Friðrik Jón Kristjánsson Dýrfjörð

Friðrik Jón Kristjánsson Dýrfjörð fæddist á Siglufirði 16. mars 1931. Hann lést þar 14. júní 2019.

Foreldrar hans voru Þorfinna Marsibil Sigfúsdóttir matráðskona, f. á Siglufirði 3. maí 1903, d. þar 4. febrúar 1990, og Kristján Markús Dýrfjörð Kristjánsson rafvirkjameistari, f. á Ísafirði 22. júní 1892, d. í Hafnarfirði 16. ágúst 1976.

Albræður Jóns eru þrír:

Bragi Dýrfjörð, f. 27. janúar 1929, d. 20. mars 2004, giftur Sigrúnu Svanhvíti Kristinsdóttur, látin 2004.

Guðmundur Skarphéðinn, f. 1. nóvember 1933, d. 27. júní 1935.

Birgir Dýrfjörð, f. 26. október 1935, giftur Kristínu Viggósdóttur, f. 1939.

Hálfbróðir Jóns samfeðra var Hólm Dýrfjörð, f. 21. febrúar 1914, d. 19. ágúst 2015, kona hans Sigurrós Sigmundsdóttir, látin 1999.

Jón Dýrfjörð

Jón Dýrfjörð

Hálfsystkini Jóns sammæðra voru Margrét Ólafsdóttir, f. 1. september 1921, d. 12. ágúst 2005, gift Jónasi Þ. Ásgeirssyni, látinn 1996 og Baldur Ólafsson, f. 13. mars 1925, d. 6. desember 1967, giftur Kristínu Rögnvaldsdóttur, látin 2010.

Eftirlifandi eiginkona Jóns er Anna Erla Eymundsdóttir, f. 17. október 1934 á Seyðisfirði. Foreldrar hennar voru Eymundur Ingvarsson, f. 31. maí 1883, d. 9. júní 1959, og Sigurborg Gunnarsdóttir, f. 9. apríl 1906, d. 22. nóvember 1983.

Erla og Jón giftu sig 16. mars 1956.

Börn Jóns og Erlu eru fimm:

1) Sigfús Dýrfjörð, f. 2. ágúst 1952, giftur Önnu Maríu Guðmundsdóttur, dóttir þeirra Anna Kristín, gift Þorleifi Sigurþórssyni og eiga þau tvo drengi.

2) Sólveig Dýrfjörð, f. 4. júlí 1955, d. 2. ágúst 2013.

3) Helena Dýrfjörð, f. 20. júlí 1960, gift Birni Jónssyni. Börn þeirra: Erla, gift Gauta Þór Grétarssyni, eiga tvö börn, þá á Gauti tvær dætur. Jón Ingi, giftur Þórgunni Lilju Jóhannesdóttur, eiga þrjú börn. Rakel Ósk, sambýlismaður Gísli Sigurðsson.

4) Baldur Dýrfjörð, f. 5. ágúst 1962, giftur Bergþóru Þórhallsdóttur. Börn Baldurs með Ástu Hrönn Jónasdóttur; María Rut, gift Halldóri Haukssyni, eiga tvær dætur, Friðrik Bragi, sambýliskona Hildur Sigurðardóttir, eiga eina dóttur, Kristján Atli, sambýliskona Kristín Björg Emilsdóttir. Börn Bergþóru og fósturbörn Baldurs eru fjögur; Svala, sambýlismaður Páll Hreinn Pálsson, eiga tvær dætur, Gísli Steinar, Telma og Björk, sambýlismaður Magnús Heiðdal.

5) Þórgnýr Dýrfjörð, f. 16. desember 1967, giftur Aðalheiði Hreiðarsdóttur. Börn þeirra Styrmir, sambýliskona Alex Steinþórsdóttir, Bjarmi og Embla.

Eftir að foreldrar Jóns skildu ólst hann upp hjá móðurafa sínum og ömmu, Sigfúsi Ólafssyni, f. 24.8. 1882, d. 3.11. 1980, og Sólveigu Jóhannsdóttur, f. 29.1. 1880, d, 9.4. 1948.

Jón lærði iðn sína við Iðnskólann á Sauðárkróki en lauk síðar prófi frá Iðnskólanum á Siglufirði. Fór til Seyðisfjarðar 1951 og starfaði hjá Vélsmiðju Jóhanns Hanssonar í um þrjú ár. Árið 1955 flytja þau Erla til Siglufjarðar og Jón hefur störf á Rauðkuverkstæðinu. Árið 1957 hófu hann og Erla húsvarðarstarf við Gagnfræðaskólann á Siglufirði.

Árið 1962 hóf Jón alfarið að vinna sjálfstætt í eigin rekstri, fyrst með Ragnari Sveinssyni en síðar með Erlingi Jónssyni. Á níunda áratugnum fór Erling út úr rekstrinum. JE Vélaverkstæði selja Jón og Erla þegar Jón er sjötugur til lykilstarfsmanna og nýir hluthafar komu inn í félagið. Tugir starfsmanna hafa starfað hjá vélaverkstæðinu og margir nemar tekið þar námstíma í iðn sinni.

Jón var mjög virkur í félagslífi Siglfirðinga. Var í forsvari fyrir skátafélagið Fylki. Sat í stjórn Æskulýðsheimilisins á Siglufirði og var fyrsti starfsmaður þess. Jón var virkur í starfi Skíðafélags Siglufjarðar, Skíðaborg, Slysavarnafélagsins, Lionsklúbbs Siglufjarðar, Frímúrarareglunnar og Rauðakrossdeildar Siglufjarðar. Þá var hann mörg ár í sóknarnefnd Siglufjarðarkirkju. Síðast en ekki síst voru Jón og Erla ötulir baráttumenn fyrir auknum réttindum fatlaðra og tóku virkan þátt í starfi Þroskahjálpar og gegndu þar ýmsum trúnaðarstörfum.

Jón var virkur þátttakandi í stjórnmálalífi Siglufjarðar og var bæjarfulltrúi Alþýðuflokksins frá árinu 1978 til 1986 og fulltrúi hans í ýmsum nefndum. Þá sat hann í stjórn Útvegsbanka Íslands hf. í rúm tvö ár frá 1987 til 1989.

Jón og Erla voru heiðruð af Sjómannadagsráði Siglufjarðar fyrir störf sín í þágu sjávarútvegs um áratugaskeið. Þá hefur Rauði kross Íslands einnig heiðrað þau fyrir störf sín í þágu samtakanna.

Útför Jóns fer fram frá Siglufjarðarkirkju í dag, 29. júní 2019, og hefst athöfnin klukkan 14.

