Jón Örn Sæmundsson smiður

Mbl.is 22. júlí 1995 

Jón Örn Sæmundsson smiður, fæddist á Siglufirði 13. maí 1938. Hann lést 12. júlí1995.
Foreldrar hans eru Jónína Guðbjörg Braun (d. 1994) og Sæmundur Jónsson, sem lifir son sinn.
Þau voru búsett á Siglufirði.
Systkini Jóns Sæmundssonar eru:

 • Stefanía Sæmundsdóttir, f. 1936, búsett í Skagafirði,
 • Jórunn Gunnhildur, f. 1943, búsett á Akureyri,
 • Úlfar Helgi Sæmundsson, f. 1945, býr í Mývatnssveit,
 • Anna Sæmundsdóttir, f. 1948, búsett á Siglufirði, maki: Ámundi Gunnarsson
 • Sigrún Sæmundsdóttir, f. 1951, dó á fyrsta ári, og
 • Sigrún Björg Sæmundsdóttir, f. 1958, býr á Hofi í Öræfum.

Hinn 29. desember 1962 kvæntist Jón Þórunni Þorgeirsdóttur, f. á Siglufirði 1936, d. 1977.
Þau eignuðust þrjú börn saman:

 • 1) Þorgeir Valdimar, f. 1960, í sambúð með Kristínu Ólafsdóttur. Þau eru búsett á Akureyri og eiga eina dóttur.

 • 2) Jórunn, f. 1962, í sambúð með Óskari Jóhannssyni. Þau eru búsett á Akureyri og eiga tvö börn.

 • 3) Freyja, f. 1963, í sambúð með Ragnari Kárasyni. Þau eru búsett á Sauðárkróki og eiga tvö börn.

  Þórunn átti áður einn son,
 • Gústaf Daníelsson, f. 1958, sem kvæntur er Sigurósk Jónsdóttur. Þau eru búsett á Hólmavík og eiga fjögur börn.
Jón Sæmundsson smiður - Ljósmynd Kristfinnur

Jón Sæmundsson smiður - Ljósmynd Kristfinnur

Útför Jóns fór fram frá Siglufjarðarkirkju 18. júlí.
------------------------------------------------------------------

Jón Örn Sæmundsson

Það óvænta er alltaf að gerast, síminn hringir og flutt er sú fregn, að Nonni Sæm sé látinn. Skjótt skipast veður í lofti. Fyrir örfáum dögum vorum við stödd á niðjamóti Lambanesættar. Þar var Nonni mættur ásamt börnum sínum og systrum og fjölskyldum þeirra.

Allt frá því ég man fyrst eftir mér var frændi minn aldrei langt undan. Ég fluttist til Siglufjarðar og var um tíma hjá afa okkar Jóni Kristjánssyni og stjúpömmu, Önnu Sigmundsdóttur, á Hvanneyrarbraut 25 C. Við Nonni áttum því oft samleið á þessum árum, og margar góðar stundir upp á ljósastöð hjá afa rifjast upp fyrir mér.

Síðan rofnaði sambandið um nokkurra ára skeið, þegar fjölskylda mín flutti í Málmey og síðan á Sauðárkrók. Við vorum því orðnir stálpaðir þegar leiðir lágu saman á ný. Þau ár eru mér í fersku minni og þessi frændi var ávallt aufúsugestur, einkum var hlýtt milli móður minnar og hans. Lambanesættin er fjölmenn og dreifð um landið og utan þess, og um árabil voru tengslin innan ættarinnar ekki rækt sem skyldi. Niðjamótin urðu til þess að breyting varð á, og hafa ættingjar og fjölskyldur þeirra kynnst betur og treyst vináttubönd.

Okkur verður því fráfall góðs frænda og vinar, á svo sviplegan hátt, mikið áfall. Við erum þakklát fyrir það að hafa haft hann meðal okkar og sérstaklega fyrir þá daga sem við áttum með honum nú síðast. Ég átti þess kost að ræða við hann um liðna tíma og skynjaði gleðina sem tengdist þeirri upprifjun. Augu hans ljómuðu, enda Siglufjörður og árin þar til umræðu. Nonni var mikill Siglfirðingur og því er vel við hæfi að hann verður til moldar borinn í sínum gamla heimabæ.

Nonni Sæm var gjörvilegur maður og eftir honum tekið hvar sem hann fór, glettinn á góðri stund en þó maður alvörunnar, mikið snyrtimenni, hugljúfur drengur og dagfarsprúður svo af bar. Þar sem við sátum og ræddum saman barst talið að börnum hans og fjölskyldum þeirra. Þá birti yfir svip hans, stoltið leyndi sér ekki og auðfundið að sambandið milli þeirra var náið og gott. "Já þetta er góður hópur," sagði hann og horfði í áttina til þeirra. Við, ættingjar hans og vinir, erum þakklát fyrir það tækifæri sem okkur gafst þarna til að kveðja þennan góða dreng, og ógleymanlegur verður þáttur séra Magnúsar Gunnarssonar er hann með helgistund sleit þessu niðjamóti. Sú athöfn var einstök og mun lifa í minningunni.

Jón Örn Sæmundsson var góður sómadrengur og það er vissulega mikill sjónarsviptir að honum látnum. Hann var góður félagi og traustur vinur. Við, börnin hennar Báru og fjölskyldur okkar, þökkum þessum einstaka frænda fyrir góð kynni og trygga vináttu. Sæmundi frænda, systkinum, börnum og fjölskyldum þeirra svo og öðrum ættingjum og vinum vottum við okkar dýpstu samúð.

Anton Jón I. Angantýsson.