Þórunn Jörgensen

Þórunn Jörgensen f. 10-07-1900 - d. 01-03-1961

Hún bar í ríkum mæli mót ættar sinnar, en það einkenndist öðru fremur af dugnaði, samviskusemi og  velvild til allra og fyrir fágaðri framkomu.  

Árið 1921 giftist hún Ottó Jörgensen, en það ár var hann skipaður póstmeistari og símstjóri á Siglufirði. Í fjóra áratugi fóstraði Siglufjörður frú Jörgensen og þar naut hún virðingar allra.

Ég átti því láni að fagna að kynnast Jörgensen hjónunum þegar ég var barn. Þau urðu brátt vinir foreldra minna eftir komu sína til Siglufjarðar, og mér fannst alltaf hátíð, þegar þau komu í heimsókn. Fjögur sumur starfaði ég við Landsímann á Siglufirði, árin 1926—1930. Þá kynntist ég best mannkostum Jörgensen hjónanna.

Hann var hinn góði leiðbeinandi og stjórnandi, en hún var eins og verndarengill yngstu starfsmannanna við símann.

Þórunn Jörgensen - Ljósmyndari ókunnur

Þórunn Jörgensen - Ljósmyndari ókunnur

Frú Jörgensen byggði þegar í upphafi veru sinnar nyrðra fallegt heimili, og nú þegar ég læt hugann reika „heim á fornar slóðir", þá sé ég fyrir mér gleði hennar og brosandi andlit í hópi vina. Hún naut þess að gleðjast og henni var ljúft að gleðja.

Ottó Jörgensen og frú Þórunn eignuðust tvö börn,

Dóru Jörgensen og 

Gunnar Jörgensen. 

Dótturina misstu þau, er hún var barn að aldri og var það öllum harmsefni, enda var hún óvenjulegt barn sakir fríðleiks og gáfna.

Gunnar Jörgensen er búsettur á Siglufirði, fulltrúi föður síns við póst og síma. Maki hans er hinni ágætustu kona, Freyja Árnadóttir, og eiga þau 4 börn, voru þau sólargeislar ömmu sinnar.

Á heimili siglfirska póstmeistarans er nú skarð fyrir skildi, brúðurin, sem fluttist norður fyrir réttum 40 árum er nú komin heim til sín aftur. Hún unni Siglufirði. en ekki síður Reykjavík, æskustöðvunum. Í faðmi þeirra mun hún hvílast, en minningin um hana mun varðveitast meðal ástvina og vina sem minning um óvenjulega góða og göfuga konu. 

Ég og fjölskylda mín þakka þessari látnu heiðurskonu sérstaka tryggð og vináttu á liðnum áratugum og við vottum eiginmanni hennar og ástvinum öllum innilegustu samúð ---

Jón Kjartansson