Tengt Siglufirði
Þ Ragnar Jónasson fæddist á Eiðsstöðum í Blöndudal í Austur-Húnavatnssýslu 27. október 1913. Hann lést á Heilbrigðisstofnuninni á Siglufirði 6. október 2013.
Foreldrar Ragnars voru Jónas Guðmundsson bóndi á Eiðsstöðum, f. 19. janúar 1879, d. 25. september 1933, og kona hans Ólöf Bjarnadóttir, f. 3. ágúst 1884, d. 18. júlí 1957.
Foreldrar Jónasar voru Guðmundur Árnason bóndi í Syðra-Tungukoti, Víðimýrarseli og Mikley í Vallhólmi í Skagafirði, f. 19. desember 1830 í Dalasýslu, d. 26. janúar 1880, og kona hans Ingiríður Þorbergsdóttir, f. 17. september 1837 í Austur-Húnavatnssýslu, d. 23. desember 1923.
Foreldrar
Ólafar voru Bjarni Sveinsson smiður og sjómaður að Valbraut í Garði í Gullbringusýslu, f. 22. apríl 1859 í Gullbringusýslu, d. 18. september 1921, og kona hans Ásta María
Sveinsdóttir, f. 6. september 1855 í Vestur-Húnavatnssýslu, d. 28. júlí 1919.
Systkini Ragnars eru átta:
Ragnar kvæntist 29. maí 1943 Guðrún Reykdal, f. 16. desember 1922.
Foreldrar hennar voru
Ólafur J. Reykdal trésmiður á Siglufirði, f. 10. júní 1869, d. 20. desember 1960, og kona hans Sæunn Oddsdóttir, f. 18. júlí 1895, d. 24. júní 1938.
Börn Ragnars og Guðrúnar eru þrjú:
Ragnar Jónasson lauk búfræðiprófi frá Bændaskólanum á Hólum vorið 1933, hélt síðan til Danmerkur og lauk prófi sem mjólkurfræðingur frá Ladelund Mejeriskole vorið 1939.
Hann vann á dönskum mjólkurbúum og kom heim í Petsamoför Esju haustið 1940 ásamt fjölda annarra Íslendinga. Ragnar flutti til Siglufjarðar vorið 1941.
Í fjögur ár veitti hann forstöðu mjólkursamsölu og mjólkurbúð og var næstu fimm ár skrifstofustjóri hjá byggingarfélaginu Sveini og Gísla hf.
Hann var ráðinn bæjargjaldkeri vorið 1950 og gegndi því starfi í þrjá áratugi. Á þeim tíma var hann oft settur bæjarstjóri. Jafnframt var hann í þrettán ár framkvæmdastjóri Sjúkrahúss Siglufjarðar.
Hann var lengi fréttaritari fyrir dagblaðið Vísi og Sjónvarpið.
Þegar Ragnar lét af störfum bæjargjaldkera gat hann helgað sig fræðimennsku og ritstörfum, sem hann hafði lengi unnið að í hjáverkum um árabil.
Á árunum frá 1996 til 2001 voru gefnar út fimm bækur eftir Ragnar: Siglfirskar þjóðsögur og sagnir, Siglfirskir söguþættir, Siglfirskur annáll,
Margir eru vísdóms vegir og Mörg læknuð mein. Hann hlaut menningarverðlaun Siglufjarðarkaupstaðar árið 1997 fyrir fræðistörf sín.
Ragnar var mjög virkur í félagsmálum í sinni heimabyggð. Hann var formaður Norræna félagsins á Siglufirði í þrjú ár og skipulagði fyrsta vinabæjarmótið áÍslandi sumarið 1950. Hann starfaði lengi í Félagi sjálfstæðismanna á Siglufirði og var formaður þess á sjötta áratugnum.
Hann var í stjórn Sögufélags Siglufjarðar og Húnvetningafélagsins og söng með Karlakórnum Vísi í fjölda
ára. Ragnar var einn af stofnendum Lionsklúbbs Siglufjarðar haustið 1954, en það var fyrsti klúbburinn utan Reykjavíkur, og var heiðursfélagi klúbbsins. Ragnar var félagi í Frímúrarareglunni
í áratugi og forystumaður þess félagsskapar á Siglufirði.
------------------------------------------------------------------------------------
Þann 27. október 1963 átti fimmbugsafmæli Þorleifur Ragnar Jónasson, bæjargjaldkeri og formaður Sjálfstæðisfélags Siglufjarðar. Þ. Ragnar, en undir því nafni kannast Siglfirðingar best við hann, var einn þeirra manna, sem ég kynntist hvað fyrst eftir að ég flutti hingað til Sigluf jarðar, og höfum við síðan haft mikið saman að sælda á sviði félagsmála hér á staðnum, og þá sérstaklega vegna stjórnmálaafskipta okkar beggja, en á því sviði höfum við frá upphafi kynna okkar átt nána samleið, þótt stund um hafi okkur í bróðerni greint á um atriði, sem minna máli skipta.
