Fylkir Þórisson

6. mars 2020 | Minningargreinar  mbl.is

Fylkir Þórisson fæddist á Akureyri 8. október 1941. Hann lést á líknardeild Landspítalans í Kóparvogi 23. febrúar 2020.

Foreldrar Fylkis voru hjónin

  • Þórir Kristján Konráðsson (Þórir Konráðsson) bakarameistari, f. 10.7. 1916 á Ísafirði, d. 20.3. 1995, og
  • Hrönn Jónsdóttir húsmóðir, f. 4.1. 1918 á Siglufirði, d. 18.5. 2005.

Systkini Fylkis eru

  • Helga, f. 1943,
  • Jens, f. 1946,
  • Jón, f. 1948, d. 2016,
  • Konráð, f. 1952, d. 2014,
  • Vörður, f. 1958, og
  • Þorbjörg, f. 1959.
Fylkir Þórisson - Ljósmyndari ókunnur

Fylkir Þórisson - Ljósmyndari ókunnur

Fylkir kvæntist Bärbel B.Valtýsdóttur (f. Hirche) Dipl.-Ing.(FH) Elektrotechnik, f. 1945.

Sonur þeirra er

Jens Fylkisson verkfræðingur, f. 30.5. 1968, kvæntist Guðrúnu Geirsdóttur, f. 22.2. 1969 (skildu),
börn þeirra eru
  • Haukur Jensson, f. 27.12. 1996, og
  • Dagbjört Jensdóttir, f. 18.8. 2001.

Fylkir lauk gagnfræðaprófi á Siglufirði og hélt til Þýskalands 1961, fyrst í þýskunám svo í rafmagnstæknifræði í hátíðnitækni og lauk Dipl.-Ing.(FH) prófi frá Hochschule Mittweida 1967.

Eftir námið var Fylkir í starfsþjálfun hjá þýska sjónvarpinu í Berlín en gekk svo til liðs við nýstofnað Ríkisútvarp Sjónvarp og starfaði þar alla sína starfsævi, lengst af sem deildarstjóri þróunarsviðs myndtækjadeildar, í samtals 40 ár.

Fylkir sá um hönnun á tæknilegum tækjakosti Sjónvarpsins í samstarfi við aðrar deildir stofnunarinnar, hafði umsjón með uppsetningu búnaðarins og nýsmíði í kringum hann. Byggði hann upp mikið af tæknibúnaði Sjónvarpsins á Laugavegi 176, sá um umskiptin úr svart/hvítu í lit og endurhannaði allt útsendingarkerfið við flutning Sjónvarpsins upp í Efstaleiti 1, þar sem grunnurinn var lagður að stafrænni vinnslu myndar og hljóðs fyrir fréttir og útsendingu.

Annað sem Fylkir hafði veg og vanda af eru útsendingarbílar Sjónvarpsins, jarðstöðin við Efstaleiti og margvíslegar tæknilegar viðbætur við útsendingu eins og textavarpið, stereo í útsendingu og fleira.

Fylkir og Bärbel bjuggu lengst af í Breiðholti í Reykjavík þar sem þau byggðu sér raðhús og vann Fylkir nánast allt í þeirri byggingu sjálfur eða það sem lög leyfa.

Útför Fylkis fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 6. mars 2020, klukkan 15.

  • Þess bróðir biður
  • Best ríki friður
  • Mæti eilíf önd
  • Ókunnri strönd
  • Því syrgi ég þig
  • Þú hefur annast mig
  • Rétt mér hjálparhönd
  • Hnýtt mér vinabönd
  • Nú heit ég á þig
  • Að styrkir mig
  • Þú ert til þess bær
  • Þú ert mér kær
  • Dauðinn til sín tekur
  • Tómlátur og frekur
  • Vill enn eitt sinn
  • Í ættlegg minn
  • Brátt bíða raðir
  • Bræður, faðir
  • Og móðir er
  • Að fagna þér
  • Í efnisheimi
  • Ávallt mynd geymi
  • Djúpt í hjarta hér
  • Og huga mér

(Jens Þórisson, febrúar 2020)

Jens Þórisson.
--------------------------------------------

Látinn er elskulegur mágur minn, Fylkir Þórisson. Hann var dagfarsprúður maður, sem laðaði að sér fólk með vinalegri framkomu og fallegu brosi.

