Stefán Jónsson - Einn af hinum eldri Siglfirðingum

Stefán Jónsson, Eyrargötu 19, hefur verið kvaddur hinztu kveðju.

Hann andaðist 21. maí 1965, að heimili sínu hér í bæ, og var jarðsettur 29. s.m., að viðstöddu miklu fjölmenni.  Stefán var fæddur 3. Ágúst 1885 að Nesi í Flókadal, Skagafirði. 

Foreldrar hans voru hjónin Jón Guðmundsson og Sæunn Kristjánsdóttir, sem þá bjuggu að Nesi. 

Stefán var einn úr stórum barnahópi og er nú aðeims ein systir hans, 

Ólína Jónsdóttir, á lífi, búsett hér í bæ maki Friðjón Vigfússon.

Í Skagafirði dvaldi hann til tvítugsaldurs, að hann flutti hingað til Siglufjarðar. Hér hefur hann því dvalið alla tíð, að undanskildum nokkrum árum, sem hann var á Máná og Engidal, hér vestan Siglufjarðar.

Þar kynntist hann Soffía Jónsdóttir og sá kunningsskapur leiddi til þess, að þau gengu í hjónaband árið 1913.  Hófu þau búskap sinn á Siglufjarðareyri, ári síðar reistu þau það hús, sem þau hafa alla tíð búið í, Eyrargötu 19. 

Stefán Jónsson - Ljósmyndari ókunnur

Stefán Jónsson - Ljósmyndari ókunnur

Þeim hjónum varð 4 barna auðið og eru tvö þeirra á lífi,

Sigfúsína Jónsdóttir, (Sína) sem búsett er hér í bænum, og 

Þormóður Stefánsson, sem búsettur er í Vestmannaeyjum.

Stefán stundaði hér alla algenga vinnu. Hann var starfsmaður hjá Samvinnufélagi Ísfirðinga um margra ára  skeið, einnig vann hann hjá Síldarverksmiðjum ríkisins, og síðast hjá síldarverksmiðjunni Rauðku eða þar til heilsa hans bilaði nú fyrir fáum árum.

Hann hefur því alla tíð þurft að vinna hörðum höndum fyrir sér og sínum.

Starfs- og erfiðisstundirnar eru því orðnar margar. Hlutur hans í uppbyggingu bæjarfélagsins hefur verið mikill og góður, byggðarlaginu og þjóð inni allri til heilla og blessunar. Slíkra manna  er gott að minnast. Ég sem þessar línur rita, var vel kunnugur heimili Stefáns og Soffíu.

Heimilið bar þess merki, að húsmóðirin vann og unni heimilinu, allt var þar svo bjart og hlýtt. 

Við brottför Stefáns flyt ég honum ljúfustu þakkir fyrir allar ánægjustundirnar bæði á heimili hans og utan þess. Eftir lifandi konu hans og börnum votta ég mína innilegustu samúð. Ég veit, að þau skilja, að dauðinn verður ekki umflúinn. Hitt veit ég líka, að þau trúa því, að dauðinn sé aðeins nauðsynlegur áfangi til æðra lífs, hann sé beinlínis lykillinn að æðri og fullkomnari vistarverum. Í því trúartrausti er Stefán kvaddur. Allt hans líf og starf einkenndist af skyldurækni,  trúmennsku og góðvild til allra. Það er þetta mikla og góða veganesti, sem hann hefur með sér í ferðina miklu, sem hann hefur nú hafið, til ljóssins landa.

Blessuð sé minning hans. Bjarni Jóhannsson.