Af þessum sökum tel ég mér skylt og um leið ljúft, að senda þessum vini mínum og frænda kveðju úr fjarlægð, nú er hann stendur á merkum tímamótum æviskeiðs síns. Þ. Ragnar er Húnvetningur að ætt, fæddur 27. okt 1913, að Eiðsstöðum i Blöndudal, sonur Jónasar Guðmundssonar, bónda þar, og konu hans, Ólafar Bjarnadóttur. Er ég ekki nægilega kunnugur uppruna Þ. Ragnars í ættir fram til þess að ég treysti mér til að gera honum nokkur skil hér, en kunnugt er mér þó um, að í móðurætt er hann kominn af Þórarni sýslumanni í Grund í Eyjafirði Jónssyni, en afkomendur þess merka ætt föður eru nú dreifðir nálega um land allt (Thorarensen ætt).
Í foreldrahúsum í dalnum heima, ólst Þ. Ragnar upp, og hefir hann vafalaust hlotið þar hið besta uppeldi. Fór hann í Hólaskóla tæplega tvítugur að aldri, og og lauk þaðan prófi sem bú fræðingur 1933. Réðst hann síðan til utanfarar og stundaði fyrst landbúnaðarstörf og síðan nám í mjólkurvinnslu í Danmörku, og lauk þar prófi vorið 1939 sem mjólkuriðnfræðingur. Að námi loknu starfaði Þ. Ragnar fyrst í stað sem verkstjóri í dönskum mjólkursamlögum, en ílentist þar ekki og hvarf heim til Íslands með Petsamaferðinni svonefndu, haustið 1940, en sú ferð var á sínum tíma fræg um Norðurlönd, enda farin á víðsjálum stórstyrjaldartímum, hafin frá löndum hersetnum af Þjóðverjum, en lokið í landi, hersetnum af bandamönnum.
Dreg ég þá ályktun af þessu áhættusama ferðalagi Þ. Ragnars, að ekki hafi hann fýst að setjast að í framandi löndum, þótt e.t.v. hafi hann átt þess kost, en sú taug hafi verið römm, sem dró hann „föðurtúna til", enda er hann rammíslenskur að allri gerð, hollur landi sínu og þjóð. Fljótlega eftir heimkomuna flutti Þ. Ragnar til Siglufjarðar og gerðist forstjóri Mjólkursamsölunnar hér á staðnum vorið 1941, og árið 1943 forstöðumaður mjólkursölu bæjarins.
Vorið 1945 brá hann á annað ráð og gerðist þá skrifstofustjóri hjá byggingafyrirtækinu Sveinn og Gísli h.f., hér í bæ, en varð gjaldkeri Siglufjarðarbæjar vorið 1950, og hefir hann gegnt því annasama og oft erfiða starfi síðan. Oft var hann og settur bæjarstjóri um lengri eða skemmri tíma í forföllum hins reglulega bæjarstjóra, eftir að hann réðst í þjónustu bæjarins. Af því, sem hér að framan er rakið, verður séð, að Þ. Ragnar hefir gegnt ýmsum störfum á starfsævi sinni fram að þessu, og þeim harla ólíkum.
Ætla ég þó, að hann hafi gert þeim öllum góð skil, enda er hann maður fjölhæfur og dugnaði hans við brugðið. En fjarri fer því þó, að Þ. Ragnar hafi um ævina látið takmarkast af þeim störfum einum, sem beinlínis snerta lífsstarf hans og forauðstrit. Hefir hann lengst af, frá því hann settist að hér á Siglufirði, sinnt margvíslegum og umfangsmiklum félagsmálastörfum og verður nú getið nokkurra.
Hann var formaður Húnvetningafélagsins á Siglufirði í mörg ár; í stjórn Félags Sjálfstæðismanna í Siglufirði nær óslitið frá 1945, og formaður þess félags síðan 1956; í stjórn Norræna félagsins á Siglufirði frá 1944 og formaður þess félags í nokkur ár. Hann er einn af stofnendum Lionsklúbbs Siglufjarðar og félagi þar síðan. Þ. Ragnar Jónasson er maður hressilegur og tápmikill í framkomu, og jafnan glaður og reifur, fyndinn og skemmtilegur, og hlýr og nærgætinn, ef því er að skipta.
Hann er hreinskiptinn, opinskár og hreinskilinn og alls óragur við að halda fram hlut sínum og skoðunum við hvern sem við kann að vera að eiga. Það kæmi mér þó
mjög á óvart, ef hann hefði aflað sér óvildar nokkurs manns með hreinskilni sinni, sem stundum kann að nálgast bersögli, enda munu flestir virða slíka eiginleika fremur en hafa illa upp
fyrir þeim, sem þá hafa til að bera.
Þ. Ragnar er kvæntur geðþekkri ágætiskonu, Guðrúnu Reykdal, dóttur Ólafs heitins Reykdal, byggingameistara, og konu hans, Sæunnar
Oddsdóttur, frá Siglunesi. Eiga Þ. Ragnar og Guðrún 3 myndarbörn, Ólaf 19 ára, Jónas 15 ára, og Sæunni Eddu 14 ára. Þessum góða vini mínum vil ég að
lokum þakka ánægjulega og góða samfylgd og samvinnu í blíðu og stríðu hingað til, og vænti góðs af áframhaldandi samskiptum við hann hér eftir. Honum og fjölskyldu
hans óska ég alls velfarnaðar og gengis um alla framtíð.
Einar Ingimundarson.