Símon Ingi Gestsson

Símon Gestsson Hann fæddist 23. desember 1944. Hann lést 5. júní 2018.

Símon kvaddi fyrirvaralaust og ótímabært, en eftir standa minningar að ylja sér við. Vinátta okkar stóð á traustum merg og má rekja áratugi til baka, er ekki frá því að okkar fyrstu kynni hafi tengst hestakaupum, en í slíkum viðskiptum var Símon á heimavelli og setti sig aldrei úr færi ef því var að skipta. Við slík tækifæri kom á hann óræður svipur, við kölluðum það „pókerfeis“, og var þá ljóst í hvað stefndi; hann var búinn að sjá út næsta fórnarlamb í verslun.

Traustur og góður félagi og umfram allt skemmtilegur, það brást aldrei hvað sem á gekk, þannig var Símon. Símon var fastagestur á þorrablótum með okkur á Ytra-Skörðugili, við ferðuðumst saman á hestum, fórum saman á landsþing LH og þrívegis fórum við saman til Danmerkur á hestaviðburð í Óðinsvéum, síðast í febrúar sl.

Í þeim ferðum deildum við alltaf herbergi og jafnvel rúmi og þótti ekki tiltökumál, höfðum lúmskt gaman af því að fara út fyrir rammann, storka umhverfinu og uppskárum stundum undarleg svipbrigði og augngotur; þá var tilganginum náð. Það var gott að heimsækja þau Símon og Heiðrúnu út í Barð og eins í Bæ þegar þau voru þar og Símon orðinn „bæjarstjóri“. Í Hofsósi hafði Símon komið sér vel fyrir, innréttað hesthús af smekkvísi eins og honum var lagið, hann var staddur í nýjum kafla lífsins, það var ekkert fararsnið á honum.

Símon Gestsson - ókunnur ljósmyndarari

Símon Gestsson - ókunnur ljósmyndarari

Fjölskyldan á Ytra-Skörðugili saknar vinar í stað en geymir með sér minningar sem ekkert skyggir á. Fjölskyldu Símonar sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Ingimar og Kolbrún.