Pabbi elskaði fjallgöngur og var í essinu sínu úti í náttúrunni. Kunni hvergi betur við sig nema ef vera skyldi með afabörnunum eða börnum þeirra og fyrir þau hafði hann ævinlega tíma. Hann smitaði okkur systkinin og samferðafólk af þessari ást á náttúrunni og sýn sinni á hana. Í kvæði Guðmundar Böðvarssonar Fylgd segir:

„Mundu mömmu ljúfur, mundu pabba stúfur, að þetta er landið þitt.“

Á þetta minnti pabbi en ekki síður á „að þetta land á þig“ eins og segir í sama ljóði. Hann leit ekki á náttúruna sem stað sem við yfirgefum hið daglega líf til að heimsækja heldur fremur sem heimili okkar. Þar sem við manneskjurnar erum hluti af órofa heild sem við berum öll ábyrgð á.

Það var heppilegt að pabbi kunni því vel að leggja á brattann því hann kleif margan hjallann í sínu lífi. Suma valdi hann sjálfur en aðra færðu örlögin honum að takast á við.

Stundum er sagt að hamingjan sjálf sé fólgin í að þroskast, að gera möguleikana sem í manni búa að veruleika en ávallt þannig að við komum fram við samferðafólk okkar af dyggð.

Aldrei þroskumst við meira og hraðar en þegar við tökumst á við krefjandi viðfangsefni. Okkur finnst sem pabbi hafi hagað lífinu þannig. Hafði til að bera hugrekki og sterka réttlætiskennd en höfuðdyggð og einkenni hans var án efa hjálpsemi.

Hann lagði á sig ómælda fyrirhöfn fyrir aðra án þess að krefjast nokkurs í staðinn. Öll höfum við systkinin setið í fjölskyldubílnum með bláókunnugu fólki sem hann bauðst til að skutla þess vegna langt úrleiðis.

Um leið og hann tókst á við verkefni lífsins þá leitaðist hann við að skapa og leggja til samfélagsins. Hvort sem það var í skátastarfi, Rauða krossinum, Lions, Frímúrurum, stjórnmálastarfi eða í baráttunni fyrir Sólveigu systur og réttindum fatlaðra. Jafnvel í atvinnurekstrinum var sköpunin og tækifæri hans manna til vinnu skærara leiðarljós en hagnaðurinn. Vildi verða meira maður fremur en meiri maður.

Með honum í för var elsku mamma og augljóst að saman gátu þau hluti sem ómögulegir hefðu reynst annars. Þannig fangaði pabbi farsældina í félagi við hana, kleif lífsins fjöll og togaði með sér samferðafólk.

Við getum ekki þakkað nógsamlega hve mikið hann hefur gefið okkar börnum og þeirra börnum. Hann á sérstakan stað í hjörtum þeirra allra. Afinn sem leyfði þeim að snúa mót heiminum í fangi sínu og sönglaði róandi í koll þeirra. Sýndi þeim veraldarundur og skilyrðislausa ást.

Við viljum þakka starfsfólki sjúkrahússins á Siglufirði og heimahjúkrun innilega fyrir þá umönnun sem pabbi fékk í sinni stuttu legu. Hann vildi hafa hana stutta og varð blessunarlega að ósk sinni.

Pabbi hverfur nú í faðm íslensku náttúrunnar sem hann var alltaf órofa hluti af og í faðm Guðs síns sem hann hafði svo sterka tilfinningu fyrir. Andinn lifir en holdið deyr sagði hann við okkur á síðustu dögunum. Við deilum þeirri trú. Takk fyrir allt, elsku pabbi.

  • Hér bjó afi og amma
  • eins og pabbi og mamma.
  • Eina ævi og skamma
  • eignast hver um sig,
  • – stundum þröngan stig.
  • En þú átt að muna,
  • alla tilveruna,
  • að þetta land á þig.

(Guðm. Böðvarsson.) mbl.is/minningar

Sigfús, Helena, Baldur og Þórgnýr.

„Þarna flaug hann í gegn, sannleikurinn!“ sagði hann afi minn stuttu áður en hann féll frá, þarna gerði afi sér grein fyrir að stutt væri eftir, þessa baráttu myndi hann ekki vinna.

  • Dauðinn er fugl
  • Sem starir á tungl
  • Og hefur sig hægt til flugs

(Hildur Eir Bolladóttir)

„Ég hef alla tíð lagt mig fram um að leggja mitt af mörkum til ýmissa málefna, lagt fram hjálparhönd þegar þess er þörf og eftir mína tíð mun ég leggja mig fram um að verða maður góðra verka.“ Þessi orð afa tek ég með mér. Andinn lifir en holdið ekki, afi verður með mér alla daga.

Við afi áttum sérstakt samband, það einkenndist af hreinskilni, skilningi og mikilli hlýju, við grínuðumst oft með það að við værum líklega jafn þrjósk og föst fyrir. Það var ekki auðvelt fyrir afa að vera þiggjandi, hann vildi helst vera hinum megin við borðið. Ég er þakklát fyrir hversu mikið hann treysti mér þegar á þurfti að halda og fyrir fjölmörgu samtölin í gegnum tíðina þar sem hann ráðlagði mér og ég reyndi að sannfæra hann eða ráðleggja þá sérstaklega í seinni tíð. Hann afi minn kallaði ekki allt ömmu sína, hann var einstaklega ráðagóður, hjálpsamur og hann fór ýmislegt á þrjóskunni en hana tel ég hafa verið hans helsta kost.

Afi hafði alla tíð sérstakt lag á því að koma hlutunum í orð með myndrænum hætti, hann var mikill sögumaður og náttúruunnandi.

Hann ferðaðist mikið með okkur barnabörnin og hafði einstaklega gaman af því að fræða okkur um náttúruna, fuglana, stjörnurnar og hvað það væri mikilvægt að vera kunnugur staðháttum. Ég man eina dýrmæta ferð þar sem við maðurinn minn fórum með ömmu og afa vestur á land þar sem við nutum náttúrunnar saman, afi þuldi upp heiti bæja, dala og fjalla og sagði sögur, ég dáðist alltaf að því hve mikið hann vissi um landið okkar, hann var alltaf viss í sinni sök, meira að segja þó að landakortið segði stundum annað.

Ég kveð afa með miklum söknuði en þakklæti fyrir þann dýrmæta tíma sem ég hef fengið með honum.

Það er ekki sjálfsagt að barn eigi gott samband við ömmu sína og afa, en ég naut þeirra forréttinda, ég átti náið samband við afa. Það staðfestum við þegar við lágum hlið við hlið á síðustu vikum hans, þar sem við ræddum dýrmæti þess að hafa átt hvort annað, „krabbameinið er slæmt, Erla, en ef ég hefði ekki fengið það þá hefði ég ekki átt þetta spjall við þig, ég er þakklátur fyrir að fá að kveðja þig með orðum og faðmi, þetta er ekki svo slæmt“.

Far þú í friði, elsku afi, við munum sakna þín en minningin lifir um góðan mann.

