Tengt Siglufirði
Svandís Guðmundsdóttir var fædd á Siglufirði 18. júní 1935 d. 27. desember 1993
Svandís Guðmundsdóttir lést á sjúkrahúsinu á Siglufirði 58 ára að aldri.
Hún var búin að vera mánaðartíma á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri. Þá kom í ljós það mein sem varð henni að aldurtila.
Svandís Guðmundsdóttir fæddist á Siglufirði 18. júní 1935.
Foreldrar hennar voru Guðmundur Sigurðsson frá Þrasastöðum í Stíflu, lengst af verkstjóri hjá Síldarverksmiðjum ríkisins og kona hans, Oddný Jóhannesdóttir.
Föðurforeldrar Svandísar voru Ingibjörg Bergsdóttir, heimasæta á Þrasastöðum, og Sigurður Halldórsson, bóndi á Melbreið í Stíflu og síðar á Kálfsá í Ólafsfirði.
Móðurforeldrar Svandísar voru Jóhannes Guðmundsson, bóndi á Grísará í Hrafnagilshreppi og síðar á Gili í sömu sveit, og kona hans Kristín Bjarnadóttir frá Brennigerði í Skagafirði.
Dísa, eins og hún var ávallt kölluð af vina- og frændfólki sínu, var yngst af þremur dætrum Oddnýjar og Guðmundar. Sú elsta,
Kristín Guðmundsdóttir, sem var gift Ríkarður Jónsson, fyrrv. framkvæmdastjóri Meitilsins í Þorlákshöfn, lést árið 1974.
Eftir lifir
Katrín Guðmundsdóttir sem er búsett á Siglufirði, maki Páll Gíslason, áður fiskverkanda og útgerðarmanni þar.
Dísa var í föðurhúsum, 24 ára gömul og ógift, þegar hún eignaðist einkasoninn
Birgir Steingrímsson, 1. ágúst 1959.
Hann ólst upp á Siglufirði við mikið ástríki móður sinnar og afa og ömmu, í vinalega tvílyfta timburhúsinu við Túngötu 39, sem Guðmundur Sigurðsson lét byggja árið 1926.
Eftir lát foreldra sinna bjó Dísa áfram í húsinu í nokkur ár með syni sínum. Árið 1978 gekk hún í hjónaband með Pétur Pálsson, verkamaður á Siglufirði. Pétur er einn af sex systkinum.
Foreldrar hans voru Páll G Pétursson sjómaður á Hofsósi og Sigríður Kristín Gunnarsdóttir, ættuð úr Fljótum.
Hjónaband Dísu og Péturs reyndist farsælt. Þau voru orðin lífsreynd, hún 43ja ára og hann 52ja þegar þau giftust, og á hlýlegu heimili þeirra á Túngötu 39 var ekki skortur á neinu, en bæði voru dugnaðarforkar til vinnu.
Þau fóru í ferðalög þegar tími gafst til og héldu góðu sambandi við hin mörgu systkini Péturs og vini og frændfólk Dísu.
Mér fannst alltaf gamla húsið við Túngötu 39 á Siglufirði, þar sem Dísa fæddist og bjó í til dauðadags, hafa sál og búa yfir nokkru stolti.
Það var eins og það vildi segja - sjáið þið bara hvað vel er hugsað um mig - en snyrtimennska úti og inni setti sinn svip á þetta litla hús og lóðina umhverfis það.
Í síldarbænum Siglufirði vann Dísa í síld og fiski eins og flestir aðrir þar, en síðustu 27 árin starfaði hún á sjúkrahúsi Siglufjarðar.
Dísa var góðviljug og hjálpfús, létt í skapi og hláturmild. Hún var því vel látin af öllum sem kynntust henni. Birgir Steingrímsson, sonur hennar sem er sjómaður, kom í land og fór til Akureyrar til þess að geta verið hjá móður sinni þegar hún lagðist inn á sjúkrahús. Birgir er búinn að koma sér vel fyrir og það gladdi Dísu mjög hvað honum farnaðist vel.
Pétur, eiginmaður Dísu, studdi hana eftir mætti alla tíð. Bæði hann og Birgir eiga nú um sárt að binda við fráfalli Dísu.
Ég og systur mínar Margét Jóhannsdóttir og Ástrún Jóhannsdóttir, sem höfðum allar mikil og góð tengsl við foreldra Dísu, kveðjum þessa frænku okkar með kæru þakklæti fyrir öll árin sem við áttum samleið með henni á Siglufirði.
Við systurnar og fjölskyldur okkar sendum Birgi, Pétri og öðrum skyldmennum innilegustu samúðarkveðjur.
Gyða Jóhannsdóttir.