Hólmfríður Sigurjónsdóttir

Minning Hólmfríður Sigurjónsdóttir frá Siglufirði 

  • Þó ég sé látin harmið mig ekki með tárum. 
  • Hugsið ekki um dauðann með harmi og ótta. 
  • Ég er svo nærri að hvert eitt ykkar tár 
  • snertir mig og kvelur, þótt látin mig haldið. 
  • En þegar þið hlæið og syngið með glöðum hug
  • sál mín lyftist upp í mót til ljóssins.
  • Verið glöð og þakklát fyrir allt sem lífið gefur
  • og ég, þótt látin sé, tek þátt í gleði ykkar yfir lífinu.

(Höf. óþekktur)

Þessar línur koma mér í huga þegar mér verður hugsað til minnar ástfólgnu ömmu, sem lést á Hrafnistu í Hafnarfirði, 93ja ára að aldri þann 13. þessa mánaðar og verður jarðsungin frá Fossvogskirkju á morgun, mánudaginn 24. ágúst.

Hún amma mín, Hólmfríður Sigurjónsdóttir var komin af því sæmdarfólki Kristjönu Bessadóttur, Þorlákssonar frá Stóra-Holti í Fljótum, og Sigurjóns Benediktssonar, járnsmiðs frá Bráðræði á Skagaströnd.

Það er alltaf sárt að horfa á eftir ástvinum sínum hverfa á braut, hversu gamalt sem fólk er þegar það kveður. Og við hin sem eftir sitjum eigum alltaf erfitt með að sætta okkur við orðinn hlut, við hugsum yfirleitt um dauðann sem svo endanlegan hlut á allri okkar tilveru, en fyrir aðra getur hann verið líkn.

Ég á erfitt með að hugsa til þess að það er engin amma lengur til staðar, svo lengi sem ég man eftir mér hefur hún alltaf verið þarna fyrir mig og bræður mína. Það er svo margs að minnast, svo ljúfsár er söknuðurinn. Ég man eftir okkur fjölskyldunni að koma í heimsókn á Hofsvallagötuna til afa og ömmu þegar við vorum börn, hvernig við fengum alltaf að hertaka gestaherbergið og setja allt á annan endann með því að byggja "indíánatjald eða læknaherbergi", og svo mátti amma helst ekki hreyfa við neinu þarna fyrr en vð skæruliðarnir kæmum aftur í heimsókn.

Svo þegar við krakkarnir urðum eldri urðum við þeirrar gæfu aðnjótandi þegar við fluttum á Laugarásveginn, þá flutti amma inn á jarðhæðina til okkar, og þær voru nú ófáar stundinar sem maður eyddi þarna niðri hjá henni, eða hún uppi hjá okkur á efri hæð. Amma var alltaf sem klettur í hafinu fyrir okkur öll, traust, áreiðanleg, góð og alltaf tilbúin að hlusta á okkur krakkana. Hún var yndisleg móðir og frábær amma.

Eftir að amma þurfti að flytjast yfir að Hrafnistu, eftir að móðir mín Lúlú, dóttir hennar, lést þann 17. ágúst 1987 eftir löng og erfið veikindi, fór gífurlega erfiður tími í hönd, ekki síst fyrir hana þar sem hún þurfti að sjá á eftir einkadóttur sinni langt fyrir aldur fram. En það var ekki ömmu stíll að gefast upp, að koma til ömmu á Hrafnistu var alltaf gaman og róandi í senn, ævinlega vel tekið á móti manni og mikið spjallað.

Maður heimsótti aldrei ömmu eða talaði við hana í síma af því að manni fyndist að til þess væri ætlast, maður gerði það af því mann langaði til þess. Hún var ekki eingöngu heimsins besta amma, hún var einnig minn besti vinur og því er söknuðurinn svo sár. Að hafa fengið tækifæri til að kynnast þessari mikilfenglegu og góðu konu og hafa átt hana fyrir ömmu í öll þessi ár mun ég ætíð vera þakklát fyrir. Um leið og ég kveð hana ömmu mína í hinsta sinn með þakklæti fyrir allt í gegnum tíðina, langar mig að nota tækifærið og koma á framfæri þakklæti til alls starfsfólks á fjórðu hæðinni á Hrafnistu í Hafnarfirði með kærri þökk fyrir þeirra góðu umönnun sem hún naut.

Einnig langar mig að þakka Birni Ingvarssyni, Helgu Ingvarsdóttur, Hönnu og Jóni og öllum þeim sem reyndust henni vel á síðari árum og í gegnum tíðina. Gengin er góð og glæsileg kona er vildi öllum vel og mun verða sárt saknað af öllum hana þekktu.

Hvíl þú í friði.  Systa.