Fylkir var einn af brautryðjendum nýrra tíma á Íslandi, þegar hann hóf störf hjá Ríkissjónvarpinu, þegar sjónvarpið var að hefja svarthvítar sjónvarpsútsendingar. Þetta var spennandi starfsvettvangur fyrir ungan mann, nýkominn úr námi og þar nutu mannskostir hans sín vel.

Fylkir var ekki maður margra orða, en naut sín oft við að segja sögur frá námsárunum í Austur-Þýskalandi og var dýrmætt að fá innsýn í þann heim sem var okkur hinum framandi. Hann kom heim með dýrmætan farm, sem var þunguð eiginkona. Fáeinum dögum eftir heimkomuna fæddi Bärbel þeim soninn Jens, en þau tvö voru verðmæt viðbót við stórfjölskylduna.

Reistu þau hjónin sér raðhús í Breiðholti og þar var vandað til allra verka. Á síðari árum bjuggu þau sér líka athvarf í sveitinni með því að byggja sér fallegan sumarbústað í Fljótshlíð, þar sem þau hreiðruðu um sig þegar færi gafst. Fylkir var hagleiksmaður, sem skilaði öllum verkum fullunnum og var þá sama hvort það var að leggja flísar, smíða, búa til fínleg mót fyrir laufabrauðsskurð eða skera út í tré svo fátt eitt sé nefnt.

Eftir að tengdaforeldrar mínir féllu frá tóku þau Fylkir og Bärbel við keflinu og héldu við þeirri skemmtilegu hefð, að stórfjölskyldan hittist á aðventunni og skar saman út laufabrauð, en í mörg ár sá Fylkir um að steikja laufabrauðið fyrir allan hópinn í snyrtilegum bílskúrnum í Núpabakkanum, þar sem allt var á sínum rétta stað. Það voru ógleymanlegar stundir.

Í fjársjóði minninganna má m.a. finna ferðir, sem systkinin og makar þeirra fóru í saman. Það var gaman að vera hluti af þeim góða hópi, en í einni af ferðunum var farið til Þýskalands, þar sem þau hjónin sáu um skipulag og leiðsögn, sem skilaði sér á ógleymanlegan hátt til okkar hinna. Fylkir var mjög barngóður og hændust börnin að góðvildinni sem til þeirra streymdi frá honum, en fjölskyldan hittist oft við ýmis tilefni.

Hann var heilbrigður í öllum sínum lífsháttum, þar til sjúkdómurinn tók af honum öll völd á haustdögum árið 2019. Hann hafði þá nýlokið við það mikla afrek að ganga Ólafsveginn, en það er pílagrímsleið, sem liggur frá Ósló til Þrándheims sem hann lauk á aðeins einum mánuði. Það var dýrmætt að hlusta á hann lýsa þeirri reynslu í máli og myndum.

Að leiðarlokum er mér efst í huga þakklæti fyrir öll þau ár sem ég, elsku Konni minn og börnin okkar þrjú, fengum að njóta með yndislegum bróður, mági og frænda, en aldrei bar skugga á þau samskipti.

Elsku Bärbel, Jens, Haukur og Dagbjört, hugur minn er hjá ykkur og mínar dýpstu samúðarkveðjur. Megi minning yndislegs eiginmanns, föður og afa verða ljós í lífi ykkar.

Margrét Auðunsdóttir.
--------------------------------------------

Þann 7. ágúst 2007 sat ég með systkinum hans Nonna míns og þeirra mökum í litlum báti sem sigldi eftir síkjunum sem liggja um Spreewald. Við vorum að koma frá Berlín, vorum á leið til Moritzburg og það vantaði bara einn til þess að hópurinn væri allur saman kominn. Sólin skein í gegnum trjákrónurnar, fegurðin var yfirþyrmandi og friðurinn aðeins rofinn af okkar eigin hlátrasköllum. Fylkir og Bärbel höfðu skipulagt þessa ferð og sátu nú í bátnum, brosandi út að eyrum og horfðu yfir hópinn, alsæl yfir því hvað við vorum öll hamingjusöm.

