Tengt Siglufirði
Þorsteinn Pétursson á Siglufirði frá Neðri-Dálksstöðum, Svalbarðsströnd. Árið 1906, 26. september, gekk hann að eiga heitmey sína Halldóra Sigurðardóttir
HINN 21. febrúar síðastliðinn lést að heimili sínu hér í bæ einn af mætustu borgurum Siglufjarðarbæjar, Þorsteinn Pétursson, fyrrverandi kaupmaður. -- f. 24. október 1879 - d. 21. febrúar 1952.
Fyrir nokkrum árum fann hann til sjúkdóms þess, sem varð honum að aldurtila. Fór hann þá til útlanda í þeim erindum að leita lækningar hjá sérfræðingum í þessum sjúkdóm, en mun ekki hafa fengið þar verulega bót á krankleika sínum.
Síðastliðið haust ágerðist sjúkdómurinn svo, að vænst þótti að hafa ekki fótaferð, og mátti heita að hann lægi rúmfastur fram til andláts. -
Þorsteinn Pétursson var fæddUr að Neðri-Dálksstöðum á Svalbarðsströnd, Eyjafjarðarsýslu, 24. október 1879 og því tæpra 73ja ára gamall.
Foreldar hans voru Pétur Pétursson, bóndi þar og kona hans Guðrún Guðmundsdóttir, bæði af traustu og góðu bænda fólki komin.
Var Þorsteinn yngstur systkina sinna, en þau voru 5, og eru nú öll til moldar hnigin, nema hinn mikilsvirti útgerðarmaður
Guðmundur Pétursson, Akureyri, maki Sigurlína Kristjánsdóttir.
Hin systkini Þorsteins voru þessi:
Anna Pétursdóttir, maki Jóhann Stefánsson, timburmaður á Akureyri;
Helga Pétursdóttir, maki Steingrímur Hatlgrímsson, bóndi á Skeri á Látraetrönd;
Ásgeir Pétursson. fyrrverandi útgerðarmaður, Siglufirði og víðar, maki Guðrún Halldórsdóttir;
Sigurbjörn Pétursson, bóndi á Þverá maki Snjólaug Jónasdóttir.
Þegar Þorsteinn var fárra daga gamall lézt móðir hans af afleiðingum barnsfæðingarinnar, og var hinn ungi móðurlausi sveinn tekinn til fósturs af hjónunum
Kristín Sigurðardóttir og Jóhann Gíslason, sem bjuggu á Saurbrúargerði á Svalbarðsströnd.
Ólst hann upp hjá þessum góðu hjónum til tvítugsaldurs.
Bar hann æ hlýjan hug til þeirra og minntist þeirra jafnan með þakklæti og virðingu.
Föður sinn missti Þorsteinn Vorið 1883, er hákarlaskipið Elín frá Látrum týndist með allri áhöfn.
Þorsteinn var fjör- og þrótttnikið ungmenni. Sál hins unga manns var opin fyrir öllu, sem fyrir bar í umhverfi hans. Hann þráði að kynnast lífinu, leita sér þekkingar í því, sem að gagni gæti komið. Hann þráði líf og starf.
Þess vegna kvaddi hann hið kæra heimili fósturforeldra sinna og hélt út á ókunna stígu. Dvaldi hann þá næstu ár á ýmsum stöðum. Meðal annars var hann tvö ár í Nesi hjá Vilhjálmur Þorsteinsson bóndi. —
Minntist oft dvalar sinnar þar, og mat Vilhjálm mikils. Þar næst leggur hann leið sína til Akureyrar og byrjar þá að starfa við verslun.
Til Ísafjarðar réðist hann sem verzlunarmaður, en þar undi hann ekki hag sínum, hvarf aftur til Akureyrar og vann þar að verzlunarstörfum í nokkur ár hjá bróður sínum, Ásgeir Pétursson og víðar.
Árið 1906, 26. september, gekk hann að eiga heitmey sína Halldóra Sigurðardóttir.
Foreldrar Halldóru voru Sigurður Pétursson, bóndi á Vatni á Höfðaströnd, Skagafirði og Guðý Pálsdóttir bónda Þorvaldssonar á Dalabæ, Úlfsdölum, bæði komin af ágætum ættum, velkunnar á Siglufirði og austanmegin Skagafjarða r og er í þeim ættum báðum mikið mannkosta- og manndómsfólk.
Árið 1912 fluttu þau frú Halldóra og Þorsteinn til Siglufjarðar, stofnuðu þar heimili og hafa dvalist þar síðan.
Þau eignuðust 8 börn - 6 syni og 2 dætur. Fyrir þeirri sáru sorg urðu þau, að þurfa að sjá á eftir tveimur börnum sínum yfir móðuna miklu. Þau dóu bæði í bernsku, og hétu
Vilhjálmur og Anna.
