Vigfús Friðjónsson athafnamaður

Vigfús Friðjónsson. Þann 8. Desember 2008, voru níutíu ár (1918) liðin frá fæðingu Vigfúsar Friðjónssonar.  Hann lést 14. janúar 2008

Af öllum Siglfirðingum, eða næst á eftir Snorra Pálssyni faktor, var Vigfús sennilega sá umsvifamesti og sérkennilegasti atvinnurekandi sem sögur fara af.

Vigfús var af fátæku sveita- og verkafólki kominn en hneigðist snemma til viðskipta. Eftir nám í Samvinnuskólanum, tvítugur að aldri, stofnaði Vigfús verslunina Geislann í heimabæ sínum. Nokkrum árum síðar keypti hann Bakkastöðina af Óskari Halldórssyni og hóf þar fiskverkun og framleiðslu á ýmiskonar matvöru.

Á 6. áratugnum var hann meðal stærstu síldarsaltenda á Siglufirði og rak síðar síldarstöðvar í Grímsey, Reyðarfirði og Keflavík.

Athafnasvið Vigfúsar var ekki aðeins Siglufjörður eða hálft Ísland heldur átti hann ítök víða um lönd og stundaði fjölbreytt viðskipti.

Vigfús Friðjónsson - Ljósmynd, Kristfinnur

Vigfús Friðjónsson - Ljósmynd, Kristfinnur

Hann var ekki einasta dugnaðaratvinnurekandi og fjáraflamaður heldur var hann mjög alþýðlegur og afar vinsæll meðal bæjarbúa fyrir nýjungar í rekstri og margskonar greiðasemi og velvild. Ein sérkennilegustu spor sem þessi mikli athafnamaður sté voru til liðs við Sósíalistaflokkinn á Siglufirði fyrir bæjarstjórnarkosningarnar 1958 þegar hann skipaði fyrsta sæti framboðslistans.

Þetta þótti athyglisvert á tímum hinnar miklu hörku sem ríkti í lands- og bæjarpólitík kaldastríðsáranna þar sem siglfirskir kommar þóttu mjög einbeittir baráttumenn gegn auðmanna- og atvinnurekendavaldinu.

Viðdvöl hins athafnasama manns á löngum umræðufundum bæjarstjórnar var fremur stutt eftir árangurslausar tilraunir hans til að koma af stað verulegum hafnarbótum og nýjum iðnaði.

Vigfús hafði ungur hneigst til vinstristefnu í stjórnmálum vegna kynna við 

Hulda Sigurhjartardóttir sem var unnusta hans og síðar eiginkona og lífsförunautur. 

Á æskuheimili Huldu á Túngötu 34 var sérstakt skjólshús vinstrimanna á Siglufirði, en á þeim árum fékk bærinn orð á sig fyrir að vera eitt helsta hreiður byltingaraflanna í landinu. Þar varð hinn ungi og upprennandi atvinnurekandi fyrir þeim áhrifum sem fylgdu honum ævilangt. Í brjósti hans sló hjartað vinstra megin, í tvennum skilningi – meðan hugurinn dvaldi við atvinnurekstur og fjársýslu.

Segja má með sanni að margt í sögu Vigfúsar sé skáldskap líkast rétt eins og í Guðsgjafaþulu Halldórs Laxness – og þar er Siglufjörður síldaráranna hið undarlega sögusvið.

Undir lok „síldarævintýrisins“ fluttist Vigfús og fjölskylda hans til Reykjavíkur og þá hófst annar merkur kafli í ævi hans. Hann eignaðist hluti í nokkrum stórfyrirtækjum og þá stofnaði hann Japönsku bifreiðasöluna sem síðar varð Toyotaumboðið.

Þegar undirritaður hóf að kynna sér sögu Vigfúsar Friðjónssonar lá leiðin á heimili þeirra Vigfúsar og Huldu og með okkur tókst góður en stuttur kunningsskapur. Þar voru sífellt sagðar sögur að norðan, frá staðnum sem þau höfðu í raun aldrei yfirgefið. Síðan er liðið á þriðja ár og nú eru þau sæmdarhjón látin með stuttu millibili.

