Þráinn Sigurðsson framkvæmdastjóri

Þráinn Sigurðsson fæddist á Akureyri 11. nóvember 1912. Hann lést á Sjúkrahúsi Akraness 18. mars 2004. 

Foreldrar hans voru  Sigurður Kristjánsson, kaupmaður og sparisjóðsstjóri á Siglufirði, f. 24.10. 1888, d. 11.3. 1977, og  Anna Sigrún Vilhjálmsdóttir húsmóðir, f. 18.8. 1888, d. 10.2. 1970.

Þráinn var elstur fimm systkina. Hin eru:

Haraldur Sigurðsson, f. 3.7. 1914, d. 1.6. 1915,

Sigrún Sigurðardóttir, f. 29.9. 1917, d. 3.12. 1932,

Sigurjóna Sigurðardóttir, f. 8.2. 1919, d. 8.8. 2001, maki Haukur Kristjánsson, og

Vilhjálmur Sigurðsson, f. 14.5.1926, maki Sigríður Vilhjálmsdóttir.

Þráinn Sigurðsson - Ljósmynd: Kristfinnur

Þráinn Sigurðsson - Ljósmynd: Kristfinnur

Þráinn kvæntist hinn 6. júní 1936 Ólöf Júlíusdóttir húsmóður, f. 22.12. 1911, d. 16.9. 2001.

Foreldrar hennar voru Júlíus Illugi Þórðarson, f. 1.7. 1866, d. 19.3. 1965, og Ólöf Guðrún Gísladóttir, f. 9.10. 1873, d. 11.7. 1936. 

Dætur þeirra eru:

1) Anna Sigrún Þráinsdóttir, f. 26.4. 1937, maki Ottar Storheim, f. 15.9. 1928, þau búa í Noregi. Börn þeirra eru

Björg Marianne, f. 9.7. 1969, og

Ole Thrainn, f. 3.11. 1977.

2) Edda Júlía Þráinsdóttir, f. 27.11. 1938, maki Freysteinn Þorbergsson, f. 12.5.1931, d. 23.10. 1974. Dætur þeirra eru

Melkorka Edda Freysteinsdóttir, f. 16.8. 1960, og

Freydís Freysteinsdóttir, f. 9.12. 1966, seinni maki Eddu er Bragi Þorbergsson, f. 7.7. 1935, dóttir þeirra er

Dagný Þóra, f. 7.9. 1977.

3) Ólöf Guðrún Þráinsdóttir, f. 30.8. 1945, maki John Nathaniel Allwood, f. 13.9. 1958. Dætur þeirra eru

Elísabet Ólöf, f. 14.6.1986, og

Rebekka Anna, f. 2.3. 1989.

Einnig ólu Þráinn og Ólöf upp dótturson sinn, 

Þráinn Ólaf Jensson, f. 24.8. 1958, maki Jóhanna Agnarsdóttir, f. 4.1. 1957. Þau skildu. Seinni maki Sigríður Hauksdóttir, f. 30.6. 1961, þau búa í Svíþjóð.

Þráinn fór í Verslunarskóla Íslands og starfaði síðan við verslunar- og skrifstofustörf þar til hann gerðist útgerðarmaður árið 1940. Eftir að hann hætti útgerð á efri árum vann hann á bæjarskrifstofu Akraness og síðan í Búnaðarbankanum og við innheimtu hjá vini sínum Herði Pálssyni bakarameistara. Hann var þekktur skákmaður og bridsspilari.

Þráinn var jarðsunginn frá Hafnarfjarðarkirkju.
------------------------------------------------------

Látinn er í hárri elli einn af mínum kærustu vinum, Þráinn Sigurðsson, útgerðar- og athafnamaður frá Siglufirði.

Á Siglufirði ólst hann upp hjá foreldrum sínum en faðir hans var umsvifamikill í atvinnurekstri og opinberu lífi þar í bæ. Hann hélt ungur til náms í Verslunarskóla Íslands í Reykjavík. Hann var afburða námsmaður. Eftir að námi lauk fluttist hann aftur norður til Siglufjarðar. Með honum fór unnusta hans, Ólöf Björg Júlíusdóttir, sem hann hafði kynnst í Verslunarskólanum.