Börn þeirra, sem til fullorðinsára komust og eru á lífi eru þessi;
Vilhelm Friðrik Þorsteinsson, ógiftur, forstjóri Mjólkursamsölu KEA, Siglufirði;
Sigurður Jóhann Pétur Þorsteinsson skipstjóri, nú háseti á b.v. Hafliða, Siglufirði; (síðar hafnarvörður) maki Sigríður Þorláksdóttir;
Ásmundur Sigursteinn Þorsteinsson, vélstjóri, Reykjavík, maki Margrét Guðmundsdóttir;
Þorvaldur Þorsteinsson forstjóri, Reykjavík, maki Guðrún Tómasdóttir.
Bjarni Þorsteinsson, trésmiður, Reykjavík. maki Olga Axelsdóttir
Guðný Þorsteinsdóttir, maki Sigurður Njálsson, skrifstofustjóri Síldarverksmiðja ríkisins, Siglufirði. —
Auk þess ólu þau upp Önnu, sem sitt eigið barn. Hún er gift Hreinn Sumarliðason.
Öll eru þessi börn sérlega hugþekk og mannvænleg. Á Siglufirði rak Þorsteinn verzlun fyrir Ásgeir bróður sinn um skeið, en svo síðar fyrir eigin reikning. Þá stundaði hann og æði umfangsmikla útgerð í nokkur ár. —
Hann fylgdist vel með í málum bæjar og þjóðar, en var fremur hlédrægur og gaf sig aldrei í að standa í opinberum orðahnippingum um þau, eða að hann gæfi kost á sér til setu í bæjarstjórn.
En öll þau mál, sem hann taldi til heilla og hags fyrir þjóð- félagið, studdi hann af alhug. — Eitt var þó mála, sem honum virtist hugleikið að starfa fyrir, en það var kirkju- og kristindómsmálin. Honum þótti vænt um kirkjuna sína, trúhneigður, og var tíður gestur við guðsþjónustur.
Hann sat í sóknarnefnd um 30 ára skeið, lengst af gjaldkeri kirkjunnar og leysti það verk prýðilega af hendi.
Ásamt samstarfsmönnum sínum í sóknarnefnd, vann hann ötullega að endurbyggingu kirkjuhússins, og mun það hafa verið honum mikið ánægjuefni að sjá þetta myndarlega og veglega hús rísa af grunni við hjarta kaupstaðarins. Þorsteinn var með hærri mönnum í vöxt, allþrekinn, beinvaxinn og sómdi sér vel á velli.
Hann var skapfastur maður, þykkjuþungur, ef því var að skipta, en réði svo yfir skapgerð sinni, að jafnaðarlega var hann þessi jafnlyndi, góði og prúði maður, öllum góðhjartaður og vildi hvers manns vandræði leysa.
Heimili frú Halldóru og Þorsteins var með glæsilegustu heimilum kaupstaðarins, enda löðuðust að því fjölmargir innlendir og erlendir gestir og dvöldu þar lengri eða skemmri tíma yfir sumarmánuðina.
Hjónin voru bæði ákaflega gestrisin, glaðvær og skemmtin og veittu gestum sínum af mikilli rausn. Mun það landskunnugt.
Í sínum vinahópi gat Þorsteinn verið hrókur alls fagnaðar. Hann hafði yndi af góðum söng, var söngvinn og kunni þar á talsverð skil.
Hann brá þá oft fyrir sig kímni , var orðheppinn og fyndinn, vakti glaðværð og hlátur, en án þess að særa náungann.
Þorsteinn var farsælum gáfum gæddur. Þorsteinn var jarðsunginn 29. febrúar 1952 að viðstöddu miklu fjölmenni.
Að leiðarlokum. Þegar litið er yfir liðin ár verður ekki annað sagt en Þorsteinn hafi verið hamingjubarn.
Hann var ekki umsvifamikill umrótsmaður. Hann var hinn athuguli og farsæli stuðningsmaður þess að byggja upp friðsælt, heilbrigt og heillavænlegt þjóðfélag. Í þá byggingu lét hann sinn stein hávaðalaust.
Hann eignaðist í lífinu ágætt heimili, umvafinn ást og blíðu ágætrar eiginkonu og elskulegra barna. Hann eignaðist fjölmargra góða vini, bæði á Siglufirði og víða um land.
Hann kvaddi þennan heim með góðvilja til alls og allra og að fullu sáttur við ráðstöfun herra síns, og hann sannaði okkur, sem eftir lifum, „Að þar sem góðir menn ganga , eru guðsvegir".
Sár harmur er kveðinn að eftir lifandi konu og börnum, að hafa misst tryggan og góðan förunaut og umhyggjusaman föður, en von er til sælla endurfunda .
Vinir hans sakna hans, og Siglufjarðarbær er fátækari , því hér er genginn til hinstu hvílu góður drengur og mætur borgari. Blessuð sé minning hans.
P.E.