Tengt Siglufirði
Mbl.is 31. október 2003
ÞORGEIR Þorgeirson, rithöfundur, þýðandi og kvikmyndagerðarmaður, andaðist
á Landspítalanum í Fossvogi í gær 30. október 2003.
Þorgeir fæddist í Hafnarfirði 30. apríl 1933.
Foreldrar hans voru Guðrún Kristjánsdóttir
verkakona og Þorgeir Elís Þorgeirsson sjómaður.
Þorgeir varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1953. Þá nam hann þýsku, bókmenntasögu og listfræði við Vínarháskóla 1953 til 1954. Síðar lærði hann kvikmyndaleikstjórn við Listaakademíuna í Prag 1959 til 1962.
Þorgeir starfaði við kvikmyndagerð 1962 til 1972 samhliða leiðsögustörfum hjá Ferðaskrifstofu ríkisins. Hann vann við ýmis ritstörf, þýðingar og leikstjórn í útvarpi frá 1962. Kennari var hann við Leiklistarskóla SÁL árin 1973 til 1976.
Eftir Þorgeir liggur á níunda tug titla. Þar á meðal eru skáldsögur, smásögur, ritgerðasöfn, leikhúsverk, útvarpsleikrit, ljóð, þýðingar, kvikmyndahandrit og heimildamyndir. Erlendar útgáfur á verkum hans eru vel á þriðja tuginn.
Þorgeir vann mál gegn íslenska ríkinu fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu 1992 eftir að hafa verið dæmdur í Hæstarétti fyrir greinarskrif í Morgunblaðið 1983. Hafði dómurinn áhrif á íslenskt réttarfar.
Þorgeir hlaut ýmsar alþjóðlegar viðurkenningar fyrir kvikmyndina Maður og verksmiðja og fyrir ritstörf sín. Hann var kjörinn heiðursfélagi Félags íslenskra kvikmyndagerðarmanna og honum voru veitt Eddu-verðlaunin fyrir framlag til kvikmynda árið 2000.
Eftirlifandi kona hans er Vilborg Dagbjartsdóttir, kennari og skáld.
Sonur hans er Þorgeir Elís Þorgeirsson
efnafræðingur og stjúpsonur Egill Arnaldur Ásgeirsson kennari og sjómaður.
------------------------------------------
Þorgeir Þorgeirsson (30. apríl 1933 – 30. október 2003) var íslenskur rithöfundur, þýðandi og kvikmyndagerðarmaður.
Hann er einna þekktastur fyrir að hafa þýtt Alexis Sorbas eftir Nikos Kasantsakis og margar bóka William Heinesen á íslensku.
Hann er einnig þekktur fyrir greinaskrif sín og baráttu sína við íslenska ríkið fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu sem knúðu fram breytingar á meiðyrðalöggjöfinni. Frægar urðu einnig síðari deilur hans við íslenska ríkið, um réttinn á að skrifa eftirnafn sitt, Þorgeirsson, með einu s-i, og fá það þannig skráð í Þjóðskrá. [1]
Þorgeiri hefur verið lýst sem brautryðjanda í kvikmyndagerð, brautryðjanda í gagnrýnni hugsun og vandræðaskáldi.
Sjálfur sagðist hann vera „próflausasti bóhem þessa lands“ og „alþýðuhöfundur að því leytinu til.[2] Þorgeir hlaut heiðursverðlaun Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar árið 2000 fyrir „framlag sitt til íslenskrar kvikmyndagerðar og kvikmyndamenningar.“
Eiginkona Þorgeirs var Vilborg Dagbjartsdóttir, rithöfundur.
Þorgeir gekk í Barnaskóla Siglufjarðar og bjó hjá skólastjóranum Friðrik Hjartar og konu hans, við Hanneyrarbraut 29
----------------------------------------------------------