Fyrir einbirni eins og mig var það himnasending að eignast þennan góða hóp þegar ég kynntist manninum mínum. Þau tóku mér opnum örmum og ég hef alltaf getað leitað til þeirra og treyst þeim eins og minni eigin fjölskyldu. Fylkir var stóri bróðir, rólyndur og íhugull, ekki maður margra orða en svo traustur og hjálpsamur að það verður aldrei fullþakkað. Þegar við Nonni eignuðumst börnin voru þau Bärbel ekki enn orðin afi og amma og börnin okkar fengu svo sannarlega að njóta þess.

Heimsóknirnar í Núpabakkann, ferðalögin, hláturinn og spjallið, allt eru þetta perlur á minningafestinni þeirra Steindórs og Margrétar Jónsbarna, en þau Fylkir og Bärbel voru guðforeldrar Margrétar. Væntumþykjan minnkaði ekki eftir að þeirra eigin barnabörn, Haukur og Dagbjört, fæddust því nóg var hjartarýmið! Betri afi og amma eru vandfundin. Fylkir gat verið svo kátur og skemmtilegur, orti léttar tækifærisvísur og þegar systkinahópurinn kom saman kepptust þau við að segja skemmtisögur úr uppvextinum og margar góðar sögur úr frumkvöðlastarfinu á fyrstu árum íslenska sjónvarpsins flugu á milli þeirra Nonna míns.

Fylkir var stálminnugur, víðlesinn og fróður, einnig mikill göngugarpur sem naut útivistar og náttúrufegurðar, bæði hér á Fróni og víða erlendis. Þau Bärbel hafa oftsinnis heimsótt ítölsku Dólómítana þar sem Fylkir stóð miklu yngri mönnum á sporði í fjallgöngum. Einkasonurinn Jens var oft með í för og barnabörnin kynntust fljótt töfrum Þýskalands, landsins sem færði Fylki afa konuna sem sem hefur staðið með honum eins og klettur í gegnum þykkt og þunnt. Það var líka unun að fylgjast með þremur kynslóðum, þeim Fylki, Jens og Hauki, í bílastússi, að gera við, gera upp, spá og spekúlera. Þeir nutu í botn samverunnar við bílana og hver annan.

Það hefur fækkað allt of mikið og hratt í áhöfn bátsins sem sigldi um Spreewald þennan dýrlega ágústdag 2007. Hann mágur minn fylgdist með föður sínum og tveimur bræðrum berjast við og falla fyrir sama óvini og hann horfðist sjálfur í augu við í október síðastliðnum, en kjarkurinn brást honum ekki til síðasta dags.

Það er með miklum trega sem ég kveð Fylki Þórisson og þakka honum samfylgdina, en ég treysti því að honum hafi verið vel og innilega fagnað á nýjum áfangastað.

Ragnheiður Steindórsdóttir.
--------------------------------------------------------

Þegar ég nú sest niður til að rifja upp minningar mínar um Fylki mág minn þyrmir eiginlega yfir mig. Því að þó mér finnist stutt síðan ég hitti í fyrsta sinn þennan elsta bróður og nánasta vin mannsins míns er liðin talsvert meira en hálf öld. Og þessi fyrstu beinu kynni eru mér mjög minnisstæð. Því það sem Fylkir gerði eftir að hafa heilsað mér var að bjóða okkur Jens út að borða kvöldverð á fínasta veitingastað Reykjavíkur.

Við vorum hálfgerðir krakkar og það að borða á veitingahúsi ekki beinlínis venjulegt. Ég man enn hvað við fengum og hvernig krásunum var fyrir komið á diskinum mínum. Þess ber að geta að ég er mjög áhugasöm um góðan mat svo ekki sé meira sagt.

Samskipti okkar Jens við Fylki og síðar einnig Bärbel hafa verið mikil og náin. Þau voru alltaf tilbúin í smá hitting hvort heldur var á heimaslóðum, uppi í sumarbústað eða jafnvel á Spáni. Það þurfti engan fyrirvara, bara eina hringingu og þau voru mætt. Ekki verið að tvínóna við það frekar en annað.

