Tengt Siglufirði
Þórður Þórðarson frá Siglunesi Fæddur 14. desember 1921 Dáinn 22. nóvember 1992
Þegar Þórður gekkst undir hjartaaðgerð í Landspítalanum fyrir rúmri viku óraði mig ekki fyrir því að hann ætti ekki afturkvæmt þaðan. Hann sem alltaf var svo jákvæður og að því er virtist hress, en allt getur gerst og þá sérstaklega undir svona kringumstæðum.
Þórður fæddist á Siglunesi hinn 14. desember 1921, sonur hjónanna Þórður Þórðarson vitavörður, Brandssonar húsamanns á Kálfstöðum, og Margrétar Jónsdóttur, Þorlákssonar bónda á Siglunesi.
Þórður og Margrét Jónsdóttir eignuðust sex börn sem öll náðu fullorðinsaldri, þau eru:
1) Jón Guðmundur Þórðarson, fæddur 10. desember 1910;
2) Sigríður Anna Þórðardóttir, fædd 5. október 1913;
3) Jónas Þórðarson, fæddur 20. nóvember 1915;
4) Gunnar Hafsteinn Þórðarson, fæddur 4. júní 1917;
5) Þorbjörg Þórðardóttir, fædd 4. apríl 1919; og yngstur var
6) Þórður Þórðarson
Þórður ólst upp á Siglunesi en faðir hans lést er hann var á öðru ári og stóð þá Margrét móðir hans aðeins 29 ára gömul ein uppi með sjö börn, það elsta 13 ára og yngsta á öðru ári.
Með miklum dugnaði, krafti og aðstoð móður sinnar tókst henni að koma öllum barnahópnum upp. Ung þurftu því systkinin að taka til hendinni og hjálpast að við ýmis störf bæði til sjós og lands, þætti þetta mikill þrældómur á börnum í dag og erfiðar aðstæður sem ekki væri búandi við.
Enda er erfitt að gera sér í hugarlund í dag hvernig margar fjölskyldur gátu framfleytt sér á ekki stærra landsvæði úti á Siglunesi í hálflélegum húsakynnum miðað við nútímakröfur auk þess sem mjög erfitt var með alla aðdrætti til staðarins.
Þórður lauk námi í vélstjórafræðum að þeirra tíma kröfum. Hann var ákaflega vandvirkur og verklaginn og fátt sem hann gat ekki lagfært.
Þórður kvæntist eftirlifandi eiginkonu sinni, Margrét Árnadóttir frá Dalvík, á afmælisdaginn sinn 1946. Þau eignuðust sjö börn sem öll eru á lífi, en þau eru:
1) Sigríður Anna Þórðardóttir, alþingismaður, maki Jóni Þorsteinsson prestur;
2) Árdís Þórðardóttir, rekstrarhagfræðingur, maki Björn Bjarnason rekstrarhagfræðingur;
3) Þórunn Þórðardóttir, húsmóðir, maki Willard Helgason skipstjóri;
4) Árni Valdimar Þórðarson, skipstjóri, hans sambýliskona er Jóhanna Bjarnadóttir sjúkraliði;
5) Þórður Þórðarson, vélstjóri, maki Heiðbrá Sæmundsdóttir hjúkrunarfræðingur;
6) Margrét Steinunn Þórðardóttir, húsmóðir, hennar sambýlismaður er Rafn Sveinsson verktaki; og
7) Jónas Þórðarson - yngstur er Jónas, nemi.
Barnabörnin eru 15.
Ekki kann ég að greina frá athafnaárum Þórðar á Siglufirði, þar sem ég kynntist Þórði fyrst fyrir um það bil 15 árum þegar ég tengdist honum, fyrst af afspurn, svo hittumst við þegar hann kom til Reykjavíkur að hitta systur sína, Sigríði Önnu, sem var tengdamóðir mín.
Mjög gott samband var alltaf á milli þeirra enda var hún stóra systir hans, eftir að hún var orðin sjúklingur á sjúkrahúsi Siglufjarðar voru ófá sporin sem eftir hann lágu til hennar að fylgjast með líðan hennar og athuga hvort ekki væri eitthvað sem hann gæti gert fyrir hana.
Ekki var farið til Siglufjarðar án þess að heimsækja Þórð og Grétu, þau voru miðpunkturinn á Siglufirði og alltaf hafa þau verið boðin og búin að liðsinna öllum.
Fyrir um það bil ári dvaldi Þórður hjá okkur hér í Reykjavík áður en hann hélt til Lúxemborgar í tilefni sjötugsafmælis síns, vorum við þá að grúska eilítið í ættfræðinni sem hann hafði mjög gaman af og upplýsti hann mig um marga forfeður sína og bernskuár á Siglunesi.
Því miður sér maður nú að þá hefði verið betra að
gefa sér meiri tíma til að nema af honum fróðleik um lifnaðarhætti á Siglunesi og allt sem hann vissi um umhverfið þar og Nesdalinn, öll örnefnin o.fl. sem átti að skrifa niður
í næstu ferð með honum út á Nesi einhvern tíma seinna, en sú ferð verður ekki farin með Þórði..............
Þuríður Jónsdóttir.