  • Flýg ég og flýg
  • yfir furuskóg,
  • yfir mörk og mó,
  • yfir mosató,
  • yfir haf og heiði,
  • yfir hraun og sand,
  • yfir vötn og vídd,
  • inn á vorsins land.
  • Flýg ég og flýg
  • yfir fjallaskörð,
  • yfir brekkubörð,
  • yfir bleikan svörð,
  • yfir foss í gili,
  • yfir fuglasveim,
  • yfir lyng í laut,
  • inn í ljóssins heim.

(Hugrún)

Þín Erla.

Afi minn í Hlíð.

„Dýrfjörð? Hverra manna ert þú? Já er Jón í Hlíð afi þinn!“ Þannig hafa samtöl mín við nánast ókunnugt fólk oft hafist og í kjölfarið fylgja hlý orð í garð ömmu og afa sem lýsa vinatengslum eða skyldleika, góðvild þeirra eða greiðvikni í garð annarra. Því þannig var afi, alltaf boðinn og búinn að koma öðrum til aðstoðar, vildi aldrei þiggja neitt í staðinn nema gott handaband og gerði lítið úr hjálpseminni ef maður hermdi frásagnirnar upp á hann.

Afi gaf sér alltaf tíma fyrir okkur barnabörnin, ýmist til fræðslu eða gamans, sjóferð á Galsa, skautaferð í tunglsljósi, ísrúntur niður á Olís eða út í göng, gönguferð í fjörunni, fjallabrölt eða snjókarlagerð bak við hús. Hver stund einkenndist af þolinmæði gagnvart okkur krökkunum, hann leyfði okkur að reka okkur á og læra með því að prófa sjálf, með afa flaug tíminn. Oftar en ekki hófst heimferðin á orðunum „jæja, við skulum fara að koma okkur heim, amma ykkar bíður eflaust með eitthvað á borðinu“, svo brosti hann út í annað og við héldum af stað heim í Hlíð.

Minningarnar ylja. Tárin streyma. Ég sakna hans.

  • Það er tími enn til að vaka smá.
  • Treinum hann, það liggur ekkert á.
  • Það er tími enn til að segja frá.
  • Telja upp allt sem þú vilt sjá.
  • Tíminn kemur til þín, hvort eð er
  • svo taktu hann og faðmaðu að þér.
  • Því hann er gjöf til þín frá mér.

(Bragi Valdimar Skúlason)

Að sitja við eldhúsborðið í Hlíð og ræða um daginn og veginn er eitt það besta sem ég veit, sönn núvitund. Afi var góður hlustandi, sama hvert umræðuefnið var, hann hlustaði af athygli og áhuga og skaut inn athugasemdum eða hughreystingu eftir því sem átti við. Hann var ekki síðri sögumaður og ég þreyttist aldrei á að hlusta á frásagnir hans frá liðinni tíð, jafnvel þó hann hefði verið búinn að segja mér eitthvað oft áður. Oftar en ekki leyndist dæmisaga í frásögninni, gullinn fróðleikur um dyggð, vinnusemi, skynsemi eða gildi þess að gefa af sér og aðstoða aðra.

Afi kenndi mér að lífið er dýrmætt, ekki bara mitt líf, heldur líf allra og alls sem lifir á þessari jörð. Virðing við náttúruna var honum hugleikin og á ferðum okkar um landið var honum mikið í mun að fræða mig um þetta fallega og mikilvæga fjöregg. Fyrir það er ég þakklát.

  • Því það skiptir ekki máli hver er hver
  • eða hvert að lokum alheimurinn fer.
  • Það er mest um vert að njóta alls sem er
  • – í sjálfu sér
  • Svo leggðu aftur augun blá
  • sem enga skugga sjá.
  • Á morgun nemum nýja strönd
  • og næstu draumalönd.
  • En ef við fáum tíma, trúðu mér
  • skal ég taka saman allt sem fyrir ber.
  • Svo í smáatriðum getum við það greint– í sjálfu sér.

(Bragi Valdimar Skúlason)

Þétt faðmlag, kveðja við lóðarmörkin.

Takk fyrir allt. Þín María Rut.

---------------------

Jafnaðarmaðurinn, félagsmálafrömuðurinn og vinur minn Jón Dýrfjörð á Siglufirði er látinn 88 ára að aldri. Hann andaðist á Sjúkrahúsi Siglufjarðar 14. júní sl. eftir stutta baráttu við krabbamein.

Það er ekki erfitt að skrifa minningargrein um Jón Dýrfjörð því af mörgu er að taka. Það er hins vegar erfiðara að ákveða hvað á að skrifa og hverju sleppa vegna takmörkunar á lengd svona greina. Jón kom nefnilega við á mörgum stöðum og gerði margt um ævina. Hann var burðarstoð í sínu bæjarfélagi á svo ótal mörgum sviðum. Starfsferillinn var mjög fjölbreyttur og áhugamálin og áhugastörfin mörg.

Aðalstarf hans var að eiga og reka, ásamt Erlingi Jónssyni, Vélaverkstæði Jóns og Erlings, og síðar varð hann aðaleigandi JE vélaverkstæðis. Þar fékk fjöldi manna atvinnu og þar lærðu margir. Jón var iðinn við að sækja sér verkefni utan bæjarins svo og auðvitað að þjónusta siglfirsk fyrirtæki og bæjarbúa. Þegar að áhugamálunum kemur lengist listinn og hér er smá sýnishorn af félagasamtökum sem Jón var virkur í og hann var aðaldriffjöðurin í mörgum þeirra: Skátarnir, Slysavarnafélagið, Lionsklúbburinn, Skíðafélagið, Frímúrararnir, Rauði krossinn, sóknarnefndin og málefni kirkjunnar okkar, Þroskahjálp og málefni fatlaðs fólks.

Bygging Sambýlisins á Siglufirði var, svo dæmi sé tekið, að stærstum hluta hans verk og því fylgdi einnig eftirfylgni við kerfið í Reykjavík. Síðast en ekki síst er að geta starfa hans í þágu Alþýðuflokksins, bæði sem almenns félagsmanns í nefndastörfum, og bæjarfulltrúa og oddvita flokksins í bæjarstjórn í 8 ár. Þar var hann eins og annars staðar samviskusamur og sinnti afar vel því sem honum var falið.

Eitt af áhugamálum Jóns var ljósmyndun og deildum við því áhugamáli. Eftir að Jón hætti erilsömu starfi hóf hann að skanna inn myndir sínar og flokka þær. Myndir þessar eru enn eitt snilldarljósmyndasafnið úr atvinnu- og félagsmálum Siglufjarðar. Mikill og dýrmætur fjársjóður um gamla tíma.

Öll þessi störf rækti og leysti Jón vel og af mikilli samviskusemi sem örugglega kom niður bæði á atvinnustarfsemi hans og heimilishaldi eins og algengt var og er með félagsmálafrömuði lítilla bæjarfélaga.