Blessuð sé minning þeirra

Örlygur Kristfinnsson.
---------------------------------------------------------------

Afmælisgrein:

Vigfús Friðjónsson útgerðarmaður, Sléttuvegi 11, Reykjavík, er áttræður í dag, 8.desember 1998. 

Starfsferill: Vigfús fæddist í Langhúsum í Fljótum og ólst þar upp til tólf ára aldurs. Þá flutti hann með foreldrum sínum til Siglufjarðar. Hann lauk gagnfræðaprófi á Siglufirði 1935 og verslunarprófi frá Samvinnuskólanum í Reykjavík 1938. Vigfús starfaði á skrifstofu Síldarútvegsnefndar 1938-41 og var kaupmaður, útgerðarmaður og síldarsaltandi á Siglufirði á árunum 1941-70.

Hann starfrækti síldarsöltunarstöð í Grímsey og víðar frá 1957, var stofnandi og aðaleigandi íslensks fisks hf. á Siglufirði, hygði síldarsöltunarstöðina Berg hf. á Reyðarfirði, ásamt öðrum, og starfrækti hana um árabil. 

Eftir að síldarsöltun lauk stjórnaði Vigfús síldarleiðangri við strendur Labrador í Kanada sumrin 1973-74 á vegum National Sea Corporation í Halifax, sá um uppsetningu síldarverkunarstöðva á Nýfundnalandi og Nova Scotia sumarið 1975, á vegum Canadian Saltfish Corporation í St. John's og hafði umsjón með og stýrði síldarverkun við St. Lawrence-flóann vestanverðan á vegum ríkisstjórnarinnar í Quebecfylki í Kanada. 

Vigfús var fyrsti formaður íþróttabandalags Siglufjarðar. Hann hefur átt sæti í stjórnum Skíðasambands íslands, Skíðafélags Siglufjarðar, skátafélagsins Fylkis, skíðafélagsins Skíðaborgar, Taflfélags Siglufjarðar og Alþýðuflokksfélags Siglufjarðar og fleiri félaga.

Vigfús var bæjarfulltrúi á Siglufirði fyrir Alþýðubandalagið 1958-62, sat í stjórn Sparisjóðs Siglufjarðar og í hafnarnefnd Siglufjarðar 1958-62. Hann var fyrsti umboðsmaður Toyota-bifreiða á Íslandi.

Fjölskylda: Vigfús kvæntist 16.10. 1946 Hulda Sigurhjartardóttir, f. 28.1.1920, húsmóður.

Hún er dóttir Sigurhjörtur Bergsson, rafstöðvarstjóri á Siglufirði, og Sigríður Sigurðardóttir húsmóður. 

Börn Vigfúsar og Huldu eru:

1) Guðbrandur Orri Vigfússon, f. 10.7.1942, viðskiptafræðingur, maki Unnur Kristinsdóttir og eru börn þeirra

Vigfús Guðbrandsson og

Hulda Guðbrandsdóttir unnusta Vigfúsar er Björg Rós Guðjónsdóttir;

2) Friðjón Óli Vigfússon, f. 12.1. 1946, verslunarfræðingur en sambýliskona hans er Unnur Ölversdóttir kennari og er sonur Friðjóns Óla

Pétur Friðjónsson, maki Þórhildur Ingadóttir bankastarfsmaður og eru börn þeirra

Óli Arnar Pétursson,

Ingi Pétursson og

Helga Pétursdóttir;

Sigríður Margrét, f. 2.5. 1954, BA í heimspeki og stjórnmálafræði en sambýlismaður hennar er Guðni Hjörleifsson og er dóttir Sigríðar

Margrétar Oddný Eva.

Systkini Vigfúsar voru sex talsins og eru þrjú þeirra á lifi.

Foreldrar Vigfúsar voru 

Friðjón Vigfússon, bóndi í Langhúsum í Fljótum og siðar verkamaður á Siglufirði, og k.h., 

Ólina Margrét Jónsdóttirhúsfreyja ................................