Sigríður Sveinsdóttir

Sigríður Jódís Sveinsdóttir

Sigríður Jódís Sveinsdóttir, f. 15. mars 1932 á Ásgeirsbrekku í Skagafirði, d. 11. des. 1986. Húsfreyja á Siglufirði.

Maður hennar: Aðalbjörn Rögnvaldsson (Alli), f. 15. nóv. 1929 á Siglufirði. Rafveitu starfsmaður á Siglufirði.
For.: Rögnvaldur Guðni Gottskálksson (Rögnvaldur Gottskálksson) , f. 26. ágúst 1893 á Siglufirði, d. 5. apríl 1981 á Siglufirði. Pípulagningamaður á Siglufirði og Guðbjörg Kristín Aðalbjörnsdóttir, f. 2. sept. 1903 á Máná í Úlfsdölum, d. 16. nóv. 1977 á Siglufirði. Húsfreyja á Siglufirði.

Börn þeirra Sigríðar og Aðalbjörns: 

  • Guðbjörg Kristín Aðalbjörnsdóttir, f. 9. ágúst 1954,
  • Sveinn Aðalbjörnsson f. 4. nóv. 1957,
  • Gunnar Aðalbjörnsson f. 10. júlí 1959.

------------------------------------------

Sigríður Sveinsdóttir - Ljósmynd, Kristfinnur

Sigríður Sveinsdóttir - Ljósmynd, Kristfinnur

Sigríður Sveinsdóttir, Siglufirði - Fædd 15. mars 1932 Dáin 11. desember 1986 

Þegar hringt var til mín frá Siglufirði fimmtudaginn 11. desember sl. og mér tilkynnt andlát góðrar vinkonu minnar, Sigríðar Sveinsdóttur, var mér brugðið. Jafnvel þó ég hafi vitað að hún hafði verið mikið veikum tíma og að batavon væri engin, átti ég ekki von á að endalokin bæri svona brátt að. Þrátt fyrir það ber að þakka að banalegan varð ekki lengri.

Hugur minn leitar til Siglufjarðar, er leiðir okkar Siggu og fjölskyldna okkar lágu fyrst saman. Ég flutti þá ásamt manni mínum, Páli, og sonum okkar, Herði og Einari, á Lindargötu 17. Það var stórt og reisulegt hús með fjórum íbúðum, í daglegu tali kallað Nefstaðir. 

Fyrir húsinu bjuggu, auk húseigandans Jónasar Jónssonar, tvær fjölskyldur. Það voru Sigga, maður hennar Aðalbjörn og fóstursonur þeirra Arnór, og Flóra, Valtýr og synir þeirra, Gunnlaugur, sem lést tæplega tvítugur að aldri, og Jónas.

Sambýli þessara fjölskyldna varaði í nokkur ár og bar aldrei skugga á. Átti Sigga sinn stóra þátt í því hve vel tókst, því oft var fjör í strákunum fimm og uppátækin mörg.

Margt hefur á dagana drifið síðan á frumbýlisárum okkar á Lindargötu 17. Sigga og Alli eignuðust 3 börn auk fóstursonarins. Þau eru Guðbjörg, Sveinn og Gunnar. Allt er þetta orðið fullorðið fólk sem búið er að stofna eigið heimili. Barnabörnin voru augasteinar ömmu sinnar og henni kærkomið umræðuefni.

Alltaf hefur sambandið verið gott á milli þessara þriggja fjölskyldna þó leiðir hafi skilið og ég og mitt fólk búið í Reykjavík í yfir 20 ár. Þegar skroppið var norður á sumrin var alltaf komið til Siggu og Alla, og voru þau þá sem áður höfðingjar heim að sækja.

Heimili þeirra hefur alltaf verið með miklum myndarbrag, enda Sigga mikil húsmóðir og vel verki farin með allt sem hún tók sér fyrir hendur.

Aðeins eru liðnar fáar vikur síðan Sigga veiktist þar sem kom í ljós að um illkynja sjúkdóm var að ræða. Hún lá um tíma á Landspítalanum þar sem ég hitti hana nokkrum sinnum, síðast daginn sem hún útskrifaðist. Þá var um talað að ég hringdi fljótlega eftir að hún kæmi heim og gerði ég það. Það var okkar síðasta samtal, því aðeins þremur dögum síðar var hún látin.

Að leiðarlokum kveð ég vinkonu mína með söknuði og þakklæti fyrir okkar löngu kynni og óska henni velfarnaðar á ókunnum stigum.

Við Páll, Einar og Hörður sendum Alla, börnum þeirra og öðrum ættingjum innilegar samúðarkveðjur.

Ásta Einarsdóttir