Jón veitti mér mikinn stuðning í mínu pólitíska starfi – bæði á sviði bæjarmála í 12 bæjarfulltrúaár svo og sem alþingismanns og ráðherra meðan sá tími varði. Hann var ætíð tilbúinn að veita ráð og einnig að afla ítarlegra upplýsinga um gang mála. Jón átti það til að bjóða mér í smá bíltúr eins og hann orðaði það til að ræða málin.

Þessir smá rúntar gátu orðið langir, oft alla leið inn að Ketilási – 40 km fram og til baka því „það var svo gott að snúa við á Ketilásnum“ eins og Jón útskýrði það kíminn á svip.

Ég vil að lokum þakka Jóni Dýrfjörð fyrir áralangt samstarf og síðast en ekki síst stuðning og hvatningu við mig í mínum störfum. Við Oddný færum Erlu og fjölskyldum þeirra okkar dýpstu samúðarkveðjur.

Siglufjörður hefur misst einn af sínum bestu sonum.

Blessuð sé minning Jóns Dýrfjörð.

Kristján L. Möller, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra.

-----------------------------------------

Jón Dýrfjörð var meðal merkari Siglfirðinga, svipmikill maður sem lét til sín taka á mörgum sviðum mannlífsins í heimabæ sínum um áratugaskeið. Hann rak eigin vélsmiðju, oft með fjölda manna í vinnu, sem þjónaði jafnt atvinnulífinu og einstaklingum í bænum. Jón hafði afskipti af stjórnmálum og starfaði sem bæjarfulltrúi fyrir Alþýðuflokkinn í tvö kjörtímabil. Fyrirtækisrekstur getur vel átt samleið með hugsjónum um þjóðfélag jafnaðar – það sýndi hann.

Kristin trú skipaði ríkan sess í lífi Jóns og sat hann lengi í sóknarnefnd Siglufjarðarkirkju.

Jón var mjög menningarlega og félagslega sinnaður. Til dæmis eindreginn áhugamaður um söfn og setur Siglufjarðar. Eitt af félagsstörfum hans var skátastarfið á Siglufirði þar sem hann var á unga aldri mikill leiðtogi. Annað það helsta voru afskipti hans af öryggis- og slysavarnamálum með Björgunarsveitinni Strákum.

Þá var Jón mikill útivistarmaður og hafði yndi af stangveiði. Á efri árum varð Jóni æ ljósara mikilvægi umhverfisverndar og meðan margir gáfu sig virkjanahvötinni á vald var ljóst hve glöggskyggn og frjálshuga hann var.

Jón Dýrfjörð var hávaxinn og höfðinglegur í framgöngu. Hann var friðarins maður en gat stundum sýnt hve skapríkur hann var – en ætíð sáttfús. Og ekki er að efa að Jón kveður þennan heim í sátt við guð og menn.

Með þessum einföldu minningarorðum vil ég koma á framfæri síðbúnu þakklæti fyrir lífgjöfina þegar Jón Dýrfjörð og vinnufélagi hans, Ólafur Þór Haraldsson, björguðu mér úr sjónum sex ára gömlum eftir að hafa fallið fram af bryggju og var hætt kominn. Þannig held ég að þeir félagar hafi líka bjargað lífi og sálarheill foreldra minna. Enginn var nærri en fyrir einskæra tilviljun komu þeir að og höfðu snör handtök; fundu járntein sem þeir beygðu, húkkuðu í buxnastrenginn og kipptu mér upp á bryggju. Sennilega sá stærsti sem stangveiðimaðurinn landaði á veiðiferli sínum.

Með Jóni Dýrfjörð sjáum á bak hinum mætasta manni. Erlu Eymundsdóttur, eftirlifandi konu Jóns, börnum þeirra fjórum og öðrum ástvinum votta ég samúð mína.

Örlygur Kristfinnsson.

XXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXX

Siglfirskir jafnaðarmenn standa í mikilli þakkarskuld við jafnaðar- og félagsmálamanninn Jón Dýrfjörð. Jón gekk ungur að árum til liðs við Alþýðuflokkinn og starfaði í honum alla tíð, og síðar í Samfylkingunni eftir stofnun hennar.

Hann var félagi til dauðadags í Jafnaðarmannafélagi Fjallabyggðar þar sem hann var virkur sem ráðagóður gamall félagi, hokinn af reynslu úr félagsmálum fyrir bæinn sinn, Siglufjörð, sem hann unni svo mikið. Hann gerði allt til að auka vöxt og viðgang bæjarins með störfum sínum bæði sem atvinnurekandi með stóran og fjölmennan vinnustað, svo og sem þátttakandi í hinum ýmsu félagasamtökum í Siglufirði. Jón var bæjarfulltrúi fyrir Alþýðuflokkinn í Siglufirði í átta ár eða frá árinu 1978 til 1986 og sat í ótal nefndum og ráðum á vegum flokksins og bæjarstjórnar. Öll verk sem honum voru falin leysti hann vel og samviskusamlega af hendi.

Lítil saga sem ég heyrði fyrir stuttu lýsir honum e.t.v. best en hún er um Jón þegar hann fór ungur maður á vertíð til Vestmannaeyja, eins og margir Siglfirðingar gerðu í þá daga. Faðir hans hafði gefið honum fyrir ferðina peninga fyrir sparifötum sem hann var mjög stoltur af.

Friðarsinninn Jón lenti hins vegar í því að ganga á milli manna í áflogum og reyna að stilla til friðar, eins og hans var von og vísa, en það vildi svo illa til að áflogamennirnir hrintu honum svo hann féll í götuna og skemmdi nýju fötin. Nú voru góð ráð dýr, nýju fötin skemmd og götótt. Jóni til láns í þessu óhappi var að siglfirsk kona var einnig á vertíðinni í Eyjum og tók hún fötin og gerði við þau þannig að ekkert sást á þeim eftir viðgerðina og Jón tók gleði sína á ný.

Mörgum, mörgum árum seinna þegar verið var að leggja hitaveitu í hús á Siglufirði kom það í hlut Jóns og verkstæðis hans að leggja hitaveituna inn í hús konunnar og tengja hitaveitugrindina, sem hann auðvitað gerði af sinni alkunnu snilld og heitt vatn fór að hita húsið.

Svo kom að því að hin siglfirska kona fór að gera upp tenginguna og vinnuna við hana hjá Jóni.

„Þú þarft ekkert að borga frú mín góð, þú átt þetta inni fyrir viðgerðina á fötunum mínum í Vestmannaeyjum forðum daga þegar við vorum þar á vertíð.“

Þessi litla saga lýsir Jóni mjög vel og sýn hans á lífið og tilveruna. Jafnaðarmaður og vinur vina sinna sem ekkert aumt mátti sjá í tilverunni.

Siglfirskir jafnaðarmenn þakka Jóni áratuga langa þjónustu við að gera góðan bæ enn betri.