Þar nyrðra tekur hann við útgerð, verslun og söltunarstöð föður síns. Mikil eru um áratuga skeið umsvif hans í þessum rekstri enda atvinnulíf í blóma á Siglufirði um þær mundir.

Til Akraness flyst hann á sjöunda áratugnum og fer í útgerð með Þórði Guðjónssyni skipstjóra. Um 1970 hættir hann útgerð og vinnur í nokkur ár að skrifstofustörfum, fyrst á bæjarskrifstofum Akraneskaupstaðar og síðan hjá Búnaðarbankanum þar í bæ. Hjá undirrituðum kemur hann síðan til starfa og er þá orðinn sjötugur. Vinnur hann þá við innheimtu reikninga og bankaviðskipti. Hann starfar hjá mér um margra ára skeið og leysir störf sín af hendi með miklum ágætum svo að ekki verður á betra kosið, trúr og tryggur með afbrigðum.

Þráinn var mikill og landskunnur taflmaður. Á yngri árum var hann í fremstu röð íslenskra skákmanna. Þegar hann var í Verslunarskólanum varð hann til að mynda Reykjavíkurmeistari í skák. Þá fór hann nokkrar skákferðir til útlanda með landsliði okkar.

Þráinn Sigurðsson var einnig mjög góður bridsspilari. Við vorum spilafélagar mörg ár og oft var skemmtilegt við spilaborðið. Hann var mikill keppnismaður og fékk ég gjarnan orð í eyra ef honum líkaði ekki alls kostar hvernig gekk við spilaborðið.

Þráinn hafði mikið yndi af að fara í berjamó og var það nánast ástríða hjá honum. Fór hann nær daglega til berja eftir að ber voru orðin fullþroskuð. Hann fór þá gjarnan um Borgarfjörð, í Dali og vestur á firði. Afabörnin hans í Mosfellsbænum, þær Lísa og Rebekka, nutu þess vel því að margar ferðirnar fór hann til þeirra með berjafötur.

Þráinn Sigurðsson var mikill tilfinningamaður. Hann átti yndislega konu sem áður er getið. Hún missti heilsuna upp úr sjötugu og var vistuð á Sjúkrahúsi Akraness nokkrum árum síðar og lifði fram yfir nírætt. Það var aðdáunarvert hve mikla umhyggju Þráinn sýndi henni í veikindum hennar. Hann sat löngum stundum hjá henni við sjúkrabeðinn og fór með hana nær daglega í bílferð meðan heilsa leyfði. Starfsfólkið á sjúkrahúsinu hafði oft orð á því hve nærgætinn, góður og umburðarlyndur hann var.

Þráinn dvaldist hjá dóttur sinni Önnu í Noregi í fjögur ár. En heilsu fór verulega að hraka og síðan um mitt síðastliðið ár hefur hann verið á Sjúkrahúsi Akraness.

Ég sé nú á bak kærum vini mínum sem ég mun ætíð minnast með mikilli hlýju. Ég sendi dætrum hans, barnabörnum, bróður og öllu venslafólki og vinum innilegustu samúðarkveðjur.

Hörður Pálsson.
--------------------------------------------------

Það var með smá fiðringi í maganum sem ég lagði af stað til Akraness í fyrsta skipti til að heimsækja foreldra kærustu minnar. Þetta var fallegur sunnudagur að vori og margt að sjá í Hvalfirði fyrir Englending sem var nýfluttur til landsins. En það var strax í upphafi tekið vel á móti mér og Þráinn byrjaði að tala ensku við mig til að auðvelda kynni okkar. Í gegnum árin styrktust þau kynni og oft heimsótti hann okkur enda hafði hann yndi af að keyra bíl og heimsækja dætur sínar og fjölskyldur þeirra sem bjuggu á höfuðborgarsvæðinu.

