Símon Márusson kyndari

Símon Márusson. Fæddur 3. október 1902  - Dáinn 22.október l985  -

Símon Márusson er allur. Hann lést liðlega 83ja ára gamall. Símon Márusson.

Hann var elstur af stórum barnahópi föður síns og stjúpu. Hann ólst upp við kröpp kjör sveitalífs þeirra tíma og lærði því ungur að vinna og bera ábyrgð. Þessi uppvaxtarár mótuðu viðhorf hans til lífsins enda varð honum tíðrætt um sveitina og sauðburðinn.

Hann þekkti af eigin raun þá nálgun sköpunarverksins að sitja yfir lambfé á sauðburði og sjá líf kvikna í kyrrð íslenskrar vornætur, þegar tíminn verður afstætt hugtak og frumþarfir mannsins til hvíldar og svefns gleymast. Þessar stundir urðu honum svo hugleiknar að hann hélt áfram að annast um sauðfé eftir að hann hafði stofnað heimili í kaupstað og tekið sér starf daglaunamannsins.

Þessi fjárbúskapur á litlu lóð inni við Hlíðarveg í Siglufirði veitti honum ótaldar ánægjustundir. Það var eins og þreytan gleymdist þegar hann kom heim að afloknu dagsverki og tók að snúast í kringum kindurnar sinar.

Símon Márusson

Símon Márusson

Þær voru persónur með eigin skapgerð og vilja, og urðu Símon óþrjótandi umræðuefni allt til hans síðustu daga.

Trúlega munu flestir minnast Símonar sem kyndara í ketilhúsi síldarverksmiðjanna í Siglufirði. Fáir hafa skilið þar eftir sig fleiri svitadropa en Símon. Starf kyndarans á fyrstu árum verksmiðjanna var stöðugt strit við kolamokstur. Jafnframt því varð kyndarinn að þekkja katlana og þeirra viðbrögð við eldsmatnum. Símon þekkti þá.

Hann heyrði jafnan á drunum ketilsins ef hleðsla múrsteina hafði haggast. Símon kynti í tæp 40 ár og varð þess aðnjótandi að kynnast af eigin raun þeim breytingum sem urðu á störfum kyndarans við að hverfa frá kolakyndingunni til þess að fá eldsneytið rennandi sem olíu eftir leiðslum beint inn í ketilinn.

Þá varð hægt að stjórna kyndingunni með því að skrúfa til krana í stað þess að moka kolum mismunandi hratt. Þetta kunni Símon að meta enda dáðist hann að hugviti mannsins og þeirri tækniþróun sem það leiðir af sér.

Hann trúði því staðfastlega að tæknin miðaði að því að gera mannlífið léttara og ánægjulegra.

Alla tíð dáðist hann að ferskleika og sjálfstæði æskufólksins og naut þess að hafa í kringum sig unglingana við störf og leik enda sóttust unglingar eftir því að fá að vinna undir leiðbeiningum og stjórn hans.

Símon las mikið og var ótrúlega fróður og minnugur á það, sem hann hafði lesið. Hann fylgdist því alltaf með atburðarás framtíðarinnar, ekki einungis þeirrar sem næst honum stóð, heldur einnig fjarlægra heimshluta.

Bókin stytti honum stundir síðustu æviárin þegar hann undi glaður við sitt hlutskipti á heimili dóttur sinnar og tengdasonar í Hafnarfirði. Þar leið honum vel og var þakklátur fyrir hvert það lítilræði, sem fyrir hann var gert. Hann var sáttur við lífið og það að hafa skilað sínu starfi til næstu kynslóðar. „Vitur maður hefur sagt að næst því að missa móður sína sé fátt hollara ungum börnum en að missa föður sinn" eru upphafsorð merkrar bókar.

Símon missti móður sína á ungbarnsaldri. Í huga hans var móðir hans ímynd fegurðar og æsku. Líklegt er að meðal annars þetta hafi orðið til þess að hann bar í brjósti óvenjumikinn hlýhug til þeirra kvenna sem stóðu honum næst um ævina, til ömmu sinnar, stjúpu sinnar, eiginkonu og dætra sinna.

Hann var stoltur af sínum afkomendum, enda barngóður með afbrigðum. Það var unun að sjá hann meðal barnanna. Þótt hann gæti lítið borið sig um á síðustu æviárunum hélt hann bornum í nálægð sinni með viðmótinu einu saman.

Það var eitthvað svo notalegt að skríða í holuna hans afa.

En nú er afi dáinn og við verðum að láta okkur nægja ylinn af minningunum. Við kveðjum Símon með söknuði og þakklæti.

Atli Dagbjartsson
---------------------------------------------- 

Okkar ástkæri afi, Símon Márusson frá Siglufirði, er kvaddur í dag frá Þjóðkirkjunni I Hafnarfirði.

Hann bjó lengst af í Siglufirði að Hlíðarvegi 23 ásamt eftirlifandi konu sinni, Ólöf Bessadóttir.

Það var margs að minnast er við komum saman systkinin og ákváðum að skrifa nokkrar kveðjulínur.

Okkar æskuár voru á Hólavegi 10, Siglufirði, og var stutt að hoppa yfir girðinguna til afa og ömmu. Stundir okkar voru ófáar hjá afa í kjallaranum, er hann var að smíða handa okkur sleða eða skíði, svo eitthvað sé nefnt. Fengum við auðvitað að taka til hendinni með honum og nutum þolinmæði hans. Ekki spillti það ánægjunni að fara svo upp til ömmu og fá eitthvað gott í magann.

Síðustu ár æfi sinnar bjó afi hjá foreldrum okkar, og verður erfitt fyrir okkur og barna barnabörn hans, sem áttu svo margar stundir hjá honum við spilamennsku og sögur, að trúa því að hann sé ekki lengur í herberginu sínu. Þar sem honum leið svo vel. En allt tekur enda. Æfi hans var björt og starfsöm. Og minninguna um Símon afa munum við eiga. 

Hvíli hann í friði, elsku afi. 

Barnabörnin; Særún, Stína, Ólöf, Símon Þór.
-----------------------------------------------------------

Símon og Ólöf eignuðust tvær dætur: 

Júlíana Símonardóttir og 

Ingibjörg Símunardóttir.