Sigurjóna Einarsdóttir, Siglufirði

Sigurjóna Einarsdóttir, Siglufirði 

Í dag, 19. janúar 1991, verður elskuleg amma mín jarðsungin frá Siglufjarðarkirkju. Hún lést 11. janúar1991 á Siglufjarðarspítala. Hafði heilsu hennar hrakað mjög, sérstaklega eftir að hún varð fyrir því að axlar- og lærbrotna sl. vor og trúi ég því að hún hafi verið hvíldinni fegin.

Hún amma Sigurjóna fæddist að Steinavöllum í Flókadal, Fljótum, 22. ágúst árið 1990, dóttir hjónanna Önnu Jónsdóttur og Einars Baldvinssonar.

Á fjórtánda ári fór hún til Siglufjarðar og réðst þar í vist til Halldórs Jónssonar kaupmanns og konu hans, Kristínar Hafliðadóttur.
Á því heimili vann hún, þar til hún giftist 20. maí 1919 Jóni Gunnlaugssyni rafvirkja. Með sér í búið tók hún tvö yngstu systkini sín, þar sem móðir hennar hafði látist árinu áður. Einnig bjó Einar langafi hjá þeim í mörg ár.

Sigurjóna Einarsdóttir

Sigurjóna Einarsdóttir

Afi og amma eignuðust tvö börn.

Önnu, sem giftist Ólafi Hannessyni símritara á Ísafirði og eignuðust þau tvö börn, og

Gunnlaug Jónsson rafvirkja á Siglufirði sem giftist Þuríði Andrésdóttur og bjuggu þau í húsinu hjá afa og ömmu í um tuttugu ár, ásamt þrettán börnum sínum.

Einnig tóku afi og amma í fóstur stúlku, Sigríði Samúelsdóttur, og ólst hún upp hjá þeim frá barnsaldri. Sigríður er gift Gunnari Herbertssyni og eiga þau tvo syni.

Ég á mjög góðar minningar frá því ég var barn og fékk að fara til afa og ömmu á Siglufirði mörg sumur.

Bærinn iðaði af lífi, atvinna mikil og fólksfjöldinn slíkur að mér fannst ég vera komin í stórborg. Amma var auðvitað í síld eins og flestar konur í bænum og ég man hve spennandi mér þótti að vakna um miðjar nætur þegar kallað var "ræs" fyrir utan gluggann. Verst var að fá ekki að fara með. En að börn færu í næturvinnu kom ekki til greina. Hún amma Sigurjóna var ströng, það þýddi ekkert að væla. Börn áttu að fá nægan svefn, hollan mat, vera hrein og dugleg að lesa. Hún hugsaði ákaflega vel um börn, sín og annarra.

Í sumar er hún varð níræð fórum við nokkur í heimsókn til hennar, og þó svo hún áttaði sig ekki á okkur öllum, þá spurði hún: "Hvernig líður börnunum, hvernig gengur þeim í skólanum?"

Ekki minnist ég þess að amma svæfi á daginn eða legði sig þó búin væri að salta síld hálfa eða alla nóttina. Og heimilið hennar ömmu fór ekki aldeilis úr skorðum þrátt fyrir mikla vinnu, gestagang, félagsstörf og okkur barnabörnin meira og minna hjá henni og afa.

Húsið ilmaði ætíð eins og væru að koma jól, af sápu, bóni og góðum mat. Stéttin utan við húsið var sópuð, það var eins og ekkert gler væri í gluggunum, svo vel var pússað, og "hortensíur" hef ég ekki séð fallegri síðan þær hurfu úr gluggunum hennar ömmu Sigurjónu í Lækjargötunni. Dugnaðurinn var mikill og svo einstaklega vel farið með alla hluti.

Afi dó árið 1961, en amma hélt heimili og vann fulla vinnu til áttræðisaldurs. Síðar fór hún á Elliheimili Siglufjarðar til dvalar.

Starfsfólki Elliheimilis og Sjúkrahúss Siglufjarðar, svo og einu barnabörnunum hennar ömmu sem enn búa á Siglufirði, þeim Birnu og Erlu Gunnlaugsdætrum, sendi ég kærar kveðjur og þakkir.

Megi amma mín hvíla í friði.

Elva Ólafsdóttir