Þótt hann væri ekki mikið fyrir mannfagnað mætti hann samt alltaf til að taka þátt í fjölskylduboðum. Þegar dætur okkar voru litlar var gaman að fara með honum í berjamó. Hann kenndi börnum og jafnvel fullorðnum að njóta ánægjulegrar samveru og útivistar við að tína ber. Sumarbústaðaferðir með honum voru skemmtilegar og fræðandi. En aldurinn færist yfir okkur öll og þegar kom að því að hann þurfti smá eftirlit flutti hann til okkar og bjó hjá okkur um hríð. Þá tók við annar kafli í samskiptum okkar og mér fannst ég kynnast honum betur. Ég fékk smám saman nasasjón af þeirri lífsreynslu sem hann bjó yfir.

Þótt hann væri heimakær hafði hann ferðast mikið áður fyrr. Sem unglingur lá hann nokkra mánuði á spítala í Danmörku, sem ungur maður ferðaðist hann til Englands á skákmót, sem útgerðarmaður dvaldi hann í Hollandi þegar verið var að smíða fyrir hann skip og sem bridsspilari keppti hann í Svíþjóð. Einnig hafði hann ferðast til Þýskalands og Austurríkis og eftir að Anna dóttir hans giftist til Noregs fór hann gjarnan í heimsókn þangað. Langvarandi og erfið veikindi lífsförunautar hans urðu honum svo erfið raun að hann virtist byrja að missa lífslöngun líka.

Það var auðvelt að skynja hve djúpar og ástríkar tilfinningar höfðu einkennt langt hjónaband þeirra. "Hörkuduglegur" er orð sem oft er notað um fólk, en Þráinn var það sannarlega að mínu mati. Vinna var skemmtileg og áorkaði hann miklu áður en hann fór á eftirlaun, kominn vel yfir sjötugt. Hann var ekki einungis iðinn í vinnu, aðal tómstundaiðju sína, brids og skák, iðkaði hann af sömu ástríðu. Í hartnær 20 ár reyndist hann mér góður tengdafaðir og afi dætra minna, og alltaf munu minningar um hann lifa með mér.

John Allwood.
--------------------------------------------------

80 ára afmæli 1992 Þráinn Sigurðsson frá Siglufirði Það mun hafa verið 1948 að ég réðst á síldarbát sem var á veiðum fyrir Norðurlandi. Ekki fór mikið fyrir síldinni það sumarið. Þetta var eitt af síldarleysisárunum. Síldin, sem á árum áður hafði gert margan manninn ríkan, hafði brugðist. Margir trúðu þó að ævintýrið endurtæki sig og því var það mikill floti báta sem stundaði síldveiðar þetta sumarið og söltunarstöðvarnar á Siglufirði voru undir það búnar að taka vel á móti silfri hafsins.

Þó að við værum oft á Siglufirði í landlegum minnist ég ekki margra Siglfirðinga frá þeirri tíð. Samt er mér einn afar minnisstæður. Einhverra orsaka vegna lá leið mín á óvenju þrifalegt síldarplan á eyrinni sunnanverðri. Þar voru stúlkur að salta og lágvaxinn maður og grannur, snyrtilegur og snöggur í hreyfingum, fylgdist með öllu sem fram fór og virtist hafa auga á hverjum fingri. Ekki grunaði mig þá að þar færi maður sem löngu síðar átti eftir að verða einn minna bestu vina.

Þráinn Sigurðsson fæddist í Laxdalshúsi á Akureyri 11. nóvember 1912. Hann var sonur hjónanna Önnu S. Vilhjálmsdóttur og Sigurðar Kristjánssonar, síðar kaupmanns og sparisjóðsstjóra á Siglufirði um áratuga skeið og heiðursborgara bæjarins.

Þráinn lauk verslunarprófi frá Verslunarskóla Íslands með miklum glæsibrag 1933. Í skólanum hafði hann kynnst konuefni sínu, Ólöfu Björgu Júlíusdóttur frá Ísafirði, og var hún ekki síður góður námsmaður en hann. Þau giftust þrem árum síðar og stofnuðu heimili á Siglufirði þar sem Þráinn vann við fyrirtæki föður síns.