Fyrir þeirra hönd, Ólafur H. Kárason, formaður.
------------------------------------------

Sunnan, sólin, vermir og yljar þessa dagana, vekur það sem áður svaf. Nú þegar dagurinn er lengstur, skapast hjá okkur, mannfólkinu, sérstök hugsun er lýtur að öllu umhverfi okkar og sjálfri náttúrunni. Þessu tímabili, er hásumar nálgast, hefur verið lýst á eftirfarandi hátt: „Við sjáum sólina lyftast yfir hafflötinn og fjallsbrúnina.

Að engu er farið óðslega. Á settri stundu er sólin komin á loft, dag eftir dag, alla daga. Milljarðar sindrandi geisla hennar dreifast um jörðina, lífið vaknar og allt fær næringu sem nærast þarf. Liljan smá, eikin há, mold og haf, málleysingjar og menn. Allt mettast óumræðilegri Guðs gjöf og frjómagnið byltist í óteljandi myndum á meðan sólargeislarnir streyma endalaust, hljóðlega og hávaðalaust niður að jörðu, sérhver eftir sínu lögmáli.“ Þessi náttúrulýsing kom upp í huga minn er ég frétti að heiðursmaðurinn Jón Dýrfjörð væri látinn.

Jón var mikill náttúruunnandi, naut þess að renna á Bronco-jeppanum sínum í Fljótin og nema staðar í Skriðunum, njóta þess að horfa á sólarlagið við Siglufjörð og upplifa það á þessum tíma þegar sólin sest ekki heldur rís aftur við sjóndeildarhringinn. Þennan mátt sköpunarverksins festi Jón oft á filmu, málaði sem málverk og sýndi á ljósmyndasýningum sem hann stóð fyrir. Á þeim tíma er ég gegndi embætti sóknarprests í Siglufjarðarprestakalli var sóknarnefndin, eins og ávallt, skipuð öðlingsfólki, miklum kirkjuvinum, sem voru ekki eingöngu vinir í orði heldur einnig í verki. Siglufjarðarkirkja, hin glæsilega kirkja, átti hug þeirra allra.

Þar á meðal var Jón Dýrfjörð. Auk þess að vera dugmikill í kirkjustarfinu tók Jón þátt í margháttuðum félagsmálastörfum. Hann sat í bæjarstjórn Siglufjarðar, hvar við áttum samleið um tíma. Ef til vill vorum við ekki alltaf sammála um alla hluti en efst á blaði hjá okkur sem og öðrum bæjarfulltrúum var að vinna Siglufirði heilt og byggja upp bæjarfélag þar sem væri til staðar blómlegt líf. Leiðir okkar Jóns lágu einnig saman í hinu göfuga mannræktarstarfi Frímúrarareglunnar á Íslandi og báðir vorum við virkir í starfi Lionsklúbbsins á Siglufirði. Upp í huga minn kemur m.a. vaskleg framganga Jóns þegar við Lionsmenn tókum að okkur að mála tvo af skuttogurum Siglfirðinga, Sigluvík og Stálvík, og ágóðinn rann til líknarmála.

Jón var einnig mjög virkur í starfi Slysavarnafélagsins á staðnum og í Björgunarsveitinni Strákar. Það er mikið lán fyrir byggðir þessa lands að eignast syni og dætur sem vilja fyrst og síðast byggja upp og móta fæðingarstað sinn. Jón var svo sannarlega einn þeirra. Tengsl okkar við Jón og Erlu og fjölskyldu þeirra urðu náin og sterk. Heimili þeirra í Hlíð stóð okkur fjölskyldunni ávallt opið og erum við afar þakklát fyrir umhyggju þeirra og vináttu. Það var ánægjulegt að hitta þau sl. haust þegar styttan af Gústa guðsmanni var vígð en Jóni og Gústa hafði verið vel til vina. Jón hafði iðulega dyttað að vélinni í báti Gústa, Sigurfara. Þeir tveir, Jón og Gústi, voru í engum vafa um sannleiksgildi orða séra Matthíasar Jochumssonar er segja: „Þegar lífi lýkur hér, rís það upp í Drottins dýrðar hendi.“

Elsku Erla! Við Elín og fjölskylda okkar vottum þér og fjölskyldu þinni innilega samúð okkar og biðjum ykkur öllum blessunar Guðs. Megi hin fagra og góða minning um Siglfirðinginn Jón Dýrfjörð lifa þótt ár og dagur líði.

Vigfús Þór Árnason.

------------------------------------

Hann Jón Dýrfjörð vinur okkar er dáinn. Með honum er merkur maður til moldar hniginn. Við fráfall vinar sest sorgin að í hjörtum okkar og við sjáum hve bilið er mjótt milli lífs og dauða.

Þegar ég kveð Jón vin minn er margs að minnast og margt að þakka. Hann var trölltryggur vinur vina sinna. Hann var eindreginn og stefnufastur í opinberum málum og dugmikill og áhugasamur félagi. Jón var hógvær og einstaklega gjafmildur, hann naut þess að gefa.

Minningarnar raðast upp og marka djúp spor. Jón var ræðinn, margfróður og skemmtilegur, og voru þau hjón höfðingjar heim að sækja. Til þeirra var gott að leita og öllum vildu þau liðsinna eftir bestu getu. Við áttum margar góðar stundir saman og ræddum ýmis málefni, kannski ekki alltaf sammála, en það gerði samband okkar bara skemmtilegra.

Jón var vel giftur, átti góð og mannvænleg börn sem stóðu öll með honum í hans erfiðu veikindum.

Við andlát hans er mér efst í huga þakklæti, vinátta og tryggð fyrir allt sem hann var mér og fjölskyldu minni.

Elsku Erla mín, þú stóðst eins og klettur við hlið mannsins þíns, ekki bara þessa síðustu og erfiðu daga, heldur alla tíð. Megi Guð vera með þér og börnunum ykkar og fjölskyldunni allri á þessum sorgartímum.

Elsku besti Jón, ég þakka þér samveruna og vona að þú hafir það gott þar sem þú ert núna.

Hafðu þökk fyrir allt og allt.

Minningarnar geymum við um góðan dreng.

Brynja Stefánsdóttir.

XXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXX

Friðrik Jón Kristjánsson Dýrfjörð

Friðrik Jón Kristjánsson Dýrfjörð fæddist á Siglufirði 16. mars 1931. Hann lést þar 14. júní 2019. 
Foreldrar hans voru Þorfinna Marsibil Sigfúsdóttir matráðskona, f. á Siglufirði 3. maí 1903, d. þar 4. febrúar 1990, og Kristján Markús Dýrfjörð Kristjánsson rafvirkjameistari, f. á Ísafirði 22. júní 1892, d. í Hafnarfirði 16. ágúst 1976. Albræður Jóns eru þrír: Bragi, f. 27. janúar 1929, d. 20. mars 2004, giftur Sigrúnu Svanhvíti Kristinsdóttur, látin 2004. Guðmundur Skarphéðinn, f. 1. nóvember 1933, d. 27. júní 1935. Birgir, f. 26. október 1935, giftur Kristínu Viggósdóttur, f. 1939. Hálfbróðir Jóns samfeðra var Hólm, f. 21. febrúar 1914, d. 19. ágúst 2015, kona hans Sigurrós Sigmundsdóttir, látin 1999. Hálfsystkini Jóns sammæðra voru Margrét Ólafsdóttir, f. 1. september 1921, d. 12. ágúst 2005, gift Jónasi Þ. Ásgeirssyni, látinn 1996 og Baldur Ólafsson, f. 13. mars 1925, d. 6. desember 1967, giftur Kristínu Rögnvaldsdóttur, látin 2010.
Eftirlifandi eiginkona Jóns er Anna Erla Eymundsdóttir, f. 17. október 1934 á Seyðisfirði. Foreldrar hennar voru Eymundur Ingvarsson, f. 31. maí 1883, d. 9. júní 1959, og Sigurborg Gunnarsdóttir, f. 9. apríl 1906, d. 22. nóvember 1983. Erla og Jón giftu sig 16. mars 1956.
Börn Jóns og Erlu eru fimm: 1) Sigfús, f. 2. ágúst 1952, giftur Önnu Maríu Guðmundsdóttur, dóttir þeirra Anna Kristín, gift Þorleifi Sigurþórssyni og eiga þau tvo drengi. 2) Sólveig Dýrfjörð, f. 4. júlí 1955, d. 2. ágúst 2013. 3) Helena, f. 20. júlí 1960, gift Birni Jónssyni. Börn þeirra: Erla, gift Gauta Þór Grétarssyni, eiga tvö börn, þá á Gauti tvær dætur. Jón Ingi, giftur Þórgunni Lilju Jóhannesdóttur, eiga þrjú börn. Rakel Ósk, sambýlismaður Gísli Sigurðsson. 4) Baldur, f. 5. ágúst 1962, giftur Bergþóru Þórhallsdóttur. Börn Baldurs með Ástu Hrönn Jónasdóttur; María Rut, gift Halldóri Haukssyni, eiga tvær dætur, Friðrik Bragi, sambýliskona Hildur Sigurðardóttir, eiga eina dóttur, Kristján Atli, sambýliskona Kristín Björg Emilsdóttir. Börn Bergþóru og fósturbörn Baldurs eru fjögur; Svala, sambýlismaður Páll Hreinn Pálsson, eiga tvær dætur, Gísli Steinar, Telma og Björk, sambýlismaður Magnús Heiðdal. 5) Þórgnýr, f. 16. desember 1967, giftur Aðalheiði Hreiðarsdóttur. Börn þeirra Styrmir, sambýliskona Alex Steinþórsdóttir, Bjarmi og Embla.
Eftir að foreldrar Jóns skildu ólst hann upp hjá móðurafa sínum og ömmu, Sigfúsi Ólafssyni, f. 24.8. 1882, d. 3.11. 1980, og Sólveigu Jóhannsdóttur, f. 29.1. 1880, d, 9.4. 1948.
Jón lærði iðn sína við Iðnskólann á Sauðárkróki en lauk síðar prófi frá Iðnskólanum á Siglufirði. Fór til Seyðisfjarðar 1951 og starfaði hjá Vélsmiðju Jóhanns Hanssonar í um þrjú ár. Árið 1955 flytja þau Erla til Siglufjarðar og Jón hefur störf á Rauðkuverkstæðinu. Árið 1957 hófu hann og Erla húsvarðarstarf við Gagnfræðaskólann á Siglufirði. Árið 1962 hóf Jón alfarið að vinna sjálfstætt í eigin rekstri, fyrst með Ragnari Sveinssyni en síðar með Erlingi Jónssyni. Á níunda áratugnum fór Erling út úr rekstrinum. JE Vélaverkstæði selja Jón og Erla þegar Jón er sjötugur til lykilstarfsmanna og nýir hluthafar komu inn í félagið. Tugir starfsmanna hafa starfað hjá vélaverkstæðinu og margir nemar tekið þar námstíma í iðn sinni.
Jón var mjög virkur í félagslífi Siglfirðinga. Var í forsvari fyrir skátafélagið Fylki. Sat í stjórn Æskulýðsheimilisins á Siglufirði og var fyrsti starfsmaður þess. Jón var virkur í starfi Skíðafélags Siglufjarðar, Skíðaborg, Slysavarnafélagsins, Lionsklúbbs Siglufjarðar, Frímúrarareglunnar og Rauðakrossdeildar Siglufjarðar. Þá var hann mörg ár í sóknarnefnd Siglufjarðarkirkju. Síðast en ekki síst voru Jón og Erla ötulir baráttumenn fyrir auknum réttindum fatlaðra og tóku virkan þátt í starfi Þroskahjálpar og gegndu þar ýmsum trúnaðarstörfum.
Jón var virkur þátttakandi í stjórnmálalífi Siglufjarðar og var bæjarfulltrúi Alþýðuflokksins frá árinu 1978 til 1986 og fulltrúi hans í ýmsum nefndum. Þá sat hann í stjórn Útvegsbanka Íslands hf. í rúm tvö ár frá 1987 til 1989.
Jón og Erla voru heiðruð af Sjómannadagsráði Siglufjarðar fyrir störf sín í þágu sjávarútvegs um áratugaskeið. Þá hefur Rauði kross Íslands einnig heiðrað þau fyrir störf sín í þágu samtakanna.
Útför Jóns fer fram frá Siglufjarðarkirkju í dag, 29. júní 2019, og hefst athöfnin klukkan 14.

Rík réttlætiskennd og náungakærleikur er það fyrsta sem kemur í hugann þegar hugsað er til pabba. Mótaður af kynslóðum tveggja alda. Alinn upp að stórum hluta til af afa sínum og ömmu sem fædd voru fyrir aldamótin nítjánhundruð og foreldrum sem voru virk í félagmálum og stjórnmálum í upphafi nýrrar aldar þar sem toguðust á bjartsýni um framtíð hins nýfrjálsa lands og brauðstritið þegar skiptust á skyn og skúrir í efnahag sveitarfélagsins og þjóðarinnar allrar.  Uppgangs- og átakatímar í verkalýðsbaráttu og kröfum um jafnræði borgaranna, sterkt öflugt félagslegt kerfi sem tryggði réttindi allra til heilbrigðisþjónustu og menntunar og annarra félagslegrar þjónustu. Jafnaðarmaðurinn í víðustu merkingu þess orðs var pabba þannig í blóð borinn og þar sló hjarta hans alla tíð.

