Tengt Siglufirði
Viðar Gunnlaugsson (Viddi Gull) fæddist á Siglufirði 3. mars 1934. Hann lést á gjörgæsludeild Landspítalans í Fossvogi 15. maí 2015.
Foreldrar hans voru Jóhanna Guðrún Friðjónsdóttir, f. 3.11. 1910, d. 30.12. 1993, og Gunnlaugur Friðleifsson, f. 29.5. 1899, d. 13.7. 1970. Systir Viðars var
Sigríður Elísabet Gunnlaugsdóttir, f. 25.10. 1935, d. 22.6. 2013.
Eiginkona Viðars er Arndís Kristjánsdóttir frá Móabúð í Eyrarsveit á Snæfellsnesi, f. 24.3. 1937. Hún dvelur nú á hjúkrunarheimilinu Eir í Grafarvogi.
Börn Viðars og Arndísar eru:
1) Auður Kristrún Viðarsdóttir, f. 1957, í sambúð með Guðjón Baldvinsson, f. 1954, og eiga þau soninn
Guðjón Gauti, f. árið 2000. Fyrir átti Auður með Sturla Rögnvaldsson, f. 27.10. 1953, d. 31.5. 2012, synina
Viðar, f. 1982,
Rögnvald, f. 1984, Rögnvaldur er í sambúð með Olga Ösp Sveinsdóttir, f. 1990, og eiga þau
Dagbjört Rún, f. 1987. f. 2014.
2) Arna Sigrún Viðarsdóttir, f. 1966, maki Haraldi Páli Hilmarssyni, f. 1962. Börn þeirra eru
Óskar, f. 1993 og
Arndís, f. 1996.
3) Gunnlaugur Viðar Viðarsson, f. 1970.
4) Sonja Guðrún Viðarsdóttir, f. 1975. Börn hennar eru
Jón Arnar, f. 1994, faðir Gísli Baldursson, f. 1973, og Esja Bára, f. 2008, faðir Lárus Arnar Gunnarsson, f. 1967.
Viðar flutti ungur frá Siglufirði og fór meðal annars til Grundarfjarðar á vertíð, þar sem hann kynntist eftirlifandi eiginkonu sinni, Arndísi Kristjánsdóttur. Hann tók ungur atvinnuflugmannspróf og starfaði sem siglingafræðingur hjá Lofleiðum í mörg ár.
Fljótlega eftir að hann hætti störfum þar hóf hann störf hjá slökkviliðinu á Keflavíkurflugvelli, þar sem hann vann til starfsloka.
Látinn er tengdafaðir minn Viðar Gunnlaugsson, fyrrum flugmaður og síðar starfsmaður slökkviliðsins á Keflavíkurflugvelli um árabil.
Er orðið skarð fyrir skildi þegar Viðar er horfinn af velli og ekki lengur hægt að njóta gamansemi hans sem stundum gat reyndar verið hrjúf en samt alltaf einhvern veginn vinsamleg svo vel var tekið.
Leiðir okkar Viðars lágu fyrst saman þegar ég kynntist elstu dóttur hans og sambýliskonu minni, Auði Kristrúnu, og kunni ég strax vel við manninn. Hann var vanur að tjá manni skoðanir sínar jafnt á mönnum sem málefnum alveg umbúðalaust og hressilega, svo ekki var farið í neinar grafgötur um þær. Þó hann væri ekki vanur að bera tilfinningar sínar á torg þá vissi maður alltaf hvar maður hafði Viðar. Hann var hreinn og beinn í háttum sínum.
Hann var að jafnaði afskaplega ræðinn og gat oft verið unun að hlusta á hann lýsa ýmsum atburðum af lífsleiðinni, ekki hvað síst frá tíma hans hjá Loftleiðum. Hann hafði lært til atvinnuflugmannsprófs og starfaði sem siglingafræðingur í flugvélum Loftleiða á meðan sú stétt var við lýði. Þegar flugvélarnar þróuðust þannig að ekki þurfti lengur nema flugstjóra og aðstoðarflugmann í hverri vél, söðlaði hann um og gerðist starfsmaður slökkviliðsins á Keflavíkurflugvelli, sem hann síðan vann hjá fram að starfslokum sínum.
Ekki var ég farinn að þekkja hann á þeim tíma en heyrði síðar margar sögur frá því tímabili starfsævi hans ekki síður en flugsins. Hann hafði mætur á skemmtilegum karakterum og mönnum sem fóru sínar eigin leiðir í lífinu og sagði gjarnan frá þeim.
Á blómatíma hans í fluginu á sjöunda áratugnum var flugmannsstarfið hygg ég mikið ævintýri og yfir því sérstakur ljómi sem ég er ekki viss um að við síðari tíma fólk getum áttað okkur alveg á, svo alvanalegt sem flugið og flugferðirnar eru orðnar í dag. Á þessum tíma fylgdu því nokkur forréttindi að vera flugmaður, starfinu fylgdu tíðar ferðir til útlanda, bæði til Evrópu og Bandaríkjanna.
Mér fannst Viðar alltaf bera með sér nokkurn brag heimsborgara þegar hann sagði frá ferðum og ævintýrum úr fluginu. Hann ræddi oft um erlendar heimsborgir rétt eins og þær væru bara Siglufjörður, hans gamli fæðingarbær. Hann átti rætur að rekja í Fljótin í Skagafirði en fæddist og ólst upp á Siglufirði.
Við áttum þess kost að fara með honum á ættarmót móðurættar hans árið 2013, sem haldið var þar. Það var hans síðasta ferð á æskuslóðirnar og til allrar lukku fengum við Auður hann til þess að fara með okkur um bæinn og rifja upp líf sitt og helstu verustaði þar og er sú fræðsluferð nú orðin að ljúfri minningu. Hann ólst upp í miðri hringiðu síldarævintýrisins sem áreiðanlega hefur verið sérstök lífsreynsla fyrir unglinga þess tíma.
Mín tilfinning er sú að Viðar hafi að mörgu leyti verið gæfumaður í lífinu, eins og hann hafði upplag til. Hann kynntist og starfaði á slóðum tveggja af stórævintýrum þjóðarinnar, síldveiðanna og upphafs millilandaflugsins.
Hafðu þökk, kæri Viðar, fyrir skemmtileg og gefandi kynni á okkar samleið. Þau munu ylja um ókomin ár.
Guðjón Baldvinsson.