Kristín Ásta Friðriksdóttir (Stella)

mbl.is 21. ágúst 2008

Kristín Ásta  Friðriksdóttir (Stella Friðriks)  Hún fæddist á Siglufirði hinn 26. júlí 1928. Hún lést á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund hinn 13. ágúst 2008.

Stella var dóttir hjónanna

Friðrik H Guðjónsson útgerðarmaður, f. 9.10. 1901, d. 28.4. 1990, og Ástríður S Guðmundsdóttir húsmóður, f. 12.7. 1900, d. 20.9. 1999.

Systkini Stellu eru

 • Bragi Friðriksson prestur, f. 15.3. 1927,
 • Gréta Friðriksdóttir, f. 22.8. 1929,
 • Steinunn Friðriksdóttir, f. 10.1. 1934,
 • Gunnur Friðriksdóttir, f. 22.3. 1939, og
 • Fjóla Friðriksdóttir f. 4.11. 1957.
Stella Friðriks - Kristín Ásta Friðriksdóttir - Ljósmynd: Kristfinnur

Stella Friðriks - Kristín Ásta Friðriksdóttir - Ljósmynd: Kristfinnur

Stella giftist hinn 31. mars 1974 Friðrik Hafsteinn Sigurðsson vélstjóri, f. 27. apríl 1929, d. 25. júní 1993.

Stella og Hafsteinn áttu engin börn saman, en börn Hafsteins af fyrra hjónabandi eru

 • Guðbjörg Hulda, f. 26. ágúst 1947, 
 • Hólmfríður, f. 13. desember 1948, og 
 • Sigurður, f. 27. ágúst 1951.

Stella bjó á Siglufirði til 1956 en þá flutti hún í Garðabæ og síðar til Reykjavíkur.

Stella lauk gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskóla Siglufjarðar og verslunarprófi frá verslunarskóla í Gautaborg árið 1947.

Eftir námið í Svíþjóð starfaði Stella hjá Útvegsbanka Íslands á Siglufirði og síðar hjá Sjúkrasamlagi Siglufjarðar.

Eftir að hún flutti til Reykjavíkur starfaði hún fyrstu árin hjá Flugfélagi Íslands en lengst af starfaði hún hjá Tryggingastofnun.

Útför Stellu fór fram frá Garðakirkju - Jarðsett var í Görðum.

Stella, eins og hún var ætíð kölluð, var seinni kona pabba. Okkur kom ætíð vel saman. Það sem mér þótti stór kostur í fari hennar var hvað hún náði vel til barna og unglinga. Alltaf fjör í kringum þau. Þeim fannst hún svo skemmtileg, hún kunni líka svo vel að hæla þeim. 

Auk þess var hún hrókur alls fagnaðar í veislum og á mannamótum. Þegar árin færðust yfir og veikindi hrjáðu pabba fluttu þau í þjónustuíbúð í Hátúni og eyddu seinustu árunum þar. Stella hjálpaði mörgum þar með skattaskýrslur og fleira, því hún var vel greind og inni í svoleiðis málum. Aldrei þáði hún þóknun fyrir. Svona var Stella boðin og búin að hjálpa ef hún gat. Heilsulaus var hún alla ævi, en ég minnist þess ekki að hafa heyrt hana kvarta.

Mínar síðustu minningar um hana eru frá 80 ára afmæli hennar sem var haldið 26. júlí. Hún var svo hamingjusöm með það og var alltaf að tala um það hvað allir hefðu verið góðir við sig. Já þakklát fyrir það sem aðrir gerðu fyrir hana. Sterkur persónuleiki var hún og kveð ég hana með söknuði.

Guðbjörg Friðriksdóttir (Begga).
--------------------------------------------------  

Ekki vorum við líkar systurnar, önnur lítil – hin stór, önnur félagslynd –

hin nánast einfari, önnur elskaði borgarlífið – hin fámennið.

Samt náðum við saman – ef til vill vegna þess að við gátum hlegið saman.

Stella ólst upp á Siglufirði – ég í Reykjavík og við hittumst ekki oft. Okkar vinátta hófst eiginlega ekki fyrr en ég fór að heimsækja hana í Hátúnið, þar sem þau Hafsteinn bjuggu síðustu árin, en þá var hún orðin ekkja og búin að missa heilsuna.