Langömmu Sólveigar og langafa Fúsa í Hlíð minntist pabbi ávallt með sérstakri hlýju, virðingu og þakklæti.  Þau voru honum hugleikin alla ævi og síðar varð æskuheimili hans að fyrsta heimili fjölskyldu pabba og mömmu á Siglufirði þegar þau bjuggu fyrstu búskaparárin í kjallaranum í Hlíð og síðan aftur þegar langafi Fúsi var orðinn einn í Hlíð, eftir að Margrét systir pabba flutti til Reykjavíkur.  Þá fylltist húsið af lífi á ný þegar pabbi og mamma og við börnin fimm fluttum í Hlíð og þar bjó pabbi til æviloka. Sigfús afi bjó með okkur, í kjallaranum í Hlíð uns hann fór á Sjúkrahúsið á Siglufirði í hárri elli þar sem hann dvaldi til dauðadags 98 ára að aldri. Árin með afa í Hlíð voru einstök, þrjár kynslóðir saman og afi enn í vinnu kominn á níræðis aldur. Steig hvern morgunn út í gættina á kjallara dyrunum til að signa sig og taka veðrið.

Réttlætiskenndin og náungakærleikurinn einkenndu líf pabba jafnt í leik og starfi. Stundum var réttlætiskenndin svo rík að taka þurfti á honum stóra sínum að stilla skap sitt og gæta orða sinna. Langamma Sólveig kenndi honum að gæta orða sinna og stilla skap sitt, vera varkár í orðum, máttur þeirra er mikill. Langafi Sigfús að standa á sínu af rökfestu og ákveðni og Kristján afi að setja orðin á blað eða í vísukorn, þess vegna heilt pólitískt andsvar um áfengismál og vínsölu. Amma Þorfinna var fyrirmyndin í jafnréttismálum. Ung einstæð móðir tveggja ungra barna, hálfsystkina pabba, en svo kom afi Kristján, varð ástfangin upp fyrir haus af þessari myndalegu og stæðilegu konu og hún þáði ást hans og öryggi og sama áttu þau hugsjónir. Síðar kom í ljós að þau áttu ekki skap saman og leiðir skildu og aftur varð amma einstæð móðir. Þessi átök í lífi ömmu mótuðu æsku pabba og auðsætt að stundum hafði verið erfitt að skilja og átta sig á hvað gekk á í heimi hinna fullorðnu. Öll þessi reynsla mótaði pabba, en hann vann vel úr henni og miðlaði af reynslu sinni.

Minni samfélög einkennast oftast af nálægðinni milli fólksins sem þar býr. Þannig er Siglufjörður. Hjálpsemi þegar á bjátar, aðstoð í stóru og smáu. Þarna var karl faðir minn í essinu sínu og ekki vitum við um allt það, enda óþarft að stæra sig, en falleg og hlý orð, minningar ættingja og vina votta um. Náungakærleikurinn endurgoldinn og það hressir sálina í sorginni nú þegar hann er genginn.

Í minningunni var pabbi alltaf að „redda hinu og þessu“ ef ekki vinnutengt þá í félagsmálunum, nú eða leggja lykkju á leið sína til að bjarga vinum og kunningjum eða þess vegna bláókunnugu fólki.  Oft tók hann upp „puttalinga“ á ferð sinni um landið og tók stundum á sig allnokkurn krók til þess að koma þeim á sinn áfangastað. Um þetta eru til nokkrar bráðskemmtilegar sögur sem ekki verða raktar að sinni en pabbi brosti í kampinn og hafði gaman að.

Ævi pabba og mömmu hefur verið viðburðarík í meira lagi. Fjölskyldan, barátta fyrir réttinum fatlaðra og þar með Þroskahjálp, félagsmál í stóru og smáu. Skátarnir, Skíðafélagið, Slysavarnarfélagið, Lionsklúbburinn, Frímúrarnir, Rauði krossinn og ekki má gleyma sóknarnefndarstarfinu.

Í minningu æsku minnar var hún eitt allsherjar félagsmálavafstur, en allt svo eðlilegt einhvern veginn og við krakkarnir oft hluti af ævintýrinu. Brautargæsla við gönguskíðabraut á Hólsdalnum á Skíðalandsmóti eða á hliðarlínunni með björgunarsveitinni upp í Skarðsdal. Kakó, smurt og kökur og þessi búnaður allur maður minn, vélsleði, sjúkrakarfa og hvað eina. Enda þurfti að fara í „sklysavarnaleik“ heima á Hlíðarveginum með vinunum þegar heim var komið. Landsmót Skáta við Hreðavatn er þarna í minningunni og seinna þátttaka mín í Skátunum með Hönnu Stellu og þá kom gamla dótið hans pabba og Fúsa bróður í góðar þarfir og nema hvað, hann hjálpaði mér náttúrulega að smíða minn eigin skátakistill fyrir Landsmótið 1977 við Úlfljótsvatn. Við krakkarnir fengum líka að koma sem gestir á Lionsfundi og að sjálfsögðu á jólaböllin. Seinni árin tók svo við starfið í Frímúrarareglunni og hjá Rauða krossinum.  Alltaf boðinn og búinn í sjálfboðaliðastarf og uppbyggingu. Var virkur þátttakandi í móttöku flóttamanna og tók sæti í viðbragðsteymi Rauðakrossins á sjötugsaldri. 

Trúin var pabba mikils virði og í hana leitaði hann oft til leiðsagnar og í hugarró. Tilvísanir í Biblíuna voru honum töm og þar átti hann sín uppáhalds vers. Það kom því ekki á óvart að hann legði kirkjunni lið sitt í stóru og smáu og þar sat hann í sóknarnefnd árum saman og það gerði mamma líka.

Alinn upp undir merki jafnaðarmanna var þátttaka í stjórnmálum einhvern veginn eðlilegt skref, hugsjónin var skýr. Hann var kosinn í bæjarstjórn fyrir Alþýðuflokkinn 1978 og 1982 og síðara tímabilið sem oddviti flokksins. Þá var hann fulltrúi í ýmsum nefndum bæjarins. Hann talaði máli Siglufjarðar af ákveðni og festu á vettvangi landsmálanna og ötull að minna á hverju Siglufjörður skilaði til þjóðarbúsins á síldarárunum og lengi síðan. Skrifaði m.a. um þetta hugvekju þegar átök vorum um hvort Héðinsfjarðargöng fengju framgang eða ekki.

Jón Sigurðsson ráðherra Alþýðuflokksins óskaði eftir því að hann tæki sæti í stjórn Útvegsbanka Íslands hf. við stofnun hans og var hann kosinn í stjórn árið 1987 og aftur árið 1988, sat þar í rúm tvö ár.

Hlutur pabba og mömmu í atvinnusögu Siglufjarðar er mikill og ánægjulegt að fyrirtækið sem hann lagði grunninn að í kringum 1960 skuli enn vera í blómlegum og öruggum rekstri. Þeir sem þekkja skin og skúrir í sögu Siglufjarðar vita að ekki var sjálfsagt að vélaverkstæðið lifði af þær sveiflur. Þá ber einnig að minnast þess að þótt mörg verkefni væru unnin fyrir fyrirtæki og útgerðir á heimavelli, þá voru þau ekki síður grunnur að öflugum rekstri og atvinnu fjölmargra iðnaðarmanna verkin sem pabbi sótti langt út fyrir bæinn. Þar skilaði sér og spurðist út, að strax var brugðist við, vandað til verka og verðlagningin hófleg og sanngjörn. Sérfræðingar tryggingafélaga áttuðu sig á þessu og mörg verk fékk pabbi í gegnum góð kynni þessara aðila af vandvirkni og sanngirni pabba og hans starfsmanna. Þetta smitaði síðan út til útgerða um allt land og mörg stórverkefni skiluðu sér í höfn á Siglufirði í orðsins fyllstu merkingu.