Árið 1940 hóf Þráinn sjálfstæðan rekstur í útgerð og fiskvinnslu. Glöggt var að þar var enginn meðalmaður á ferð. Til dæmis um það má nefna að í maí 1943 hóf hann byggingu hraðfrystihúss, sem hann nefndi Ísafold, og var fyrsti fiskurinn frystur í húsinu í ágúst á sama ári. Auk þess að reka frystihúsið gerði hann út báta til öflunar hráefnis og starfrækti stóra söltunarstöð. Þráinn tók sjálfur mikinn þátt í störfunum, enda afar fjölhæfur. Hann fór í Vélskólann og lauk vélstjóraprófi með glæsibrag og keyrði sjálfur um hríð vélarnar í frystihúsinu. Mátti segja að hann væri jafnvígur á flest störf sem vinna þurfti í fyrirtæki hans.

Árið 1965 keypti hann í félagi við Þórður Guðjónsson, skipstjóri og útgerðarmann á Akranesi, vélskipið Sigurborgu og flutti sjálfur til Akraness stuttu síðar. Hann rak síðan útgerð í samvinnu við Þórð.
Rekstri sínum á Siglufirði hætti hann 1968 og 1972 seldi hann hlut sinn í fyrirtækinu á Akranesi og hóf störf hjá Akraneskaupstað. Þar vann hann til 1975 og síðar hjá Samvinnubankanum þar til 1983.

Hér hefur verið stiklað á stóru - enda vart hægt að segja í stuttu máli sögu mikilla athafna.

Ef lýsa ætti afkastamanninum Þráni í sem stystu máli má segja að hann sé manna alþýðlegastur með mjög fastmótaðar skoðanir, fljótur að hugsa, fljótur að framkvæma, fljótur að vinna - en þó vandvirkur.

Þráinn Sigurðsson var afburða góður skákmaður. Árið, sem hann brautskráðist úr Verslunarskólanum, varð hann skákmeistari Reykjavíkur og sama ár tefldi hann á Ólympíumóti í Folkestone á Englandi. Á sínum yngri árum og raunar langt fram eftir aldri - var hann með bestu skákmönnum þjóðarinnar. Seinustu árin hefur hann tekið snaran þátt í bréfskák og er einhver stigahæsti Íslendingurinn í þeirri grein.

Þráinn er ágætur bridsspilari og hefur stundað þá íþrótt frá unga aldri. Hann hefur tekið þátt í fjölmörgum bridsmótum hérlendis og erlendis. Hann er allra manna skemmtilegastur við spilaborðið og afar snöggur og snar þar sem annars staðar. Spilafélagi hans hefur löngum verið Vilhjálmur bróðir hans, en hann sagði eitt sinn við mig eftir snögg orðaskipti við spilaborðið að Þráinn væri erfiðasti "makker" sem hann hefði spilað við en jafnframt sá allra skemmtilegasti. Sjálfur hef ég spilað mikið á móti Þráni - og er hann einn hæfasti og heiðarlegasti maður sem ég hef spilað við.

Fljótlega eftir að Þráinn hætti vegna aldurs í Samvinnubankanum tók hann að sér innheimtustörf og fleira fyrir mig og gegnir þeim störfum enn þann dag í dag. Í raun og veru voru þessi mál í mesta ólestri hjá mér en Þráinn var fljótur að koma lagi á hlutina og fæ ég það seint fullþakkað. Ég hef því kynnst honum mjög vel og eru þau kynni öll á einn veg. Fyrir það er ég innilega þakklátur.

Þráinn Sigurðsson er bjartsýnn gæfumaður, enda algjör bindindismaður alla tíð. Hann eignaðist góða konu og þrjár indælar dætur, auk þess sem hann ól upp dótturson sinn einn. Hann á mörg barnabörn. Kannski eru honum kærust tvö þau yngstu, systurnar Lísa og Rebekka. Hann fylgist vel með þroska þeirra og þreytist seint á að segja af þeim sögur.

Ég óska honum, konu hans og öllum niðjum gæfu og gengis um alla framtíð.

Hörður Pálsson.