tóku mark á og var þekktur fyrir samviskusemi og áreiðanleika. Hann var mikill atorkumaður í sér og allar nýjungar á sviði véltækni og verksmiðjurekstrar var hann fljótur að tileinka sér, ef þær voru til hagsbóta.

En Snorri kom víða við. Hann lagði mörgum góðum málum lið, sem voru óskyld hans sérsviði.

Óhætt er að segja að framkvæmdastjórastarfið við Rauðku hafi verið honum hugleiknast.

Hann lagði allan sinn metnað og kunnáttu í að hafa verksmiðjuna sem hagkvæmasta. Hann breytti og byggði við, svo að hún var af kunnáttumönnum talin mjög til fyrirmyndar. Þá var og öll afgreiðsla og viðskipti við sjómenn og útgerðarmenn mjög til eftirbreytni en þeir gátu oft 

verið óþolinmóðir varðandi löndun og fleira. Mikill afli oft á miðum og erfitt að bíða. Þetta þekkja allir er unnið hafa við síldariðnaðinn. Snorra tókst að komast framhjá öllum slíkum árekstrum, sem oft hentu hjá öðrum verksmiðjum við sjómenn og útgerðarmenn, með sinni einstöku lipurð, réttsýni og stakri ljúfmennsku.

Aldrei hallaði hann réttu máli, hver svo sem í hlut átti og reyndi alltaf að miðla málum ef ágreiningur var uppi. Slíkir hæfileikar eru mikill kostur en það orð fór af Snorra að munnleg loforð hans væru sama og skrifleg - gulltryggð. Aldrei heyrði ég hann hallmæla mönnum. Þó var hann oft í erfiðri aðstöðu vegna starfs síns þar sem ólík sjónarmið komu oft fram.

Það er trúlega sjaldgæft að forstjóri fyrirtækis, sem aðrir eiga, leggi nótt við dag þegar vinnsla var í gangi um sumarmánuðina eins og Snorri gerði um langt árabil, þó hann væri þess fullmeðvitaður að þar væri hann að tefla á tæpasta vaðið heilsunnar vegna, en Snorri hafði kennt augnsjúkdóms, sem virtist ágerast og voru næturvökur hættulegar manni með slíkan sjúkdóm.

Svo kom að því, sem hann hafði sjálfsagt lengi óttast, að skyndilega hvarf honum nær öll sjón, þrátt fyrir viðleitni lækna að hefta sjúkdóminn. Getur hver maður ímyndað sér hvílík ógnarreynsla það hefir verið fyrir mann í umsvifamiklu starfi með óskerta líkama- og sálar krafta að verða allt í einu umluktur myrkri þau ár sem hann átti eftir ólifuð, sem urðu 26. Að vera nær bjargarlaus og mikið upp á aðra kominn, var mikil reynsla fyrir mann sem sjálfsbjargarviðleitnin var í blóð borin.

En Snorri átti fágætan trúar styrk, sem hjálpaði honum að halda sálarró sinni og sætta sig við orðinn hlut, þó þungbært væri að hverfa frá starfi sínu og öðru, sem sjáandi maður nýtur daglega. En Snorri háði ekki einn þessa baráttu, viðhlið hans stóð hans elskulega eiginkona, Sigríður, sem hughreysti og talaði kjark í hann og stóð með honum eins og klettur. Reyndi eftir bestu getu að stytta honum stundirnar.

Hún fann af eðlisávísun sinni hve gífurleg vonbrigði og viðbrigði það hlytu að vera fyrir maka sinnað koma úr iðandi athafnalífinu og þurfa að setjast að um kyrrt í húsi sínu það sem eftir væri ævinnar. Sigríður var stillt kona og ræddi lítt um sínar áhyggjur og vandamál varðandi heilsu bónda síns, hvað þá sína eigin.

Og árin liðu. Snorri aðlagaðist smám saman umhverfi sínu og var nú orðinn sæmilega sjálfbjarga innanhúss, enda þekkti hann þar hvern krók og kima. Hann hafði það fyrir venju að fara í göngutúr meðfram húsi sínu tvisvar á dag. Handrið var fest á húsið svo hann gat haldið sér í það. Hann hafði mikla ánægju af þessum göngum og þær efldu þrótt hans og bjartsýni.

Á heimili þeirra hjóna bjuggu tengdaforeldrar mínir frá 1924, ásamt dætrum sínum, Guðbjörgu og Margréti, sem ólust upp með Önnu dóttur þeirra. Þetta sambýli var til mikillar fyrirmyndar. Þar ríkti einstök reglusemi og verkaskipting systranna Sigríðar og Ólafar var aðdáunarverð. Hér skulu færðar þakkir konu minnar og mágkonu fyrir öll þessi ár, þar sem þessar tvær fjölskyldur voru sem ein og þar sem hjálpsemi og eining ríkti.

Þann 27. desember 1972 dró ský fyrir sólu. Þá andaðist Sigríður kona Snorra eftir stutta legu í Sjúkrahúsi Siglufjarðar. Var það mikill og sár missir fyrir hann eftir 48 ára sambúð. En Snorri stóð af sér þessa raun með trúna á Guð að leiðarljósi. Eftir lát Sigríðar tók Ólöf að sér að annast heimilið meðhjálp Önnu dóttur hans. Var reynt að halda heimilinu í því horfi sem það hafði verið. Eftir lát Ólafar 15. október 1980 önnuðust dóttir hans og tengdasonur hann af mikilli alúð og ræktarsemi.

Við hjónin og börnin okkar áttum margar ógleymanlegar stundir í Hlíðarhúsi. Þegar fjölskyldurnar báðar voru þar samankomnar var oft glatt á hjalla. Húsið hlýlegt og einhver sérstök stemmning í því sem orkaði á mann og manni leið vel.

Snorri var með afbrigðum barngóður og það var stundum broslegt að sjá börnin okkar kjaga upp stíginn að Hlíðarhúsi til að hitta ömmu sína, frænku Sigríði og Snorra, misjafnlega fljót í förum en með vissu um það þegar áfanga væri náð að eitthvað góðgæti stæði til boða og að 

Snorri lét ekki standa á sér, seilst var í sælgætið og því útbýtt. Þegar svo börnin uxu úr grasi varð sælgætið ekki aðalatriðið, heldur væntumþykjan.

Hann kærði sig ekki um vegtyllur pólitískar sem stóðu honum vissulega til boða. Hann var reglumaður í hvívetna og eignaðist fjölda vina gegnum starf sitt. Enginn hávaðamaður, frekar hlédrægur en fastur fyrir.

Góðir vinir hans heimsóttu hann reglulega í áraraðir og var hann þeim mjög þakklátur.

Nú er þessi elskulegi maður horfinn á vit feðra sinna í öruggri vissu um endurfundi við ástvini sína. Hann kveið ekki dauðanum, til þess var trú hans of sterk, það hefir trúlega verið honum fagnaðarefni að endalokin voru í aðsigi þegar árin voru orðin þetta mörg.

Við hjónin, börn okkar og fjölskyldur þeirra þökkum órjúfanlega vináttu gegnum árin.

Guð blessi minningu hans. Óli J. Blöndal