Pabbi sagði mér fá því hversu erfitt var á þessum árum að klára iðnnámið, þar sem allir bekkirnir voru ekki kenndir í einni beit heldur safnað saman á síðari ár og ekki auðvelt að fá námssamning og eða komast í röðina eftir námssamningi. Pabbi dó ekki ráðalaus í þessu og aflaði sér vottorða frá vinnuveitendum sínum um starfstíma og verkefni og sótti síðan um og fékk leyfi til þess að fara beint í sveinsprófið þó hann hefði ekki fengið formlegan námssamning.  Þarna var hann eins og oft fyrr og síðar á undan sinni samtíð, því í dag heitir þetta raunfærnimat.

Atvinnusaga pabba minnir líka á hversu mjög atvinnan var árstíðarbundin. Uppgrip að vori og fram á haust en síðan ládeyða yfir veturinn. Síldin kom og hún fór og fór svo alveg. Verkefna var leitað um allt Norðurland m.a. í Mývatnssveitina. Unnið var fyrir bændur og greitt eftir „dúk og disk“ eða í matvælum. Allstaðar vandræði og allt gert til að bjarga sér. En það rofaði til og nýsköpunartogararnir komu og loðnan kom. Þrautseigja pabba og mömmu er engu lík í þessu sem öðru og áfram gekk reksturinn.

Pabbi var náttúrubarn og naut ferðalaga um byggðir og óbyggðir Íslands með myndavélina á lofti. Skátafélagar hans minnast með gleði og hlýju áranna þegar hann leiddi Skátafélagið Fylki og þar með skátaútilegur og gönguferðir um fjöll og dali í Siglufirði og nágrenni. Ég fékk nafnið Héðinsfjarðardrengurinn þar sem pabbi var í skátaútilegu þar þegar ég fæddist. Og við krakkarnir fengum líka að njóta útivistar og gönguferða og síðar barnabörnin einnig. Hann sá fegurðina í náttúrunni í ólíku ljósi og frá öllum hliðum, bæði það stórbrotna en einnig það smáa. Kenndi okkur að þekkja fuglana og herma hljóð þeirra, bergtegundir og blómin. Að hlaupa um fjöll og dali hvort sem var á fæti eða gönguskíðum á vetrum eða snemma vors varð okkur eðlislægt og sjálfsagt. Veiðiferð á Hraunamölina eða í Miklavatni og nesti með. Komið við í Kaupfélaginu í Haganesvík, Prins og Sinalco. Tjaldútilegur um allt land og tjaldað á óvæntum stöðum og gamli Landróverinn fór ótroðnar slóðir. Svo kom pabbi óhikað út til okkar krakkanna í götunni og kenndi okkur og startaði leikjum á Bretatúninu. Stuttu útivistarferðirnar voru líka mikils virði eins og þegar hann fór með okkur á stjörnubjörtu vetrarkvöldi inn á Almenninga þar sem engin rafljós trufluðu, gengið var í átt að sjónum. Örlítill ölduniður og stjörnuskarinn ljómaði á himninum þegar við lögðumst í snjóinn og horfðum til himins. Hann kenndi okkur stjörnumerkin og við horfðum á stjörnuhrap. Svo minnti hann okkur á að við værum órjúfanlegur hluti náttúrunnar og ættum að sýna henni virðingu. „Munið börnin góð að þið eruð eins og sandkorn í óendanleika himingeimsins.“ Svona var hann pabbi.

Einhver orðaði það þannig að til væri barnalán og til væri foreldarlán og þess höfum við systkinin svo sannarlega notið í stóru og smáu alla okkar ævi. Sólveig systir okkar var þar engin undantekning. Fæddist daufblind og heyrnarlaus en samt þessi mikli snillingur sem kenndi okkur svo ótrúlega margt. Rauðir hundar voru orsökin og börnin oft kennd við það, rauðuhundabörn. Þessu verkefni sem öðrum tóku foreldrar okkar af yfirvegun og þrautseigju og eins og þeirra var von og vísa varð baráttan fyrir Sólveigu systur barátta fyrir réttindum fatlaðra á landsvísu með mikilli þátttöku í starfi Þroskahjálpar um áratuga skeið.

Um nónbil föstudaginn 14. júní kvaddi pabbi þessa jarðvist og er nú kominn í nýja vist með Guði sínum. Í raun friðsæl og falleg stund í ljós þess hvernig komið var hjá honum pabba gamla og táknrænt að mamma sat á sömu stundu með yngsta barnabarnabarnið, Freyju litlu í fanginu og fór með kvæði. Stuttri og snarpri baráttu við ólæknandi krabbamein var lokið. Veikindunum tók hann af einstöku æðruleysi eins og hans var von og vísa. Nokkuð er víst að hann tók líka ákvörðun um að stýra þessum síðustu metrum eins og hann átti kost á með því að hætta að nærast og sættast þannig við að stundin væri komin. Engu að síður hafði hann líka á orði að hann hefði nú átt eftir að klára nokkra hluti, sem minnir á atorkusemi hans alla tíð. En pabbi var hvíldinni feginn það er ég viss um.

Pabbi var lánsamur þegar hann hitti ástina í lífi sínu. Hann lýsti þeirri stundu svo að hann hafi verið á leiðinni heim til Siglufjarðar frá Vestmannaeyjum af vertíð en ákveðið að heimsækja móður sína sem þá var ráðskona við Sjúkrahúsið á Seyðisfirði og stoppa í nokkra daga milli ferða strandferðaskipsins. Þegar hann var í heimsókn hjá ömmu hafi mamma komið gangandi niður stigann milli hæða á Sjúkrahúsinu. Pabbi leit upp og sá að þarna var stúlkan hans. Ást við fyrstu sýn. Árin þeirra urðu þrjú á Seyðisfirði og sextíu og fimm á Siglufirði. Í mótbyr og meðbyr hafa þau siglt sínu fleyi farsællega í einlægri ást og gagnkvæmri virðingu. Kærleikur þeirra í garð okkar barnanna, tengdabarna og síðan barnabarna og barnabarnabarna er einstakur. Skilyrðislaus ást og kærleikur einkenndi pabba og streymdu frá hlýju faðmlagi. Einlægnin skein úr augum hans. Það er ómetanleg minning okkur öllum sem kveðjum hann í dag.

Hvíldu í Guðs friði elsku pabbi – minning þín lifir.


Þinn Baldur.