Tengt Siglufirði
Alfreð Jónsson fæddist á Siglufirði 20. maí 1919.
Hann lést á Dvalarheimilinu Hlíð á Akureyri 1. október 2015.
Foreldrar hans voru Jón Friðriksson og Sigríður Friðbjarnardóttir.
Alfreð var í stórum systkinahóp, voru þau alls tíu.
Alfreð kvæntist Ragnhildi Stefaníu Einarsdóttur, f. 28. ágúst 1918, d. 20. desember 2012.
Dætur Alfreðs og Ragnhildar eru þær
Alfreð og Ragnhildur bjuggu með dætur sínar á Siglufirði til ársins 1957, þá fluttust þau til Grímseyjar, þar bjuggu þau hjónin til ársins 1989 en fluttu þá til Akureyrar.
Útför Alfreðs fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 9. október 2015, kl. 13.30.
Ég sit hérna og hugsa um afa Alla sem kvaddi þennan heim 1. október, orðinn 96 ára gamall. Það er margt sem kemur upp í huga minn þegar ég hugsa um hann. Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að alast upp við það að hafa ómældan aðgang að þeim afa og ömmu. Þau bjuggu í Grímsey eins og ég. Afi var mjög stór persóna, hjartahlýr, ljúfur, rökfastur, léttlyndur, klár, heiðarlegur en ákveðinn. Hann var yndislegur afi.
Við brölluðum margt saman. Það var alltaf tími fyrir okkur krakkana hjá þeim afa og ömmu. Hann lofaði okkur að vera með sér í ýmiskonar brasi, tína æðardún, fara í fjárhúsin, tína kríuegg og margt fleira. Hann kenndi mér að tefla og nennti alltaf að spila á spil. Hann kenndi mér líka marga góða siði. Hann var t.d. mjög strangur með að maður ætti að mæta á réttum tíma, sama hvort það var í vinnu, skóla eða samkomur. Hann sagði alltaf: Gerðu strax fljótt og vel það sem þú ert beðinn um að gera.
Hann var mjög bóngóður. Afi var alls staðar í fremstu víglínu þar sem hann var og barðist alltaf fyrir góðum málstað. Hann vann ómæld afrek fyrir Grímsey. Var ótrúlega lengi í hreppsnefnd og oddviti Grímseyjar í mörg ár. Hann var líka frumkvöðull að því að stofna Kiwanisklúbb í Grímsey og varð fyrstur forseti þar. Afi kvartaði aldrei, ef hann var spurður að því hvernig hann hefði það þá sagði hann alltaf: Ég kvarta ekki, það eru víst nógu margir um það.
Hann var mjög hagmæltur og gat endalaust samið vísur og ljóð. Afi var ótrúlega sporléttur, færði ömmu alltaf morgunmat í rúmið, alla morgna öll árin sem þau voru gift, eða allt þar til amma fór á aðra deild á hjúkrunarheimilinu Hlíð sökum veikinda.
Afi var með höfuðið í fullkomnu lagi allt til dauðadags. Ég talaði við hann í síma allflestar helgar og alltaf var hann ákafur að vita hvernig gengi á sjónum hjá Óskari, eiginmanni mínum, og hvort Arnar Þorri, sonur okkar, væri að keppa í fótbolta. Hann var með allt á hreinu. Hann sendi öllum langafabörnum sínum jólagjafir þótt hann væri orðinn 95 ára og skrifaði sjálfur á jólakortin handa okkur hinum.
Afi var mikill íþróttamaður, hann keppti mikið á skíðum á yngri árum og kenndi um tíma á skíði. Hann var einnig mikið í frjálsum íþróttum. Hann stundaði leikfimi flesta daga þar til yfir lauk.
Ég gæti skrifað endalaust um þennan yndislega afa minn. Ég á einungis fallegar minningar um hann sem ylja mér um hjartarætur. Ég veit að afi er alsæll að vera kominn til ömmu og þau dansa eflaust saman á himnum eins og þau gerðu svo oft og vel. Guð geymi þig, elsku afi minn. Þín
Ragnhildur
Elín.
--------------------------------------------------
Elsku afi.