Fylkir var einstaklega hjálpsamur og laginn við alla hluti. Ef leggja þurfti parket hvort heldur var hjá okkur eða börnunum okkar eða bara laga eitthvað var hann mættur. Það var eins og honum fyndist þetta allt ljómandi skemmtilegt. Og hjálpsemin náði ekki bara til nánustu skyldmenna eða vinahóps. Þegar stóri jarðskjálftinn reið yfir Suðurland árið 2000 og lagði heimili systur minnar í Hveragerði nánast í rúst var Fylkir auðvitað mættur óbeðinn og tók til hendinni eins og honum var einum lagið. Að lokum verð ég að minnast á pönnukökubaksturinn sem Fylkir hefur sinnt með miklum sóma um langt árabil. Hver á nú að sjá okkur fyrir pönnukökum í fjölskylduboðunum?

Ég þakka Fylki fyrir ómetanlega aðstoð við mig og mína gegnum tíðina og að öðru leyti dásamleg og skemmtileg kynni. Elsku Bärbel, Jens, Haukur og Dagbjört. Mínar innilegustu samúðarkveðjur. Þið hafið misst mikið. Hans verður sárt saknað.

Hrafnhildur.
--------------------------------------------

Nú er fallin í valin hann Fylkir frændi minn. Hann var elstur systkinabarnanna frá Suðurgötu 37 á Siglufirði. Það var ekki aðeins sú staðreynd að hann var elstur okkar sem skipaði honum sérstakan sess á meðal okkar. Hann var einstakur, hógvær, umhyggjusamur, glaðlegur og traustur. Við okkur yngri var hann einstaklega natinn og þolinmóður. Hann leyfði okkur að hanga með sér þótt aldursmunurinn væri umtalsverður.

Það var alltaf eitthvað spennandi að gerast hjá Fylki. Mér fannst þá að hann gæti allt. Ég hef á lífsleiðinni komist að því að sú var raunin. Hann smíðaði hús, innanstokksmuni, gerði við öll tæki stór og smá, bíla og hvaðeina sem nöfnum tjáir að nefna. Frásagnarlist var honum í blóð borin og gat haldið uppi skemmtan með frásögn af atburðum gjarna með leikrænu ívafi. Ekkert var honum léttara en að setja saman vísur við tækifæri sem upp komu.

Ég hélt raunar að við værum að missa Fylki þegar hann var um tvítugt. Þá fékk hann, í upphafi kalda stríðsins, inni í tækniskóla í Austur-Þýskalandi til þess að læra útvarps- og sjónvarpstæknifræði. Ég þóttist viss um að jafnvel þótt hann kæmi til baka þá yrði það ekki hann Fylkir sem kæmi úr þessari skelfilegu heilaþvottavél. Vont væri að missa frænda sinn en kannski verst að missa hann með þessum hætti. En svo kom hann til baka, hann Fylkir. Sami góði drengurinn. En þá kom hann ekki einn. Í skólasystur sinni, henni Bärbel, hafði hann fundið lífsförunaut sinn. Bärbel, einstaklega hæfileikarík og glaðleg manneskja, var fljót að aðlagast hér og naut þar stórrar og samheldinnar fjölskyldu Fylkis.

Í stórum og samheldnum hópi okkar frænda var Fylkir leiðtogi og kjölfesta. Þegar við hittumst lét hann ekki sitt eftir liggja að segja sögur og vera með gamanmál og frumsamdar vísur sem urðu til hjá honum af tilefninu. Þegar við frændur ákváðum að fara saman að vetrarlagi til Siglufjarðar í tilefni þess að 120 ár voru frá fæðingu afa okkar var Fylkir óumdeildur leiðtogi okkar.

Síðasti fundur okkar Fylkis var fáeinum dögum áður en hann dó. Hann var svo æðrulaus og hélt reisn sinni og bar sig svo vel að ég gerði mér ekki grein fyrir því hversu veikur hann var orðinn þá. Eins og svo oft áður var það virkni hans og það sem hann tók sér fyrir hendur sem vakti forvitni hjá mér. Við flettum, ásamt Jens syni hans, í gegnum myndaalbúm með dagbók sem lá á borðinu hjá honum frá því að Fylkir gekk síðastliðið sumar, einn síns liðs með tjald og svefnpoka, veg Ólafs helga Haraldssonar, konungs, frá Osló til Þrándheims, tæplega 700 km. Það var gaman að heyra lýsingu hans, af hógværð og lítillæti eins og alltaf, á þessari göngu og því sem fyrir augu bar. Í það skiptið eins og alltaf áður dáðist ég að honum, hugrekki hans og æðruleysi.

