Þórunn Kristinsdóttir

Þórunn Kristinsdóttir fæddist á Eskifirði 3. apríl 1960. Hún lést á Sjúkrahúsinu á Siglufirði 31. janúar 2018.

Foreldrar hennar voru hjónin Kristinn G Karlsson, f. 8. desember 1928, d. 2. desember 2008, og Bára Hólm, f. 13. júní 1935, d. 16. nóvember 2005.

Þórunn var þriðja af fimm systkinum. Systkini hennar voru 

Einar Hólm, f. 18. september 1955, 

Súsanna Kristinsdóttir, f. 28. október 1958, 

Pétur Karl Kristinsson, f. 27. desember 1967, og 

Guðrún Björg Kristinsdóttir, f. 22. maí 1972.

Árið 1980 eignaðist Þórunn; 

Þórunn Kristinsdóttir - Ljósmyndari ókunnur

Þórunn Kristinsdóttir - Ljósmyndari ókunnur

Bára Kristín, f. 9. janúar. 

Árið 1986 kynntist hún Skúli Jónsson, f. 11. febrúar 1951, og gekk hann Báru Kristínu í föðurstað. Þá um haustið fluttu þau á Hólaveg 3 á Siglufirði, þar sem Skúli var að byggja framtíðarheimili þeirra. 

Árið 1990 eignuðust þau  

Sigurður Davíð Skúlason, f. 11. janúar, og 17. júní sama ár gengu þau í hjónaband á heimili sínu. 

Ári seinni fluttu þau tímabundið til Eskifjarðar, þar sem þau eignuðust Eyrúnu Sif, f. 25. september 1991.

Barnabarn þeirra er Ingimar Skúli Báruson, f. 18. janúar 2012.

Útför Þórunnar fór fram frá Siglufjarðarkirkju 10. febrúar 2018, klukkan 14.

Með sorg í hjarta kveð ég hana Þórunni. Kynni okkar voru ekki löng en þau voru góð. Börnin okkar rugluðu saman reytum sínum og í framhaldi af því kynntumst við. Hún tók dóttur minni opnum örmum og hafði alltaf á orði við mig þegar við heyrðumst hversu ánægð hún væri með tengdadótturina tilvonandi. Auðvitað gladdi það mig að vita þetta og að sjálfsögðu var dóttir mín líka ánægð með tengdafólkið sitt. Ekki má gleyma því að ég var mjög lukkuleg með tengdasoninn tilvonandi og fólkið hans.

Það var auðheyrt og -séð hversu fjölskyldan var Þórunni kær og Siglufjörður var bærinn hennar þó að hún hefði slitið barnsskónum austur á fjörðum.

Hugrökk tókst hún á við veikindi sín, ólæknandi krabbamein. Ég vonaði svo innilega að henni auðnaðist lengra líf en sú von rættist því miður ekki.

Eiginmanni, börnum, tengdadætrum og barnabarni votta ég mína dýpstu samúð.

Veri hún Þórunn kært kvödd. Blessuð sé minning hennar.

Ingibjörg Þorleifsdóttir.