Finnur Jónsson Siglufirði

Finnur Jónsson (múrari) var fæddur á Siglufirði 16. janúar 1922 og hann andaðist þar 31. desember 1999.

Hann var áttunda barn af tíu börnum hjónanna Jóns Friðrikssonar og Sigríðar Friðbjarnardóttur.

Af þeim hópi eru nú 8 börn látin en eftir lifa bræðurnir Alfreð og Ægir.

Sem kornabarn fór Finnur í fóstur til hjónanna Daníels Bjarnasonar og Unu Símonardóttur sem bjuggu í Saurbæ í Siglufirði. Finnur var á fermingaraldri þegar Daníel féll frá og dvaldist hann eftir það um nokkurra ára skeið á heimili Jóns Daníelssonar, fósturbróður síns, og Ástu, konu hans.

Finnur stundaði almenna vinnu á Siglufirði um leið og hann fékk þroska til en síðar gerðist hann sjómaður og sigldi hann á stríðsárunum á vélskipinu Bjarka frá Siglufirði.

Eftir það vann hann um nokkurt skeið við byggingarframkvæmdir á Siglufirði, í Svíþjóð og víðar en á miðjum sjötta áratugnum flutti hann til Grímseyjar og bjó þar þangað til hann flutti á ný til Siglufjarðar á árinu 1996. Finnur var ókvæntur og barnlaus. Útför Finns fór fram frá Siglufjarðarkirkju 9. janúar.

Finnur Jonsson - Ljósmynd: Kristfinnur

Finnur Jonsson - Ljósmynd: Kristfinnur

---------------------------------------------------

Finnur Jónsson

Finnur Jónsson Við andlát Finns Jónssonar rifjast upp minningar um hlýjan og notalegan mann, sem vann sitt lífsstarf af trúnaði og kunni þá list að létta öðrum lífið með góðu skapi og gamansemi.

Finnur kom til Grímseyjar til að heimsækja bróður sinn, Guðmund, sem kvæntur var Steinunni, móðursystur minni. Líkaði honum svo vel við eyjuna og eyjarskeggja að hann settist þar að og bjó þar samfleytt þar til hann var orðinn aldraður og heilsan farin að bila.

Fékk hann þá skjól á ellideild Sjúkrahúss Siglufjarðar, þar sem hann naut góðrar umönnunar til æviloka. Í Grímsey tók hann að sér ýmis störf og sá m.a. um olíudreifingu til heimila og fiskibáta í eyjunni.

Skömmu eftir að Finnur kom til Grímseyjar flutti þangað þriðji bróðirinn frá Siglufirði, Alfreð, sem síðar varð oddviti Grímseyinga um langt árabil. Byggðu þeir Finnur íbúðarhús á jörðinni Básum og bjuggu þar síðan í nyrsta íbúðarhúsi landsins.

Ég var á unglingsárum þegar ég kynntist Finni og gamansemi hans og eftir á að hyggja finnst mér illa farið, að úrval af gamansemi hans skuli ekki hafa verið skrásett og gefið út. En kannski hefði gamansemin glatast á prenti eða í flutningi annarra.

Ég minnist þess til dæmis þegar hann við fyrstu kynni okkar útlistaði fyrir mér hvernig hann hygðist standa að eggjatöku í fuglabjörgum eyjarinnar. Hann ætlaði að fá sér apaketti eins og notaðir væru til að sækja kókoshnetur í há pálmatré í útlöndum. Hann myndi svo temja apana til þess að safna eggjum í bjarginu og leggja þau í körfur, sem síðan væru dregnar upp á bjargbrún.

Þetta sagði Finnur með glampa í augum, en ungir áheyrendur göptu eins og sjálf Lína langsokkur væri mætt á staðinn í eigin persónu. Finnur varð reyndar fljótlega mjög liðtækur við bjargsig í Grímsey . Hann seig í bjargið til eggjatöku um áratugi og átti þátt í því að þróa nýjungar í búnaði sigmanna.

Finnur vann sín öll verk af dugnaði og samviskusemi um leið og hann virti samtíð sína og umhverfi fyrir sér með skopskyni og bjartsýni. Þegar hafís gerðist nærgöngull við siglingaleiðir og veiðislóðir norðanlands í marsmánuði 1968 fóru ýmsir að verða áhyggjufullir um að ísinn ræki að landi og ylli þar vandræðum.

Ég var þá bæjarstjóri á Húsavík og reyndi því á degi hverjum að afla mér áreiðanlegra upplýsinga um ísinn. Einn daginn hringdi ég til Grímseyjar í Finn og spurði hann um ástand og horfur í hafísmálum við eyna.

Jú, Finnur sagði að víst væri hafís nærri, en hann skyldi glaður snæða stígvélið sitt ef ísinn ætti eftir að reka að landi og skyldi ég engar grillur gera mér um alvarlega hafískomu. Síðar sama dag hringdi Stefán Jónsson, fréttamaður Ríkisútvarpsins, til mín í því skyni að kanna stöðu mála og flutti ég honum þá orð Finns um hafísinn og nefndi hann á nafn sem áreiðanlegan mann er ekki færi með fleipur.

Þessu var svo útvarpað, en fáum dögum síðar fyllti hafísinn alla firði og flóa norðanlands. Finnur sagði mér síðar að það hefði verið erfitt fyrir sig að koma til Siglufjarðar nokkrum mánuðum seinna, þegar nánast hver maður sem hitti hann á förnum vegi spurði hann "hvernig stígvélið hefði bragðast". En ekki erfði Finnur það við mig, að koma honum í þessi vandræði.

Þannig lifir Finnur Jónsson sem ánægjulegur og skemmtilegur samferðamaður í minningu okkar sem kynntumst honum á lífsleiðinni. Hann hafði stundum haft orð á því á sinn gamansama hátt, að þegar hann dæi vildi hann hafa "fírverkerí". Það rættist, þegar hann fékk hægt andlát nokkrum mínútum áður en áramótahátíðin gekk í garð.

Blessuð sé minning hans. - Björn Friðfinnsson. 

----------------------------------------------