Kæra Bärbel, Jens, barnabörn og systkini, innilegar samúðarkveðjur til ykkar allra.

Jón H.B. Snorrason.
-----------------------------------------------------

Ein af mínum fyrstu minningum er af ferð til Landmannalauga með Fylki föðurbróður mínum og Bärbel. Fylkir sýndi mér jarðfræðileg fyrirbrigði og útskýrði þau fyrir mér eins og ég væri fullorðinn, þó ég hafi auðvitað verið barn. Strax við Rauðhólana sýndi hann mér gígana sem mynduðust í sprengingum þegar hraun rann yfir votlendi fyrir fimm þúsund árum. Ég var of ungur til að meðtaka að fullu ægivald náttúruaflanna og framvindu tímans en af einhverjum ástæðum situr þessi minning í mér.

Sumarið eftir að pabbi dó kom fjölskyldan saman á ættarmóti á Flúðum þar sem við höfum átt margar góðar stundir saman í gegnum árin. Þetta var erfiður tími fyrir okkur mömmu og Margréti systur. Í ofanálag vorum við Kristjana í þann mund að flytja til Berlínar og sáum við fram á mikinn söknuð. Ég man að eitt kvöldið, þegar flestir voru farnir að sofa, sátum við nokkur í heita pottinum með Fylki og Bärbel. Þau sögðu okkur söguna af því þegar þau vildu flytja til Íslands frá Austur-Þýskalandi á tímum aðskilnaðarmúrsins. Eftir langa baráttu við yfirvöld, raunar daginn þegar Bärbel átti að eiga Jens frænda, fengu þau loksins leyfi til að fljúga til Íslands með sólarhrings fyrirvara og byrja líf sitt saman þar.

Svona eru minningar mínar af Fylki í gegnum árin. Hann talaði af ástríðu um þá hluti sem hann hafði áhuga og þekkingu á en þó af þeirri stóísku ró sem allir sem þekktu hann kunnu að meta. Hann vandaði orð sín og setti hlutina í samhengi.

Síðasta skiptið sem ég sá Fylki var á heimili þeirra Bärbelar í nóvember síðastliðnum og við vissum hvað var yfirvofandi. Hann var nýkominn úr gönguferð sinni um Veg Ólafs helga í Noregi og hafði skráð hana vandlega með myndum og texta sem við gátum blaðað í gegnum. Að sjálfsögðu voru hans óviðjafnanlegu pönnukökur á boðstólum með kaffinu eins og alltaf. Áður en við kvöddum dró hann fram krukku sem þau Bärbel geymdu fulla af brotum úr Berlínarmúrnum og bauð okkur að velja eitt til að taka með okkur. Við stilltum því upp á hillu í stofunni í Berlín við hliðina á ljósmynd af pabba.

Þegar heimurinn virtist óvæginn og yfirþyrmandi var ómetanlegt að eiga Fylki að. Hvíl í friði, elsku frændi.

Steindór Grétar Jónsson.
-------------------------------------------------------

Fylkir Þórisson, fyrrverandi samstarfsmaður minn hjá Ríkisútvarpi – Sjónvarpi um 25 ára skeið, er látinn. Fylkir hóf störf hjá Sjónvarpinu í árslok 1967, þá nýútskrifaður tæknifræðingur frá Þýskalandi. Hann starfaði þar allt til starfsloka.

Á löngum starfsferli öðlaðist Fylkir fjölbreytta reynslu í vinnslu og meðferð sjónvarpsefnis. Hann varð lykilmaður í hönnun og uppsetningu tæknikerfa Sjónvarpsins. Þar kom fram góð yfirsýn hans yfir sjónvarpstæknina. Hann fylgdist vel með þróun hennar og hafði útsjónarsemi til að meta hvað hentaði daglegum rekstri Sjónvarpsins og hvernig takmörkuð fjárráð til fjárfestinga í tæknibúnaði nýttust sem best. Þar var Fylkir mjög tillögugóður.