Þrátt fyrir hrakandi heilsu naut hún þess að hitta fólk og spilaði brids við vini og kunningja sem hún eignaðist í Hátúninu. Og traust var vináttan, því eftir að Stella var hætt að geta hugsað um sig sjálf sömdu hún og vinur hennar um að hann eldaði fyrir hana kvöldmat og í staðinn þvoði hann þvottinn sinn hjá henni og las dagblöðin.

Fljótlega fór ferðum Stellu á sjúkrahús fjölgandi uns kom að því að hún var ekki lengur fær um að búa heima og í apríl 2005 flutti hún á Grund. Þar hitti hún marga gamla kunningja m.a. frá Siglufirði og naut þess að ræða liðna tíð.

Stella var ekki sátt við það hve hjálparvana hún var orðin og bjó stundum til heilu sögurnar um það sem hún hafði verið að framkvæma og var alltaf jafn sannfærandi. Ógleymanleg verður mér sú stund þegar við Gréta systir okkar vorum í heimsókn hjá henni fyrir stuttu og Stella reytti af sér brandara svo við gátum varla talað fyrir hlátri og svo sungu þær systur saman vísu á sænsku.

Einnig var yndislegt að það skyldi vera hægt að að halda upp á 80 ára afmælið hennar Stellu 26. júlí sl. en hún var búin að hlakka svo mikið til þess. Þó að hún hafi verið orðin mikið veik var greinilegt hve gaman henni þótti að vera innan um fólkið sitt og hversu vænt henni þótti um það.

Að lokum langar mig til að þakka starfsfólki á deild A-2 á Grund frábæra umönnun, hún gerist varla betri.

Gunnur S. Friðriksdóttir.
------------------------------------

Þá er Stella frænka loksins komin til Hadda síns, hún trúði því að þegar þessari jarðvist lyki tæki önnur vist við, þar biði Haddi eftir henni og hamingjan sanna, nú verður aldeilis fjör á þeim bænum því það var aldrei nein lognmolla í kringum hana. Stella var sérstök, hún var ekkert endilega í takt við það sem sagt er venjulegt og það var bara gaman. Fyrir mörgum árum mætti ég henni á Laugaveginum í kulda og snjó, Stella var að nokkru leyti klædd í samræmi við veðrið, í fínum pels og með tilheyrandi loðhúfu, en berleggjuð, í bandaskóm og þetta fannst henni eðlilegasti hlutur í heimi.

Þar sem við systkinin, börn Grétu systur hennar, ólumst upp úti á landi hittum við Stellu bara einu sinni á ári eða svo, en okkur fannst við þó þekkja hana út og inn af sögunum sem mamma sagði okkur af uppvaxtarárum þeirra systra á Siglufirði, sögur um ótrúleg uppátæki Stellu og stríðni gagnvart systrum sínum. „Hún Stella systir var sko ekki normal.“

Þegar svo kom að því að við systkinin þurftum að fara í skóla í höfuðborginni opnuðu Stella og Hafsteinn heimili sitt. Ég dvaldi hjá þeim heilan vetur og þá sagði Stella mér sögur af æskubrekum mömmu. „Hún Gréta systir var alveg milljón.“

Þennan vetur kynnist ég Stellu enn betur, kostum hennar og göllum. Komst að því að hún var listfeng, ennþá meinstríðin, lífsglöð, einstaklega gjafmild, vinmörg, tækjaóð, að henni fannst vín gott, að henni leiddist eldamennska, að hún gat verið orðljót, að henni fannst gaman að ráða krossgátur, að hún var trúuð en jafnframt með eldlegan áhuga á dulrænum málefnum og stundum gat hún verið þung í skapi. En mikið sem okkur þótti öllum vænt um hana, enda ekki annað hægt. Þær eru óteljandi stundirnar sem við systkinin áttum með þeim Stellu og Hafsteini, sumar eru til á myndbandi og eru algjör fjársjóður í dag.

Þegar ég var sjálf komin með börn var sama upp á teningnum, ég var velkomin með hópinn hvenær sem var. Börnin mín minnast þessara heimsókna og þær minningar kalla fram bros og hlátur, það var alltaf svo gaman hjá Stellu frænku.

