Auður Sigurgeirsdóttir og Vilhjálmur J Hjartarson

Hjónaminning:  Auður Sigurgeirsdóttir og  Vilhjálmur Hjartarson frá Siglufirði 

Auður Fædd 22. mars 1900 Dáin 13. mars 1994 

Vilhjálmur Fæddur 17. október 1900 Dáinn 22. nóvember 1982

Mig langar með nokkrum orðum að minnast hjónanna Auðar Sigurgeirsdóttur og Vilhjálms Hjartarsonar, sem var móðurbróðir minn.

Auður fæddist 22. mars árið 1900 og var yngsta dóttir hjónanna Sigurgeir Sigurðsson bóndi á Öngulstöðum og Möðruvöllum í Eyjafirði og Þóra Sigfúsdóttir.

Auður Sigurgeirsdóttir og Vilhjálmur J Hjartarson. Myndin fylgdi greininni

Auður Sigurgeirsdóttir og Vilhjálmur J Hjartarson. Myndin fylgdi greininni

Tveggja ára gömul missti Auður föður sinn og flutti þá fjölskyldan til Akureyrar. Auður hafði snemma áhuga á tónlist og þar sem að orgel var til á heimilinu fékk hún að læra á það.

Hana langaði þó alltaf til að læra á píanó en ekki voru efni til að fjárfesta í öðru hljóðfæri. 

Árið 1915 flutti Þóra með börnin sín þrjú, Ólaf, Ásdísi og Auði, til Siglufjarðar. Þóra var mjög fær kjólameistari og vann fyrir heimilinu með saumaskap. 

Ólafur lærði bakaraiðn og Ásdís lærði kjólasaum hjá móður sinni.

Ung að árum fór Auður til Reykjavíkur og lærði teikningu og hannyrðir hjá Unnur Ólafsdóttir listakona. Auður var mjög listhneigð og hafði yndi af hannyrðum og bar heimili hennar vott um það. Hún vann lengi vel við að teikna handavinnumynstur fyrir skóla og einstaklinga.

Auður kynntist eiginmanni sínum, Vilhjálmi Hjartarsyni, á Siglufirði. Vilhjálmur var fæddur 17. október árið 1900 í Skarðdal Siglufirði, og var hann sonur hjónanna 

Guðrún Vilhjálmsdóttir og Hjörtur Pétursson stýrimaður á hákarlaskipinu Kristbjön.

Vilhjálmur og Auður eignuðust fjórar dætur. Þær eru:

1) Sigþóra Vilhjálmsdóttir verslunarstjóri, fædd 11. janúar 1931, maki Edwin Solter, búsett í Bandaríkjunum;

2) Guðrún Vilhjálmsdóttir húsmóðir, fædd 1932, maki; sr. Sigurpáll Óskarsson, Hofsósi, en hún lést árið 1981;

3) Hjördís Vilhjálmsdóttir íþróttakennari, fædd 18. apríl 1936, maki; Einar G Sveinbjörnsson fiðluleikari og var búsett í Svíþjóð en lést árið 1985;

4) Sveinbjörg Vilhjálmsdóttir píanóleikari og skólastjóri, fædd 11. febrúar 1943, maki John A Speight söngvara og tónskáldi.  https://www.mbl.is/greinasafn/grein/1454584/ 

Vilhjálmur vann mikið brautryðjendastarf á Siglufirði í verkalýðs-, bindindis- og skíðaíþróttamálum. Hann átti sæti í bæjarstjórn Siglufjarðar um árabil og gegndi mörgum trúnaðarstörfum fyrir bæjarfélagið. Einnig var hann formaður skíðafélagsins um árabil.

Vilhjálmur var stofnandi Kaupfélag Siglufjarðar ásamt Guðmundur Skarphéðinsson og var kaupfélagsstjóri frá 1929­1936. Síðar var hann skrifstofustjóri hjá Síldarverksmiðjunni "Rauðku" 1941­ -1967, eða þar til rekstur stöðvaðist í þeirri verksmiðju.

"Villi frændi", eins og við systkinin kölluðum hann alltaf, bauð okkur oft með sér á skíði á sunnudögum. Þá var gengið fram á fjörð að Skíðafelli á Saurbæjarás. Það voru dýrmætar stundir sem við áttum með honum. Ég minnist þess hvað við litum upp til hans. Hann var glæsilegur ungur maður. Á gönguskíðunum klæddist hann fínum poka- eða hnébuxum, köflóttum sportsokkum, mittisjakka og var með derhúfu.

Ég og bræður mínir, Hjörtur og Guðlaugur, heimsóttum oft ömmu og afa á Hlíðarveginn, en þar bjuggu þau á sínum efri árum, hjá Vilhjálmi og Auði. Afi dó 1936 en amma lifði í hárri elli við bestu heilsu til 97 ára aldurs. Ógleymanleg voru aðfangadagskvöldin á Hlíðarveginum þegar við systkinin og Helga og Óli vorum boðin þangað eftir jólamatinn. Þá voru þau hjónin í sínum fínustu fötum, húsbóndinn í kjólfötum og húsmóðirin í perlusaumuðum kjól.

Vilhjálmur var góður söngmaður og stjórnaði söngnum meðan við dönsuðum í kringum grenitréð sem var svo stórt að það náði næstum upp í loft, skreytt alla vega litum kúlum og kertum. Yndislegt var að hitta litlu ljóshærðu frænkur okkar, þær Tótu, Rúnu og Hjördísi, sem léku á als oddi.

Á meðan þessu fór fram var Auður að leggja á borð í borðstofunni, hita súkkulaði og taka fram alls konar smákökur, vínartertur og fleiri kræsingar. Borðstofuborðið var fallega skreytt þegar hún bauð okkur að koma og fá okkur að drekka. Þegar kominn var tími til að kveðja þá fengum við stóran poka fullan af alls konar góðgæti, s.s. eplum, sem aðeins voru til á jólum, kertapakka, jólagjöf og sælgæti.

Eins var það á sumrin að Villi frændi bauð okkur í sjóferð út á fjörð. Hann átti fallega trillu og lítinn árabát. Síðsumars var farið í berjamó út í Kambalá eða inn á Almenning sem er Skagafjarðarmegin við Siglufjörð, en þá var enginn vegur kominn yfir Skarðið.

Ég er viss um að fá börn og unglingar hafi átt eins skemmtilega æsku og við sem alin vorum upp á Siglufirði.

Um 1943 byggði Vilhjálmur sér hús á Suðurgötunni, en faðir minn, Karl Sturlaugsson, sem var húsasmíðameistari, sá um bygginguna. Áður en þau fluttu í nýja húsið bjuggu Auður og Vilhjálmur í eitt ár á neðri hæðinni hjá foreldrum mínum og þar fæddist yngsta dóttir þeirra. Heimilið á Suðurgötunni var einstaklega fallegt og garðurinn bæjarprýði, enda lögðu þau mikla rækt við heimili sitt. Þaðan fluttust þau til Reykjavíkur árið 1981 vegna veikinda Vilhjálms.

Herdís Karlsdóttir