Fylkir tók einnig þátt í erlendu samstarfi og var m.a. tengiliður Ríkisútvarpsins í norrænu tæknisamstarfi um nokkurra ára skeið. Þar naut hann virðingar erlendra starfsfélaga.

Stærsta verkefnið sem Fylkir vann að var flutningur Sjónvarpsins frá Laugavegi 176 í Útvarpshúsið við Efstaleiti. Þar var hann í hópi góðra starfsmanna sem hlut áttu að máli ásamt innlendum og erlendum ráðgjöfum Ríkisútvarpsins. Þessi hópur lagði grunn að endanlegu skipulagi og lokahönnun sjónvarpshluta Útvarpshússins. Sjónvarpið flutti í Útvarpshúsið árið 2000 en Útvarpið hafði flutt þangað árið 1987.

Fylkir leiddi hönnun tæknikerfa Sjónvarpsins allt þar til hann fór á eftirlaun 65 ára gamall. Hann kaus að hætta í apríl 2007, eftir nær 40 ára starf, þegar rekstrarformi Ríkisútvarpsins var breytt í opinbert hlutafélag, RÚV ohf. Það gerðu einnig fjölmargir aðrir starfsmenn Ríkisútvarpsins.

Fylkir var traustur starfsmaður og var að jafnaði léttur í lund. Hann gat þó verið fastur fyrir. Ef hann var kominn að niðurstöðu í einhverju máli þurfti góð og gild rök til að hann skipti um skoðun. Samstarf okkar var farsælt þótt við værum ekki ætíð sammála.

Mér var brugðið þegar ég frétti lát Fylkis. Ég taldi hann eiga mörg góð ár eftir, hann hafði lagt svo mikið inn í lífsbankann. Var mjög vel á sig kominn, reglusamur, öflugur göngumaður og stundaði fjallgöngur allt fram að greiningu meinsins sem varð honum að aldurtila.

Að leiðarlokum eru Fylki færðar bestu þakkir fyrir gott samstarf og samfylgd. Konan mín Hanna og ég vottum Bärbel, syninum Jens og barnabörnunum innilegustu samúð á sorgarstund.

Eyjólfur Valdimarsson.
--------------------------------------------------------

Fallinn er frá Fylkir Þórisson kær vinur og ferðafélagi til margra áratuga. Úthlutun lóðar til byggingar á raðhúsum við Núpabakka árið 1973 kom okkur saman ásamt fleirum í þessari lengju. Árið eftir hófust byggingaframkvæmdir sem stóðu í eitt og hálft ár hjá flestum. Þegar fólk var flutt inn fór að gefast tími til ýmissa tómstunda, svo sem útilega, veiðiferða og utanlandsferða. Meðan íbúar voru yngri voru oft haldnar samkomur ýmist með kökum eða mat og fóru þær oftast fram úti í garði að sumarlagi.

Þetta voru hinar skemmtilegustu samkomur og þjöppuðu íbúum lengjunnar saman. Meðal ferða sem við fórum til útlanda voru vikuferð til Bahamaeyja og önnur til eyjarinnar Arúba í Karabíska hafinu. Þessar ferðir eru mér enn minnisstæðar vegna þess hve andinn í hópnum var góður. Nokkrar voru svo veiðiferðarnar inn í Veiðivötn þar sem verið var í tjaldvögnum sem var ferðamáti okkar í þá daga.

Einnig fórum við upp á Arnarvatnsheiði og austur í Þistilfjörð í Hafralónsá, þá frægu veiðiá, við lítinn orðstír. Svo má ekki gleyma ferðunum með sonum okkar á þorrablót í Setrið skála félagsins 4X4. Þetta voru hinar skemmtilegustu ferðir út í snævi þakið landslag sem er ótrúlega fallegt. Það er nú einhvern veginn þannig að maður veit ekki hvað maður hefur átt fyrr en maður missir það. Þannig er mér innanbrjóst við fráfall þessa góða vinar míns. Blessuð veri minning hans. Ég bið fyrir kveðjur frá okkur Láru til Bärbelar, sonar þeirra Jens og barna hans Hauks og Dagbjartar.

Jón Leifur.