Síðustu árin hafa verið Stellu erfið, hún var oft mikið veik og nokkrum sinnum héldum við að hún væri að fara, en nei, Stella var bara að stríða liðinu og hjarnaði alltaf við aftur. Þegar hún svo flutti úr Hátúninu á Elliheimilið Grund gekk hún í endurnýjun lífdaga. Göngugrindin flaug út í horn og Stella tók þátt í öllu félagsstarfi sem boðið var upp á, hún fór að sauma út og eiga örugglega allir í fjölskyldunni eins og einn púða frá henni. Því miður var þetta bara allt of stuttur tími sem hún fékk með endurnýjaðan lífskraft og í vetur fór aftur að halla undan fæti.

Það voru margir sem reyndu að létta Stellu lífið, Steinunn systir hennar tók hana oft með sér á hina ýmsu mannfagnaði og þá naut Stellan sín í botn, Gunnur hálfsystir þeirra var óþreytandi í heimsóknum og snúningum fyrir Stellu og stóð fyrir því að halda upp á 80 ára afmælið hennar í júlí sl. Það var gjörsamlega ómetanlegt.

Ásta M. Sigmarsdóttir.
-------------------------------------------

Fyrstu ár ævi minnar var ég þeirrar gæfu aðnjótandi að eiga að tvær móðursystur sem dekruðu við mig sem frekast þær máttu. Þær sáu um að mín fyrsta viðkynning af lífinu væri eins og best varð á kosið. Í dag er til moldar borin önnur af þessum móðursystrum mínum, Stella (Kristín Ásta) Friðriksdóttir.

Stella frænka notaði öll tækifæri til að gleðja mig og systkini mín. Stærstu gjafirnar, bæði á jólum og á afmælum, voru alltaf frá henni. Hún bauð bæði mér og síðar systur minni í vikuferð til Danmerkur, en slík ferðalög voru ekki mjög algeng fyrir hálfri öld. En gjafirnar voru þó ekki aðalatriðið, heldur hitt að eiga einhvern að sem alltaf var hægt að leita til og alltaf sýndi manni skilning.

Stella fæddist á Siglufirði hinn 26. júlí 1928 og þar bjó hún að mestu fyrstu 30 ár ævi sinnar. Hún var afburðanemandi í barna- og gagnfræðaskóla, teiknaði betur en flestir og rithönd hennar var einstaklega falleg. Á þeim árum var ekki mjög algengt að stúlkur færu í langt nám en það blasir við að Stella átti augljóslega fullt erindi í háskólanám eða í listnám. Það varð ekki, en hún fór til Svíþjóðar árið 1945 og var þar tvö ár í verslunarskóla. Eftir að hún kom heim vann hún við skrifstofustörf alla starfsævi sína.

Á meðan Stella bjó á Siglufirði var hún mjög virk í félagslífi og tróð upp á skemmtunum með ýmsum söngsveitum. Þá var Siglufjörður miðpunktur í atvinnulífi þjóðarinnar og Stella tók þátt í síldarævintýrinu sem hafði áhrif á allt líf á þeim tíma. Árin á Siglufirði voru Stellu alltaf mjög hugleikin og eftir að hún flutti suður ræddi hún gjarnan um þá skemmtilegu tíma.

Sennilega var þó hamingjusamasti tíminn í lífi Stellu eftir að hún kynntist manni sínum Friðriki Hafsteini Sigurðssyni vélastjóra. Óneitanlega urðu frændsystkini Stellu vör við að þau áttu ekki lengur eins stóran sess í lífi hennar en allir voru samt sáttir við það. Hafsteinn og Stella áttu mjög vel saman, bæði glaðlynd og áttu svipuð áhugamál. Síðustu árin varð Stellu tíðrætt um ferðir þeirra Hafsteins um heimsins höf og augljóst var að það voru henni góð ár.

Eftir að Hafsteinn féll frá var Stella aldrei söm. Hún gerði sitt besta til að vera jafn lífsglöð og áður en þeir sem þekktu hana sáu að gleðin var ekki gegnheil. En inn á milli voru þó gleðidagar og á áttræðisafmæli sínu fyrir þremur vikum náði hún að slá á létta strengi og söng fyrir afmælisgesti.

