Tengt Siglufirði
Hann fæddist í Hafnarfirði 29. september 1909 d. 16. júní 1955.
Foreldrar hans voru Jón Meyvantsson sjómaður f. 14. október 1877 d. 11. desember 1956 og Guðrún Stefánsdóttir f. 14. desember 1886 d. 30. maí 1947.
Þórður kvæntist Guðný Sigríður Aðalbjörnsdóttir 6. júlí 1935. Guðný Sigríður var f. 10. september 1917, d. 4. júní 1974.
Börn þeirra eru
1) Jón Gunnar Þórðarson símvirki f. 16. desember 1935, d. 26. nóvember 1970,
2) Björn Þórðarson f. 25. mars 1939,
3) Rögnvaldur Þórðarson f. 10. júlí 1944,
4) Guðrún Þórðardóttir f. 15. október 1945 og
5) Aðalbjörg Þórðardóttir f. 26. desember 1950.
MÉR STANDA tár í augum, þegar ég sest niður til að minnast látins vinar míns og félaga, Þórðar Jónssonar, símaverkstjóra frá Siglufirði. Hann andaðist í Landa kotsspítalanum í Reykjavík 16. júní 1955.
Þórður var skorinn upp við innvortis meinsemd og sú aðgerð virtist hafa heppnast vel, að dómi hinna færustu sérfræðinga. En hinn mikli dómari leitar ekki álits hinna vísu manna. Hann spyr ekki um manninn, kosti hans né hæfileika, afrek eða störf. Honum verðum við að lúta þegar kallið kemur — „í dag þér — á morgun mér". — Síst hefði mér komið til hugar, þegar Þórður kom hingað suður til Keflavíkur í örstutta heimsókn ásamt konu sinni, að það yrði síðasti fundur okkar félaganna — en svona er lífið.
Er þetta ekki lærdómsríkt okkur, sem eftir stöndum — vini og góðum dreng fátækari? Er ekki Guðs hendi að benda okkur á hversu lífið er fallvalt og að hver stund kunni að vera hin síðasta á leiksviði þess? — Vissulega er slík ábending til okkar, sem eftir stöndum íhugunarefni, Þórður Jónsson var einn af þeim mönnum, sem skyldi ávallt eftir sólskinsblett þegar hann kvaddi og þannig var það einnig, er hann kvaddi mig í síðasta sinni í þessu lífi.
Nú er hann horfinn af sviðinu — og þegar ég nú rifja upp kveðjuna, er mér ekki grunlaust um að hann hafi þá ekki sagt mér huga sinn allan, það sýnir mér bréfið, sem hann sendi mér daginn áður en hann gekk undir hinn hættulega uppskurð, kveðja hans og uppörvandi línur er hann skildi eftir til konu sinnar og fjölskyldu. Þannig vár Þórður Jónsson. Bak við hið glaða andlit og góða hjarta duldist margt,, sem hann bar ekki á torg til sýnis almenningi. Það er góður drengur dáinn — og það eru fleiri en ég, sem hafa misst tryggan og sannan vin.
Margt handtakið vann hann fyrir Siglfirðinga, marga vetrarstundina stytti hann þeim, með leiklistarhæfileikum sínum og kímnigáfu og öll störf hans hverju nafni sem nefndust báru með sér þá þjónustulund, sem honum var svo í blóð borin, að vart mátti greiná — hvorum væri meiri greiði honum eða þiggjandanum. Hann vildi alltaf gleðja, og gerði það. Þórður var líka gleðinnar barn — jafnvel mætti segja að hann hafi verið barn náttúrunnar, því allt það, sem hann miðlaði öðrum, var svo frjálst og þvingað. Það eru því margir, sem senda honum hinstu kveðju sína og þakkir, nú þegar hann er horfinn okkur.
Félagar hans í Karlakórnum „Vísi" og Leikfélagi Siglufjarðar, munu sakna vinar í stað, samstarfsfólk hans hjá Landsíma íslands hefir misst góðan starfsfélaga og Siglufjörður mikið. Þórður Jónsson fæddist í Hafnarfirði 29. september 1909. Foreldrar hans voru þau Guðrún Stefánsdóttir, sem látinn er fyrir nokkrum árum og Jón Meyvantsson, sem lifir enn í hárri elli. Þórður var alinn upp í Reykjavík og vann þar við bifreiðaakstur hjá BSR og lengi við Landsíma Íslands í Reykjavík við fjölþætt störf.
Hann fluttist til Siglufjarðar 1934. Starfaði hjá Síldarverksmiðjum ríkisins þar og á Raufarhöfn við vandasöm trúnaðarstörf, en réðst nokkrum árum síðar, sem fastur starfsmaður til Landsímans á Siglufirði og var í hans þjónustu til dauðadags.
Hann hafði meðal annarra starfa fyrir stofnunina yfirumsjón með öllum símalínum milli Ólafsfjarðar og Héraðsvatna í Skagafirði. Þórður var kvæntur Sigríði Aðalbjörnsdóttir frá Siglufirði og eiga þau fimm mannvænleg börn og eru þrjú þeirra enn í æsku nú þegar hann fellur frá á besta aldri. Það er mikið áfall fyrir hina ungu konu með barnahópinn sinn, þegar fyrirvinnan er tekin svona óvænt frá henni.
En ég veit að góður Guð gefur henni og allri fjölskyldunni styrk, trú og þrek til að yfirstíga erfiðleikana og hina þungu sorg. Minningin um Þórð Jónsson verður ávallt góð og björt í hugum okkar hinna fjölmörgu vina hans. Félag íslenskra símamanna gekkst fyrir því að minningarathöfn var haldinn í Dómkirkjunni í Reykjavík og með því sýndi hinum látna félaga og trúnaðarmanni virðingu sína. konu hans og fjölskyldu hluttekningu og samúð. Dómkirkjupresturinn, séra Óskar J Þorláksson, flutti minningarræðu.
Lík Þórðar var flutt norður til Siglufjarðar og jarðsett þar í faðmi Siglufjarðar og fjallanna, sem hann unni svo mjög. Ég sendi konunni hans og börnunum, aldurhnignum föður, systkinum og venslafólki innilegustu samúðarkveðjur frá mér og konu minni. Þér horfni vinur minn þakka ég samveruna, samvinnuna, tryggðina og gleðina, sem þú fluttir ávallt með þér til mín. Guð blessi þína minningu. Þótt vér sjáumst oftar eigi undir sól, er skín oss hér.
Á þeim mikla dýrðardegi Drottins — aftur finnumst vér.
Keflavík, 22. júní 1955 Björn Dúason.