Nú hefur þú yfirgefið þessa jarðvist 96 ára að aldri, geri aðrir betur. Það er óhætt að segja, afi, að þú hafir verið flottur karl á svo margan hátt. Í gamla daga fékk ég að skottast á Básum í Grímsey með ykkur ömmu, það var ömmu og afa heimili eins og þau gerast best, alltaf opið upp á gátt, nóg af verkefnum bæði inni og úti, gott að borða og þolinmæði sem aldrei þraut. Ég brosi með sjálfri mér þegar ég hugsa út í það sem mig langar að skrifa, sumu af því hefðir þú líklega fussað yfir. En þú varst hreinn og beinn fram í fingurgóma og tilgerð fyrirfannst ekki í þínum fórum.
Þú sagðir manni nákvæmlega hvað þér fannst um það sem maður hafði að segja og um leið gættir þú vel að íslensku málfari. Leiðréttir í hvert skipti sem þér þótti ástæða til og þá helst þegar talað var um að eitthvað væri rosalega flott eða rosalega gott. Þessi samsetning átti ekki við rök að styðjast að þínu mati og skyldi afmáð, andstæður sem gátu aldrei farið saman. Ég var stundum mest hissa hvað þú nenntir að standa í að leiðrétta sama hlutinn ítrekað með þeim ákafa sem þú gerðir, en ég hafði þó lúmskt gaman af því.
Ég ætla ekki að fara út í það hér hversu framarlega þú varst í þeim hlutum sem þú tókst þér fyrir hendur og hversu heiðarlega þú barðist fyrir því sem þú trúðir á en mér skilst að það hafi ekki alltaf verið auðvelt að vera andstæðingur þinn í pólitískum málefnum.
Ég veit að það fara fáir í fötin þín hvað varðar það hvernig þú færðir henni ömmu morgunmat í rúmið alla morgna. Það finnst mér alltaf jafn aðdáunarvert og einstakt.
Með þessum sterku lýsingarorðum vil ég kveðja þig: jákvæður, sanngjarn, ákveðinn og fylginn sjálfum þér.
Elsku góði afi, takk fyrir allt. Ég brosi yfir góðum minningum og um leið sé þig fyrir mér dansa við ömmu á nýjum stað, mikið held ég að þið séuð glöð.
Þitt yngsta barnabarn
Helga Fríður.
----------------------------------------------------
Við vorum miklir mátar. Ég var fyrsta barnabarnið, mátti allt og átti allt. Sjö ára gamall var ég búinn að vera meira á Básum hjá afa og ömmu en heima á Eiðum. Mikið vorum við búnir að smíða saman og bralla í kjallaranum á Básum. Þar var græni skápurinn fullur af verkfærum sem öllum krökkum þótti mikið til koma.
Hann kenndi mér að skjóta og umgangast byssur. Regla númer eitt var að fara aldrei fram fyrir mann með byssu. Stundum kom fyrir að ég gleymdi mér og þá var veiðiferðin á enda runnin og haldið heim á leið án orða. Hann hafði þá reglu að ef skipta átti sælgæti eða einhverju milli barna lét hann annað skera og hitt velja. Þá var passað vel upp á að skipta jafnt. Ungur að árum missti hann föður sinn og elsta bróður með skömmu millibili.
Hann kynntist því erfiðleikum og fátækt. Það mótaði hann og kenndi honum að fara sparlega með og henda helst engu. Ef hluturinn nýttist honum ekki gaf hann öðrum. Honum fannst alla tíð blóðugt að leifa mat. Allir máttu fá eins mikið og þeir vildu á diskinn en urðu að klára. Minnist ég með bros á vör hve gott var að eiga góða ömmu við hlið mér og lauma restinni yfir til hennar svo lítið bæri á ef græðgin varð mér að falli. Oft þurfti hann að skreppa til lands vegna starfa sinna sem oddviti og einnig á vegum Flugmálastjórnar og Flugfélags Norðurlands.
Alltaf kom hann heim til ömmu með blómvönd og aldrei vissi ég til að þeim yrði sundurorða. Afi var mjög ákveðinn og fylginn sér og vildi allt fyrir Grímsey gera. Hann lét verkin tala og hikaði ekki við að berja í borð í ráðuneytunum svo ekki fór á milli mála hvað hann var að meina. Alla tíð fór hann snemma að sofa og snemma á fætur. Hann var reglumaður og stundvís með afbrigðum.
Afi átti það til að kasta á mann stöku við góð tilefni en hann gerði mikið af því að yrkja. Hann var mjög jákvæður á lífið og tilveruna. Kvartaði aldrei og vegsamaði góða starfsfólkið á Hlíð og ljúffenga matinn þar.
Elsku afi, það er margs að minnast á langri leið. Ég þakka þér allt sem þú kenndir mér og varst mér.