Ég fæ aldrei fullþakkað allt sem Stella frænka gerði fyrir mig. Það voru forréttindi að verða aðnjótandi þeirrar umhyggju og hlýju sem hún sýndi mér og er þess fullviss að heimurinn væri betri ef allir ættu frænku eins og Stellu.

Friðrik H. Jónsson.
------------------------------------------------

Kristín Ásta Friðriksdóttir, Stella, var í hópi bjartsýns og glaðværs ungs fólks, sem útskrifaðist frá Gagnfræðaskóla Siglufjarðar vorið 1945. Hópurinn hefur haldið nokkrum tengslum síðan – í rúm sextíu ár – þótt kvarnast hafi smám saman úr honum, eins og vænta mátti. Og nú hefur litríkur persónuleiki, Stella, kvatt hópinn og þetta tilverustig.

Foreldrar Stellu vóru Ástríður Sigurrós Guðmundsdóttir, ættuð úr Reykjavík, og Friðrik Guðjónsson, kennari, síldarsaltandi og útgerðarmaður, ættaður úr V-Húnavatnssýslu. Þau bjuggu börnum sínum menningar- og myndarheimili. Þar áttum við mörg hver, skólasystkin Stellu, góðar og uppbyggjandi stundir. Þar lærði sá er þessi kveðjuorð skrifar undirstöðuatriðin í ánægjulegri hugaríþrótt, bridsinum.

Systurnar, Stella, Gréta og Steinunn, settu allar svip á bæjarbrag unglingsára minna, félagslyndar og músíkalskar. Bróðir þeirra, séra Bragi Friðriksson, var í framvarðarsveit í frjálsum íþróttum, sem vóru í heiðri hafðar norður þar á fimmta og sjötta áratug genginnar aldar.

Ég minnist Stellu sem skemmtilegrar og framtakssamrar ungrar stúlku í fjölþættu skólastarfi á kirkjuloftinu í Siglufirði. Ég minnist hennar sem virks þátttakanda í starfi Félags ungra sjálfstæðismanna á staðnum. Og síðast en ekki síst minnist ég hennar meðal sameiginlegra vina, sem héldu hópinn í áratugi.

Við, siglfirsk skólasystkin Stellu, kveðjum hana með þakklæti og virðingu. Við kveðjum hana með orðum Einars skálds Benediktssonar:

 • Af eilífðarljósi bjarma ber,
 • sem brautina þungu greiðir.
 • Vort líf, sem svo stutt og stopult er,
 • það stefnir á æðri leiðir.
 • Og upphiminn fegri en augað sér
 • mót öllum oss faðminn breiðir.

Stefán Friðbjarnarson.
---------------------------------------------------

Til moldar verður borin í dag mín ástkæra vinkona Kristín Ásta Friðriksdóttir frá Siglufirði en að öllu jöfnu var hún kölluð Stella og hún vildi að vinir hennar kölluðu hana það. Það var einn haustdag árið 2000 að vindur sér að mér lítil og snaggaraleg kona með staf og spyr mig umbúðalaust hvort ég spili bridge og þar með upphófst ævilöng vinátta og traust sem entist henni og mér til æviloka.

Stella var ekki allra en á milli okkar ríkti fullt trúnaðartraust til andláts hennar sem bar að hinn 13. ágúst síðastliðinn.

Til hennar þótti mér alltaf gott að koma og ræða um allt og alla. Hún varð trúnaðarvinur sem aldrei brást mér, sama hvað á gekk. Stella átti við erfið veikindi að stríða eiginlega alla sína ævi og síðustu árin dvaldi hún á elliheimilinu Grund.

Ég lagði það í vana minn að koma til hennar í tíma og ótíma og sækja mér styrk til hennar, því alltaf mætti maður sama brosinu og alúðinni hjá henni.

Ég man sérstaklega eitt sinn er ég heimsótti hana að mér varð á að spyrja hana hvaða dagur væri í dag og hún var snögg með svarið: Það er sunnudagur. En ég sagði: Ertu viss? Og hún svaraði að bragði: Jón, það er alltaf sunnudagur þegar þú kemur. Þannig var Stella.

Stella mín, ég á eftir að sakna þín sárt, og vinir þínir héðan úr Hátúninu sakna þín. Ég votta aðstandendum þínum mína dýpstu samúð.

Þinn vinur Jón Bjarnar Sigvaldason.