Stefnir Guðlaugsson

Stefnir Guðlaugsson. Laugardaginn 6. desember 1980 lést að heimili sínu Álfhólsvegi 29 í Kópavogi Stefnir Guðlaugsson frá Siglufirði. Stefnir var fæddur á Siglufirði 20. júlí árið 1933. 

Þar ólst hann upp yngstur þriggja systkina í húsi foreldra sinna Hverfisgötu 22. 

Foreldrar hans voru hjónin Sigurbjörg Jakobsdóttir ættuð úr Þingeyjarsýslu og Guðlaugur Sigurðsson ættaður frá Svarfaðardal í Eyjafirði. 

Föður sinn missti Stefnir er hann var barn að aldri og þótti mikill sjónarsviptir við fráfall svo glæsilegs og velgerðs manns sem Guðlaugur var.

Það mun hafa verið Sigurbjörgu mikið áfall að missa mann sinn í blóma lífsins frá þremur ungum börnum. Þar að auki var hún með sjúk gamalmenni í heimili, en Sigurbjörg var dugleg og mikilhæf kona sem tókst að koma börnum sínum vel til manns, hún bjó í stóru húsi á þeirra tíma mælikvarða og gat leigt út frá sér og haft af því smá tekjur utan þess að hún vann í síldarsöltun á sumrin. 

Stefnir Guðlaugsson

Stefnir Guðlaugsson

Sigurbjörg er látin fyrir allnokkrum árum eftir langa sjúkdómslegu. Það kom mér mjög á óvart er mágur Stefnis hringdi til mín laugardaginn 6. desember sl. Og tjáði mér að Stefnir hefði látist snögglega um morguninn, mér varð orðvant því ég hafði fáum dögum áður komið inn á heimili þeirra hjóna og gat ekki merkt það að hann væri öðruvísi en hann átti að sér.

Ég spurði þá, Stefnir um heilsufarið því hann hafði hrasað við vinnu sína og brákast á öxl, og var búinn að vera frá vinnu um nokkurra vikna skeið, hann svaraði því til að hann væri hálf slappur ennþá, annars flíkaði hann því ekki þótt hann væri veikur.

Stefnir hafði veikst hastarlega fyrir ári eða svo og var hann þá skorinn upp og gerð mikil aðgerð á honum, var honum vart hugað líf um tíma. Við sem þekktum hann héldum að hann hefði náð sér eftir það áfall, þess vegna kom hið sorglega fráfall hans okkur öllum á óvart.

Snemma kom dugnaður Stefnis í ljós, því hann var ekki margra ára gamall þegar hann var farinn að vinna á söltunarplani í heimabæ sínum við að færa síldarstúlkum tómar tunnur og hringi.

Síðar vann Stefnir í mörg ár hjá Síldarverksmiðjum ríkisins á Siglufirði, einnig var hann í mörg ár á togurum Siglufjarðar, vann aðallega í vél. Það þótti ætíð vel skipað rúm þar sem hann var, hann vann öll sín störf af mikilli samviskusemi og óaðfinnanlega. Stefnir var sérlega handlaginn maður og hafði gaman að grúska í vélum og öllu því sem að þeim laut, og þekkti vel inn á það starfssvið. Þá var hann vel inni í öllum olíukynditækjum og fær viðgerðarmaður á því sviði, það virðist allt leika í höndum hans.

27.júní 1956 gekk Stefnir að eiga konu sína Guðný Garðarsdóttir frá Dalvík, glæsilega og góða konu sem var manni sínum samhent í öllu.

Þau bjuggu lengst búskaparára sinna á Siglufirði, áttu þar íbúð að Eyrargötu 22.

Frá Siglufirði fluttu þau til Kópavogs fyrir 8 árum síðan og festu síðar kaup á einbýlishúsi við Álfhólsveg 29 sem þau hafa fegrað mikið innan sem utan.

Til dæmis var Stefnir nýlega búinn að klæða allt húsið að utan og naut til þess góðrar aðstoðar sonar þeirra hjóna Auðuns, sem ætíð var tilbúinn að rétta fram hjálparhönd.

Stefnir var góður eiginmaður og faðir, sem fyrst og fremst hugsaði um heimili sitt, konu og börn, ég held að einkunnarorð hans hafi verið, heimilið og fjölskyldan fyrir öllu. Síðustu æviár sín vann Stefnir hjá álverinu í Straumsvík, fyrst og lengst sem vaktmaður en síðasta árið mun hann hafa verið dagmaður.

Fyrir ekki löngu síðan sátum við Stefnir á tali sem oftar, þá verður hann hugsi augnablik og segir síðan, mikið getur nú Guð lagt á sumt fólk.

Ég hváði og þá segir hann, ég var að hugsa um hana elskulegu einkasystur mína, hvað hún hefur mátt þola mikil veikindi í öll þessi ár og allar sjúkrahúslegur hennar um dagana, en bætir síðan við, það er þó mikil bót að hún á góðan eiginmann og syni sem allt vilja fyrir hana gera, það er mikill styrkur fyrir hana. Stefnir var systkinum sínum góður bróðir, ekki síður en hann var góður eiginmaður og faðir. Það er sorglegt og mikið áfall þegar fólk á besta aldri hverfur svo fljótt af sjónarsviðinu, það mun verða tómlegra eftir. 

nn