Þinn nafni,
Alfreð Garðarsson.
----------------------------------------------
Alfreð Jónsson, eða Alli frændi eins og hann var oftast nefndur af okkur, er búinn að vera hluti af okkar lífi til fjölda ára. Alli var fæddur og uppalinn á Siglufirði, bjó þar, síðar í Grímsey og síðast á Akureyri. Við fjölskyldan fundum vel fyrir þeim sterku rótum sem hann hafði til Siglufjarðar. Hann bað iðulega fyrir kveðju til Hólshyrnunnar eða Drottningarinnar eins og hann nefndi hana.
Alli leysti gjarnan flugvallarstjórann á Siglufirði af og dvaldi hann þá ásamt eiginkonu sinni, henni Ragnhildi, hjá okkur. Margar verslunarmannahelgar heimsóttu þau hjónin okkur og eftir að Ragnhildur féll frá kom Alli með Hallfríði dóttur sinni, sem var honum þá til halds og trausts.
Þessar stundir sem við áttum saman voru gleðistundir. Alli var gríðarlega fróður um sögu Siglufjarðar, sögu sem hann sagði vel og skemmtilega frá. Hann var einstök manneskja, gríðarlega ákveðinn og fylginn sér, bæði í leik og starfi en samt skapgóður með eindæmum. Alli okkar, það voru forréttindi að hafa orðið þess heiðurs aðnjótandi að hafa kynnst þér svona vel.
Fjölskyldan að Fossvegi 35,
Steingrímur Jóhann Garðarsson, Anna Marie Jónsdóttir, Jón Garðar Steingrímsson og Árni Teitur Steingrímsson.
Viðbót:
Alfreð Jónsson og ættingjar
Guðlaug Jónsdóttir; Maki: Garðar Hallgrímsson f. 24-08-1907 d. 12-03-1987
Börn Þeirra:
2. Anna Þorgerður Garðarsdóttir – Barn hennar:
Helena Guðlaug f. 20-03-1969 – maki Yngvi Hrafn Pétursson f. 22-07-1980 –
Börn þeirra: i. Ásbjörn Garðar f. 23-06-2007
ii. Arnór Kári …….. f. 02-11-2009
---------------------------------------------------------
Alfreð Jónsson bátasmiður fæddist árið 1919 í Efri-Skútu á Siglufirði sem þá hafði nýlega fengið kaupstaðarréttindi. Síldarævintýrið var hafið og mótaði allt mannlífið á staðnum. Á veturna var samfélagið með rólegu yfirbragði, en á sumrin margfaldaðist íbúafjöldinn og allur bæjarbragur mótaðist af því.
Alfreð bar alla tíð sterkar taugar til Siglufjarðar. Strax í æsku þótti hann harður í horn að taka, tápmikill og öruggur, enda kallaður Alli King Kong sökum hreysti sinnar; tröllapinn skók New York, en Alli lyfti grettistaki á Siglufirði. Hann varð svo í forystu þeirra sem mótuðu skíðaíþróttina á staðnum.
Á mínu heimili voru hann og Agga kona hans, hún Ragnhildur Einarsdóttir, talin til okkar bestu vina og samskipti milli heimilanna voru mikil og náin ár hvert. Á hverjum vetri sendi Agga mér hlýja prjónavettlinga og enn finnst mér það fallegt vináttubragð. Ég heimsótti hann reglulega í bátasmiðjuna á Siglufirði til að fá hráefni í sverð, skjöld og boga sem þá tíðkuðust í bardaga milli bæjarhlutanna hjá okkur guttunum.
Alfreð var fljótlega mikill félagsmálafrömuður og þegar mönnum samdi ekki í fyrsta skíðafélaginu stofnaði hann annað skíðafélag og kannski var það samkeppnin sem lyfti Siglufirði til forystu í þessari heilbrigðu íþrótt. Árið 1937 varð Alfreð fyrsti Íslandsmeistarinn á skíðum þegar hann tók þátt í stökkkeppni, en stökk var hans sérgrein.
Ég man ennþá umræðurnar í jólaboðunum á Siglufirði 1950 þegar vart var rætt um annað en björgunarafrekið þegar öllum skipverjum á Þormóði ramma var bjargað giftusamlega eftir að skipið strandaði nálægt Sauðanesi. Auðvitað var Alfreð lykilmaður í þeim hópi en ítarleg frásögn er til af þeim björgunarleiðangri, skráð af Örlygi Kristfinnssyni, forstöðumanni Síldarminjasafnsins. Þetta varð m.a. til þess að Alli missti aldrei viðurnefni sitt.
Alfreð fluttist með fjölskyldu sinni til Grímseyjar árið 1957 og bjó þar um árabil, lengi á Básum, nyrsta byggða bóli á Íslandi, en Alfreð fékk það hlutverk í mörg ár að fara til Reykjavíkur til að reka erindi Grímseyinga og bjó þá oftast hjá foreldrum mínum þar sem ég varð vitni af frábærum málflutningi hans við að tryggja búsetu í Grímsey og berjast fyrir hagsmunum Grímseyinga. Alfreð var kappsamur og í fyrra, þegar hann var tæplega 95 ára, kom hann í boði Skíðafélags Siglufjarðar Skíðaborg sem heiðursgestur á nýtt fjallaskíðamót á Tröllaskaganum og naut sín vel. Hugur hans var óbugaður.
Um leið og ég þakka langa og farsæla vináttu sendi ég öllum ástvinum hans hugheilar samúðarkveðjur.
Orri Vigfússon.
------------------------------------------------
Snar þáttur í starfi stjórnmálamannsins er að hafa persónuleg samskipti við fólk í ýmsum byggðarlögum. Það getur verið mjög krefjandi en er um leið skemmtilegt og þroskandi. Og nú þegar Alfreð Jónsson kveður þennan heim rifjast upp ótal atvik með honum. Hann bauð mér heim að Básum, nyrsta býli á Íslandi. Þau Ragnhildur voru gestrisin og góð heim að sækja.
Einu sinni að vorlagi gengum við Alfreð út að Básavíkinni þar sem haftyrðillinn verpti og hvergi annars staðar á landinu. Við ræddum um náttúru eyjarinnar og fuglana; aflabrögðin og mannlífið, hina hörðu baráttu eyjarskeggja við náttúruöflin.
Hafnamálin voru brennandi. Alfreð var oddviti Grímseyinga um aldarfjórðungs skeið, og vel má segja að ræða hans hafi snúist um þau fyrst og síðast þegar við hittumst og auðvitað um flugvöllinn og samgöngurnar. Alltaf þokaðist í rétta átt en lengi mátti betur gera og læra af því, sem áður hafði verið gert.
Alfreð var þéttur á velli og hafði verið afreksmaður í íþróttum fyrr á árum. Hann var hægur en ákveðinn og létt yfir honum. Hann hafði ekki mörg orð um hlutina en var skýr og skildist hvað hann sagði.
Þegar ég hugsa til Alfreðs núna rifjast upp fyrir mér sólskinsdagur þegar við gengum upp að norðurheimskautsbaugnum, þar sem vegvísirinn er og mælir stystu leið til London, Sydney og New York. Hjá honum stendur sonur minn sjö ára og horfir í suðurátt. Svarthvít ljósmynd varðveitir augnablikið.
Guð geymi minningu Alfreðs Jónssonar.
Halldór Blöndal.
-----------------------------------------------------------
Í fyrsta sinn sem ég hitti Alfreð Jónsson, föður Áslaugar vinkonu minnar, heillaði hann mig gjörsamlega. Svo glaðbeittur, fróður og fullur af krafti. Það bókstaflega gneistaði frá honum. Þegar við Dónald fluttum til Grímseyjar heyrðum við auðvitað talað um Alfreð og Ragnhildi – hjónin sem fluttu frá Siglufirði með fjórar elskulegar, ungar dætur og settust að í nyrstu byggð.
Reistu stærðarinnar hús á heimskautsbaug ásamt bróður Alfreðs, Finni, og nefndu það Bása. Tóku bæði eftirminnilega þátt í lífinu í eyjunni. Hún sem húsfreyja á stóru heimili, mikil kvenfélagskona og sterkur formaður Kvenfélagsins Baugs.
Hann sem flugvallarstjóri, kennari og síðar oddviti til margra ára. Þá var ekki gistiaðstaða fyrir ferðamenn í Grímsey, oft var þröngt setinn bekkurinn að Básum, ef ekki var flugveður og fólk þurfti mat og húsaskjól. Alfreð sagði að stundum hefði nú teygst úr dvölinni þar sem veður geta verið válynd, sérstaklega að vetrarlagi. En þau hjón opnuðu með gleði heimilið sitt og voru samhent í að gera gestum til góða.
Skemmtileg var saga Alfreðs af byggingu félagsheimilisins Múla. Hann sagði mér að ekki hefðu allir verið jafn hrifnir af hugmyndum hans um stærð hússins – hann væri allt of stórhuga – en viti menn – Múli, þetta skemmtilega fjölnotahús, dugir Grímseyingum vel enn í dag.
Múli er „Hjartað“ sem hýsir skóla, bókasafn, heilsugæslu og félagsheimili – þökk sé bjartsýni og framsýni oddvitans Alfreðs. Samband Alfreðs og Áslaugar Helgu, dóttur hans, eftir að Alfreð flutti að Hlíð var fallegt – flesta daga heyrði hún í pabba – oft gaukaði hann að henni vísu.
Alfreð átti auðvelt með að koma hugsunum sínum í bundið mál og gladdi marga með vísukorni – ég var ein þeirra. Ég veit líka að Alfreð gladdi innilega starfsstúlkurnar á Hlíð með ljóðum sem hann samdi um þær og daglega lífið á því góða dvalarheimili. Þannig maður var Alfreð, hann bar birtu með sér hvar sem hann fór. En fallegust af öllu finnst mér ástarsaga þeirra Alfreðs og Ragnhildar. Hann sá hana fyrst í sveitinni hennar, Reykjadal. Það var ást við fyrstu sýn sagði hann og ljómaði.
Þarna var konuefnið hans – hann var alveg viss. Og Ragnhildur var í hásæti hjá þessum tilfinningaríka manni alla tíð, það breyttist aldrei. Eftir að hún veiktist, fluttu þau bæði að Hlíð og Alfreð heimsótti ástina sína hvern einasta dag – hélt í höndina á henni og umvafði hana kærleika. Nú er þessi höfðingi genginn. Við Dónald sendum ástvinum hans hjartans samúðarkveðjur. Guð blessi minningu Alfreðs Jónssonar.
Helga Mattína Björnsdóttir, Dalvík.
------------------------------------------------------
Ég kynntist Alfreð fyrst árið 1969, þegar ég kom til Grímseyjar sem ungur flugnemi. Skömmu síðar áttu kynnin eftir að verða meiri, er ég sem flugmaður hjá Norðurflugi og síðar Flugfélagi Norðurlands varð tíður gestur í eyjunni. Alfreð hafði umsjón með flugvellinum, sá um flugradíóið og var auk þess umboðsmaður flugfélaganna.
Heimili þeirra Ragnhildar Einarsdóttur, eiginkonu hans, að Básum var öllum opið, flugmönnum sem flugfarþegum og var þannig í reynd flugstöð eyjunnar í mörg ár. Þar, í litlu herbergi, voru veðurmælitækin, talstöðin og annað sem tengdist fluginu.
Oft þurftum við flugmenn að bíða í eyjunni eftir að embættismenn eða aðrir ræktu erindi sín og var okkur þá ævinlega boðið inn í Bása. Ef biðina bar upp á matmálstíma kom ekki annað til mála en að setjast til borðs með þeim hjónum. Þar kynntist ég hefðbundnum íslenskum mat eins og hann gerist bestur. Á vorin voru svartfuglsegg, skeglu- og kríuegg áberandi á „matseðlinum“ og á haustin auðvitað alls kyns sláturafurðir.
Þau hjón voru glaðlynd og um margt var spjallað. Alfreð lá ekki á skoðunum sínum og var fastur fyrir, ef með þurfti. Hann var orðheppinn og aldrei lognmolla í kringum hann. Sem oddviti Grímseyjarhrepps um árabil, var hann skeleggur talsmaður ýmissa umbóta í eyjunni. Landsfræg var barátta hans á sínum tíma fyrir úrbótum í hafnamálum. Þótt minna hafi borið á, þá átti Alfreð einnig drjúgan þátt í mikilvægum lagfæringum á flugvelli eyjarinnar.
Alfreð var bjartsýnismaður, en tók líka mótlæti með jafnaðargeði. Mér eru minnisstæð þau orð hans, er aldurinn tók að færast yfir, „að enginn er eldri en hann vill vera“. Ég hef reynt að tileinka mér þetta, þótt mér gangi það ef til vill ekki jafn vel og Alfreð.
Um leið og ég kveð gamlan vin og samstarfsmann, vil ég votta eftirlifandi dætrum hans, fjölskyldum þeirra og vinum Alfreðs mína dýpstu samúð.
Sigurður Aðalsteinsson.